Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Nemendamiðað skólastarf – hvað er það? Hvað felst í því? Er til ein lausn og er lausnin – ein stærð sem passar öllum?

í Pistlar

 Erla Björg Rúnarsdóttir

 

Skólarnir okkar eru eins misjafnir og þeir eru margir en ég trúi því að starfsfólk skóla vilji öllum nemendum vel og að í öllum skólum sé fagfólk sem er að reyna sitt besta með þá þekkingu og í því starfsumhverfi sem það hefur.

Hvers vegna heyrast þá reglulega raddir foreldra og annarra aðila um að skólakerfið okkar sé ekki nógu gott og að kennarar séu ekki að standa sig? Hvers vegna sitja kennarar uppi með þá tilfinningu að þeim sé ekki treyst  sem fagmönnum?

Ég er talsmaður þess að skólastarf þurfi að byggja á styrkleikum nemenda en einnig á styrkleikum kennara, nemendahópsins og hópasamsetningunni. Hópastærð á ekki að vera ein stærð. Í núverandi lögum eru ekki til viðmið heldur er það á ábyrgð hvers sveitarfélags að setja sér viðmið og vinnureglur varðandi bekkjarstærðir. Í sveitarfélaginu sem ég starfa í eru það 22 nemendur á yngsta stigi og 28 á mið- og unglingastigi sem er til viðmiðunar við ákvarðanir um fjölda í bekkjum eða námshópum. Ef nemendur eru fleiri en sem þessu nemur er ákveðið kerfi sem segir til um hversu fljótt setja eigi saman nýjan umsjónarbekk.

Ég tel að stærð nemendahópsins eigi að vera sveigjanleg og taka mið af þeim einstaklingum sem í hópnum eru, þar sem hægt er að koma því við. Þar sem því er ekki við komið á að bæta við kennara eða öðru fagfólki til stuðnings við hópinn. Ég tel einnig að skólastarf, frá sjónarhorni kennara, þurfi að sveigja  sig í þá átt að geta veitt kennurum viðeigandi stuðning við að sinna þörfum allra nemenda? Og þá erum við komin á hálan ís – útdeilingu fjármagns til skólaþjónustu og þeirri mýtu að hverri greiningu fylgi fjármagn.

Ég vinn á skólaskrifstofu og tekst þar á við fjölbreytt verkefni. Meðal verkefna minna er úthlutun fjármagns til grunnskóla. Úthlutun fer fram einu sinni á hverju fjárhagsári. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að útdeila fjármagni á einstaklinga og að allir eigi að fá þjónustu við hæfi. Undantekningu frá þeirri reglu á aðeins að gera þegar nemendur þurfa mjög sérhæfða þjónustu. Í þeim tilvikum þarf að byggja á vönduðu mati á stuðningsþörf. Þetta er oft flókið í framkvæmd svo vel eigi að vera og nemendur eigi að njóta góðs af.

Starfsfólki skóla finnst það ekki fá nægilegt fjármagn. Mörgum foreldrum finnst að barn þeirra fái ekki þjónustu við hæfi og kennarar eru settir í þá stöðu að eiga að sinna stórum og fjölbreyttum hópi nemenda með fáar bjargir sér til stuðnings. Greiningar eiga að leysa allan vanda og aðrir sérfræðingar en kennarar eru farnir að segja þeim hvernig eigi að haga kennslunni. Kennarar taka við greiningum frá aðilum sem ekki er fagfólk í kennslu. Kennarar grípa í það hálmstrá að greining leysi vandann, að þá viti þeir hvað á að gera, en að mínu mati hafa kennarar þekkinguna og verkfærin sjálfir. Greining er góð. Ekki misskilja mig, en hún er aldrei lausnin.

Gæti þetta verið hluti af svarinu við spurningunni hvers vegna kennarar sitja upp með þá tilfinningu að fagmennsku þeirra sé ekki treyst? Ég tel að svarið sé margþætt og ekki einfalt, en að hluta til vegna þess að starfskenning kennara er oft ekki skýr. Ég tel einnig að þverfaglegt samstarf þar sem þarfir nemanda eru hafðar að leiðarljósi og þar sem ólík sérfræðiþekking kemur saman að stuðningi við velferð og nám nemanda og fjölskyldu hans sé skólastarfi til framdráttar.

Ég þeirrar skoðunar að nemendur eigi að fá að hafa meiri áhrif á nám sitt en gert er ráð fyrir í hefðbundnu námi í grunnskóla. Þar sem þeir fá að takast á við raunveruleg viðfangsefni sem þeir velja sér sjálfir og geta þá byggt á eigin reynslu og fyrri þekkingu. Þar sem þeir takast á við viðfangsefni sem þeir hafa ástríðu fyrir (Svanborg R. Jónsdóttir, 2012). Með því móti læra þeir einnig að taka ábyrgð, skipuleggja sig og að vinna sjálfstætt. – Hljómar eins og atvinnuauglýsing ekki satt – þar sem óskað er eftir starfsmanni sem kann sjálfstæð vinnubrögð, getur verið skapandi, er skipulagður og fær um að taka ábyrgð. Í mínum huga lítur nemendamiðað skólastarf þannig út.

En þá komum við að því að nemendur með fjölbreytta styrkleika og margþætta erfiðleika kallar á þverfaglegan hóp fagfólks þar sem hlutverk eru skýr. Kennari er sérfræðingur í kennslufræði og þeim  kennsluaðferðum sem hann notar, þroskaþjálfi vinnur að þroska nemenda, félagsráðgjafi að því að styrkja og bæta félagslegar aðstæður, náms- og starfsráðgjafi sinnir ráðgjöf til nemenda og foreldra  um hvernig hægt er að skipuleggja námið og námsaðstæður og svo framvegis.

Ef kennsla á að byggjast á styrkleikum og áhuga nemenda kallar það á fjölbreytt námsumhverfi. Fjölbreytt námsumhverfi kallar á minni námshópa og kennara sem eru færir um að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og eru færir um að vinna í anda nýsköpunarhugsunar með hjarta (þarfaleit), huga (lausnarvinnu) og síðast en ekki síst hönd (afurð) (Svanborg R. Jónsdóttir, 2012).  Áskoranir eru margar og af mörgum toga, en framkvæmanlegar. Þessi nálgun og hugsun er þess eðlis að ein stærð passar ekki öllum.

Heimildir

Svanborg R. Jónsdóttir. (2012). The location of innovation education in Icelandic compulsory schools [doktorsritgerð, Háskóli Íslands].

Myndirmar er fengnar af heimasíðu Grunnskóla Borgarfjarðar, en þar hafa nemendur fengið að glíma við nýsköpun í tengslum við áhugasviðsverkefni sín. Ljósmyndirnar tók Vigdís Sigvaldadóttir.

Erla Björg Rúnarsdóttir er kennslufulltrúi grunnskóla Hafnarfjarðar. Hún er menntaður grunnskólakennari með kennslu yngri barna sem sérsvið. Erla hefur starfað sem umsjónarkennari, myndmenntarkennari, smíðakennari og deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla í 19 ár. Hún er að ljúka MT námi í mál og læsi við HÍ – menntavísindasvið og er með diplómu í samskiptum og forvörnum frá sama skóla. Erla hefur einnig menntað sig í uppeldisfræði Rudolf Steiner, núvitundar- og jógakennslu fyrir börn og fullorðna. Erla hefur unnið með nemendum og fólki með einstakar þarfir frá árinu 1989.

Pistilinn skrifaði hún á námskeiðinu Kennsla í margbreytilegum nemendahópi þar sem viðfangsefnið var hugmyndafræði að baki kennslu í margbreytilegum nemendahópi og fagmennska í kennslu margbreytilegra nemendahópa.


 

Pistill birtur 13. nóvember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp