Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Oddaflugið: Sagan af þróun námsmats í Sæmundarskóla

í Greinar

Eygló Friðriksdóttir

 

Líkja má skólaþróun við oddaflug. Kennarar skólans skiptast á að leiða flugið og taka á sig mesta vindinn. Á milli er hægt að hvíla örlítið, fljúga aftar í hópnum, en það er aldrei hægt að stoppa. Hópurinn er á hreyfingu, stöðugt þarf að skipuleggja, undirbúa, kenna nemendum, meta vinnu þeirra, endurmeta kennslufyrirkomulagið. Nám og kennsla er endalaus vegferð.

Skólastarf hófst í Sæmundarseli við Ingunnarskóla haustið 2004, en skólinn varð sjálfstæður um áramótin 2006-2007. Fyrstu nemendur skólans voru fimmtíu talsins í 1.-4. bekk. Nú eru þeir um fimm hundruð í 1.-10. bekk. Í upphafi voru áherslur skólans samþætting námsgreina, einstaklingsmiðað nám og útikennsla en þær hafa breyst. Nú má segja að sýn skólans snúist um góða samræmda starfshætti. Gæðakennslu þar sem hægt er að fara fjölbreyttar leiðir í námi og námsmati. Frasi sem Vivian Robinson (2011) vitnar í hefur orðið að okkar starfskenningu: Aðalatriðið er að hafa aðalatriðið alltaf aðalatriðið. Þetta aðalatriði er nám og kennsla. Þetta hljómar einfalt en er það alls ekki. Stöðugt þarf að leita nýrri og betri leiða, vanda undirbúning, velja viðeigandi námsleiðir. Stundum að nota útikennslu, stundum eru námsgreinar samþættar. Ávallt er reynt að koma til móts við ólíka nemendur, ekki lengur með því að nemendur vinni námsáætlanir eins og unnið var að í árdaga skólans. Nú er áherslan á hæfnimiðað nám, að hafa markmið og hæfniviðmið skýr og möguleika á fjölbreyttum verkefnaskilum. Nemendur hafa gjarnan bæði val um hvernig þeir læra og hvernig þeir sýna það sem þeir kunna.

Þessi greinarstúfur fjalla um þetta síðastnefnda, námsmatið sem vísar veginn og um þróun þess í Sæmundarskóla.

Við elskum námsmat

Á öðru starfsári skólans fór ég á námskeið með aðstoðarskólastjórum Reykjavíkur til Curry í Virginíu. Carol Ann Tomlinson kenndi okkur um einstaklingsmiðað nám. Tomlinson var framsækin og hafði aðlaðandi sýn á nám og kennslu. Nokkrum árum síðar þýddi ég grein eftir hana um námsmat og kynnti fyrir kennurum skólans. Greinin hét Learning to love assessment og kynningin mín nefndist Elskum námsmat. Í greininni fjallar Tomlinson (2007) um hvernig námsmatið á að vísa nemendum veginn. Ekki er verið að einblína á próf og það á alls ekki að vera ógnandi. Námsmat á að vera samofið námskránni, hægt er að meta nemendur á meðan þeir eru að læra og það getur verið skemmtilegt. Hægt sé að læra að elska námsmat.

Nokkru síðar fór ég á vegum Erasmus+ til sænsku borgarinnar Helsingborg. Þar var verið að vinna að umbótum í skólamálum og hafði öllum skólum verið gert að innleiða ferilmöppur og koma námsmatinu yfir á slíkt form. Í kjölfarið fór starfsfólk Sæmundarskóla þangað í skólaheimsókn. Heimsóknin hafði mikil áhrif á starfsmannahópinn sem fór að endurskoða námsmatið. Miklar umræður fóru í gang og oft hitnaði í kolunum þegar rökrætt var um leiðir. Kennararnir urðu sammála um að námsmatið ætti að vera hvetjandi og lýsandi. Var sá mælikvarði oft settur á það sem verið var að gera. Sem dæmi þá þótti ekki ásættanlegt að gefa bara tölustaf sem einkunn því hann var ekki lýsandi einn og sér. Hvað segir einkunnin 7? Hvað kann nemandinn og hvað ekki? Ekki var heldur ásættanlegt að gefa einkunnina 4. Það var klárlega ekki hvetjandi og þá þurfti að skoða stuðning við nemandann eða huga að einstaklingsnámskrá. Á þessum tíma var gjarnan gert grín að kynningu skólastjórans um að elska námsmat. Ást var kennurum ekki ofarlega í huga þegar þeir strituðu við að breyta og rökræða þetta hitamál. Námsmat kemur við innsta kjarna kennarahjartans. Viðhorf til námsmats endurspeglar gjarnan starfskenningu viðkomandi og segir til um viðhorf til náms. Er sanngjarnt að setja sömu viðmið fyrir alla? Er ósanngjarnt að setja sömu viðmið fyrir alla? Er nám keppni? Er nám vegferð nemenda og námsmatið varðar leið hvers og eins?

Afrakstur þessa tímabils var bæklingur sem skólinn notaði á yngsta stigi. Helstu markmið voru tiltekin og merkt við hvort þeim hefði verið náð, ekki náð, eða hvort nemandinn var á leiðinni.

Smelltu á myndina til að skoða námsmatsbæklinginn.

Bæklingur þessi var ekki notaður á eldri stigum. Kennararnir lentu í vandræðum með mikinn fjölda markmiða og sáu fram á bókaútgáfu ef birta ætti öll markmiðin á þennan hátt. Því má segja að námsmatið hafi verið nokkuð hefðbundið frá 6. bekk. Notast var við Mentor, tölur og umsagnir.

Verk-, list- og íþróttakennarar fóru aðra leið. Þau unnu frammistöðumat, skilgreindu hvernig nemendur áttu að leggja sig fram og höfðu matið sýnilegt fyrir nemendur, gjarnan í lok hvers tíma. Að þeirra mati er frammistöðumat sanngjarnt í íþrótta-, list- og verkgreinakennslu.

John „Bieber“ Morris

John Morris skólastjóri í Ardleigh Green í London hefur starfað mikið með skólum í Reykjavík, undir verkstjórn Nönnu Kristínar Christiansen, verkefnastjóra hjá Skóla og frístundasviði. John var fenginn til að halda erindi á Öskudagsráðstefnu 2008. Í kjölfarið fór af stað þróunarverkefni um faglega og samræmda starfshætti. Níu skólar í Reykjavík tóku þátt í verkefninu á árunum 2010-2014 og var Sæmundarskóli einn af þeim. John kom reglulega í heimsókn í skólann. Óhætt er að segja að John hafi náð að hrífa kennarahópinn með sér. Nemendur spurðu hvort John væri svona Justin Bieber fyrir kennara. Okkur var nokkuð skemmt yfir þessum athugasemdum barnanna og fékk John viðurnefnið Bíberinn meðal starfsfólksins.

Innblásinn af starfsháttum Ardleigh Green var unnið að samræmdum kennsluháttum og leiðsagnarmati í Sæmundarskóla. Kennarar skólans komu sér saman um gæðaviðmið fyrir kennslu og prentuðu veggspjöld með viðmiðunum, sjá hér:

Unnið var skipulega að því að hafa markmið með hverri kennslustund skýr. Kennarar höfðu markmiðin sýnileg á veggjum skólastofunnar og tóku gjarnan þau markmið sem verið var að vinna að þá stundina og settu upp á áberandi stað í kennslustofunni til að nemendur væru meðvitaðir um tilgang hverrar kennslustundar.

John segir sjálfur að hann sé ekki fræðimaður, en fljótlega varð ljóst að hann starfar samkvæmt kenningum Shirley Clarke (2012) um leiðsagnarnám. Hún leggur áherslu á að nemendur fái stöðugt endurgjöf á námið sitt. Ýmsar leiðir eru færar, til dæmis. er hægt að nota bleikan lit til að lita í það sem vel er gert og grænt það sem má laga. Þetta er eitt af því sem kennarar Sæmundarskóla prófuðu en þeir reyndar notuðu græna litinn afar lítið, hann þótti ekki hvetjandi.

Þessi vinna reyndist mikilvæg undirstaða fyrir næsta tímabil þegar skólum á Íslandi var gert að breyta námsmati við lok 10. bekkjar.

„ABCD“

Ný Aðalnámskrá grunnskóla (2011) leit dagsins ljós árið 2011 og 2013 birtist námskráin með hæfniviðmiðum fyrir allar námsgreinar. Í þessari námskrá voru mörg ný hugtök. Ekki var talað um markmið heldur hæfniviðmið. Kennarar skólans létu þetta ekki trufla sig og héldu áfram að vinna eftir gömlu góðu markmiðunum sem gjarnan héngu uppi á veggjum skólans. Satt best að segja þá hafði nýja námskráin ekki mikil áhrif á starfið fyrst um sinn.

Skólaveturinn 2015-2016 hrukku unglingadeildarkennarar í Sæmundarskóla við ásamt kollegum víðsvegar um land. Nú átti að útskrifa nemendur með bókstöfunum  ABCD í stað talna frá 1-10 og voru bókstafirnir ekki í jafnbilakvarða. Við tók mikil angist. Hvernig átti að umreikna tölurnar yfir í þessa bókstafi. Þáverandi stærðfræðikennari skólans vann Excel skjal sem við reyndum að nota til að umreikna. Í dag finnst okkur svolítið fyndið hvernig við misskildum þetta og finnst vænt um hvernig mistökin leiddu okkur áfram til skilnings. Því þegar betur var að gáð þá snerist þessi breyting ekki um kvarða heldur var um róttæka kerfisbreytingu að ræða. Kennarahópurinn þurfti að hafa töluvert fyrir því að skilja breytingarnar og innleiða þær.

Það fyrsta sem kom kennurum á sporið var mynd af barni á ýmsum stigum við að ná tökum á því að hjóla. Umrædd mynd kom frá Álftanesskóla en hefur þróast í meðförum kennara skólans.

Hér er vegferð námsins líkt við hjólafærni.

B nemandinn getur hjólað. Hann hefur náð markmiðunum.

C+ nemandinn er næstum því með B

C nemandinn getur hjólað með hjálpardekkjum. Hann þarf frekari þjálfun en er á leiðinni.

A nemandinn getur gert kúnstir á hjólinu. Hann býr yfir framúrskarandi hæfni, hefur náð markmiðunum og gott betur en það.

D nemandinn getur ekki hjólað. Nemandinn hefur ekki náð markmiðunum.

Í Sæmundarskóla gefum við helst ekki D. Ef nemendur ná engan veginn viðmiðunum þá er líklegt að þeir þurfi einstaklingsnámskrá með markmiðum sem þeir geta náð. Allir geta lært og náð markmiðum ef þau eru við hæfi. Kennarar hafa þó gefið D þegar ekki er hægt að meta færni nemandans vegna þess að nemandinn sýnir ekki hvar hann stendur og skilar ekki verkefnum.

Þessi nýja hugsun var nokkurn tíma að síast inn. Ekki eingöngu vegna matskvarðans. Í nýju aðalnámskránni voru ekki lengur notuð hugtök eins og markmið. Nú var talað um hæfniviðmið og matsviðmið. Reyndar var líka talað um hugtök eins og lykilhæfni. Kennurum féllust hendur. Hvernig átti að vera hægt að meta þetta allt. Þáverandi íslenskukennari á unglingastigi vann vinnuskjal þar sem hann skipti íslenskunni í undirflokka, raðaði matsviðmiðum undir viðeigandi flokka og týndi inn þau hæfniviðmið sem hentuðu fyrir hvern flokk. Kennararnir sáu „ljósið“ og þarna var komið skipulag á alla þessa hæfni-  og matsviðmiðasúpu. Enn þann dag í dag kallast þetta skjal „ljósið“ í Sæmundarskóla, því skjalið kom hópnum á sporið og þeir sáu að verkefnið var yfirstíganlegt. Reyndar varð síðan miserfitt að búa til „ljós“ í öðrum greinum en íslensku en það er önnur saga.

