Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Augnabliksmynd af fagmennsku kennara

í Greinar
©Kristinn Ingvarsson

Helgi Skúli Kjartansson

 

Þau skiptu máli heitir nýútkomið vefrit, sérrit veftímaritsins Netlu, greinasafn þar sem sagt er frá starfi tíu athyglisverðra grunnskólakennara. (Slóð: https://netla.hi.is/serrit-thau-skiptu-mali-sogur-grunnskolakennara/.) Þar er sjónum beint að brautryðjendum eða fyrirmyndum í kennarastétt sem skiptu máli fyrir skólastarf í landinu. En fyrirsögnin, „þau skiptu máli“, hittir ekki síður í mark þó hugsað sé um kennarastéttina í heild. Eða um nemendahópinn, þ.e. um okkur öll, sem einhvern tíma höfum verið á grunnskólaaldri og þá sannarlega skipt máli fyrir okkur hvert og eitt að njóta góðrar, frjórrar og faglegrar kennslu.

Hér ætla ég þó ekki að leggja út af þeirri kennslu sem ég naut sjálfur á barnsaldri eða hrósa happi að hafa á hentugum aldri fengið framsækinn og áhugasaman bekkjarkennara.[i] Heldur rifja upp aldarfjórðungs gamalt minningarbrot, augnabliksmynd sem ég hugsaði ekki út í fyrr en löngu seinna að sýnir einmitt dæmi um yfirlætislausa fagmennsku í hinu daglega starfi bekkjarkennarans.

Ég var þá nýfluttur til Stokkhólms með konu og barn, strák tæplega sex ára sem varð skólaskyldur örskömmu eftir komuna til landsins. Til að sú reynsla yrði ekki of ný og óvænt höfðum við komið honum í fimm ára bekk Ísaksskóla veturinn áður, svo að hann var bæði orðinn vanur skólalífinu og læs á íslensku. En í sænskunni kunni hann ekki orð, kom því inn í skólann og bekkinn gersamlega mállaus.

Skólinn var í grónu hverfi í einni af útborgum Stokkhólms. Hann var vel búinn bæði að húsrými og kennslukröftum. Yngsti árgangurinn (kallaður forskólabekkur, samsvaraði því sem verið hafði „núllti bekkur“ á Íslandi) átti sína heimastofu í litlu húsi steinsnar frá aðalbyggingunni, ásamt tveimur bekkjum sjö ára barna.[ii] Þar var nægilegt rými utan bekkjarstofunnar fyrir hópvinnu eða stöðvakennslu. Skólinn var nógu vel mannaður til að oft kenndu tveir saman, t.d. skólaliði með bekkjarkennara eða bekkjarkennari með leikfimikennara, auk þess sem hægt var að kenna tveimur bekkjum saman.

Hins vegar var engin sérstök aðstoð í boði vegna nemenda sem ekki töluðu sænsku.

Sænski grunnskólinn lagði heilmikið í móðurmálskennslu fyrir nemendur með erlendan bakgrunn, taldi sig raunar brautryðjanda á því sviði. Ég þekkti líka af afspurn móðurmálskennslu fyrir íslenska krakka – hafði heyrt talað um hana sem kærkomna aukavinnu fyrir íslenska stúdenta í Svíþjóð. En við áttum ekki heima í Stokkhólmi sjálfum heldur í útborg (eins konar „Garðabæ“) þar sem grunnskólanemendur með íslensku sem móðurmál voru, að mér skildist, bara níu, en hefðu þurft að vera tíu til að eiga rétt á móðurmálskennslu. Þá hefði þurft að smala þeim saman vikulega í einhverjum grunnskóla sveitarfélagsins, tíu krökkum á ýmsum aldri og ólíkum stigum íslenskukunnáttu, og reyna að kenna þeim eitthvað. Sonur minn slapp sem sagt við það – eða fór á mis við eftir því hvernig á er litið. En hann átti eftir að lýsa því fyrir okkur hvernig strákur í bekknum, sem talaði pólsku heima fyrir, fékk sinn vikulega pólskutíma eftir skóla, reyndar í heimaskólanum af því það vildi svo vel til að pólskukennarinn var þar starfsstúlka í skólaeldhúsinu. Ekkert fylgdi sögunni um kennaramenntun hennar.

