Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Þróun grunnskólans undir stjórn sveitarfélaga. Viðhorf reyndra grunnskólakennara

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson

 

Í mars 2022 birti ég hér í Skólaþráðum grein (sjá hér) um mat 25 álitsgjafa á því hvernig grunnskólanum hefði farnast eftir að sveitarfélög tóku yfir rekstur hans fyrir rúmum aldarfjórðungi. Í álitsgjafahópnum var fólk sem ég taldi að hefði fylgst vel með skólamálum á þessum tíma. Í hópnum voru m.a. núverandi og fyrrverandi forsvarsmenn Kennarasambands Íslands, starfandi og fyrrverandi skólastjórar og fræðslustjórar, kennsluráðgjafar, auk háskólakennara og annarra fagaðila sem hafa verið að rannsaka og meta þróun skólastarfs á þessu tímabili. Ég var harla ánægður með þennan hóp og vænti góðrar umræðu um viðhorf þeirra til málsins. Þær vonir urðu því miður að engu vegna harðrar gagnrýni á vali fólks í hópinn; þ.e. að í hópnum væri enginn starfandi grunnskólakennari. Ég viðurkenni að þessi gagnrýni kom mér nokkuð í opna skjöldu því í álitsgjafahópnum voru margir grunnskólakennarar, en það var rétt að enginn þeirra var í starfi grunnskólakennara á því augnabliki þegar könnunin var gerð. 

Niðurstaðan mín var að ráðast í nýja könnun þar sem fyrst og fremst yrði leitað sjónarmiða starfandi grunnskólakennara; fagfólks sem hafði verið á gólfinu með nemendum frá því fyrir flutninginn og væri enn að. Markmiðið var að ná til kennara í mörgum og helst ólíkum sveitarfélögum og ég notaði einfaldlega kort af Íslandi þegar ég ákvað hvar bera skyldi niður. Ég fékk góða aðstoð, m.a. frá nokkrum þeirra sem höfðu gagnrýnt fyrra val mitt og á endanum hafði ég í höndum álit 26 grunnskólakennara, sem flestir voru í starfi þegar þeir svöruðu könnuninni. Svörin voru þó einum færri, eða 25, en einn svarenda fékk samstarfskonu sína, sem kennt hefur í hartnær hálfa öld, til að svara með sér. Ég gerði að sjálfsögðu enga athugasemd við það. Í hópnum eru nokkrir sem ekki voru að kenna börnum þá stundina sem könnuninni var svarað; þrír skólastjórnendur, einn fræðslustjóri og einn námsráðgjafi. Þessi álitsgjafahópur kemur úr 20 sveitarfélögum vítt og breitt um landið (sjá lista yfir hópinn hér neðst í greininni). 

Hópurinn fékk eftirfarandi spurningar: 

 1. Hvenær hófstu kennslu og í hversu mörg ár hefur þú kennt?
 2. Telur þú að flutningur grunnskólans yfir til sveitarfélaganna hafi leitt til betra eða verra skólastarfs? Settu gjarnan skýringu á svari þínu.
 3. Geturðu nefnt dæmi um atriði sem farið hefur fram eftir flutninginn?
 4. Geturðu nefnt dæmi um atriði sem farið hefur aftur eftir flutninginn?
 5. Hversu sátt(ur) /ósátt(ur) hefur þú verið með stuðning sveitarfélaga við þá grunnskóla sem þú hefur starfað við?
 6. Getur þú nefnt dæmi um stuðning sveitarfélags við grunnskólastarf sem þér finnst vera til fyrirmyndar eða eftirbreytni? Ef svo, er æskilegt að fá dæmi.
 7. Hverjar eru stærstu áskoranir sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum?
 8. Annað sem þú vilt taka fram.

Spurningunum var fylgt úr hlaði með þessum inngangi:

Í fyrra voru 25 ár liðin frá því að ákveðið var að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Af þessu tilefni er leitað til 25 grunnskólakennara sem eru í starfi og voru í starfi fyrir flutninginn og þeir spurður álits á nokkrum atriðum sem varða þróun grunnskólans. Svör mega vera í símskeytastíl og ef vitnað verður sérstaklega í þau með nafni verður leyfis leitað. Óskað er eftir því að álitsgjafar leyfi að nöfn þeirra verði birt – en hægt er að óska eftir nafnleynd.   

Jafnframt var álitsgjöfum boðið að ræða við mig í síma, í stað þess að svara spurningunum skriflega og völdu þrír þann kost. 

Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum og þær síðan bornar stuttlega saman við niðurstöður fyrri álitsgjafahópsins. Leitast er við að draga ályktanir af þeim með hliðsjón af öllum þeim sjónarmiðum sem fram komu í báðum hópum.

1. Kennslureynsla álitsgjafanna

Vart þarf að taka fram að þessi álitsgjafahópur býr yfir gríðarlegri reynslu. Mikill meirihluti, eða 19, höfðu hafið kennslu 1990, eða fyrr. Sex höfðu kennt í meira en fjóra áratugi og þar af ein sem hafði 48 ára kennslureynslu. 

2. Leiddi breytingin til betra eða verra skólastarfs?

Skemmst er frá því að segja að ellefu álitsgjafanna töldu að breytingar á stjórn og rekstri grunnskóla hefðu leitt til betra starfs, níu töldu það álitamál eða gáfu óljós svör um þetta. Tveir sögðu það litlu eða engu hafa breytt og þrír töldu tvímælalaust að þetta hefði leitt til verra starfs.

Sem dæmi um sjónarmið þeirra sem töldu flutninginn hafa verið skref í rétta átt má nefna þessi:

Það er að mínu mati engin spurning að flutningurinn hefur leitt til betra skólastarfs. Yfirstjórn skólamála færðist miklu nær skólastarfinu og gaf kennurum meiri möguleika en áður að hafa áhrif á skólastarfið … Vegna nálægðar yfirstjórnar skólamála var kennurum gefinn kostur á að hafa áhrif á innréttingar og fyrirkomulag í skólastofunum sem var til mikilla bóta.

Ég tel að flutningur til sveitarfélaga hafa leitt til betra skólastarfs … Boðleiðir urðu styttri og sveitarfélögin gátu haft meiri áhrif á starfið í skólunum og í þeim sveitarfélögum, þar sem voru margir grunnskólar, varð meiri samvinna og samstarf milli skóla.

Þeir sem töldu þetta óljóst eða álitamál bentu meðal annars á að þetta væri erfitt að meta vegna þess að ráðist hefði verið í miklar breytingar (t.d. skólamáltíðir, einsetningu, lengda viðveru) og að erfitt væri að meta hvað rekja mætti til flutningsins. Eins var bent á ójöfnuð milli sveitarfélaga: „Þau sveitarfélög sem standa höllum fæti eiga trúlega erfiðara með að standa við bakið á skólastarfi, en þau sterkari eru betur í stakk búin til þess.“ Og nokkrir sem voru þeirrar skoðunar að flutningurinn hefði leitt til betra skólastarfs settu þennan sama fyrirvara: „Heildin jákvæð, t.d. í stærri sveitarfélögunum og þar sem skólaskrifstofur eru öflugar.“

Einnig má nefna þetta sjónarmið, sem veldur áhyggjum: „Við höfum ekkert bakland í sveitarfélaginu. Það er víðar þannig. Skólinn er munaðarlaus. Ef skólafólkið stendur ekki á löppunum þá er enginn að skipta sér mikið af því. Það er enginn stöðugleiki í utanumhaldi. Skólanefndin er veik.“  

Þeir sem lýsa neikvæðum viðhorfum til flutningsins nefndu meðal annars að laun kennara hefðu versnað og kenndu sveitarfélögunum um það. Eins hefðu mörg sveitarfélög ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að reka skólana: 

Þegar sveitarfélögin tóku yfir starfsemi grunnskólanna, var ein röksemd bæjarfulltrúa sú að í framhaldinu væri hægt að halda uppi mun metnaðarfyllri skólastefnu, með fleiri og margvíslegri tækifærum til þróunar á skólastarfinu. Ég álít að þrátt fyrir fallega framtíðarsýn, hafi sveitarfélögin fljótlega séð fram á fjárskort til að framfylgja þeim stefnumálum sem áttu að lyfta öllu skólastarfi í nýjar hæðir.

3. Hverju hefur helst farið fram?

Spurningunni um hverju hafi helst farið fram nefndu flestir, eða tólf alls, ýmsar umbætur og bætta þjónustu, s.s. aðstöðu, húsnæði, búnað, einsetningu grunnskólans , mötuneyti, fjölgun starfsmanna og stoðþjónustu, dæmi:

Skólahúsnæði hefur margfaldast, skólar eru einsetnir og ýmis þjónusta við nemendur er stórbætt og með öðru sniði, dæmi um það er t.d. mötuneytin sem nú eru í öllum skólum, dagvist fyrir yngstu nemendur er einnig í þeim mörgum. Rekstur skóla og stjórn þeirra er einnig betri þar sem nálægðin við yfirmenn er skilvirkari.

Hér er einnig nefnd aukin nánd; að boðleiðir væru nú styttri, en þetta nefna alls átta álitsgjafar. Hér er annað dæmi: 

Það er auðvitað auðveldara að ræða við stjórnvöld í heimasveit um skólastarfið og gera grein fyrir því sem þarf að bæta eða breyta. Þar sem nándin er þar eru möguleikar á að upplýsa og hafa einhver áhrif á ákvarðanatöku um skólann og skólastarfið og þjónustan verður markvissari. Það hef ég alveg upplifað.

Einn álitsgjafanna nefnir sérstaklega tæknivæðingu skólanna sem hann telur að hafi: 

… gengið mjög vel og bæjarstjórn lagt sig fram við að vera framarlega á því sviði. Skólar í [nafn sveitarfélagsins] voru með fyrstu skólum á landinu til að ipadda-væðast og var því fylgt eftir með námskeiðum. Rétt fyrir hrun var einnig útbúið glæsilegt tölvuver með nýjum tölvum og hefur því verið nokkuð vel við haldið síðan …

Þrír nefndu meiri grósku í skólastarfi og metnað hjá mörgum sveitarfélögum og loks voru þessi atriði nefnd einu sinni hvert: Aukið sjálfstæði skólanna, betri rekstur, aukið námskeiðaframboð og að flutningurinn hafi leitt til aukins samstarfs milli skóla í sveitarfélaginu. 

Þrír sögðu fátt eða ekkert hefði breyst til batnaðar. 

4. Hverju hefur helst farið aftur?

Hér nefndu sjö þátttakendur að þjónustu eða stuðningi fræðslu- eða skólaskrifstofa hefði farið aftur. Hér er dæmi um slíkt:

Öll utanaðkomandi, fagleg aðstoð frá skólaskrifstofu svæðisins hefur orðið æ þyngri og biðlistar lengst jafnt og þétt og á meðan bíða börn sem síst þurfa á því að halda eftir margs konar þjónustu sem hvergi er að fá eða þá í mýflugumynd. Samspilið við heilbrigðiskerfið er svo enn ein sagan sem kannski á ekki við hér.

Þeir sem þetta nefndu söknuðu sumir fræðsluskrifstofanna: „Meðan skólastarf var hjá ríkinu voru skólaskrifstofur og fræðslustjórar yfir fræðsluumdæmunum. Skólaskrifstofan var faglegt athvarf og hélt vel utan um skólastarfið. Þangað var hægt að leita ef kennara vantaði faglega aðstoð og skrifstofan alltaf opin kennurum.“

Enn má nefna þetta sjónarmið: 

Mér þótti stuðningur frá skólaskrifstofu betri áður, þ.e. þau [starfsfólk skrifstofunnar] voru með námskeið að hausti sem voru mjög gagnleg. Eins var kennsluráðgjöf mjög virk, þannig að það var hægt að leita beint eftir stuðningi við faglegt starf, varðandi námsefni o.fl. Skólaskrifstofa hjá okkur í 18.000 manna sveitarfélagi er undirmönnuð. Ekki mikið faglegt samstarf á milli skólaskrifstofa sem gæti verið gefandi og liggur vel við.

Einn úr hópnum, sem hefur lengi kennt náttúru- og vísindagreinar, gerði ítarlega grein fyrir þeim missi sem varð þegar ekki var lengur hægt að leita til námstjóra eftir aðstoð, t.d. þegar um byrjendur var að ræða og minnti einnig á að áður hefðu kennarar, sem kenndu eðlis- og efnafræði, getað sótt öll aðföng á einn stað. Það væri ekki lengur hægt og það skýrði að hluta hvers vegna verklegri eðlis- og efnafræðikennslu hefði farið aftur. 

Sex nefndu að endurmenntun hefði farið aftur, en ábyrgða á henni fluttist yfir til sveitarfélaganna við flutninginn. Áður hafði Kennaraháskólinn umsjón með sumarnámskeiðum fyrir kennara. Afstöðu til þessarar breytingar er ágætlega lýst í þessari athugasemd: 

Kennarar völdu sér námskeið eftir áhuga og þörfum og voru þau oftast haldin í KHÍ. Þar hittust kennarar víðsvegar af landinu og gátu borið saman bækur sínar og hugmyndir. Endurmenntunin var þess vegna fjölbreyttari og kennarar gátu svo komið með nýjar hugmyndir heim í sinn skóla. Eftir að sveitarfélögin tóku við skólastarfinu og jafnframt endurmenntun kennara voru námskeiðin flutt heim í hérað og urðu þess vegna fábreyttari og oft ómarkviss. Oft eru allir kennarar skikkaðir á sama námskeiðið og undir hælinn lagt hversu vel það skilar sér inn í skólastarfið.

Fleiri tóku undir þetta sjónarmið, en rétt er að halda því til haga að námskeið Kennaraháskólans voru líka haldin víða um land. Ég tók t.d. sjálfur þátt í námskeiðum, ýmist sem leiðbeinandi eða þátttakandi, sem haldin voru í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði og í Borgarfirðinum, bæði á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum, ef ég man rétt. 

Fimm nefndu aðstöðumun eftir sveitarfélögum, t.d. varðandi sérfræðiþjónustu:

Áður fyrr sáu fræðsluskrifstofur í hverjum landshluta um þessa þjónustu við alla skóla en nú er það hvers sveitarfélags að koma sér upp skólaþjónustu eða semja við þjónustuaðila frá nágrannasveitarfélögum eða semja beint við aðila í einkageiranum sem geta veitt þessa þjónustu. Þetta gerir það að verkum að skólarnir sitja ekki við sama borð hvað þetta varðar.

Þrír tilgreindu fjármögnunarvandann, sem að mati þeirra hafði ágerst og tveir að skóli án aðgreiningar hefði ekki gengið eftir: „Mér hefur alltaf fundist að skóli án aðgreiningar hafi ekki tekist vel. Skil hreinlega ekki hvernig það getur virkað 100%“.

Þessir þættir voru nefndir einu sinni hver: Versnandi laun kennara, samband menntamálaráðuneytis við skólana hefði veikst, skólabyggingum hefði farið aftur, viðhald versnað, skólarnir væru yfirfullir og loks nefndi einn innleiðingu stimpilklukkunnar sem mikla afturför.

5. Viðhorf álitsgjafa til stuðnings sveitarfélaga við grunnskóla

Álitsgjafarnir voru spurðir hversu sáttir/ósáttir þeir hefðu verið með stuðning sveitarfélaga við þá grunnskóla sem þeir hefðu starfað við?

Fimmtán álitsgjafanna lýstu jákvæðum viðhorfum til þeirra sveitarfélaga sem þeir höfðu unnið fyrir. Þrír bættu þó við atriðum sem þeir hefðu viljað sjá betur hugað að og nefndu sérfræðiráðgjöf, skort á skólaþjónustu og afskiptaleysi eða áhugaleysi sveitarstjórnarmanna á málefnum grunnskólans. 

Sem dæmi um jákvæð viðhorf má taka þessi: 

Ég hef aðeins starfað hjá [viðkomandi sveitarfélagi] og get ekki annað sagt en að ég sé nokkuð sátt við þann i stuðning sem sveitarfélagið hefur veitt grunnskólanum. Þeir sveitarstjórar, sveitastjórnir og skólanefndir sem hér hafa starfað hafa stutt vel við skólastarfið og sýnt metnað í að halda úti gæða skólastarfi í leik-, grunn- og tónlistarskóla sveitarfélagsins.

Ég hef starfað við grunnskóla í tveimur mjög ólíkum sveitarfélögum og i báðum hefur stuðningur þeirra verið til fyrirmyndar. Búnaður hefur verið bættur í gegnum árin, skólar hafa breyst töluvert, skólastofurnar eru vel útbúnar og vinnuaðstaða kennara er alltaf að verða betri og betri.

Sex álitsgjafanna töldu sveitarfélögin ekki hafa staðið sig og tveir þeirra voru mjög afdráttarlausir um þetta. Annar þeirra fjallaði ítarlega um þetta og sagði meðal annars þetta sem mér þykir mjög lýsandi fyrir aðstæður í veikum sveitarfélögum: 

Sveitarfélagið er og hefur verið lágtekjusveitarfélag og því ekki haft úr miklu að moða hvað varðar skólana. Hér eru engin stór og sterk fyrirtæki sem stutt hafa skólana eins og sums staðar hjá öðrum sveitarfélögum. Eftir hrun var ástandið slæmt og mikið skorið niður af ýmsu sem seint eða ekki hefur komið til baka. Og smátt og smátt verður maður dálítið samdauna því og hleypur bara hraðar.

Illa gengur t.d. að fá tæki og tól, t.d. tölvur fyrir nemendur, netsamband er slæmt svo eitthvað sé nefnt – eitthvað sem manni finnst sjálfsagt í nútímasamfélagi en ekki eru til peningar fyrir. Skólastjórnendur eru alltaf í stanslausri „baráttu um brauðið“ og það hlýtur að vera mjög slítandi og heldur aftur af starfsþróun þó ekki vanti hugmyndir þar um. Starfsfólk og stjórnendur skólanna hafa samt alltaf verið ótrúlega duglegir og útsjónarsamir við að finna lausnir og leiðir að fjölbreyttu skólastarfi.