Á þessum tíma fóru kennarar unglingadeilda gjarnan á milli skóla til að kynna sér námsmatsvinnu og miðla sín á milli. Við í Sæmundarskóla tókum á móti fjölda hópa. Ég átti skemmtilegt augnablik með gestum þar sem ég lýsti fjálglega hvernig kennarar þyrftu að byggja á sínu faglega mati þegar þeir völdu og höfnuðu hæfniviðmiðum. Ég tók dæmi um að það væri fullkomlega óraunhæft að kenna nemendum að dansa og halda augnsambandi við áhorfendur. Til að leggja áherslu á mál mitt þá tók ég nokkur létt spor og horfði fast í augu áhorfenda. Gestirnir héldu andlitinu en samfyrirlesarar mínir, kennararnir í Sæmundarskóla, sprungu úr hlátri. Skólastjóraskottið hafði misskilið, verið var að tala um samkvæmisdans og augnsambandi átti að halda við dansfélagann en ekki áhorfendur.

Ég er samt á því að námsskrárgerðin kalli á faglegt mat kennarans. Það þarf að velja og hafna hæfniviðmiðum. Hæfniviðmiðið að dansa með augnsambandi er því miður ekki inn í skólanámskrá Sæmundarskóla. Einfaldlega vegna þess að kennara, sem er hæfur til að kenna samkvæmisdans, hefur ekki rekið á fjörur skólans. Vonandi kemur að því að hægt verði að meta augnsamband á meðan dansað er.

Staðan í dag

Kennarar skólans hafa unnið skólanámskrá þar sem þeir velja inn þau hæfniviðmið sem áhersla er lögð á. Þeir skipuleggja kennsluna gjarnan í námslotum. Hægt er að samþætta loturnar þegar það á við en oftast eru þær kenndar eftir námsgreinum.

Í hverri lotu eru hæfniviðmiðin útskýrð fyrir nemendum og fylgjast þeir með námsmatinu týnast inn. Notast er við Mentor námsumsjónakerfið en undanfarin ár eru kennarar farnir að nota Google Classroom til að skipuleggja kennsluna og til að veita nemendum endurgjöf.

Hér má sjá viðtal við nemendur í 10. bekk í Sæmundarskóla vorið 2021. Íslenskukennarar skólans báðu þessa tvo nemendur að sitja óundirbúið fyrir svörum um námsmatið og urðu þeir fúslega við því. Í viðtalinu kemur fram að nemendum finnst gott að nota Google Classroom. Þeim finnst þetta kerfi aðgengilegt. Þeir geta fylgst með námsframvindu sinni auk þess sem kennarar geta gjarnan gefið endurgjöf á verkefnin á meðan þau eru í vinnslu.

Í viðtalinu kemur glögglega fram að nemendur hafa góða tilfinningu fyrir stöðu sinni. Þeir fylgjast með hvort þeir eru að ná öllum þeim hæfniviðmiðum sem eru lögð eru til grundvallar í hverri námslotu og laga verkefni sín gjarnan með hliðsjón af endurgjöf kennaranna.

Áfram er haldið

Við köllum þetta hæfnimiðað nám í Sæmundarskóla. Kennarar á miðstigi og yngsta stigi hafa líka aðlagað námsmat sitt að nýrri hugsun og gefa endurgjöf í anda hjólamyndarinnar. Það hefur aðeins verið tekist á um hvort eigi að nota kvarðann ABCD eða litakerfi en það skiptir í rauninni ekki máli. Þetta er ekki flókið, barnið veit hvort það hefur náð tilsettum markmiðum, hvort það sé á leiðinni eða hvort það hefur náð framúrskarandi hæfni.

Ný nálgun hefur haft ýmislegt gott í för með sér. Kennarar vinna námskrá og kennsluáætlanir út frá Aðalnámskrá. Þeir geta notað námsbækur, en þeir geta notað margar, ólíkar námsbækur og ýmis önnur gögn. Það þarf alls ekki að kenna kennslubækur frá A-Ö. Það hefur reyndar aldrei þurft að gera það, en þegar áherslan er á hæfnimiðað námsmat þá verður það kýrskýrt. Einnig er hægt að nota fjölbreyttar leiðir til að sýna hvað nemendur kunna. Stundum á við að taka próf, stundum að skila verkefnum, stundum að segja kennaranum hvað þú kannt. Eftir því sem nemendur eldast er meira um að þeir fái að velja hvernig þeir sýna hvað þeir hafa lært.

Kennurum finnst nýtt vinnulag ýta undir vaxtarhugarfar í anda kenninga Carol Dweck (2012) vegna þess að forðast er að notast við lokamat til að dæma um vitneskju nemenda. Nám er ferli þar sem eðlilegt er að gera mistök og alltaf er hægt að bæta sig.

Þýðing: Hilja Guðmundsdóttir

Í þessari vinnu má líka segja að við fullorðna fólkið höfum orðið að temja okkur vaxtarhugarfar. Það er í lagi að vera á leiðinni og hafa ekki öll svörin. Enginn hefur öll svörin og allir eru á leiðinni hvort eða er. Segja má að áhersla á leiðsagnarmat í stað lokamats hafi kallað á nýja hæfni hjá kennurum. Michael Fullan (2016) kallar þetta námsmatslæsi. Nú er mikilvægt að kennararnir geti notað sína faglegu dómgreind til að meta hvar nemendur eru staddir og hvað þeir þurfa að gera næst. Hægt er að nota ýmis gögn til að skilja þetta, verkefni, próf og samræður við nemendur. Það er mikill styrkur fyrir kennara að vinna í teymum og geta unnið námsmatið með öðrum.

Samkvæmt Michael Fullan (2016) byggist skólaþróun á þátttöku kennaranna. Allt hvílir á því hvað þeim finnst skipta máli og hvað þeir raunverulega gera. Starfsfólkið í Sæmundarskóla gerði þetta saman. Þau lögðu á sig, deildu hugmyndum, tókust á. Þau voru og eru ólík, það reyndist vera styrkur því við þurfum allar ólíku manngerðirnar til að komast áfram. Sæmundarskóli hefur notið „kennaraláns“. Margir hafa unnið ötullega að breytingum af því þeim finnst þær vera til góðs fyrir nemendur. Margir þessara brautryðjenda vinna enn í skólanum, aðrir hafa farið inn á nýjar brautir. Framlag alls þessa fólks er dýrmætt og kann ég þeim bestu þakkir fyrir samstarfið.

Í oddafluginu þarf að skiptast á að fara fyrst og styðja hvert annað á leiðinni endalausu. Nú að vori 2023 er skólinn staddur á ákveðnum stað hvað varðar þróun kennsluhátta og framkvæmd á námsmati. Eftir nokkur ár mun þetta greinarkorn mögulega vera tilefni til þess að kíma góðlátlega, eins og við gerum nú þegar við minnumst á Excel skjalið sem átti að bjarga námsmatinu.  En það þarf klárlega að halda áfram ferðinni. Nemendur þurfa á okkur að halda og við megum aldrei nema staðar. Skólaþróun er endalaust verkefni sem stöðugt færir okkur nýjar áskoranir. Þess vegna er aldrei leiðinlegt að vinna í skóla.

Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla 2011: Almennur hluti /2011.

Clarke, S. (2012). Formative assessment in action. Saffron House.

Dweck, C. S. (2012). Mindset: Changing the way you think to fulfil your potential. Robinson.

Fullan, M. (2016). The new meaning of educational change (5 útg.). Routledge.

Tomlinson, C. A. (2007). Learning to love assessment. Sótt af: http://www.ascd.org/publications/educational-leadership/dec07/vol65/num04/Learning-to-Love-Assessment.aspx

Robinson, V. (2011). Student-centered leadership. Jossey Bass.


Um höfund

Eygló Friðriksdóttir útskrifaðist með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og tók M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2015. Hún hefur stýrt Sæmundarskóla frá upphafi, fyrst sem deildarstjóri frá Ingunnarskóla en varð skólastjóri um leið og skólinn varð sjálfstæður.


 

Grein birt …

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp