Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jón Torfi Jónasson

 

Stöndum við á krossgötum í menntamálum? Sennilega, og líklegast er að við gerum það framvegis. Heimurinn breytist og mennirnir með og hugmyndir okkar um hvað skipti máli og að hverju þurfi að hyggja taka sífelldum breytingum. En sumt breytist hægt og innan skólakerfisins verða breytingar sennilega hægari en æskilegast væri. Oft ættum við að hugsa hlutina alveg upp á nýtt en stundum er einnig gott að rifja upp gamlar góðar hugmyndir.

Fyrir þrjátíu og fimm árum var ég beðinn um að horfa fram á veg og spá fyrir um þróun í skólamálum næstu 25 árin, þ.e. fyrir árin 1985̅–2010. Mér fannst þetta spennandi, en jafnframt næstum óviðráðanlegt, vegna þess hve margt myndi breytast á svo löngum tíma. Það var m.a. gert ráð fyrir að ég myndi útlista hvernig tölvur tækju smám saman yfir mikilvæga þætti skólastarfsins. Ég hafði þegar hér var komið sögu kynnt mér sérstaklega hvernig þær gætu nýst í námi og kennslu. Eftir að hafa ígrundað málið vel, sökkt mér ofan í skólasöguna og horft til margra þátta skólastarfs (öll skólastigin voru undir) og sett mig enn betur inn í tæknivæðingu menntunar, komst ég að þeirri óvæntu niðurstöðu að fátt myndi breytast á þessum tíma. Auðvitað myndi flest þokast til betri vegar, sem það svo sannarlega gerði, en engin vatnaskil yrðu. Ég gerði ekki ráð fyrir að tölvur yrðu mikið breytingaafl en þær hafa haft ennþá minni áhrif en ég gerði ráð fyrir. Netið, eins og við þekkjum það, var ekki komið til sögunnar, hvað þá samfélagsmiðlarnir sem hafa þó haft meiri áhrif en hvers kyns forrit. Þegar tímabilið sem ég fjallaði um var yfirstaðið velti ég því fyrir mér að skrifa aðra spá, t.d. fyrir árin 2015–2040, og ígrunda mögulegar breytingar á þeim 25 árum. En ég gerði það ekki því mig langaði heldur til að velta því fyrir mér hvernig ýta mætti undir æskilegar eða áhugaverðar breytingar. Huga að því hvað það væri sem tefði og hvað gæti ýtt undir líflega og farsæla framþróun. Þar var við að glíma ýmsar spurningar og áskoranir en tvær voru áleitnastar. Önnur fólst í því að skilja hvers vegna margt breytist óþarflega hægt í menntamálum (sumt tel ég líka að megi breytast hægt). Hin fólst í því að ígrunda hvað það sé í menntakerfinu sem hvetur til æskilegra breytinga. Það má segja að þetta séu tvær hliðar á sama peningi, en hér sný ég mér að annarri hliðinni, þ.e. að hverju ætti að hyggja til að rækta eðlilegt og nauðsynlegt þróunarstarf.

Kjarni málsins er sú sannfæring mín að fátt muni breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum, þ.e. felist í ásetningi þeirra, vitneskju og kunnáttu til að þróa menntunina þannig að þeir geti sinnt því flókna og margslungna uppeldis- og menningarhlutverki sem þeir eiga í raun að gegna. Þessi skoðun er í fullu samræmi bæði við gamlar og nýjar hugmyndir um mikilvægi fagstétta og starfsþróun og sést líka vel í aragrúa nýrra hugmynda sem stöðugt kvikna á vettvangi en ná sjaldan því flugi sem þær ættu skilið. Þetta krefst þess annars vegar að kennarar verða stöðugt að árétta sjálfir – og þeir allir – skilning sinn á margslungnu hlutverki sínu og að hann birtist í öllu starfi þeirra. Það krefst jafnframt stöðugrar endurnýjunar á vitneskju og kunnáttu til þess að takast á við ný verkefni. Þetta krefst þess líka að stjórnvöld og stjórnendur skilji hve takmarkað áhrifavald þeirra er til að koma á breytingum ef ásetningur þeirra er ekki samofinn hugmyndum þeirra sem sjá um menntunina frá degi til dags.

Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, verða jafnframt að skilja hve mikilvægt og nauðsynlegt hlutverk þau hafa til þess að tryggja þá innviði og hvatningu sem skapa nauðsynlegan bakhjarl þróunar í menntun. Þessi tvö stjórnsýslustig bera saman ábyrgð sem regluverk samfélagsins felur þeim og þau búa ábyggilega yfir einlægum metnaði til að tryggja góða menntun öllum til handa. En eðli verkefnisins er af því tagi að geta þeirra til að tryggja breytingar er sennilega miklu minni en þau telja sig hafa. Í þessari stöðu mála felast atriði sem þarf að ræða og ég nefni hér þrjú mikilvæg atriði sem krefjast ígrundunar. Ætíð þegar ég vísa til kennarastéttarinnar á ég við þær uppeldisstéttir sem tengjast skólum og tengdum stofnunum og vinna hið daglega starf með börnum og ungu fólki.

Hlutverk og ábyrgð kennara

Ekkert af því sem ég ræði hér á eftir, mun ganga eftir nema fagfólkið sem sér um menntunina sinni henni af fagmennsku. Draumar eða ásetningur stjórnvalda duga þar skammt. Og fagmennskan mun ekki þróast og endurnýjast nema að fagfólkið sé sannfært um gildi nýrra hugmynda, skilji um hvað þær snúast, taki þær upp á sína arma og kunni til allra verka, jafnt nýrra sem eldri. Það eru kennararnir, þeir sem annast hið daglega menntunarstarf, sem útfæra alla þá þróun sem ætti að eiga sér stað. Ekki aðeins núna, eða á næstu árum, heldur til allrar framtíðar. Þeir verða að axla á henni verulega ábyrgð, taka visst frumkvæði og hafa til þessa umboð (t.d. með opinni námskrá). Þeir verða að búa yfir þekkingu til að leiða skólastarfið inn á nýjar brautir, ekki síst með því að fást við nýtt efni, ný viðfangsefni, nýjar áherslur, nýjar áskoranir. Þegar þeir sækja um kennarastarfið takast þeir allt þetta á hendur. Það dugar ekki að setja stefnu, skapa fjarlæga – eða nálæga – leiðtoga án þess að fagfólkið á vettvangi sé líka við stjórnvölinn. Þannig virkar menntastofnun ekki þegar til lengri tíma er litið. En hún virkar ekki heldur þegar sumir vilja fara sína sérstöku leið, ef ekki næst viss samstaða. Kennarar bera mikla ábyrgð á endurnýjun þekkingar sinnar og starfs sem bæði þeir og vinnuveitandi verða að vera sér meðvitaðir um og hafa náið samráð um. En ég fæ ekki betur séð en þeir verði að leggja verulega orku til samvinnu við samstarfsfólk sitt, bæði í stóru og smáu. Eðli menntunar gerir kröfur um að kennurum sé treyst og þeir axla mikla ábyrgð á því að vera traustsins verðir. Það er ekki einfalt mál.

Þetta kallar á að kennurum og skólum sé ljóst umboð sitt til breytinga skv. lögum og námskrá og axli jafnframt á þeim vissa ábyrgð, því auðvitað standa þeir að þeirri framþróun sem nær fram að ganga. Bæði andi laganna frá 2008 og núgildandi námskrá býður upp á mikið svigrúm til þess að þróa ólíkar áherslur og leiðir, en ég er ekki sannfærður um að fagfólk innan skólakerfisins átti sig á því frelsi sem þeim er veitt. Áherslurnar geta líka verið mjög ólíkar eftir því að hvaða skólastigi sjónum er beint. Þótt oft sé réttilega hamrað á tengslum skólastiga verður fólk jafnframt að átta sig á sjálfstæði þeirra og mjög ólíkum hlutverkum. Miklu skiptir í þessu efni að hvert skólastig hefur mikilvægt hlutverk sem er alls ekki ákvarðað af næsta stigi á eftir. Það á við um öll skólastigin og þetta sést best með því að lesa markmiðsgreinar laga hvers þeirra. Það er auðvitað einkum fagfólk skólakerfisins, kennarar og skólastjórnendur, sem verða að ræða þennan þátt og hafa hugfast ábyrgð sína samkvæmt markmiðsgreinum einstakra skólastiga og það sjálfstæði sem lögin frá 2008 gefa. Ég tel að þessir textar hafi ekki það vægi í skólaumræðu sem þeim ber og skil eiginlega ekki hve auðvelt fólk á með að leiða þá hjá sér – og þó, þeir eru býsna kröfuharðir.

