María Ösp Ómarsdóttir
Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til samkeppni um áhugavert námsumhverfi. Meðal þeirra sem sendu framlag var María Ösp Ómarsdóttir leikskólastjóri í leikskólanum Árbæ á Selfossi. María Ösp tilnefndi útileiksvæði við leikskólann.
Leikskólinn Árbær á sér sögu frá árinu 2002 er hann hóf starfsemi. Leikskólinn var stækkaður árið 2006 og er nú með sex kjarna. Frá því í ágúst á þessu ári 2024 hefur leikskólinn verið rekinn af Hjallastefnunni. Leikskólastjórinn María Ösp Ómarsdóttir kom til starfa í leikskólanum 1. nóvember 2023 og fljótlega vaknaði sú hugmynd að gera breytingar á útisvæði leikskólans. Leiksvæðið var orðið lúið og var ekki í anda Hjallastefnunnar, en einn af grunnþáttum Hjallastefnunnar er opinn efniviður; leik- og námsefni sem ekki hefur eina lausn eða hlutverk, heldur hefur marga athafnakosti og getur þjónað mismunandi tilgangi eftir því hver meðhöndlar hann.
Hafist var handa við breytingarnar á útileiksvæði Árbæjar í febrúar 2024. Í fyrstu voru það Linda Mjöll Stefánsdóttir og Daníel Hjörtur Sigmundsson sem fylgdu verkefninu úr hlaði. Verkefnið er hugsað sem þróunarverkefni til langs tíma í samstarfi kennara, foreldra og barna. Markmiðið er að til verði náttúrulegt, skapandi og sjálfbært leiksvæði þar sem tækifæri eru til ræktunar á matvælum og til heilsdags útináms. Þá er leitast við að skapa kjöraðstæður til sjálfbærnináms Síðast en ekki síst að styrkja tengsl leikskólans við fjölskyldur barnanna með þátttöku þeirra í mótun útisvæðisins.
Skipuð var verkefnastjórn sem í sitja Linda Mjöll Stefánsdóttir, María Ösp Ómarsdóttir og Margarita Hamatsu. Verkefnið var kynnt fyrir starfsfólki á skipulagsdegi leikskólans í febrúar 2024 og hafist var handa við hugmyndavinnu og umræðuhópar stofnaðir. Þannig var lagður grunnur að hönnun útisvæðisins og í framhaldi af því hófst eiginleg vinna við breytingarnar. Í mars var haldinn kynningarfundur fyrir foreldra þar sem farið var yfir hugmyndafræðina og ferlið útskýrt. Á þeim fundi gafst foreldrum færi á að taka þátt í hugmyndavinnu og rætt var um væntanlegt framlag fjölskyldna í mótun útisvæðisins.
Í apríl voru svo öll leiktæki fjarlægð af lóðinni og uppbygging hófs. Í fyrstu var ákveðið að byggja 30 fermetra útikennslustofu með opnanlegum veggjum og hlera. Hönnun og hugmyndavinna var í höndum Lindu Mjallar og Daníels Hjartar í samvinnu við Rafael Cao Romero Millan og Hermann Georg Gunnlaugsson, landslagsarkitekt.. Um smíðina sá Daníel Hjörtur sem fór fram í júlí þegar leikskólinn var í sumarleyfi.
Húsið er byggt úr efnivið frá skógræktinni í Þjórsárdal, veggirnir eru klæddir með endurnýttum efnivið, öryggisgler í gluggum, gægjugöt og leynigöng eru úr þurrkarahlerum.
Útisvæðið er nýtt daglega af börnunum og hópstjórum þeirra auk þess sem börnin geta valið útisvæðið utan hópastarfs tvisvar á dag. Nú er útileiksvæðið vinsælasta valsvæðið.
Mörg útileiksvæðin eru enn í þróun, en hér má sjá myndir frá „drullusvæði“.
Skapandi smiðja er í þróun og tekur breytingum eftir árstíðum.
Um þróun svæðisins í framtíðinni segir María Ösp:
Þróun útisvæðisins í Árbæ mun halda áfram næstu árin og munu spor og leikur barnanna á hverjum tíma leiða okkur áfram á þeirri vegferð. En það eru einmitt þau sem ráða ferðinni í samstarfi við fjölskyldur og starfsfólk leikskólans. Það sem næst er á dagskrá er að safna fyrir gróðurhúsi og setja upp með fjölskyldum og eru börnin nú þegar farin að rækta upp græðlinga sem munu eignast nýtt heimili þar.
María Ösp Ómarsdóttir er fimm barna móðir, leikskólastýra og frumkvöðull. Hún er grunnskólakennari að mennt og útskrifaðist frá Háskólanum í Suðaustur Noregi árið 2011, en hún flutti þá heim og kenndi við Höfðaskóla á Skagaströnd í fimm ár. Þá hóf hún störf hjá Hjallastefnunni sem skólastýra árið 2015 og hefur séð um innleiðingu stefnunnar í tveimur leikskólum, nú í Árbæ á Selfossi.
María Ösp er einnig frumkvöðull innan samfélagslegrar nýsköpunar og er einn stofnandi Opna leikskóla Memmm Play, en hann starfar á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og býður upp á þjónustu, stuðning og fræðslu fyrir fjölskyldur ungra barna sem ekki eru byrjuð á leikskóla.
María Ösp brennur fyrir velferð fjölskyldna, gæðaumönnun og menntun allra barna og því að hvert einstaka barn upplifi kærleika, jafnrétti og skapandi umhverfi alla daga í leikskólanum Árbæ.