Hinni hliðinni á sérþörfum innflytjendabarna, þjálfun í sænsku, var hins vegar ekki sinnt með neinum formlegum hætti. Bekkjarkennari sonar míns, leikskólakennari að mennt (eins og best þótti hæfa í forskólabekkjum), fékk bara þetta mállausa barn í fangið og átti að láta honum líða sem skást meðan sænskukunnáttan sprytti smám saman af sjálfu sér. Aðferð sem oft heyrist lýst í háði: það sé því líkast að fólk ímyndi sér tungumálið smitandi eins og sjúkdóm.

En hversu neyðarleg sem sú samlíking er, þá verkar nú aðferðin oftast nokkurn veginn, að því gefnu að þjóðtungan sé nógu yfirgnæfandi í skólaumhverfinu. Annað mál þar sem innflytjendabörn setja svip á skólann og bekkinn þannig að hver nemandi geti meira eða minna bjargað sér á móðurmálinu og heyri í kringum sig önnur erlend mál í bland við þjóðtunguna; þá er hún auðvitað ekkert „smitandi“. En í bekk sonar míns voru innflytjendabörnin bara tvö, hann og sá pólski sem búinn var að venjast sænskunni í leikskóla. Þannig kom ekki að sök þó að minn maður ætti ekki kost á neinni sérkennslu í sænsku (hvað þá sænskuþjálfun heima, þar sem við kunnum ekki sænsku nema á bók, gátum þó flett með honum myndabókum og horft með honum á barnatíma í sjónvarpi). Málið kom smám saman: á nokkrum vikum nægilega til að nota í leikjum við félagana; fyrir jól nógu vel til að eiga einfaldar samræður við fullorðna; á vormisseri að því marki að taka þátt í sænskunámi bekkjarins og vera fullgildur nemandi í öðrum námsgreinum.

Vandinn var bara tilfinningalega álagið sem fylgdi málleysi fyrstu viknanna. Þar naut sonur minn þess að hafa lent hjá kennara sem var aðlaðandi manneskja, geislaði af hlýju og var einstaklega lagið að slá á streitu og kvíða með því að taka börnin innilega í fangið. Slíkt viðmót er mikilvægt að kennari reyni að temja sér en ekki einfalt að læra það í skóla heldur er það háð persónuleika hvers og eins, að því leyti náðargáfa frekar en fagmennska.

Tilfinningavandanum var líka mætt með skipulagi: hægfara aðlögun, mjög í þeim stíl sem við þekkjum betur frá leikskólastiginu. Ég var heimavinnandi og gat gegnt því hlutverki sem kennarinn setti mér fyrir. Fyrst var skóladagurinn stuttur og ég með stráknum inni í bekknum. Síðan lengri og ég bara tiltækur svo hægt væri að kveðja mig á vettvang. Svo fór ég að skilja hann eftir, en kom tímanlega, gat þá tekið hann heim ef hann var þreyttur eða hinkrað við ef hann var að gera eitthvað skemmtilegt.

Mér er minnisstætt eitt af fyrstu skiptunum sem hann var að gera eitthvað svo skemmtilegt að ekki kom til greina annað en hann fengi að halda áfram ótruflaður. Þá var hann farinn að skilja eitthvað smávegis í sænsku en ekkert að tala, gat verið með krökkum í frímínútum og matmálstímum en ekki nema áhorfandi í námsverkefnum.

Þangað til þarna allt í einu. Þegar mig bar að hafði bekknum verið dreift í hópvinnu og fengin mismunandi verkefni til að ekki þyrftu nema sumir hóparnir leiðsögn kennarans.[iii] Sonur minn og einn bekkjarbróðir hans höfðu fengið það verkefni að spila borðspil með teningskasti. Einhverjar áletranir voru á leikborðinu en félaginn var orðinn nógu stautandi til að ráða við þær. Og svo töluðu þeir saman – á ensku.