Öll utanaðkomandi, fagleg aðstoð frá skólaskrifstofu svæðisins hefur orðið æ þyngri og biðlistar hafa lengst jafnt og þétt og á meðan bíða börn sem síst þurfa á því að halda eftir margs konar þjónustu sem hvergi er að fá eða þá í mýflugumynd …

Mér finnst líka að öll starfsþróun og endurmenntun kennara hafi þyngst, erfitt að sækja námskeið sem eru kannski bara hluta úr virkum degi fyrir sunnan og almennt lítið í boði fyrir okkur landsbyggðartútturnar, a.m.k. án afleysingar, talsverðrar fyrirhafnar og kostnaðar.

6. Fyrirmyndarsveitarfélag

Álitsgjafarnir voru beðnir um að nefna dæmi um stuðning sveitarfélags við grunnskólastarf sem þeim hefði fundist vera til fyrirmyndar eða eftirbreytni. 

Átta sveitarfélög voru nefnd og fékk sveitarfélagið Skagafjörður flestar tilnefningar, eða fjórar: 

Það sveitarfélag sem mér dettur helst í hug að nefna sem stutt hefur vel við grunnskólastarf er sveitarfélagið Skagafjörður. Sveitarfélagið er leiðandi í notkun á upplýsingatækni í skólastarfi, er með metnaðarfulla skólastefnu og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar.

Akranes, Garðabær og Vestmannaeyjar voru nefnd tvisvar hvort sveitarfélag. Akranes fyrir öfluga skólaþjónustu og Garðabær fyrir öfluga þróunarsjóði, en þess má geta að fá sveitarfélög hafa lagt jafn mikið fjármagn til hliðar til þróunarstarfs í skólum. Sem dæmi má nefna að á þessu ári voru 28 milljónir í sjóðnum (sjá hér). Vestmannaeyjabæ var hrósað fyrir að styrkja verkefnið Kveikjum neistann, en um það verkefni má til dæmis fræðast hér

Kópavogsbær og Þorlákshöfn komu einu sinni við þessa sögu; Kópavogsbær fyrir „áherslu á að tæknivæða grunnskóla sína. Þetta hefur gefist vel og gaman að sjá þegar heilt bæjarfélag tekur höndum saman og vinnur ákveðið að slíku verkefni og innleiðir það í samráði við skólana“ og Þorlákshöfn fyrir uppbyggingu skólamannvirkja.

7. Helstu áskoranir

Spurt var hverjar væru stærstu áskoranir sem sveitarfélög stæðu nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum. Alls voru nefnd vel á þriðja tug áskorana, hafi ég talið rétt, en vitaskuld er skörun á milli einhverra þeirra.

Alls nefndu 14 viðmælendur þætti sem fella má undir skóla án aðgreiningar. Dæmi um slíkt er: 

Stærsta áskorunin er að mæta því að skólinn er fyrir alla, alls staðar, bæði í stórum og litlum sveitarfélögum. Sú áskorun kallar á samtal fræðslu, fjármagn, samstarf ólíkra fagstétta, aukið vali fyrir nemendur, traust til kennara að sinna sínu verki og veita þeim rými til undirbúnings/pælinga og samstarfs nemendum til heilla.

Nokkrir nefndu sérstaklega þá áskorun að koma betur til móts við nýja Íslendinga og flóttabörn:

Eins og staðan er núna fjölgar flóttafólki og nýbúum hratt á Íslandi. Það hlýtur að vera stór áskorun að taka vel og rétt á móti nemendum með mismunandi bakgrunn og öllu sem því fylgir. Það vantar fleiri kennara og fagfólk með mismunandi menntun.

Einnig nefndu nokkrir mikilvægi þess að koma betur til móts við börn með geðræn vandkvæði. Hér er ástæða að nefna einnig athugasemd sem einn álitsgjafanna gerði þegar boðið var að bæta við athugasemdum (Annað sem þú vilt taka fram?):

Ég held líka að kerfin, skólakerfið, heilbrigðiskerfið og félagsþjónustan, þurfi einhvern veginn að fá aðstoð við að tala saman og stilla saman strengi. Ég upplifi svo margt núna í seinni tíð mjög erfitt, ekki síst í geðheilbrigðismálum barna sem er ekki að virka og á meðan erum við, kennarar og starfsfólk skólanna, stundum með mjög veik börn í höndunum og ráðum oft lítið við stöðuna. Sú staða hefur þyngst jafnt og þétt á síðustu árunum.

Ellefu höfðu mestar áhyggjur af starfsmannahaldi skólanna, að sveitarfélögunum takist ekki að „laða til sín metnaðarfullt starfsfólk á öllum sviðum skólasamfélagsins og skapa þeim þann aðbúnað og kjör þannig að hægt sé að halda uppi metnaðarfullu skólastarfi.“ 

Fimm nefndu starfsþróun, fjórir húsnæðismál, þrír tæknibreytingar og aðrir þrír að tryggja jafnrétti nemenda.

Auknar kröfur foreldra og jafnréttismál bar tvisvar á góma og eftirfarandi áskoranir voru nefndar einu sinni: 

 • að stuðla að velferð starfsfólks, 
 • að bregðast við fjölgun nemenda, 
 • að sækja aukið fjármagn frá ríki, 
 • byggja upp skólastarf eftir covid, 
 • styðja við æskilega fjölbreytni í kennsluháttum, 
 • tryggja faglegt frelsi skólastjórnenda, 
 • efla læsi, 
 • styðja betur við foreldra, 
 • sjá til þess að skólarnir séu vel búnir, 
 • vinna á kennaraskortinum og 
 • halda uppi öflugri skólaþjónustu.

Ég set hér að lokum umhugsunarverða ábendingu sem snertir samband heimila og skóla:

Með aukinni tækni er auðveldara en áður að deila upplýsingum en það hefur um leið aukið kröfur foreldra um upplýsingagjöf. Þessi upplýsingamiðlun og auðvelt aðgengi að kennurum tel ég vera mikið viðbótarálag á kennara og allt að því ómanneskjulegt á köflum. Ég er ekki sannfærð um að allt þetta upplýsingaflæði bæti nám nemenda eða auki vellíðan þeirra. Mér finnst persónulega að styðja þurfi kennarastéttina í að setja foreldrum mörk. Samstarf kennara og foreldra þarf að vera gott, en að mínu mati þyrfti að ræða miklu meira um hlutverk foreldra. Umræða almennt um skólastarf snýr að mínu mati of lítið að foreldrunum. Ég hef nú stundum sagt að hlutverk foreldranna væri að sjá til þess að barnið fái nægan svefn, borði áður en það fer í skólann og sé með allt í skólatöskunni sem til þarf,  þá yrði starf kennarans auðveldara. 

8. Fleiri áhugaverð sjónarmið

Eins of fram kom hér að framan var álitsgjöfunum boðið að bæta við athugasemdum. Alls nýttu 17 þeirra sér þetta og þar komu fram mörg áhugaverð sjónarmið sem mér finnst ástæða til að halda til haga. Einn nefnir t.d. að leggja þurfi „mun meiri áherslu á list- og verkgreinar og útikennslu. Einnig að nemendur geti valið meira út frá áhugasviði sínu. Þá þarf að leggja meiri áherslu á leikinn alla skólagönguna, ekki bara á yngstu stigunum.“ 

Og þetta sjónarmið er sannarlega áhugavert: 

Álagið sem umsjónarkennari frá árinu 2001 hefur aukist mjög mikið, aukin samskipti við foreldra vegna þungra mála og vanlíðanar nemenda, greiningarvinna fyrir sálfræðinga og geðlækna. Ég segi stundum að ég sé farin að vaska upp inn á allt of mörgum heimilum, sem kennari er manni ekki sama hvernig nemandanum líður.

Fleiri ræða sjónarmið af þessum toga og ég vil orða það svo að ég gæti ekki verið meira sammála þessum álitsgjafa:

Mér finnst við þurfum að hlúa sérstaklega að kennurum, velferð þeirra og líðan. Þeirra starf er ekki á færi allra og við þurfum að hefja það til vegs og virðingar. Kennarar eru fagaðilar, þeirra verk er fyrst og fremst að sinna kennslu og í flóknu samfélagi þar sem kröfurnar verða sífellt háværari um framfarir, þróun og vellíðan nemenda þurfa sveitarstjórnir að vera meðvitaðar um mannauðinn sem er innan skólanna. Sérstaklega þarf að handleiða og hlúa að umsjónarkennurum þar sem þeir hafa margt á sinni könnu. Þá er einnig mikilvægt að valdefla kennarateymin, þannig að enginn upplifi sig einan í starfi og finni kraftinn og styrkinn í kennslunni með öðrum.

Þá setti einn álitsgjafinn fram ítarlega og harða gagnrýni á menntamálayfirvöld fyrir frammistöðu þeirra við innleiðingu aðalnámskrár:

Hefði viljað meiri opinberan stuðning og leiðsögn við innleiðingu aðalnámskrár eða miklu frekar að hún hefði verið það skýr að hægt hefði verið að vinna eftir henni án þess að túlka og umorða hæfniviðmiðin. Við fengum einn fyrirlestur frá Menntamálastofnun varðandi skil við lok grunnskóla. Kennarar eyddu ómældum tíma í að túlka og endurskrifa aðalnámskrá grunnskóla.

Og hann hafði einnig þetta að segja:

Það var alveg óviðunandi að allir skólar væru að finna upp hjólið með viðeigandi streitu kennara og stjórnenda. Okkur fannst óviðunandi að fá þetta verkefni í hendur frá menntamálayfirvöldum og hefðum viljað skýrari stefnu og sýn um hvernig skólarnir tækjust á við verkefnið og meira og skýrara samstarf á milli sveitarfélaga, menntamálaráðuneytis, Menntamálastofnunar og skólanna.

Undir öðrum athugasemdum voru einnig sett fram jákvæð atriði og ekki úr vegi að tilgreina eitt þeirra hér í lokin:

En það eru spennandi tímar fram undan. Ég tel að skólastarfið sé í örri þróun. Sköpunarsmiðjur, tækni og leiðsagnarnám og aukin vinna með Barnasáttmálann – í þessu liggja tækifæri sem ná vonandi til fleiri barna.

Lokaorð

Þegar þessar niðurstöður eru skoðaðar verður að hafa í huga að hér er ekki byggt á slembiúrtaki, heldur nýtti ég sambönd mín til að nálgast álitsgjafana. Hið sama gilti raunar um fyrri álitsgjafahópinn – þar byggði ég á eigin tengslaneti. Engu að síður eru hér svör 51 fagmanna – allt er þetta fagfólk sem býr yfir mikilli reynslu og yfirsýn. Ég vil árétta þakkir til þeirra fyrir að gefa sér tíma til að hugleiða með mér og ykkur þróun grunnskólans.

Margt af því sem fram hefur komið væri þarft að árétta og ræða, en þessi grein er þegar að verða of löng. Ég verð þó að minna á eitt af þeim sjónarmiðum sem vikið var að hér að framan en það er um munaðarleysi grunnskólans í veiku sveitarfélagi („Við höfum ekkert bakland í sveitarfélaginu“). Þetta ástand hef ég því miður séð allt of víða. Skólanefndin kemur örsjaldan saman og það fæst ekkert út úr fundum hennar. Skólanefndarfólk segir af sér eftir stutta setu eða það fæst enginn til að vera í nefndinni, t.d. þegar taka þarf á erfiðum málum. Ég á enn eftir að skilja áhuga alltof margra sveitarstjórnarmanna á að búa í örsamfélagi sem er lítils megnugt og ég á enn erfiðara með að skilja þá ráðamenn sem heykjast á að knýja fram breytingar á þessu. 

Fámenn, illa stæð sveitarfélög, ráða illa við að reka grunnskóla. Ég vek athygli á því að nýlega hafa birst tvær greinar, sem byggðar eru á yfirgripsmiklum rannsóknum, þar sem vel er sýnt fram á þetta. Anna Kristín Sigurðardóttir o.fl. (2022) orða það svo að aðstöðumunur milli stórra og lítilla sveitarfélaga skeri illilega í augu. Niðurstaða Rúnars Sigþórssonar o.fl. (2022), sem rannsakað hafa skólaþjónustu á vegum sveitarfélaga, er hnitmiðuð: 

Spurningin verður að vera sú hvernig fámenn sveitarfélög með dreifðri búsetu séu þess megnug að standa undir samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Til þess að svara þeirri spurningu er ekki hægt að taka einn þátt þjónustunnar út fyrir sviga – svarið verður að taka til þeirra allra.

Loks get ég heldur ekki látið hjá líða að minna á afleita frammistöðu okkar í geðheilbrigðismálum barna. Dugleysi okkar í þessum efnum er okkur einfaldlega til skammar. Taka verður undir með álitsgjafanum sem benti á að þessi málaflokkur hefur enn verið að þyngjast. Það þolir enga bið að leysa vanda þessara barna. 

Þegar svör álitsgjafahópanna tveggja eru borin saman kemur í ljós nokkur munur. Hafa verður í huga að spurningarnar voru ekki allar þær sömu, en samanburður engu að síður áhugaverður. Athyglisvert er að álitsgjafarnir í fyrri hópnum litu oftar en ekki til Reykjavíkur þegar spurt var um sveitarfélög sem hefðu staðið sérstaklega vel við bakið á skólum sínum. Enginn álitsgjafanna í seinni hópnum nefndi Reykjavík. Þau nefndu oftast Skagafjörð. Enginn í seinni hópnum nefndi Akureyri en það gerðu sjö í fyrri hópnum. Hið sama gildir um Hafnarfjörð sem fimm nefndu í fyrri hópnum. Ég kann ekki að skýra þessi ólíku sjónarhorn.

Tvennt má segja að standi upp úr.

Hið fyrra er að í báðum hópunum eru þeir fleiri sem töldu að breytingar á stjórn og rekstri grunnskólanna hefði eflt þá, þó fleiri í fyrri hópum hefðu bent á að það gilti fyrst og fremst um skóla í sveitarfélögum sem hefðu verið vel sett. Þetta sjónarmið kom vissulega einnig fram í seinni hópnum, en færri í þeim hópi vöktu máls á þessu. 

Seinna atriði er að þegar kemur að áskorunum ber hópunum ágætlega saman. Að standa betur að skóla án aðgreiningar er flestum í báðum hópum lang hugleiknast; að tryggja menntun fyrir alla. Ég valdi því lokaorð um þetta forgangsmál og geri þau að mínum:

Ég held að það sé að koma til móts við hugmyndafræðina um „skóla án aðgreiningar“ og sjá til þess að hún gangi upp sem slík, faglega og fjárhagslega. Sú skólastefna, eins og hún er í eðli sínu sterk og falleg, þá erum við ekki að ná utan um hana og framkvæma hana með hagsmuni allra skólabarna að leiðarljósi. Þar blæðir kannski helst þeim sem síst skyldi. Það þarf að fjölga fagfólki af ýmsu tagi til að mæta þörfum nemenda, ekki bara fjölga stuðningsfulltrúum, með allri virðingu fyrir þeim.


Álitsgjafarnir

Anna Björk Guðjónsdóttir, Egilsstaðaskóla
Bergljót Halldórsdóttir, Grunnskólanum á Ísafirði
Bergljót Vilhjálmsdóttir, Hofsstaðaskóla, Garðabæ
Björk Sigurðardóttir, Hrafnagilsskóla, Eyjafjarðarsveit
Björn Elíasson, Grunnskóla Vestmannaeyja
Borghildur Jósúadóttir, Grundaskóla, Akranesi
Elín Kristjánsdóttir, grunnskólunum í Borgarbyggð
Elís Þór Sigurðsson, Grundaskóla á Akranesi
Erna S. Ingvarsdóttir, Grunnskólanum í Hveragerði
Guðmann Þorvaldsson, Eskifjarðarskóla
Guðný Sigríður Ólafsdóttir, Dalvíkurskóla
Guðrún Kristinsdóttir, Borgarhólsskóla, Húsavík
Guðrún Pálsdóttir, Hofsstaðaskóla, Garðabæ
Helga Gísladóttir, Patreksskóla, Patreksfirði
Hrefna Birna Björnsdóttir, Vesturbæjarskóla, Reykjavík
Ingigerður Sæmundsdóttir, Keili, Reykjanesbæ
Katrín Aðalheiður Magnúsdóttir, Grunnskóla Snæfellsbæjar
Kolbrún Hjörleifsdóttir, Víkurskóla, Mýrdalshreppi
Sif Stefánsdóttir, Setbergsskóla, Hafnarfirði
Sigfríður Sigurgeirsdóttir, Sunnulækjarskóla, Selfossi
Valdimar Helgason, Réttarholtsskóla, Reykjavík
Þórgunnur Torfadóttir, fræðslu og frístundasviði Hornafjarðar
Þórhalla Guðbjartsdóttir, Blönduskóla, Blönduósi

Tveir viðmælendur í Reykjanesbæ óskuðu nafnleyndar.


Heimildir

Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Gerður G. Óskarsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Þorsteinn Sæberg. (2022). Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir. Skólaþræðir: Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2022/04/19/flutningur_grunnskolans_25_ar/ 

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson (2022). Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag. Skólaþræðir: Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2022/05/31/skolathjonusta-sveitarfelaga-i-nutid-og-framtid-vidfangsefni-starfshaettir-og-skipulag/ 


Ingvar Sigurgeirsson (ingvars(hjá)hi.is) er prófessor emeritus í kennslufræði við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1985, meistaragráðu frá Háskólanum í Sussex 1986 og doktorsgráðu frá sama skóla 1992. Rannsóknir Ingvars hafa einkum snúist um kennsluhætti, kennsluaðferðir, námsmat og skólaþróun og nú á síðustu árum um teymiskennslu. Ingvar hefur skrifað námsefni, greinar, skýrslur og bækur og bókarkafla um kennslufræði og skólastarf.Grein birt: 20/6/2022

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp