Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

þróunarverkefni

Námskraftur eykur áhuga og ábyrgð nemenda á náminu

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Þessi grein er byggð á starfendarannsókn sem ég gerði sem félagsfræðikennari í Menntaskólanum við Sund frá 2017 til 2022 um leiðsagnarnám og námskraft nemenda. Hér beini ég athyglinni að námskraftinum sem er mjög mikilvægur til að auka áhuga og ábyrgð nemenda í fjölbreyttri verkefnavinnu sem leiðsagnarnám grundvallast á. Ég fékk rannsóknarstyrk frá Kennarasambandi Íslands, skilaði skýrslu um hana 2020 (sjá hér). Haustið 2017 var ég að hefja kennslu á ný eftir að hafa verið konrektor við MS í 15 ár.  Þá var nýbúið að taka upp nýtt þriggja anna kerfi í MS með þremur jafnlöngum önnum, haust-, vetrar- og vorönn. Hver önn hefur 50 kennsludaga og 10 námsmatsdaga sem er dreift yfir önnina. Við hættum með lokapróf og hefðbundinn prófatíma en höfum nú símat í öllum áföngum. Nemendur eru í fjórum til fimm námsgreinum á önn og aðeins þremur á hverjum degi í kennslustundum sem eru 80 til 120 mínútur að lengd. Þetta er mjög góður jarðvegur fyrir leiðsagnarnám byggt á verkefnabundnu námi. Þegar við breyttum yfir í verkefnabundið nám þá fluttist áherslan frá kennslu yfir í nám og við fórum að hugsa meira um að fá nemendur til að læra að læra. Það kom í ljós hvað það skipti miklu máli að nemendur hefðu trú á eigin getu, hefðu áhuga á náminu og gætu bæði unnið sjálfstætt og með öðrum nemendum. Þá kom hugmyndafræðin um námkraftinn sterk inn hjá okkur. Lesa meira…

Lokaverkefni byggð á hugmyndum eflandi kennslufræði

í Greinar

Helga Birgisdóttir og Sigríður Halldóra Pálsdóttir

 

Allt nám hefur mótandi áhrif á einstaklinga og í því er fólginn vegvísir.  Við Tækniskólann hefur frá hausti 2016 verið starfrækt stúdentsbrautin K2: Tækni- og vísindaleið. Á brautinni er markvisst unnið með þá hugmyndafræði að til að árangursríkt nám geti farið fram þarf að bjóða nemendum  upp á efnivið sem ýtir undir virkni þeirra og tengist daglegu lífi og áhugaverðum málefnum. Á brautinni eru alla jafna þrjár bekkjardeildir í þremur árgöngum og er námið lagt upp þannig að hverri önn er skipt upp í tvær spannir. Nám og kennsla á K2 hefur frá upphafi verið skipulagt með það að leiðarljósi að gefa nemendum tækifæri á að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum í umhverfi sem er bæði skapandi og örvandi. Á brautinni er nú, um sjö árum eftir stofnun hennar, höfuðáhersla á verkefnastýrt nám þar sem hugmyndafræði leiðsagnarnáms er í forgrunni.

Tilgangur þessarar greinar er ekki að fjalla um þá bók- og verknámsáfanga sem eru til grundvallar stúdentsprófi á brautinni, heldur að skoða sérstaklega lokaverkefni sem eru á dagskrá nemenda svo til hverja önn, þróun þeirra og framtíðarsýn. Þessi lokaverkefni eru þverfagleg og byggð í kringum grunnþætti menntunar, eins og þeir eru settir fram í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011), auk þess sem unnið er með ákveðna þætti sem tengjast lykilhæfni og hæfniviðmiðum þeirra faggreina sem tengjast hverju verkefni fyrir sig.

Hér verður gerð grein fyrir þróun, skipulagi og framtíð lokaverkefnanna og þeim kennslu- og námsaðferðum sem þar er beitt með sérstakri áherslu á það hvernig hægt er að vinna á skapandi hátt en um leið í takt við aðalnámskrána og skapa þannig vegvísa framtíðar fyrir nemendur okkar. Stiklað verður á stóru um hugmyndafræðina, fjallað um samstarfsaðila og ólík viðfangsefni, virkar náms- og kennsluaðferðir, markmið, hæfniviðmið, lykilþætti og námsmat. Lesa meira…

Suðurnesja-Sprettur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

í Greinar

Þjóðbjörg Gunnarsdóttir

Þegar hugmyndin að verkefninu Suðurnesja-Spretti vaknaði voru um 850 nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tæplega hundrað þeirra voru nemendur með annað móðurmál en íslensku. Haustið 2019 réði skólinn Þjóðbjörgu Gunnarsdóttur sem verkefnastjóra nemenda með annað móðurmál en íslensku. Helstu verkefni verkefnastjórans eru að kynna skólakerfið, skólareglur, námsbrautir, og stuðningskerfi skólans fyrir nemendum. Hann fylgist með námsframvindu nemenda, aðstoðar þá við námsval og er kennurum innan handar varðandi ýmis mál tengdum þessum nemendum. Verkefnastjóri er með um sjötíu nemendur í umsjón og er tengiliður þeirra við námsráðgjafa og kennara. Þörfin fyrir aðstoð og stuðning við nemendur af erlendum uppruna var fyrir hendi en varð enn greinilegri eftir ráðningu verkefnastjórans.

Þegar Háskóli Íslands fór af stað með tilraunaverkefnið Sprett, var óskað eftir aðstoð við að finna mögulega þátttakendur í verkefnið innan skólans. Fyrirstaða var í nemendahópnum með þátttöku í verkefninu þar sem nemendur þurftu að sækja það til Reykjavíkur. Þá kom upp sú hugmynd að fara af stað með sambærilegt verkefni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í samstarfi við Háskóla Íslands. Þátttakendur væru nemendur FS með annað móðurmál en íslensku. Þar með væri stuðningurinn að koma frá nærsamfélaginu og væri innan nærþjónustu nemenda. Með samstarfi við Sprett innan Háskóla Íslands væri aukið við faglegan stuðning við nemendahópinn og aðstoðin gerð markvissari. Háskóli Íslands tók vel í þessa hugmynd og því var ákveðið að sækja um styrk hjá Þróunarsjóði innflytjendamála. Verkefnið fékk nafnið Suðurnesja-Sprettur. Lesa meira…

Bókagleypir, slysaskot og fiðrildi: Ljóðaval lesara á lokahátíðum Stóru upplestrarkeppninnar 2022

í Greinar

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

 

Stóra upplestrarkeppnin hóf göngu sína sem þróunarverkefni árið 1996 og festi sig fljótt í sessi í sjöundu bekkjum í grunnskólum um allt land. Ræktunarstarfið í skólunum hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Hitann og þungann af því bera kennarar í sjöunda bekk. Haldnar eru bekkjarkeppnir, skólahátíðir og svo lokahátíðir að vori í héraði þar sem sigurvegarar úr hverjum skóla koma fram.

Það er félagsskapurinn Raddir – Samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem kom keppninni á laggirnar og hefur séð um skipulag hennar undanfarinn aldarfjórðung. Á síðasta ári, 2021, var komið að þeim tímamótum að afhenda sveitarfélögum landsins keppnina en  Raddir veittu ráðgjöf fyrsta árið. Af þessu tilefni var efnt til málþings þann 26. september 2022 með yfirskriftinni Stóra upplestrarkeppnin – Á tímamótum. Þar voru flutt ávörp og erindi sem varða þessi umskipti. Upptöku af málþinginu má finna á heimasíðu Radda (http://upplestur.hafnarfjordur.is/). Lesa meira…

SKÓLASLIT – einstök lestrarupplifun

í Greinar

Kolfinna Njálsdóttir, Heiða Ingólfsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir

Á þessu skólaári höfum við unnið að þróunarverkefninu Skólaslitum sem lýkur formlega nú í vor. Okkur langar að deila með ykkur sögu verkefnisins þar á meðal kveikjunni og hvað við höfum lært af verkefninu hingað til. Að verkefninu standa grunnskólar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt kennsluráðgjöfum, félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar. Á vefsíðu verkefnisins www.skolaslit.is var sett inn allt efni sem tengdist verkefninu og var vefurinn öllum opinn. Að auki var netfangið skolaslit(hja)gmail.com nýtt til að koma upplýsingum til annarra skóla og taka við spurningum nemenda, kennara og annarra sem sýndu verkefninu áhuga. Í gegnum netfang verkefnisins tengdust grunnskólar um allt land og töldum við rúmlega hundrað skóla sem tóku þátt í verkefninu að hluta til eða öllu leyti. Hluti þessarar greinar hefur áður birst í Víkurfréttum, bæjarfjölmiðli á Suðurnesjum.

Markmið Skólaslita voru að búa til nýstárlega lestrarupplifun í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson rithöfund, læra af drengjum, hlusta á þá og fá innsýn í hugarheim þeirra og hugmyndir varðandi nálgun á lestri og öflun og úrvinnslu upplýsinga. Einnig var markmiðið að auka áhuga þeirra á lestri með fjölbreyttri nálgun og með áherslu á áhugahvetjandi og merkingabær verkefni. Auk þess vildum við vinna með viðhorf kennara til drengja og lesturs og opna huga þeirra gagnvart ólíkum leiðum til öflunar upplýsinga og þekkingarsköpunar. Enn fremur vildum við gefa feðrum tækifæri til aukinnar þátttöku í lestrarnámi drengja og kanna viðhorf þeirra til lesturs. Lesa meira…

Skynreiða að leiðarljósi í námi barna

í Greinar

Anna Sofia Wahlström, Hildur Vilhelmsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir

Hver einasta mannvera uppgötvar heiminn í gegnum skynfæri. Í Gefnarborg leitum við leiða til að viðhalda þessari eðlislægu leið barna til að læra og þroskast. Við leggjum áherslu á að vinna með skilningarvitin fimm: heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu, ásamt jafnvægisskyni, líkamsstöðuskyni og líffæraskyni. Hugtakið „skynreiða“ vísar til úrvinnslu, samþættingar og skipulags skynupplýsinga frá líkamanum og umhverfinu. Með öðrum orðum: Hvernig við upplifum, túlkum og bregðumst við upplýsingum sem koma frá skynfærum okkar. Skynreiða þroskast samhliða eðlilegum þroska hjá börnum, þegar börn byrja að velta sér, skríða, ganga og leika. Skynreiða er mikilvæg í öllu því sem við gerum daglega.

Í leikskólanum Gefnarborg eru margir kennarar og starfsfólk með langa og víðtæka reynslu af starfi með börnum. Við upplifum að þrátt fyrir reynslu okkar höfum við ekki verið nægjanlega meðvituð um þann möguleika að vinna með skynjun í leikskólastarfi á skipulagðan hátt. Skynjun fer fram án þess að við gefum því sérstakan gaum alla daga, ótal sinnum á dag. Ljóst er að allt frá fæðingu nýta börn skynfærin og skynjun til að áskapa sér þekkingu og skilning. Svo virðist sem við höfum haft tilhneigingu til að „gleyma“ að nýta okkur þessa eðlislægu aðferð barna til náms og förum ósjálfrátt að leggja meiri áherslu á talað mál. Þegar við kynntumst hugtakinu skynreiða og þeim fræðum sem að baki búa fundum við að þar var komin aðferð sem við gátum nýtt okkur til þróa leikskólastarfið.

Lesa meira…

Hænurnar á hólnum: Menntun til sjálfbærni á leikskólanum Urðarhóli

í Greinar

Birna Bjarnarson

 

Það er ekki algengt að leikskólar haldi dýr. Heilsuleikskólinn Urdarhóll hefur undanfarið verið með sex hænur í litlu húsi á leikskólalóðinni og skiptist starfsfólk og börn leikskólans á að sjá um þær á virkum dögum og fjölskyldur barnanna um helgar. Hænurnar fá matarafganga eftir matartímann í leikskólanum og þannig minnkar magnið af lífrænu sorpi sem annars er sent í burtu. Hænurnar gefa svo frá sér egg sem síðan nýtast í leikskólanum.

Umhverfismál er okkur flestum ofarlega í huga. Við heyrum af því í fjölmiðlum að tími sé kominn til að við breytum hegðun okkar og neyslu ef ekki á illa að fara. Fjöldi heimila, fyrirtækja og opinberra stofnana eru nú þegar byrjuð að breyta rekstri sínum með því að minnka neyslu og sóun. Þar er helst að nefna flokkun á rusli og forgangsröðun í rekstri auk breytinga á orkugjöfum með því að nota rafmagn frekar en bensín og olíu. Mörg bæjarfélög bjóða nú upp á sorpflokkun þar sem hægt er að flokka plast, pappa, málma og jafnvel lífrænt sorp.

Fjölmargir leikskólar eru að vinna að Grænfánaverkefni sem er alþjóðlegt umhverfismenntunarverkefni rekið af Landvernd. Markmið Grænfánaverkefnisins er að auka umhverfisvitund í skólum landsins, vinna að aukinni menntun varðandi sjálfbærni og styrkja umhverfisstefnur skólanna, meðal annars með því minnka úrgang og notkun á vatni og orku. Lesa meira…

Læsisstefna Grænuvalla: Þróunarverkefni um starfsþróun kennara í samstarfi við Menntamálaráðuneytið og MSHA

í Greinar

Unnur Ösp Guðmundsdóttir

 

Leikskólinn Grænuvellir er átta deilda leikskóli á Húsavík. Í honum dvelja um 140-150 börn frá eins til sex ára. Mikil áhersla er lögð á leikinn, útikennslu, læsi, tónlist, lýðræði og jákvæðan aga.

Á haustmánuðum 2018 höfðu aðilar úr samstarfsráði um starfsþróun samband við stjórnendur Grænuvalla og buðu skólanum þátttöku í þróunarverkefni um starfsþróun kennara, ásamt þremur öðrum skólum. Samstarfsráð er samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitafélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Listaháskóla Íslands og Skólameistarafélags Íslands. Markmið samstarfsins er aukin starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra fagstétta í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum.

Eftir nokkrar umræður var ákveðið að taka þátt í verkefninu enda bætt aðgengi að endur- og símenntun kennara utan höfuðborgarsvæðisins mjög mikilvægt að okkar mati. Sex manna teymi vann verkefnið saman en það var samsett af stjórnendum leikskólans ásamt deildarstjórum eins til sex ára barna þannig að sérfræðiþekking kennara frá öllum aldurshópum leikskólans var nýtt í stefnuna. Hópurinn var stórhuga í byrjun, ætlaði að sigra heiminn og vinna upp allt sem tími hafði ekki unnist til að gera undanfarin ár. Markmiðin voru háleit, en fljótlega komu samstarfsaðilar verkefnisins frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri okkur niður á jörðina, enda voru þessi markmið allt of viðamikil fyrir tímarammann og fjármagnið sem lagt var í verkefnið. Eftir forgangsröðun kom í ljós að ný læsisstefna var mest aðkallandi og hófst þá hugmyndavinna að henni. Hópurinn fundaði einu sinni til tvisvar í mánuði og þess á milli setti verkefnastjóri stefnuna upp eftir hugmyndum hópsins.

Í þessari grein verður fjallað um tilurð læsisstefnu Grænuvalla, þróun hennar og hvernig unnið er með hana í leikskólanum. Lesa meira…

„ÉG FANN LEGHÁLSINN!“ – Sagt frá kynfræðsluverkefninu Við í Grunnskóla Borgarfjarðar

í Greinar

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

 

Mikið veltur á hverjum og einum kennara.

Kynfræðsla meira og minna tilviljanakennd.

Kynfræðslu þarf að undirbúa.

Eftirfarandi eru millifyrirsagnir úr grein Morgunblaðsins um stöðu kynfræðslu í landinu. Þetta hljómar allt saman kunnuglega, en greinin birtist 9. nóvember árið 1986. Við skulum því spóla áfram um þrjátíu og fimm ár.

Í kennslustofunni er dauðaþögn. Hópur nemenda á miðstigi grúfir sig yfir keppnisblað dagsins, orðasúpu á tíma þar sem þátttakendur keppast um að vera fyrst til að finna orðin. Skyndilega sprettur ungur drengur frá borðinu og öskrar; „ÉG FANN LEGHÁLSINN!!“. Nokkru áður hafði kennslustundin leysts upp í hlátur og vandræðalegheit þegar kennarinn gerði heiðarlega tilraun til þess að kynna nemendur fyrir helstu líffærum æxlunarkerfanna, en eftir þónokkrar æfingar hefur hópurinn náð að vinna sig í gegnum kjánahrollinn og orðin pungur, brjóst og snípur orðin þeim jafn töm og eyra, bak og litlatá. Lesa meira…

Hvernig smáfræ verður að meginstoð í sköpun lærdómssamfélags: Um áhugasviðsverkefni í Grunnskólanum á Suðureyri

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jóna Benediktsdóttir

 

Grunnskólinn á Suðureyri er pínulítill skóli, svo lítill að þar þurfa kennarar að kenna fleiri greinar en sínar óskagreinar og eru yfirleitt ekki í samstarfi við neinn um sína kennslu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og meira en helmingur þeirra á annan eða báða foreldra af erlendum uppruna og greiningar vegna frávika eru ekki sjaldgæfari hjá okkur en öðrum. Þessar aðstæður hafa litað skólastarfið gegnum árin og eins og við vitum öll sem störfum í grunnskólum er auðvelt að festast í ákveðnu fari sem skapast bæði af ytri og innri aðstæðum í skólasamfélagi. Lesa meira…

Fara í Topp