Þetta var ekki á 21. öld og sagði sig aldeilis ekki sjálft að sex ára krakkar gætu bjargað sér á ensku.[iv] Enda var sonur minn alls ekki vanur því. Hann átti þó kanadíska ættingja sem hann hafði hitt nokkrum sinnum, samtals einhverjar vikur á lífsleiðinni, og þá fengið lítils háttar leiðsögn í málinu. Og bekkjarbróðirinn – sá eini í bekknum sem ég varð nokkurn tíma var við að kynni orð í ensku – reyndist hafa kynnst henni í sumarleyfisferð með fjölskyldunni. Þessu hafði bekkjarkennarinn áttað sig á, parað strákana saman og fundið þeim viðfangsefni sem þeirra takmarkaða enskukunnátta gerði viðráðanlegt. Að nota ensku í alvöru var nýstárleg áskorun fyrir þá báða, viðfangsefni þar sem þeir sátu við sama borð. Og nutu sín svona prýðilega.

Nú gat kennarinn svosem ekki vitað hvað á eftir myndi fylgja. En greinilega hefur bekkjarbróðirinn sagt foreldrum sínum frá þessum nýja félaga, því að þau gerðu okkur boð og stungu upp á að strákarnir hittust utan skólatíma. Eftir það skiptust þeir á heimsóknum. Í fáein fyrstu skiptin notuðu þeir ensku sín á milli. Þá heyrði ég hvað sameiginlegur orðaforði þeirra var takmarkaður – í mesta lagi örfáir tugir orða en þar á meðal lægstu tölurnar sem einmitt nýttust í teningskastinu – og ekki langt þangað til þeir skiptu yfir í sænsku. En héldu áfram að vera bestu vinir í bekknum – halda raunar kunningsskap enn í dag – og við áður en varði orðin heimilisvinir hjá foreldrum þeirra.

Þetta gat kennarinn ekki séð fyrir. En hennar litla ákvörðun í sínu hversdagsstarfi: að velja þessa nemendur saman og fá þeim þetta hentuga verkefni – mikið afskaplega var það fagmannlega gert!

Neðanmálstilvísanir

[i] Sigurþór Þorgilsson (1928–2025), þá nýkominn frá framhaldsnámi í Danmörku, síðar leiðbeinandi um kennsluhætti hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Sjá: https://www.facebook.com/groups/33952907643/posts/10155752450732644/.

[ii] Af þeim árgangi hef ég áður rifjað upp litla sögu sem birtist í veftímaritinu Krítinni, https://kritin.is/2014/12/18/varldens-baste-vikarie/.

[iii] Eitt af því sem er auðveldara í stóru landi en litlu vegna úrvalsins af námsgögnum. Eldri sonur minn hafði byrjað skólagönguna í London, og mikið varð ég hissa á fyrsta foreldrafundinum, þegar kennarinn sýndi mér námsgagnalagerinn. Þar var heil hilla af námsleikjum eða -spilum fyrir yngsta stigið, ýmist fyrir einstaklinga, pör eða hópa, sumt ætlað ólæsum nemendum, annað læsum eða stautandi, og sum spilin gerð fyrir blandaða hópa þar sem læsir nemendur þyrftu að hjálpa þeim ólæsu.

[iv] Nú er öldin önnur. Sonardóttir mín var einmitt sex ára í fyrra þegar hún fór að prófa, alveg upp úr þurru, að tala við mig á ensku. Og ef ég er í búningsklefum samtímis strákahópum á leið úr skólasundi eða af sundæfingu, þá er segin saga að þeir bregða fyrir sig ensku í bland, jafnvel strákar sem greinilega eru íslenskumælandi en finnst sniðugt að prófa enskuna sín á milli.

 

 


Helgi Skúli Kjartansson (f. 1949) er sagnfræðingur og námsefnishöfundur í sögu, prófessor emiritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, áður við Kennaraháskóla Íslands.


Grein birt 18. mars 2024
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp