Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

skólaþjónusta

Óreiðukennd fyrsta aðgerðaáætlun í menntamálum

í Greinar

Hermína Gunnþórsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Út kom í september á síðasta ári skjal sem nefnist Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021). Áætlunin er samin til að fylgja eftir Þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 nr 16. Þetta er líklega þýðingarmesta stefnumótunarskjal um menntamál síðan aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla kom út á árunum 2011 og 2013 (greinasvið grunnskóla síðara árið). Það er því ástæða til að gefa skjalinu rækilegan gaum. Hér á eftir rekjum við annars vegar aðdraganda að þessari aðgerðaáætlun en hins vegar rýnum við gaumgæfilega í inntak og form þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar í nýrri menntastefnu.

Í hnotskurn er þessi áætlun safn aðgerða og verkþátta sem er lítið sem ekkert forgangsraðað eða sett í samhengi við önnur gildandi stefnuskjöl. Þegar áform um tvenn ný lög voru birt 17. október 2022 í samráðsgátt stjórnvalda birtist hins vegar sú forgangsröðun að ein til tvær fyrstu aðgerðirnar væru mikilvægastar, annars vegar Áform um lagasetningu – skólaþjónusta og hins vegar Áform um lagasetningu – ný stofnun (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022a, 2022b). Lesa meira…

Þróun grunnskólans undir stjórn sveitarfélaga. Viðhorf reyndra grunnskólakennara

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson

 

Í mars 2022 birti ég hér í Skólaþráðum grein (sjá hér) um mat 25 álitsgjafa á því hvernig grunnskólanum hefði farnast eftir að sveitarfélög tóku yfir rekstur hans fyrir rúmum aldarfjórðungi. Í álitsgjafahópnum var fólk sem ég taldi að hefði fylgst vel með skólamálum á þessum tíma. Í hópnum voru m.a. núverandi og fyrrverandi forsvarsmenn Kennarasambands Íslands, starfandi og fyrrverandi skólastjórar og fræðslustjórar, kennsluráðgjafar, auk háskólakennara og annarra fagaðila sem hafa verið að rannsaka og meta þróun skólastarfs á þessu tímabili. Ég var harla ánægður með þennan hóp og vænti góðrar umræðu um viðhorf þeirra til málsins. Þær vonir urðu því miður að engu vegna harðrar gagnrýni á vali fólks í hópinn; þ.e. að í hópnum væri enginn starfandi grunnskólakennari. Ég viðurkenni að þessi gagnrýni kom mér nokkuð í opna skjöldu því í álitsgjafahópnum voru margir grunnskólakennarar, en það var rétt að enginn þeirra var í starfi grunnskólakennara á því augnabliki þegar könnunin var gerð. 

Niðurstaðan mín var að ráðast í nýja könnun þar sem fyrst og fremst yrði leitað sjónarmiða starfandi grunnskólakennara; fagfólks sem hafði verið á gólfinu með nemendum frá því fyrir flutninginn og væri enn að. Markmiðið var að ná til kennara í mörgum og helst ólíkum sveitarfélögum og ég notaði einfaldlega kort af Íslandi þegar ég ákvað hvar bera skyldi niður. Ég fékk góða aðstoð, m.a. frá nokkrum þeirra sem höfðu gagnrýnt fyrra val mitt og á endanum hafði ég í höndum álit 26 grunnskólakennara, sem flestir voru í starfi þegar þeir svöruðu könnuninni. Svörin voru þó einum færri, eða 25, en einn svarenda fékk samstarfskonu sína, sem kennt hefur í hartnær hálfa öld, til að svara með sér. Ég gerði að sjálfsögðu enga athugasemd við það. Í hópnum eru nokkrir sem ekki voru að kenna börnum þá stundina sem könnuninni var svarað; þrír skólastjórnendur, einn fræðslustjóri og einn námsráðgjafi. Þessi álitsgjafahópur kemur úr 20 sveitarfélögum vítt og breitt um landið (sjá lista yfir hópinn hér neðst í greininni).  Lesa meira…

Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag

í Greinar

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Árið 2020 kynnti rannsóknarhópur við Kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrstu niðurstöður rannsóknar á skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla í tveimur skýrslum (Birna Svanbjörnsdóttir o. fl. 2020a, 2020b). Enn fremur hefur rannsóknarhópurinn birt tímaritsgreinar um niðurstöður rannsóknarinnar (Birna María Svanbjörnsdóttir o. fl., 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. í ritrýningu; Sigríður Margrét Sigurðardóttir o. fl. 2022) og kynnt þær á ráðstefnum og málþingum. Rannsóknin beindist að því að kanna umgjörð og starfshætti skólaþjónustunnar og hvernig sveitarfélögin standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019).

Þrenns konar gagna var aflað í rannsókninni: Í fyrsta lagi var spurningakönnun send til skólastjóra í leik- og grunnskólum og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu. Þeir sem svöruðu fyrir hönd skólaþjónustunnar voru í flestum tilvikum yfirmenn skólaskrifstofa, s.s. fræðslustjórar, en gátu einnig verið sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem ekki reka skólaskrifstofu. Í öðru lagi var tilviksrannsókn þar sem tekin voru nítján viðtöl við fræðslustjóra eða yfirmenn skólaskrifstofa, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólaskrifstofa, svo sem sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa og talmeinafræðinga í fimm völdum tilvikum. Viðtalsramminn tók mið af spurningakönnuninni og miðaði að því að fá efnismeiri svör um ýmsa þætti en þar fengust. Í þriðja lagi voru greind helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaganna í tilvikunum fimm þar sem viðtölin voru tekin. Lögð var áhersla á að greina hversu skýr stefna sveitarfélaganna um skipulag og inntak skólaþjónustu birtist á vefsíðum þeirra, hvers konar þjónustustefna birtist í umfjöllun skólaskrifstofa sveitarfélaganna um eigin starfsemi og hver væri umgjörð, skipulag og starfsskilyrði skólaþjónustunnar. Að auki var kannað hvers konar eyðublöð fyrir notendur þjónustunnar eru tiltæk og enn fremur var kannað aðgengi að ýmsum upplýsingum um skólaþjónustuna, svo sem um starfsfólk, starfslýsingar og samstarf við önnur þjónustukerfi. Lesa meira…

Traust, þrautseigja og góður liðsandi – lykill að menntaumbótum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Þorsteinn Hjartarson

 

Það er mér sönn ánægja að vera boðið að skrifa grein til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni sem fagnaði sjötugs afmæli sínu á síðasta ári. Í rúma tvo áratugi hafa leiðir okkar Ingvars legið saman með hléum og hefur samstarf okkar alltaf verið gott. Í þessari grein er fjallað um menntaumbætur og hvernig unnið hefur verið að þeim hér á landi á undanförnum árum. Um aldamótin var ég bjartsýnn á að umbótastarf yrði kröftugt í kjölfar nýrrar aðalnámskrár (Menntamálaráðuneytið, 1999) og spyr hvort innistæða hafi verið  fyrir þessari bjartsýni. Í þessu sambandi er fjallað um hvernig staðið var að menntaumbótum í Kanada á sama tíma. Einnig er vikið að því hvernig til hefur tekist við að fylgja eftir stefnunni um skóla án aðgreiningar og hvernig gott skólastarf getur stuðlað að félagslegum hreyfanleika. Litið er inn í skóla í Eistlandi og Svíþjóð og færð fyrir því rök að menntaumbætur náist best fram ef hugmyndafræðin um faglegt lærdómssamfélag er höfð að leiðarljósi. Lesa meira…

Snemmtæk íhlutun í skólunum í Árborg

í Greinar

   

Lucinda Árnadóttir og Þorsteinn Hjartarson

 

Nýlega hélt velferðarráðuneytið opna ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna þar sem áhugaverð erindi voru í boði fyrir þátttakendur. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagðist binda miklar vonir við að ráðstefnan yrði mikilvæg hvatning við upphaf þeirrar vinnu sem stjórnvöld hafa boðað um aukna áherslu á málefnum barna og fjölskyldna með samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir. Áhersla á snemmtæka íhlutun felur í sér að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og að liðsinni sé veitt áður en vandinn ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum. Í erindi ráðherra kom eftirfarandi fram:  „Forsendur slíkrar snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barna leggi sig fram við að brjóta niður múra milli málaflokka, stjórnsýslustiga og stofnana og tryggja þverfaglega nálgun og samstarf allra sem bera ábyrgð gagnvart börnum.“

Lesa meira…

Fara í Topp