Hér hef ég talið að kennarar væru í miðdepli skólastarfs og þróunar þess. Það ræðst af eðli starfs þeirra. En ég verð að hafa á þessu mikilvægan fyrirvara. Auðvitað eru það nemendurnir sem málið snýst um. Þeir sem fjalla um skólamál eru smám saman að átta sig á mikilvægi þess að hafa þá með í ráðum um áherslur og verklag og taka mark á þeim. Þetta er sumpart byggt á siðferðilegum rökum og rökum sem snúast um uppeldi til lýðræðis og ábyrgðar, en ekki síst á hreinum praktískum rökum. Nemendur eru auðvitað beinir aðilar að öllu starfinu, þeir hafa skoðanir sem skipta máli, geta tekið ábyrgð og bent á ýmislegt sem er áhugavert og mikilvægt eða mætti betur fara. Ekki síst hafa þeir iðulega ábyrgðarfullar, nýstárlegar, spennandi og gagnlegar hugmyndir um nýjar áherslur, þótt það sé ekki alltaf svo. En þetta kemur ekki í ljós nema að við þá sé rætt með þeim ásetningi að taka hugmyndir þeirra alvarlega.

Eðli og hlutverk menntunar

Þetta er að mínu mati kjarni málsins en er jaðarsett í allri umræðu um menntun. Það er þröngsýnt að láta sem eðli og hlutverk menntunar þurfi ekki umræðu því það þarf meiri umræðu en flest annað. Það er auðvelt að tína til ógrynni viðfangsefna varðandi velferð nemenda, tækni, menningu og umhverfi sem breytast hratt – en hvað kemur það allt saman menntun við? Hvernig á skólakerfið að bregðast við? Það er eins og það sé sjaldnast rætt, eins brýnt og það þó er. Það verður heldur ekki gert nema með því að snúa sér beint að efninu, ræða hvert sé eðli og hlutverk menntunar, ekki síst skólastarfs? Ég sakna þessa þegar ég tek mið af eldri umræðu; ég tel að á fyrri tíð hafi fólk verið duglegra að glíma við þessi viðfangsefni. Og þegar sjónum er beint að þessu vakna ótal spurningar. Hvað kemur skólakerfinu við geðheilsa eða félagslegt umrót ungs fólks? (Ég set þá spurningu fyrst vegna þess hve mikilvæg ég tel þessi mál og loksins virðast þau sett á dagskrá). Að hvaða marki er það hlutverk skólakerfisins að rækta ólíka mannkosti og hverjir kunna þeir að vera og hvernig skyldi þá staðið að því? Að hvaða marki og hvernig á skólinn að takast á við að efla lýðræði eða þjóðmenningu eða glíma við ólíkar þjóðernishugmyndir og rækta jafnframt farsælt margmenningarsamfélag? Þarf skólakerfið að láta sig netvæðingu eða samfélagsmiðla – og flókin samskiptamynstur þar – einhverju varða? Hvert er hlutverk skólakerfisins í viðbrögðum við fjölþættum umhverfisbreytingum, a.m.k. út þessa öld? Hve miklu skiptir að rækta tengslin við náttúruna og hvernig er það best gert? Fyrir mitt leyti er ég sannfærður um að menntun eigi að umtalsverðu leyti að snúast um allt það sem ég hef nefnt. Fyrir rúmum þrjátíu árum hélt ég að loks væri komið að því að listgreinar fengju aukinn hljómgrunn innan skólakerfisins – en var ekki viss um að staða þeirra myndi styrkjast. Ég velti þessu enn fyrir mér. Ný þekkingarsvið skjóta upp kollinum og önnur taka miklum breytingum og kalla á að grannt sé fylgst með (t.d. erfðafræði, siðfræði og gervigreind) og fjórða iðnbyltingin og þær næstu á eftir, kunna að fléttast inn í skólastarf á marga vegu. Hvernig á að fást við ný efnissvið og forgangsraða miðað við hefðbundin áhersluatriði skólastarfsins sem voru að verulegu leyti mótuð í byrjun 20. aldar (eða fyrr)? Það hafa verið og verða endalausar breytingar hvert sem litið er og breytingahraðinn eykst stöðugt. Viðbrögð við öllu þessu ráðast annars vegar af því hve vel við skiljum það sem er að gerast í umhverfi okkar, nær og fjær, en ekki síður af því um hvað við teljum að menntun snúist. Að því marki sem atvinnulífið kemur við sögu þá tengist það beinlínis aðeins tiltölulega litlum hluta skólastarfs, þótt skólastarfið snúist að verulegu leyti um undirbúning fyrir framtíðina – en kannski ekki síður glímuna við nútíðina. En ekkert af því sem ég hef drepið á verður til umræðu innan skólakerfisins ef þeir sem þar um véla þekkja ekki til allra þeirra strauma sem leika um þekkingar- og menningarheim okkar. Kannski ekki hver og einn til allra hluta en sem sterk fagleg heild, innan einstakra skóla, sveitarfélaga eða samtaka.

Það er brýnt að setja hlutverk menntunar og skólastarfs í brennidepil menntaumræðunnar í öllu umrótinu utan skólans. Það verður því að vera miklu opinskárri og skýrari umræða um hlutverk menntunar – um hlutverk skólans. Kannski helst á meðal kennara, því ef þeir eru ekki með á nótunum hefur umræðan ekki áhrif á þeirra vettvangi. Það er ekki síst innan menntakerfisins þar sem verður að takast á um að hvaða marki ný þekking og menning og breyttar aðstæður kalla á viðbrögð. Jafnframt verður að ræða opinskátt um nauðsynleg ruðningsáhrif nýrra hugmynda og þann vanda sem það skapar. Ef brýn, ný viðfangsefni fá hljómgrunn ryðja þau nánast örugglega út eldri, góðum og gildum, viðfangsefnum. Þau krefjast þess jafnframt að til sé fólk sem getur sinnt þeim af virkri fagmennsku. Þetta er ekki einfalt mál og er viðkvæmt en samt ekki eins snúið og það gæti virst í fljótu bragði. Sérstaklega vegna þess að það þurfa ekki allir að fara sömu leið. Ekki þarf að gera ráð fyrir að endanleg samstaða náist, heldur að umræðan eigi sér sífellt stað og farnar séu ýmsar leiðir. Eðli og hlutverk menntunar fær að mínu mati of lítið vægi í umræðu um þróun menntunar og skólastarfs. En þróunarstarf í skólunum verður að eiga sér styðjandi bakhjarla, mikilvæga innviði menntakerfisins, sem stuðla að þróun í skólunum.

Innviðir breytingastarfs

Undanfarin ár hafa stjórnvöld undirstrikað frelsi og ábyrgð skólanna og fagfólks á því að móta starf sitt. En það kallar jafnframt á að þau viðurkenni í verki að þau eigi mun umfangsmeira hlutverki að gegna í þessu efni en þau hafa viðurkennt undanfarna áratugi, þ.e. byggja upp innviði sem laða fram og styðja fjölþættar breytingar að frumkvæði fagstéttanna. Vitaskuld skiptir grunnmenntun kennara, eins og allra fagstétta, máli og áframhaldandi þróun hefðbundinna verkefna og krafa um eftirlit með skólastarfinu er bundin í lög. En þetta dugar ekki til þess að tryggja virka þróun af því tagi sem hér er kallað eftir. Grunnmenntun leggur ábyggilega góðan grunn, þótt þar sárvanti miklu betri umræðu um eðli og tilgang menntunar og raunar fleiri mikilvæga þætti skólastarfs. En, ef vel lætur, taka við 30-40 ár í starfi sem ættu að auka skilning á viðfangsefninu og það sem gerist í heiminum utan skólans á þessum áratugum krefst örugglega sífelldra og jafnvel mikilla breytinga af ýmsum ástæðum. Þau verkfæri eða innviðir sem eiga að styðja við þá þróun skipta máli og kosta líka talsvert fé, en auðvitað er spurning hvernig eigi að ráðstafa eða skipta niður þeim fjármunum sem varið er til kerfisins í heild. Fyrstu þrjú skólastigin kostuðu ríflega 165 milljarða árið 2019. Það er síðan áleitin spurning hvað sé eðlilegt að þróun skólakerfisins megi kosta miðað við kostnaðinn við daglegan rekstur þess.

Bakhjarlar þróunarstarfs eru einkum þrír. Fyrst er það regluverk sem kallar eftir og gefur umboð til frumkvæðis og breytinga. Þetta er þegar til og er góður grundvöllur fyrir þróun í skólastarfi. Í þessu efni duga einmitt vel lagaramminn frá 2008 og Aðalnámskrá sem fylgdi 2011 og var að hluta til sameiginleg fyrir þrjú skólastig. Það verður líka að vera til staðar kerfi til starfsþróunar sem býr til farveg fyrir þróun starfsins á vettvangi, t.d. með sprotasjóðum eða ámóta sjóðum einstakra sveitarfélaga og tími fyrir allar fagstéttir að sinna þessu verkefni. Sjóðirnir verða að vera nægilega öflugir til að tryggja líf ólíkra þróunarverkefna þannig að þau fái raunhæft tækifæri til þess að sanna tilverurétt sinn. En þetta verður að móta, sbr. það sem Reykjavíkurborg hefur bryddað upp á í þróunarverkefni sínu, Látum draumana rætast, og uppfyllir að mörgu leyti þau skilyrði sem ég er sannfærður um að þurfi að vera fyrir hendi. Sú leið felur í sér samráð um meginlínur, stuðningskerfi sem er nauðsynlegt og tryggir jafnframt að verulegur hluti frumkvæðis og fjármuna liggi hjá þeim sem taka ábyrgð á þróunarstarfinu sjálfu. Eftir því sem fram vindur sýnist mér þetta hafa tekist vel. Stuðningur ráðuneytis við tiltekin þróunarverkefni sem tengjast stefnu þess sjálfs er góðra gjalda verður en hefur upp á síðkastið ekki verið af því tagi sem hér er kallað eftir, þótt góður stuðningur ráðuneytisins við þróun upplýsingatækni í skólum um og upp úr síðustu aldamótum hafi líklega verið þeirrar ættar. Í innviðum verður líka að vera farvegur til miðlunar upplýsinga, fræðslu til þeirra sem eru í starfi um þá þróun sem á sér stað á nær öllum sviðum sem tengjast menntun. Svo sem um efni sem tengist félagslegri stöðu nemenda, geðheilbrigði, menningarbreytingum, tækniþróun, umhverfisumbyltingum og ótal mörgu fleiru, m.a. því sem nefnt var hér fyrr. Vandinn er auðvitað sá að þeim sem ekki fylgjast vel með og hafa úrelt og þröngt sjónarhorn finnst lítið tilefni til breytinga. Í þessu efni tel ég háskólakerfið mjög vannýtta auðlind.

Jarðvegur fyrir þróun fæst með því að tryggja leiðbeinandi regluverk sem gerir ráð fyrir frumkvæði og frelsi til útfærslu og með því að móta öflugt og styðjandi starfsþróunarkerfi, sem m.a. tryggir kerfisbundið fræðandi umhverfi. Fyrir bragðið fá ólíkar, frjóar, nýjar hugmyndir (og margar þeirra góðar) brautargengi þar sem engin ein leið er best eða réttust. Þannig verða að vera til staðar innviðir sem eru beinlínis hugsaðir til að tryggja að sífelld, fjölbreytt og metnaðarfull þróun eigi sér stað. Regluverkið mótar meginlínurnar og gefur jafnframt svigrúm til ólíkra útfærslna og stuðningskerfið tryggir bakhjarla þróunar og endurnýjunar, þar sem þróunarstarf á sér tvær meginhliðar: Nýja þekkingu og þróun starfshátta. Það fyrra á sér allt eins stað utan daglegs skólastarfs, það síðarnefnda verður að vera hluti af starfinu. Hvort tveggja verður að rækta. Megin hlutverk stjórnvalda og stjórnenda er að tryggja frumkvæði, rödd og burði fagfólksins, en ekki að stýra því, svo freistandi sem það kann að vera. Það ætti að vera öllum ljóst að stöðug þróun menntunar kallar á menningu sem styður breytingar og kerfi sem laðar þær fram. En ekki síst krefst nauðsyn á þróun starfsins viðurkenningar á því að ábyrgð á mikilvægum breytingum liggi hjá þeim sem framkvæmir verkið. – Þær verða ekki eins og hendi sé veifað né fást með fyrirmælum og hvorki fé eða frelsi án stuðnings dugar til.

Innan hefðbundins skólastarfs hafa alltaf verið spennandi hugmyndir og verkefni. Sumt hefur lifað lengi en flest fremur stutt. Frumkvæðið og gróskuna má ekki vanmeta né heldur hve mikið af þróun uppeldis- og skólakerfisins fer fram utan hins afmarkaða skólakerfis, en það er efni í aðra hugleiðingu. Langsamlega lífseigustu verkefnin eru þau sem mótuð hafa verið utan við hefðbundinn farveg skólans svo sem tónlistarskólar og frístunda- og félagsmiðstöðvar, en saga menntakerfisins bendir á margt fleira. Þessa framvindu má annars vegar rekja til hugmyndaauðgi og harðfylgi fagfólks sem kemur úr ólíkum áttum en jafnframt til stuðnings foreldra og síðan stjórnvalda.

Lokaorð

Það er aðeins einn hópur, eðli málsins samkvæmt, sem hefur aðstöðu til að tryggja sífellda þróun menntunar innan skólakerfisins. Það er fagfólkið sem vinnur á vettvangi og hefur fengið til þess formlegt umboð. Það verður að tryggja að allir innviðir kerfisins geri þeim kleift að axla þá ábyrgð sem í þessu felst og njóta þess trausts sem verkefnið þarfnast. Ég hef stundum sagt að ég treysti kennurum ekki fyllilega til þess að gegna þessu hlutverki og móta það þannig að öllum kröfum sé fullnægt en treysti þeim þó miklu betur til þess en nokkrum öðrum. Þegar þeir ná að vinna saman í virkum teymum geta þeir náð miklum árangri. Það eru einmitt teymi jafningja, innan skóla eða á milli skóla eða stofnana, fámenn eða fjölmenn, ýmist með einsleitum þátttakendum eða þátttakendum úr ólíkum áttum, sem ég álít áhugaverðustu sprota í virku þróunarstarfi. Slík teymi hafa iðulega verið mynduð að frumkvæði einstakra kennara, áhugafólks um tiltekin málefni eða að frumkvæði skóla og fer best á því að svo verði áfram. Jafnframt ber að hafa hugfast að frumkvæði og forysta einstaklinga er oft mikilvæg en hún má ekki draga úr þátttöku annarra. Hún verður þvert á móti að laða fram virkni allra.

Afstaða mín í þessum hugleiðingum byggist á eftirfarandi fimm þáttum sem eru samofnir. Kennarar og annað fagfólk á verksviði uppeldis- og menntunar hafa skuldbundið sig til faglegrar, frjórrar vinnu með því að sækjast eftir uppeldisstarfinu og hafa þar með axlað mikla ábyrgð. Þeir hafa fengið faglegan undirbúning sem er þeim mikilsvert veganesti. Nánd þeirra við verkefnið gefur þeim verðmætan skilning á því hvernig best sé að sinna því hverju sinni. Rannsóknir á starfsþróun og breytingastarfi í marga áratugi renna einnig sterkum stoðum undir þetta traust til kennara. Þótt það geti varla vegið þungt nefni ég sem fimmta atriðið að áratugalangt samstarf mitt við kennara og skólastjórnendur hefur sannfært mig um að á vettvangi skólans felist gríðarlegur kraftur og áhugi og hugkvæmni sem tilefni er til að virkja í mun ríkari mæli en gert er.
Þær áskoranir sem gott menntakerfi þarf að takast á við eru vel viðráðanlegar en aðalatriðið er að gaumgæfa hvernig það getur hreyfst innan frá.

Í stað þess að skrifa ritgerð sem spáir fyrir um breytingar á skólastarfi næstu áratugina, sem ég hafði hugleitt að gera, ákvað ég þess í stað að tilgreina þá þætti sem verða að vera til staðar í kerfinu til þess að stuðla að og laða fram lifandi þróun þess. Án þessara þátta og starfsfólksins sem ræður við verkefnið verður hún ekki.

Jón Torfi á fræðslufundi um símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda í nóvember 2014. Smellið á myndina til að hlusta á erindið.

Jón Torfi Jónasson er prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á fjölmörgum þáttum menntunar og skólastarfs. Sjá nánar hér.


Grein birt: 17/12/2020

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp