Námskraftur eykur áhuga og ábyrgð nemenda á náminu
Hjördís Þorgeirsdóttir
Þessi grein er byggð á starfendarannsókn sem ég gerði sem félagsfræðikennari í Menntaskólanum við Sund frá 2017 til 2022 um leiðsagnarnám og námskraft nemenda. Hér beini ég athyglinni að námskraftinum sem er mjög mikilvægur til að auka áhuga og ábyrgð nemenda í fjölbreyttri verkefnavinnu sem leiðsagnarnám grundvallast á. Ég fékk rannsóknarstyrk frá Kennarasambandi Íslands, skilaði skýrslu um hana 2020 (sjá hér). Haustið 2017 var ég að hefja kennslu á ný eftir að hafa verið konrektor við MS í 15 ár. Þá var nýbúið að taka upp nýtt þriggja anna kerfi í MS með þremur jafnlöngum önnum, haust-, vetrar- og vorönn. Hver önn hefur 50 kennsludaga og 10 námsmatsdaga sem er dreift yfir önnina. Við hættum með lokapróf og hefðbundinn prófatíma en höfum nú símat í öllum áföngum. Nemendur eru í fjórum til fimm námsgreinum á önn og aðeins þremur á hverjum degi í kennslustundum sem eru 80 til 120 mínútur að lengd. Þetta er mjög góður jarðvegur fyrir leiðsagnarnám byggt á verkefnabundnu námi. Þegar við breyttum yfir í verkefnabundið nám þá fluttist áherslan frá kennslu yfir í nám og við fórum að hugsa meira um að fá nemendur til að læra að læra. Það kom í ljós hvað það skipti miklu máli að nemendur hefðu trú á eigin getu, hefðu áhuga á náminu og gætu bæði unnið sjálfstætt og með öðrum nemendum. Þá kom hugmyndafræðin um námkraftinn sterk inn hjá okkur. Lesa meira…