Hólmfríður Helga Sigurðardóttir Th., Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Guðrún Helga Sigfúsdóttir og Ragnar Jón Ragnarsson
Skólaumhverfið iðar af lífi og tekur sífelldum og hröðum breytingum. Tæknibylting, heimsfaraldur og samkomutakmarkanir, góðæri og kreppa á víxl sem krefur skólafólk um ríka aðlögunarhæfni. Undanfarin ár hafa verið bæði viðburðarík og gjöful þegar kemur að þróunarstarfi innan Háteigsskóla. Hér verður gerð grein fyrir þremur þeirra þróunarverkefna sem hafa orðið til síðastliðin fjögur ár. Í Háteigsskóla er ríkjandi sú menning að nemandinn þekki sjálfan sig sem manneskju og uppskeri þannig sterkari sjálfsmynd og aukna sjálfstiltrú (e. self-efficacy). Verkefnin þrjú sem hér verða reifuð stefna öll að sama marki, að efla nemendur í námi, auka sjálfsþekkingu, seiglu og efla tengsl nemenda við sjálfa sig og aðra.
Markmið verkefnanna þriggja ríma við Menntastefnu Reykjavíkurborgar, en þar segir að meginmarkmið stefnunnar sé: „[…] að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs,“ og enn fremur að, „[…] unnið verði að því að öll börn hafi sterka sjálfsmynd, trú á eigin getu og nái árangri.“ Þá kallast verkefnin á við grunnþætti menntunar sem kynntir voru samhliða Aðalnámskrá grunnskóla sem út kom árið 2011.
Undir ritröð um þessa grunnþætti kom út bókin Heilbrigði og velferð (Margrét Héðinsdóttir, Fanný Gunnarsdóttir og Erla Kristjánsdóttir, 2013). Í því riti er sérstaklega fjallað um jákvæða og raunsanna sjálfsmynd, skilning á eigin tilfinningum og annarra, seiglu og þrautseigju, en þessi viðfangsefni eru sem rauður þráður í öllum þeim þróunarverkefnum sem orðið hafa til í Háteigsskóla á undanförnum árum.
Þá kom einnig út bókin Jafnrétti (Kristín Dýrfjörð, Þórður Kristinsson og Berglind Rós Magnúsdóttir, 2013), en þar er fjallað um viðteknar hugmyndir um kyn, menningu og kynhneigð auk þess sem sérstakur kafli er tileinkaður kynjajafnrétti. Í þeim kafla er fjallað um kvenleika og karlmennsku, kynhneigð, kynvitund og kynbundið ofbeldi, en allt eru þetta umfjöllunarefni sem fá töluvert pláss undir Sólinni, líkani fyrir alhliða kynfræðslu í Háteigsskóla.
Sjálfsþekking í þágu náms
Markþjálfun fyrir nemendur á unglingastigi
Fyrsta verkefnið, sem hleypt var af stokkunum veturinn 2020–2021, var verkefnið Sjálfsþekking í þágu náms, þar sem öllum nemendum í 10. bekk voru boðin markþjálfunarsamtöl snemma að hausti og aftur í upphafi vorannar. Meðal markmiða verkefnins er að nemendur verði virkir þátttakendur í eigin námi, að nemendur öðlist aukna sjálfsþekkingu, að stuðla að sjálfsöryggi og veita nemendum stuðning í að setja raunhæf og mælanleg markmið. Áhersla er lögð á að nemendur læri að skipuleggja nám sitt og komi auga á ákjósanlegar námsaðstæður, sem efli þá enn frekar í að taka ábyrgð á eigin námi. Með því að gefa nemendum tækifæri til að njóta styrkleika sinna er stutt við uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar, um leið og þau eflast í því að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í tengslum við nám sitt og líf í heild.
Framkvæmd:
Í upphafssamtali hittir nemandi markþjálfa einslega og ræðir núverandi stöðu, áhugamál sín, styrkleika og áskoranir. Í sameiningu setja þau markmið í náminu og gera áætlun um eftirfylgni. Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á framlegð í námi og því mikilvægt að gefa nemanda rými og hvatningu til að komast að kjarnanum, hvað skiptir mestu máli og hvaða aðgerða er þörf svo að vel gangi.
Í eftirfylgnisamtali, sem á sér stað að jafnaði fjórum vikum síðar, er settum markmiðum nemenda fylgt eftir. Í þessu samtali gefst tækifæri til að fagna framförum en einnig að endurskoða og aðlaga markmið ef svo ber undir. Oftast eru ný markmið sett og nemandinn heldur námi sínu ótrauður áfram.
Allir nemendur svara könnun um reynslu sína af því að fara í markþjálfunarsamtöl bæði að hausti og í janúar. Niðurstöður eru breytilegar milli árganga, sem eru misfjölmennir, og því er ekki hægt að yfirfæra niðurstöður beint á aðra hópa eða árganga sem á eftir koma. Þó er hægt að sjá ákveðna samsvörun í svörum á milli ára. Á bilinu 92–100% nemenda eru ánægð með að fá markþjálfun á skólatíma. Nánast öll telja að þau muni nota aðferðir markþjálfunar áfram í námi sínu. Um það bil 60–78% nemenda efla trú á eigin getu í námi og líður betur almennt, nýta betur kennslustundir og finna fyrir auknu sjálfstrausti í námi. Um það bil helmingur nemenda upplifir meira jafnvægi á milli skóla og einkalífs, segjast fylgjast betur með námsáætlun á Mentor og Classroom og um 60% skipuleggja heimanámið sitt betur eftir að hafa sótt sér markþjálfun. Starfsfólk skólans merkir einnig breytingu á nemendahópnum í kjölfar samtalanna. Nemendur bera sig frekar eftir björginni í námi sínu, til dæmis hvað varðar að leita sér aðstoðar ef þau þurfa eða koma með óskir um skapandi verkefnaskil.
Úfærsla markþjálfunar í Háteigsskóla kallast á við Menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem, fagmennska og samstarf snýst um velferð nemenda, að örva starfsgleði þeirra og frjóa hugsun. Í kjölfar markþjálfunar styrkist þrautseigjuvöðvinn, vellíðan eykst og með bættri yfirsýn og auknum námsárangri styrkist sjálfsmyndin.
Menntun hugar og hjarta – nemandinn sem manneskja
Námstækni og markþjálfun
Í kjölfar þess hve vel tókst til með markþjálfunarsamtöl 10. bekkjar var ráðist í að móta Námstækni og markþjálfun, sem kynnt var sem eiginleg kennslugrein og fest í stundatöflu 7.–9. bekkjar veturinn 2022–2023. Nú í vetur hefur 6. bekkur svo bæst í hópinn. Mikilvægt er að samfella í námsefni og nálgun í kennslu myndist milli árganga. Miðað er við að dýpka þekkingu nemenda á námsefni, hugtökum og námsaðferðum eftir því sem þau eldast.
Í Námstækni og markþjálfun er markvisst unnið með þætti sem lúta að tilfinninga- og samskiptagreind. Nemendur takast á við verkefni sem felast í því að líta inn á við og læra þannig að þekkja sjálf sig betur. Þau læra að beita aðferðum núvitundar, vinna með eigin styrkleika og efla seiglu. Þá eru þeim einnig kennd fjölbreytt bjargráð sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á líðan þeirra og námslega frammistöðu. Rík áhersla er lögð á sköpun, sjálfstæði og valdeflingu. Dæmi um viðfangsefni eru vinátta og félagsfærni, námstækni og minni, heilbrigðir lífshættir og mikilvægi áskorana, það að fara út fyrir þægindarammann. Einnig er markmiðið að efla liðsheild í árgöngum og reglulega eru haldnar kennslustundir sem fela í sér uppbrot, til dæmis núvitund og slökun, samtalsstefnumót, útileiki, samvinnuleiki og þrautir.
Í námstækni og markþjálfun er leitast við að vinna nemenda, einstaklingsverkefni og hópverkefni, miði að því að að nemendur geti haft góð áhrif á eigið líf, nærsamfélag sitt í skólanum og heima, ásamt því að hafa jákvæð áhrif út í samfélagið. Dæmi um slíkt verkefni er rafræna matreiðslubókin Hollari kosturinn – matreiðslubók 8. bekkjar sem gefin er út á hverju vori. Þar safna nemendur í 8. bekk hollum kostum af uppáhaldsuppskriftum sínum, lýsa matreiðsluaðferð og setja inn myndir af réttunum. Matreiðslubókin er svo gefin út í heild sinni fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans og þar má finna á fjórða hundrað. Þá má líka nefna Gleðibankann, einstaklingsverkefni í 9. bekk. Nemendur velta fyrir sér 50 atriðum sem veita þeim gleði og skrá þau á veggspjald. Stundum reynir lífið á og þá er gott að geta sótt sér þrjú atriði í Gleðibankann sem hægt er að gleðjast yfir. Tillaga: Þegar veggspjaldið er tilbúið hafa nemendur val um að það hangi til sýnis, svo aðrir nemendur í skólanum geti sótt sér gleði í bankann þegar á reynir. Þakklætisritun skrifa öll börnin einu sinni í mánuði óháð aldri þar sem þeim er kennt að kafa dýpra inn á við og tjá sig frá hjartanu. Í Námstækni og markþjálfun miðar hvert verkefni einnig að því að nemendur geti speglað sig á jákvæðan hátt, bæði við sig sjálf og aðra, ásamt því fá jákvæða endurgjöf frá umhverfi sínu eins og hrós fyrir verkefni.
Efniviður kennslu í Námstækni og markþjálfun er margvíslegur. Notast er við hljóðefni, myndefni, lesefni og fleira. Einnig eru lesnir valdir kaflar úr bókunum Ég og sjálfsmyndin (Garðar Gíslason, 2024) og Að læra að læra: námstækni, markmiðasetning, sjálfsefling (Jóna Björg Sætran, 2019). Á hverju hausti er nemendum boðið að hafa áhrif á efnistök kennslunnar og hugmyndir þeirra nýttar við áætlanagerð. Þannig skapast góður andi í kennslustundum og nemendum finnst þeir hafa áhrif á kennsluna og verkefnin. Nemendur eru þannig virkir þátttakendur í námi sínu í Námstækni og markþjálfun.
Stundum koma upp atvik sem þarf að bregðast við og þá er hægt að leggja kennsluefni til hliðar og bregðast við með hópnum í heild. Þetta á til að mynda við um málefni líðandi stundar sem brenna á nemendum. Innan fagsins er sveigjanleiki sem býður upp á að grípa tækifærið, skapa umræður, fræðast og vinna verkefni sem tengjast hugðarefnum þeirra þá stundina. Að hausti í 10. bekk eru nemendur því vel undirbúin og nestuð fyrir einstakilngsmarkþjálfasamtölin og að láta til sín taka á lokaári sínu í grunnskóla. Nemendum stendur til boða að panta tíma hjá markþjálfa skólans eftir þörfum, á skólatíma, allan veturinn.
Alhliða kynfræðsla – Fræða en ekki hræða
Sama vetur, 2022–2023, voru kennslustundir í alhliða kynfræðslu festar í stundatöflum nemenda í 7.–10. bekk, hálfan veturinn. Þá hafði þróun kennslu í faginu átt sér stað um nokkra hríð eða frá árinu 2019.
Markmið kennslustundanna er að nemendur fái alhliða fræðslu í traustu umhverfi, byggða á öruggum heimildum og án hvers kyns fordóma. Kennslan byggir meðal annars á viðmiðum sem sett eru fram í Aðalnámskrá grunnskóla (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011) sem og viðmiðum sem alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (World Health Organization) setti fram um kynheilbrigði og kynfræðslu, árið 2018.
Alhliða kynfræðsla (e. comprehensive sexual education) er samt kannski rangnefni, þar sem fagið tekur til umtalsvert fleiri þátta en aðeins þeirra líffræðilegu. Þegar kemur að eiginlegri kynfræðslu er áherslan á mikilvægi samskipta, mörk og samþykki, jákvæða reynslu og forvarnir, einkum ofbeldisforvarnir í nánum samböndum.
Í þessari kennslugrein er einnig fjallað um jafnrétti, kynjaðar staðalímyndir, kvenfyrirlitningu, líkamsímynd, hinsegin málefni, stafræna borgaravitund og fordóma. Þá er einnig markviss geðfræðsla með áherslu á sjálfið, bjargráð, fordóma og forvarnir.
Til að ramma inn vítt svið umfjöllunarefna varð Sólin til, líkan sem ætlað er að sýna hvernig umfjöllunarefni á yngri stigum byggja undir möguleika á flóknari umfjöllun síðar meir. Sólin varð fyrir valinu, því fræðslunni er ætlað að draga fram í dagsljósið umfjöllunarefni sem áður hafa verið geymd í myrkri með meðfylgjandi fordómum og skömm.
Efnisflokkar til umfjöllunar
Yngsta stig: Líffræði, menning, samband okkar við annað fólk og jafnrétti.
Miðstig: Líffræði, menning, samband okkar við annað fólk, jafnrétti, hinsegin fræðsla, kynjaðar staðalímyndir, líkamsímynd og miðlalæsi.
Unglingastig: Á unglingastigi ættu allir efnisflokkar Sólarinnar að vera til umfjöllunar.
Umfjöllunarefni eru þannig alltaf sett fram með aldur og þroska nemenda í huga og aðeins nemendur í 9. 10. bekk fá umfjöllun um öll þau málefni sem tiltekin eru. Í miðju sólarinnar eru einkunnarorðin sem er leiðarstef í allri þessari fræðslu – að fræða, ekki hræða.
Kennsluefnið er fjölbreytt og kemur víða að, oft í formi ljósmynda eða myndbanda, sem grunnur að fyrirlestrum eða kveikjum fyrir frekari umræður. Rík áhersla er lögð á meðvitund um eigin forréttindi og að æfa hæfni nemenda til að setja upp jafnréttis- og kynjagleraugun, meðal annars með fyrirlestrum um hlutgervingu í auglýsingum og kynjaðar staðalímyndir í teiknimyndum og öðru sjónvarpsefni.
Kennarar kalla reglulega eftir spurningum nemenda, en mismunandi er hvort nemendur leggi í að bera spurningar sínar upp fyrir framan hópinn. Því er gert ráð fyrir reglulegum fyrirspurnartímum, svokölluðum AMA (e. ask me anything) í kennslufyrirkomulaginu. Þar gefst nemendum tækifæri til að koma skriflegum fyrirspurnum til kennara sem sitja fyrir svörum. Athygli skal vakin á því að í upphafi var reynt að nýta tæknina og hafa stafrænar fyrirspurnir, en nemendur óskuðu eftir að gera þetta á gamla mátann og því berast allar spurningar á nafnlausum miðum.
Haustið 2022 svöruðu nemendur í 8.–10. bekk nafnlausri könnun um gildi þessara tíma. Alls svöruðu 62 nemendur spurningunni Af hverju finnst þér kynfræðsla mikilvæg? Eftirfarandi svör nemenda þykja endurspegla svör heildarinnar.
- Kynfræðsla er mikilvæg því að með henni vitum við hvað við eigum og eigum ekki að gera og hvað má og má ekki þannig að við séum ekki að gera neitt sem hefur slæmar afleiðingar og áhrif á okkur og fólkið í kringum okkur.
- Svo maður fái ekki ranghugmyndir.
- Mér finnst mikilvægt að læra um kynfræðslu því mér þykir það áhugavert.
- Mér finnst mikilvægt að fræða fólk í kynfræðslu svo að þau sjá ekki t.d. klám og halda að það er venjulegt.
- Það er mikilvægt að vita um þannig hluti, svo maður veit hvað maður getur gert ef einhvern geri mistök. Það er gott að geta lært um hluti í öruggu umhverfi. Mér finnst líka gott að við erum að “normaliza” að tala um kynlíf og þannig.
- Mér finnst hún bara mikilvæg því það er svo mikið klám sem lætur mann bara vera kynfræðslu viltur og þess vegna þarf að fá kennslu í því.
- Vegna þess að það að er mikilvægur hluti af því að vera mennskur svo það er gott að vita það sem maður getur um þetta. Líka ef foreldrar manns vilja ekki segja manni neitt þá er gott að hafa stað eins og skólann sem gefur manni fræðsluna sem maður þarf.
Langtímamarkmið verkefnsins er að fræðsla undir formerkjum Sólarinnar hefjist á öllum stigum skólans skólaárið 2024–2025, með möguleika á handleiðslu fyrir kennara. Þá hafa umsjónarkennarar verkefnisins boðið upp á vel sóttar málstofur fyrir foreldra og fyrirlestra fyrir samstarfsfólk. Fyrirlestrar fyrir samstarfsfólk voru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði og fjölluðu um hvernig ræða megi ýmis álitamál við nemendur, s.s. jafnrétti, kvenfyrirlitningu og fordóma, auk þess sem allir fengu tækifæri til að setja upp jafnréttis- og kynjagleraugun og að æfa sig í meðvitund um eigin forréttindi.
Tenging er töff – eflum samskipta- og félagshæfni í nemendahópum
Að endingu skal fjallað um nýjasta þróunarverkefni skólans, Tenging er töff.
Upphaf verkefnisins má rekja til áberandi breytinga á hegðun nemenda í unglingadeild og áðurgreindra fyrirspurnartíma í kynfræðslu þar sem skaðleg orðræða gerði vart við sig með afgerandi hætti haustið 2022.
Í fyrirspurnartímunum skutu gömul viðhorf ítrekað upp kollinum, nokkuð sem kennarar gerðu ráð fyrir að væru nánast að fullu upprætt í skólasamfélaginu. Hinsegin- og kynþáttafordómar, kvenfyrirlitning og ofbeldi meðal ungmenna hefur aukist til muna undanfarið. Að vissu leyti má rekja það til áhrifavalda á samfélagsmiðlum sem gagngert reyna að höfða til ungra krakka, einkum og sér í lagi drengja á mið- og unglingastigi. Við nánari athugun var auðséð að tengslaleysi væri einnig um að kenna.
Samkomutakmarkanir á tímum heimsfaraldurs Covid19 gerðu það að verkum að börn og ungmenni gátu ekki stundað skóla og frístundir eins og þau höfðu áður gert. Samhliða takmörkunum jókst skjá- og samfélagsmiðlanotkun barna til muna, en um leið einangrun og tengslaleysi við félaga og innan fjölskyldna (UNICEF, 2020).
Til að sporna við þeirri neikvæðu þróun sem gert hefur vart við sig, eftir að hafa komið auga á mynstrið sem var að myndast, var ákveðið að hefja markvissa vinnu með tengsl innan hópa.
Fyrri hluti verkefnisins felst í hópavinnu, sem stýrt er af tveimur karlkyns kennurum. Kennarar hitta hópa einu sinni í viku og ræða ýmis málefni. Sem dæmi má nefna skaðlegar karlmennskuhugmyndir, kynþáttafordóma, ofbeldi og vopnaburð.
Forvinna
- Umsjónar- og faggreinakennarar koma auga á vanda og hafa samband við teymi,
- fulltrúi teymis situr kennslustund og metur vandann,
- í samráði við umsjónarkennara velja fulltrúar teymis nemendur í hópinn, blöndu af nemendum sem þurfa leiðsögn í samskiptum og nemendum sem búa yfir góðri félagsfærni,
- Samþykkis foreldra og forráðafólks er aflað,
- verkefni kynnt, farið yfir fyrirkomulag og ferli útskýrt.
Útfærsla
- Kennarar hitta nemendahóp einu sinni í viku í 40 mínútur í senn,
- öfugt við kynfræðsluna er umfjöllunarefni tímanna ekki ákveðið fyrirfram, heldur ræðst fremur af hópnum sem unnið er með og hvað brýnt er að ræða hverju sinni. Það gefur rými til að ræða ef upp koma árekstrar eða álitamál, en oftast snýr vinnan að tengslum og þjálfun í að tala um tilfinningar,
- hverjum tíma er svo fylgt eftir með tölvupósti til foreldra þar sem gerð er grein fyrir umræðuefni tímans og hvernig megi fylgja því eftir heima fyrir.
Reynsla af vinnu
Þetta verkefni er enn á þróunarstigi og hingað til hefur aðeins verið kallað eftir vinnu með drengjahópa. Vert er að taka fram að félagsmiðstöðin 105, sem starfar innan skólans, hefur einnig um nokkurt skeið staðið að sértæku hópastarfi, einkum hvað snýr að samskiptum í stúlknahópum í 9. bekk, og er góð samvinna milli starfsfólks félagsmiðstöðvarinnar og kennara skólans.
Enn sem komið er hafa niðurstöður að mestu verið jákvæðar, þar sem jákvæð breyting á hegðun þátttakenda hefur verið merkjanleg eftir aðeins eitt eða tvö skipti. Eins og með önnur þróunarverkefni krefst þetta verkefni stöðugrar ígrundunar og endurmats. Snemma í ferlinu rákust kennarar á mikilvægi þess að að velja einnig nemendur með góða félagsfærni í hvern hóp. Annars er hætt við að neikvæðni og mótþrói taki sér bólfestu í hópnum en það myndi torvelda vinnuna sem tímarnir eru ætlaðir í. Þá er vert að nefna að í upphafi var verkefnið ætlað fyrir hópa á unglingastigi en kennarar af öllum stigum hafa kallað eftir aðstoð og yngsti hópurinn sem unnið hefur verið með er í 4. bekk.
Seinni hluti verkefnisins er einstaklingsbundinn en þá hafa verið settar sértakar tengslastundir í stundatöflur nemenda sem sýna vanlíðan, áhættuhegðun eða skólaforðun. Í þeim tímum fá nemendur tækifæri til að eiga samtal við kennara eða annan fullorðinn í afslöppuðu umhverfi með það að augnamiði að efla tengsl og öryggi í skólanum. Nemendur fá tækifæri til að segja til um hvaða starfsmanni þeir treysta til að eiga tengslastundir með. Áherslan í þessum tímum er ekki námsleg, að því leyti að viðfangsefni kennslugreina þá stundina eru ekki rædd, nema nemandi óski eftir því sérstaklega. Áherslan er hins vegar námsleg að því leyti að töluvert nám á sér stað í samskiptum og uppbyggingu trausts og þannig eflist nemandinn í því að taka ábyrgð á eigin vegferð.
Markmið verkefnisins er að mæta nemendum sem að einhverju leyti standa höllum fæti og jafna þannig aðstöðumun þegar kemur að félagslegum samskiptum, veita leiðsögn þar um og efla þá í að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í félagsumhverfi, innan og utan skóla. Reynslan hefur sýnt að nemendur sem að einhverju leyti skera sig úr félagslega eru oftar en ekki nemendur sem skortir tengsl, hvort sem það er utan skóla eða innan.
Með verkefninu er markvisst unnið að því að efla tengsl nemenda við skólaumhverfið, að þeir upplifi að þeir eigi griðarstað innan veggja skólans, en einnig að hægt sé að leiðsegja nemendum hvað varðar félagsleg samskipti án þess að stimplun í félagahópi eigi sér stað. Þetta endurspeglar grunnþætti menntastefnu Reykjavíkurborgar, sem vísað var til í upphafi, og kemur sérstaklega inn á félagsfærni og sjálfseflingu, tilfinningalæsi, sjálfsstjórn og samskiptahæfni.
Lokaorð
Síðustu ár hefur skólabragur Háteigsskóla tekið jákvæðum breytingum samhliða þeim verkefnum sem að ofan eru talin. Allt starfsfólk skólans vinnur saman í átt að því markmiði að styrkja hvern nemanda sem manneskju og að nemandinn, stjórnendur, starfsfólk skólans og heimilin séu í virku samtali á meðan á skólagöngu barnanna stendur.
Árangur verkefnanna er augljós og niðurstöður kannana um skólastarfið eru jákvæðar og endurspegla þessar nýju áherslur í skólastarfinu. Að baki breytingum sem þessum er mikil vinna og lykilatriði að sátt náist í skólasamfélaginu um nálgunina. Skólasamfélag Háteigsskóla hefur verið samtaka á þessari vegferð, er hvergi nærri hætt og horfir björtum augum til framtíðar.
Heimildir
Garðar Gíslason. (2024). Ég og sjálfsmyndin. Menntamálastofnun.
Jóna Björg Sætran. (2019). Að læra að læra: námstækni, markmiðasetning, sjálfsefling. Námstækni.
Kristín Dýrfjörð, Þórður Kristinsson og Berglind Rós Magnúsdóttir. (2013). Ritröð um grunnþætti menntunar: Jafnrétti. Reykjavík: Mennta- og menningamálaráðuneyti og námsgagnastofnun.
Margrét Héðinsdóttir, Fanný Gunnarsdóttir og Erla Kristjánsdóttir. (2013). Ritröð um grunnþætti menntunar: Heilbrigði og velferð. Reykjavík: Mennta- og menningamálaráðuneyti og námsgagnastofnun.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013. Höfundur.
Reykjavíkurborg. (e.d.). Um menntastefnu. https://menntastefna.is/um-menntastefnu/
UNICEF. (2020). Averting a lost COVID generation: World children’s day data and advocacy brief 2020. https://www.unicef.org/media/86881/file/Averting-a-lost-covid-generation-world-childrens-day-data-and-advocacy-brief-2020.pdf
World Health Organization. (2018). International technical guidance on sexuality education: An evidence-informed approach (önnur útgáfa). https://cdn.who.int/media/docs/default-source/reproductive-health/sexual-health/international-technical-guidance-on-sexuality-education.pdf?sfvrsn=10113efc_29&download=true
Um höfunda
Greinarhöfundar eru hugsjónarfólk með sameiginlegar áherslur hvað varðar nám, námsefni og kennsluaðferðir. Grundvallaratriði er að horfa á og nálgast nemandann sem manneskju, fyrst og fremst. Hópurinn samanstendur af fólki með sameiginlegan bakgrunn í kennslufræðum ásamt uppeldis- og menntunarfræði. Öll eru með framhaldsmenntun á sviði kennslu og stjórnunar og starfa saman í Háteigsskóla.