Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag

í Greinar

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Árið 2020 kynnti rannsóknarhópur við Kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrstu niðurstöður rannsóknar á skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla í tveimur skýrslum (Birna Svanbjörnsdóttir o. fl. 2020a, 2020b). Enn fremur hefur rannsóknarhópurinn birt tímaritsgreinar um niðurstöður rannsóknarinnar (Birna María Svanbjörnsdóttir o. fl., 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. í ritrýningu; Sigríður Margrét Sigurðardóttir o. fl. 2022) og kynnt þær á ráðstefnum og málþingum. Rannsóknin beindist að því að kanna umgjörð og starfshætti skólaþjónustunnar og hvernig sveitarfélögin standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019).

Þrenns konar gagna var aflað í rannsókninni: Í fyrsta lagi var spurningakönnun send til skólastjóra í leik- og grunnskólum og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu. Þeir sem svöruðu fyrir hönd skólaþjónustunnar voru í flestum tilvikum yfirmenn skólaskrifstofa, s.s. fræðslustjórar, en gátu einnig verið sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem ekki reka skólaskrifstofu. Í öðru lagi var tilviksrannsókn þar sem tekin voru nítján viðtöl við fræðslustjóra eða yfirmenn skólaskrifstofa, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólaskrifstofa, svo sem sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa og talmeinafræðinga í fimm völdum tilvikum. Viðtalsramminn tók mið af spurningakönnuninni og miðaði að því að fá efnismeiri svör um ýmsa þætti en þar fengust. Í þriðja lagi voru greind helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaganna í tilvikunum fimm þar sem viðtölin voru tekin. Lögð var áhersla á að greina hversu skýr stefna sveitarfélaganna um skipulag og inntak skólaþjónustu birtist á vefsíðum þeirra, hvers konar þjónustustefna birtist í umfjöllun skólaskrifstofa sveitarfélaganna um eigin starfsemi og hver væri umgjörð, skipulag og starfsskilyrði skólaþjónustunnar. Að auki var kannað hvers konar eyðublöð fyrir notendur þjónustunnar eru tiltæk og enn fremur var kannað aðgengi að ýmsum upplýsingum um skólaþjónustuna, svo sem um starfsfólk, starfslýsingar og samstarf við önnur þjónustukerfi.

Rannsóknarhópurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á að niðurstöður hans nýttust sveitarfélögum við að leggja mat á hvernig skólaþjónusta hefur þróast þau 25 ár sem sveitarfélög hafa haft hana með höndum og við að móta til framtíðar viðfangsefni hennar, starfshætti og skipulag. Það síðarnefnda er ekki síst mikilvægt nú þegar segja má að þjónustan standi á krossgötum, m.a. vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021). Með þetta í huga hefur rannsóknar­hópurinn kynnt framtíðarsýn um hvernig þjónustan ætti að þróast í nánustu framtíð og hvernig hann telur að setja þurfi mikilvægustu áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir við þróun skólastarfs í samhengi við starfshætti skólaþjónustunnar. Meðal slíkra áskorana eru menntun fyrir alla, ræktun tilfinninga og félagsfærni  og fjölmenningarlegt skólastarf sem og kennsla barna af erlendum uppruna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Þessa framtíðarsýn lagði hópurinn fram í erindi á Skólaþingi sveitarfélaga 28. febrúar 2022.

Þessi grein er byggð á framangreindu erindi og gerir nánari skil ýmsu sem þar var fjallað um. Greininni er skipt í fjóra hluta: Í fyrsta hluta hennar eru kynntar nokkrar meginniðurstöður rannsóknarinnar á skólaþjónustu sveitarfélaga og því næst er reifað það nýja umhverfi sem skapast við innleiðingu laganna um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna frá sjónarhóli  skólaþjónustunnar. Í þriðja hluta greinarinnar er lýst hugmyndum rannsóknarhópsins um þjónustulíkan skólaþjónustu og greininni lýkur með nokkrum ályktunarorðum.

Skólaþjónusta í nútíð

Niðurstöður rannsóknarinnar á skólaþjónustu sveitarfélaga leiða í ljós að uppbygging þjónustunnar hefur þróast á ólíkan hátt eftir sveitarfélögum. Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu spurningakönnun býr annað hvort við eigin skólaþjónustu með föstum starfsmönnum eða eigin skólaþjónustu með aðkeyptri þjónustu í bland. Þriðja algengasta formið er samstarfsverkefni í formi byggðasamlags. Skipulag þjónustunnar er víða flókið og ábyrgðinni dreift á mismunandi þjónustusvið, svo sem fræðslusvið, félagsþjónustu og barnavernd sem ekki hafa samræmda sýn á viðfangsefnið. Samkvæmt vef Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga 17 grunnskólar af þeim 162 sem reknir eru af sveitarfélögum (sjálfstætt starfandi skólar eru undanskildir) ekki aðild að skólaþjónustu (Samband íslenskra sveitarfélaga, e.d.). Þetta eru um það bil 10% þeirra skóla sem sveitarfélög reka og samkvæmt vef Hagstofu Íslands voru 1127 nemendur í þessum skólum skólaárið 2019–2020 (Hagstofa Íslands, e.d.).

Í reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019) er mælt fyrir um að sveitarfélög skulu lýsa því í skólastefnu sinni hvernig markmiðum reglugerðarinnar um skólaþjónustu skuli náð. Þrátt fyrir þetta leiða rannsóknargögnin í ljós að fæst sveitarfélög gera þetta á markvissan hátt, og mörg alls ekki, og ekki er hægt að sjá að meðal sveitarfélaga í landinu sé nein sameiginleg stefna um viðfangsefni skólaþjónustu. Almennir kennsluráðgjafar eru fáir en meirihluti starfsfólks sálfræðingar og sérkennarar og þjónusta þeirra og talmeinafræðinga er mest áberandi í starfseminni, þrátt fyrir vilja flestra viðmælenda til að auka vægi kennsluráðgjafar. Þjónustan virðist því frekar stjórnast af fjárveitingum og sérfræði þess starfsfólks sem fæst til starfa fremur en stefnufastri skilgreiningu á þjónustunni og mannauðsstefnu sem leitast við að uppfylla hana. Jafnframt virðist sem starfssvið sérkennara og sálfræðinga hafi öðlast ákveðið lögmæti innan skólaþjónustunnar og að þessar starfsstéttir hafi á vissan hátt eignað sér starfsemi hennar.

Í öllum gögnum rannsóknarinnar kemur fram að meginviðfangsefni skólaþjónustu snúast um greiningu nemenda og skilafundi og að einhverju leyti ráðgjöf greiningaraðila í kjölfar þeirra. Nálgunin er fyrst og fremst klínísk og greiningar notaðar sem ávísun á sérúrræði og úthlutun fjármuna til þeirra. Aftur á móti er lítil áhersla á kennslufræðilega ráðgjöf til kennara og annars starfsfólks. Ein birtingarmynd þessa er að á vefsíðum skólaskrifstofanna sem kannaðar voru fundust svo til eingöngu eyðublöð til að sækja um greiningar og önnur úrræði vegna „einstaklingsvanda“ barna en ekki eyðublöð fyrir umsóknir um kennsluráðgjöf. Í mörgum viðtölum við forstöðumenn skólaþjónustu kom fram greinilegur vilji til að breyta þessum áherslum og þeir töldu einnig að vilji væri til þess í skólunum, þrátt fyrir að mikil ásókn sé af þeirra hálfu í greiningar á því sem gjarnan er kallað „vandi“ nemenda. Þrátt fyrir þennan vilja virðast aðgerðir í þá átt ekki vera markvissar og sammæli viðist skorta á milli skóla og skólaþjónustu og jafnvel við sveitarstjórnir og/eða fræðslunefndir, um hverju eigi að breyta og hvernig.

Af gögnum rannsóknarinnar er ekki hægt að ráða annað en að mismunandi skilningur sé á merkingu hugtaksins ráðgjöf og hlutverki og ábyrgð aðila að ráðgjafarferlinu. Af hálfu skólaþjónustunnar eru skilafundir sálfræðinga, þar sem niðurstöðum greininga er skilað til kennara, gjarnan skoðaðir sem kennslufræðilegur stuðningur og ráðgjöf, þó að þeir felist einkum í yfirferð á niðurstöðum greininga og ráðlegginga um aðgerðir án þess að því sé fylgt eftir hvernig kennurum gengur að taka tillit til þeirra í kennslustofunni eða metið skipulega hvaða árangri þær skila. Þrátt fyrir þetta bendir margt til þess að ekki sé litið á ráðgjöf sem lausnamiðaða samræðu milli kennara og ráðgjafa, þar sem báðir eru sérfræðingar í málefnum barnsins, heldur forskrift sem ráðgjafinn leggur kennurum til, þar sem sá síðari er valdalaus í ferlinu, ber ekki ábyrgð á því og hefur fyrst og fremst það hlutverk að fylgja forskriftinni.

Öll gögn rannsóknarinnar benda í þá átt að lítil áhersla sé lögð á stuðning við starfsfólk skóla, starfsþróun og annað þróunarstarf.  Að mati skólastjórnenda sem svöruðu spurningakönnuninni hefur skólaþjónustan takmarkað frumkvæði að stuðningi og ráðgjöf fyrir starfsfólk skóla og um skólastarfið, svo sem ráðgjöf fyrir nýliða, gerð skólanámskrár og þróun leiðsagnarmats ásamt stuðningi við þá sjálfa í starfi. Aftur á móti töldu fræðslustjórar þennan stuðning vera mun meiri og endurspegluðust þar ólík sjónarmið þessara aðila. Í viðtölum kom fram að þótt aðilar innan skólaþjónustunnar vildu veita meiri ráðgjöf á vettvangi og styðja kennara betur teldu þeir að skólastjórnendur og kennarar gerðu óraunhæfar kröfur til skólaþjónustunnar sem þeir gætu ekki staðið undir, vegna mikillar manneklu. Erfitt væri að verða við þeirri kröfu að sinna t.d. ráðgjöf á vettvangi þegar ekki væri mannskapur til þess.

Í spurningakönnun var spurt með opinni spurningu um hverjar svarendur teldu helstu áskoranir við að mæta kröfum um menntun fyrir alla. Í svörunum kom fram að þessar áskoranir snúi bæði að námslegri stöðu nemenda og líðan og hegðun nemenda, bæði andlega og félagslega, og börnum með fjölþættan vanda. Áherslurnar eru þó misjafnar milli leikskólastjóra, grunnskólastjóra og forsvarsaðila skólaþjónustu. Grunnskólastjórar líta svo á að lausnirnar felist bæði í aukinni sérfræðiþekkingu og fleiri starfsstéttum innan skólanna og öflugri stuðningi skólaþjónustunnar sem geti veitt sérhæfðari stuðning inn í skólana, stutt betur við starfsþróun kennara og veitt fleiri úrræði. Leikskólastjórarnir telja erfiðleika í mönnun og skort á fagþekkingu innan skólans mestu hindrunina og vilja að skólaþjónustan og fræðsluyfirvöld styðji betur við nám og endurmenntun kennara og skapi aðstæður sem dragi að réttindafólk sem og að auka rými hvers barns. Forsvarsaðilar skólaþjónustunnar telja helstu hindrunina fyrir framgangi stefnunnar um menntun fyrir alla felast í því að erfitt sé að fá kennara til að breyta starfsháttum sínum þannig að þeir samrýmist stefnunni og að við því þurfi að bregðast með því að efla starfsþróun þeirra.

Í spurningakönnuninni var einnig spurt, í opinni spurningu, um inntak og form samstarfs milli skólaþjónustu og félagsþjónustu. Svör þátttakenda um þetta voru keimlík. Þau lutu flest að formi samstarfsins svo sem samráði, fund­um eða teymisvinnu um málefni einstakra nemenda og lýstu enn fremur sameiginlegum rekstri, samnýtingu húsnæðis, að þjónustusviðin deili starfsmönnum að einhverju leyti eða hafi jafnvel sameiginlegan yfirmann frekar en samvinnu á jafningjagrundvelli um málefni nemenda. Áberandi hugtök sem notuð eru í þessum svörum eru: „(nemenda)vandi, erfiðleikar, málefni nemenda, greiningar/grein­ingar­teymi/greiningarúrræði, leit að úrræðum, ferlar og viðbrögð, sérkennsla, sálfræðiþjónusta og við­töl“. Mörg svör lúta samhliða að barnavernd og fjölskyldum. Fræðsla er nokkrum sinnum nefnd í sam­hengi við málefni einstakra nemenda. Einungis örfá svör (þrjú frá forsvarsmönnum skólaþjónustu og eitt frá grunn­skólastjóra) lúta að einhverju sem tengja má við starfs- eða skólaþróun.

Þrátt fyrir þá heildarmynd sem hér hefur verið dregin upp er í gögnunum að finna ýmis dæmi um markviss skref sem stigin hafa verið til þess að auka samstarf milli félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólaþjónustu með því að mynda teymi þess fagfólks sem sinnir málefnum barna og fjölskyldna þeirra og tryggja snemmtækan stuðning við börn í þeirra daglega umhverfi þar sem starfsfólk félagsþjónustu og það starfsfólk sem næst stendur barninu, til dæmis kennarar og annað starfsfólk skóla, leggst á eitt við að veita barninu nauðsynlegan stuðning (sjá t.d. Múlaþing, e.d.).

Farsældarlögin: Sýn, ákvæði og nýmæli

Með stefnunni um menntun án aðgreiningar hefur uppeldis- og félagsmótunarhlutverk skóla aukist. Stefnan gerir þær kröfur til kennara að þeir vinni að menntun og uppeldi nemenda í samvinnu við heimilin og láti sig varða uppeldi nemenda sinna, nám og námserfiðleika, erfiðar félagslegar aðstæður og persónulegan vanda. Vaxandi fjöldi greininga vegna félags- og tilfinningalegra örðugleika eða hegðunarvanda nemenda hefur áhrif á starf kennarans. Í úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi (European Agency for Special Needs and Inclusive Education, 2017) er fjallað um þennan vanda og lögð áhersla á að efla verði samstillt starf, virkja stuðningskerfi velferðarsamfélagsins á öllum skólastigum og draga úr (sjúkdóms) greiningum á vanda barna. Skýrsluhöfundar telja að með heildstæðu framboði fjölfaglegrar þjónustu, bæði innan skólans og í samstarfi þjónustukerfa utan hans megi laga námsumhverfið betur að menntun án aðgreiningar og veita kennurum, nemendum og fjölskyldum nauðsynlegan stuðning.

Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) má ætla að stigið verði stórt skref í þessa veru ef vel tekst til um innleiðingu þeirra. Eins og heiti laganna gefur til kynna, er þeim ætlað að stuðla að farsæld barna. Þá er átt við „aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar“ (2. gr.). Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar „sem á þurfa að halda“ hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi og án hindrana. Samþættingin tekur þannig að stærstum hluta til stórra málaflokka eins og menntamála, heilbrigðismála, löggæslu, félagsþjónustu og barnaverndar (2. gr.). Mikið er lagt upp úr samfellu í þjónustunni og greiðum upplýsingum á milli stofnana. Í lögunum er kveðið á um að þjónusta í þágu farsældar barna sé veitt á þremur þjónustustigum. Fyrsta stigið lýtur að grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum. Enda þótt það sé ekki tekið fram í lögunum hlýtur að verða að líta svo á að þjónusta á þessu stigi sé veitt innan leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Annað og þriðja stig lúta að sértækari þjónustu þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari eða sérhæfðari stuðningur (9.–12. gr.). Af lögunum má ráða að samþætting þjónustu hefjist ekki fyrr en fram er komin beiðni af hálfu foreldra eða barns um hana. Slíka beiðni virðast þau þurfa að bera upp við tengilið sem ýmist er starfsmaður heilsugæslu eða skóla (17.–18. gr.) eftir aldri barns, en ekki er að sjá að tengiliður geti haft frumkvæði að samþættingu þjónustu við barn eða foreldri.

Í farsældarlögunum er ekki fjallað um hlutverk einstakra stofnana í grunnþjónustu eða stigskiptri þjónustu. Hins vegar virðist kastljósinu einkum beint að vanda þjónustuþega (barna og foreldra) en síður að vanda þjónustuveitanda svo sem skóla eða annarra stofnana að koma til móts við þarfir þjónustuþeganna. Hvorki í lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) né í lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (nr. 88/2021) er vikið að skólaþjónustu sveitarfélaga. Þannig virðist áherslan beinast að klínískum úrræðum fremur en félagslegum sem miða að því að laga aðstæður og umhverfi barnsins til þess að mæta þörfum og auka farsæld þess. Gæta þarf að því að ef vinna á að farsæld barns geta þjónustuþegar verið fleiri en foreldrar og barn, ekki má undanskilja starfsfólk stofnana á borð við skóla. Mikilvægt er að þetta sé haft í huga við innleiðingu farsældarlaganna þannig að tryggt verði að öll þjónustukerfin standi jafnfætis í innleiðingunni. Tryggja þarf að sjónarmið þeirra, hvers um sig, fái ítarlega umræðu og forðast að eigna innleiðinguna starfsstéttum innan eins þjónustukerfis umfram annað.

Ástæða er til að leggja þunga áherslu á hlutverk skólaþjónustu sveitarfélaga við innleiðingu farsældarlaganna (nr. 86/2021) og jafnframt því að draga lærdóm af þeim niðurstöðum rannsóknarinnar á skólaþjónustu sem sagt er frá hér að framan. Litið verði til þess að: 1) efla skólaþjónustuna, ekki síst þar sem hún stendur höllum fæti í fámennum sveitarfélögum, 2) endurskoða þjónustustefnu skólaþjónustunnar í heild, skilgreina hlutverk hennar og skyldur í samþættingu þjónustunnar, 3) setja viðmið um gæði þjónustunnar og efla ytra mat á störfum hennar (sbr. lög nr. 88/2021; sjá einnig Birnu Svanbjörnsdóttur o.fl., 2019), 4) efla teymisvinnu kennara og annarra sérfræðinga innan skólanna (sjá nánar í næsta kafla). Hér er einnig ástæða til að vekja athygli á því að stór hluti framhaldsskólanemenda er börn í skilningi laganna en engin skólaþjónusta er rekin fyrir framhaldsskólastigið. Á því verður að ráða bót ef skólaþjónusta á að vera raunverulegur þáttur í innleiðingu farsældarlaganna.

Skólaþjónusta í framtíð

Á grundvelli niðurstaðna rannsóknar okkar og þeirra fræða og gagna sem lögð voru til grundvallar henni freistum við þess hér að setja fram þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir skólaþjónustu sveitarfélaga og þær áherslur sem við teljum mikilvægt að viðhafa í starfsemi hennar.

Viðfangsefnum skólaþjónustunnar má í grófum dráttum skipta í þrennt (sjá t.d. reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019): 1) stuðning við nemendur og foreldra, 2) stuðning (m.a. kennslufræðilegan) við starfsfólk skóla í daglegum störfum og 3) stuðning við skólann sem stofnun. Mestu varðar að líta á þessi viðfangsefni í heild (sjá mynd 1), þar sem hver þáttur styður annan og að samlegð þeirra miði að því sem reglugerðin um skólaþjónustu (2. grein) kallar „að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangefni sem upp koma í skólastarfi“.

Mynd 1. Þjónustulíkan skólaþjónustu.

Niðurstöður skólaþjónusturannsóknarinnar um klíníska áherslu þjónustunnar eru sumpart mótsagnakenndar því að á sama tíma og ásókn í ýmiss konar greiningar á vanda nemenda virðist vaxa af hálfu skólanna eru flestir óánægðir með það hvernig að greiningum er staðið og einkum hvernig þeim er fylgt eftir. Gegn hinni klínísku áherslu skólaþjónustunnar teflum við í fyrsta lagi fram félagslegu sjónarhorni. Þar er leitast við að horfa á nemandann sem hluta af félagslegu samhengi og námsrýminu þar sem hann á að menntast, í stað þess að eigna nemandanum vandann og beita klínískum greiningum og leita að „sértækum úrræðum“ til að leita að vandanum og bregðast við honum. Í öðru lagi beinum við sjónum að skólamiðaðri ráðgjöf (e. school based consultation). Þar er athyglinni beint að lausnamiðuðu samstarfi greiningaraðila, kennsluráðgjafa og starfsfólks skóla og ráðgjöfinni beint að því hvernig hægt sé að bregðast við aðstæðum nemandans. Hér er um að ræða skólasálfræðilegt sjónarhorn (Conoley og Gutkin, 1995; Gutkin og Curtis, 2009) og það beinir sjónum að nauðsyn þess að efla skólasálfræði sem fag á Íslandi. Í þriðja lagi má ítreka hér nauðsyn teymisvinnu kennara og starfsfólks með sérhæfða menntun innan skóla, svo sem sérkennara, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa og jafnvel fjölskylduráðgjafa (sjá nánar síðar í þessum kafla) og samstarf þess við ráðgjafa skólaþjónustu. Þessu starfsfólki hefur fjölgað mikið í skólakerfinu á síðustu árum og það er vitaskuld ekki síður það en starfsfólk skólaþjónustu sem hefur það hlutverk að styðja við nemendur og foreldra.

Af framangreindum sjónarmiðum leiðir að stuðningur við einstaka nemendur og foreldra er ekki síður – og kannski fyrst og fremst – stuðningur við kennara og annað starfsfólk skóla. Ábyrgðin á velferð nemandans er alltaf skólans og þeirra sem þar starfa en henni er aldrei hægt að vísa yfir á greiningaraðilann. Þess vegna er það starfsfólk skóla sem verður að koma nemendum til hjálpar þegar bjátar á, í samstarfi hvert við annað eða eftir atvikum við sérfræðinga skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu. Þetta sjónarhorn gengur út frá því að samstarfið við ráðgjafa og lausnaleit með honum, feli í sér faglegt nám starfsfólks, nýja reynslu og þar með starfsþróun þess, sem byggir upp – til lengri tíma – aukna hæfni innan skóla til að takast á við sambærileg viðfangsefni í framtíðinni og eflir hann þannig sem faglega stofnun. Þetta er að okkar mati eina leiðin til að komast út úr þeim vítahring klínískra greininga sem sagt er frá í hverju viðtalinu á eftir öðru í rannsókn okkar.

Önnur hlið á stuðningi við starfsfólk skóla er síðan almennur stuðningur við starf á vettvangi, svo sem innleiðingu námskrár, fjölbreytta kennsluhætti og þróun kennslu í tilteknum námsgreinum eða greinasviðum, bekkjarstjórnun o.s.frv. Skólamiðuð ráðgjöf getur enn fremur vísað til slíks stuðnings enda er iðulega ekki hægt að greina slík viðfangsefni frá þeim sem spretta af þörfum einstakra nemenda.

Þriðji þátturinn í því þjónustulíkani sem hér er talað fyrir og sýnt er á mynd 1 er síðan stuðningur við skóla sem stofnun. Þetta er heldur ekki afmarkað verkefni, heldur í nánu samhengi við hin tvö. Hér er um að ræða stuðning við stærri verkefni sem taka til skólans í heild eða eininga innan hans, til dæmis innra mat skóla, viðbrögð við niðurstöðum ytra mats, innleiðingu námskrár og menntastefnu til dæmis um menntun fyrir alla, ræktun félagsfærni og tilfinninga (e. social and emotional learning) (Sigrún Davíðsdóttir o. fl. 2019), fjölmenningarlegt skólastarf og kennslu barna af erlendum uppruna sem hafa annað móðurmál en íslensku (Hermína Gunnþórsdóttir og Lilja Rós Aradóttir, 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. 2017). Í stefnumótun og umræðu um skólamál og rannsóknum og fræðilegum skrifum um þróun skólastarfs er ótvíræð áhersla á þróun skóla sem námssamfélaga  og sammæli um mikilvægi þess að skólar eigi kost á stuðningi við slíkt þróunarstarf.

Þrepskiptur stuðningur og samstarf innan skóla og utan

Í íslenskri skólastefnu um menntun fyrir alla er gengið út frá því að grunnurinn að menntun og farsæld allra barna sé lagður með því að öll börn tilheyri skólasamfélagi þar sem kennarar leita sífellt leiða til að laga námskrá, námsmenningu (Nanna Christiansen, 2021) og námsumhverfi að margbreytilegum þörfum nemenda með það fyrir augum að auka gæði náms og bæta félagslegar aðstæður í skólanum. Slíkur grunnur er ekki lagður með því greina og meðhöndla „vanda“ sem eignaður er einstökum nemendum. Engu að síður þarf skólinn iðulega að bregðast við þörfum nemenda fyrir aukinn stuðning vegna náms eða á sviði tilfinninga og félagsfærni. Loks getur verið um að ræða fámennan hóp nemenda sem hefur þörf fyrir meiri og fjölþættari stuðning sem þarf að sækja til fagfólks utan skólans. Við þessum veruleika þarf að bregðast með þrepskiptingu stuðnings fagfólks innan skóla og eftir atvikum með aðstoð sérfræðinga utan hans eins og lýst er á mynd 2.

Mynd 2. Þrepskiptur stuðningur í skólastarfi (aðlagað frá Sigrúnu Daníelsdóttur o.fl., 2019).

Þegar leitast er við að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda er mikilvægt að samhæfa vinnu allra þeirra sem að málum koma til að tryggja heildræna starfshætti. Það felur í sér markvisst samstarf sérfræðinga innan skóla og mismunandi kerfa utan hans. Slík samvinna allra aðila þarf að taka jafnt til allra skólastiga, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla. Á mynd 3 er dæmi um líkan þar sem dregin er upp heildarmynd af mismunandi stoðkerfum innan og utan skóla.

Mynd 3. Heildrænir starfshættir við stuðning við nemendur (aðlagað frá Manitoba Education and Andvanced Learning, 2014).

Í innsta hring líkansins eru nemendur, kennarar og foreldrar í kjarnateymi þar sem athyglin beinist fyrst og fremst að nemandanum. Til að fá heildstæða mynd af þörfum hans og aðstæðum er mikilvægt að kennarar eigi formlegt samtal um þarfir hans og aðstæður. Þeir þurfa einnig að fá upplýsingar um viðhorf og tilfinningar nemenda og foreldra varðandi skólastarfið, námið og samskipti.

Til þess að skilja aðstæður nemandans enn betur og til að brúa bilið milli þarfa hans og skipulags náms og kennslu ætti kennari að geta leitað til annarra fagaðila sem mynda stuðningsteymi innan skólans. Á mynd 3 eru þessir aðilar staðsettir í miðhring líkansins. Þeir geta verið skólastjórnendur, samkennarar, sérkennarar, náms- og starfsráðgjafar, þroskaþjálfar, hjúkrunarfræðingur o.s.frv. Mikilvægt er að skólastjóri veiti kennslufræðilega forystu, setji sig inn í aðstæður og styðji við starf kennarans með þeim bjargráðum sem þörf er á. Hugsanlegt er að efla þurfi stuðning við kennara og mögulega tiltekinn nemanda tímabundið. Til dæmis gæti kennari þurft að efla eigin þekkingu eða hæfni á tilteknu sviði eða að komið væri á  samkennslu tveggja kennara (e. co-teaching).

Tveir innstu hringir líkansins eru umhverfi nemandans og kennarans og æskilegast er að finna lausnir innan þess umhverfis. Það er hins vegar afar mikilvægt og í raun forsenda árangurs að það sé skýrt hvernig stutt er við daglegt starf kennara með nemendum. Stuðningurinn þarf að vera sýnilegur, vel útfærður og áhrifaríkur og hafa þann megintilgang að efla kennara í því hlutverki að mæta betur fjölbreyttum þörfum og forsendum nemenda og byggja á teymisvinnu og dreifðri forystu þar sem margir hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

Í ysta hring líkansins eru þeir sérfræðingar sem alla jafna starfa utan skólans og tilheyra mismunandi kerfum, s.s. skólaþjónustu sveitarfélaganna, félags- og heilbrigðisþjónustu og jafnvel ráðgjöf frá sérfræðingum innan háskóla. Hér er að finna fagfólk eins og fjölskylduráðgjafa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, kennsluráðgjafa og heilbrigðisstarfsfólk. Skólastjórnendur, kennarar og annað fagfólk innan skólans eru virkir þátttakendur í að meta þarfir nemenda og bregðast við þeim, m.a. með því leiða saman þá aðila sem þurfa að koma að málum. Skilgreina þarf með skýrum hætti hlutverk og ábyrgð allra aðila inni í hringnum til að tryggja skilvirkni og eftirfylgd jafnt innan teymis sem og á milli teyma. Þá er einnig mikilvægt að tilgreina ákveðinn aðila sem ábyrgist að málum sé fylgt eftir. Það er breytilegt eftir atvikum hvaða aðilar mynda hvert og eitt teymi. Enda þótt skólaþjónusta sveitarfélaga sé í ysta hringnum þurfa áhrif hennar líka að ná inn í miðjuhringinn og hún þarf að styðja við það starf sem þar fer fram.

Teymisvinna

Til að skapa samfellu í stuðningi og þróun starfshátta sem lýst er hér að ofan þarf skólinn að byggja upp skýrt vinnulag við teymisvinnu. Fylgjast þarf með áhrifum þess sem gert er á þroska og framfarir nemenda og bregðast við þegar árangur er ekki í samræmi við það sem vænst er. Skilvirk teymisvinna getur stuðlað að betri yfirsýn yfir mál nemenda og viðbrögð skólans. Mikilvægi ígrundunar um hið daglega starf skiptir þess vegna miklu máli og mikilvægt að skólastjórnendur hlusti eftir viðhorfum kennara og að allir aðilar leiti í sameiningu leiða og lausna sem hafa það að markmiði að þróa starfið áfram í þágu allra nemenda. Kennarar og stjórnendur eru þarna lykilaðilar.

Mynd 4 sýnir líkan af teymisvinnu sem gefur til kynna samsetningu og virkni teyma og hvernig ólíkir aðilar vinna saman innan þeirra (Hylander og Skott, 2020).

Mynd 4. Samsetning og virkni teyma (Hylander og Skott, 2020).

Stig 0: Hér er teymisvinna ekki til staðar þrátt fyrir að kennarar og annað fagfólk sé starfandi bæði innan og utan skólanna (sbr. gula og bláa hringinn í mynd 3). Ekki er heldur um að ræða forystu skólastjóra um teymisvinnuna. Við þessar aðstæður reynir hver að gera sitt besta með lítilli sem engri samhæfingu og starfshættir einkennast af því að „slökkva elda“ fremur en að samhæfa aðgerðir og vinna að sameiginlegum lausnum. Heildaryfirsýn yfir stöðu nemenda er þar af leiðandi ekki til staðar.

Stig 1: Á þessu stigi hefur verið skipulögð viðbragðsáætlun en starfshættir aðila hafa ekki verið samhæfðir. Teymi kennara hafa verið mynduð en starfshættir aðila innan þeirra eru ekki samhæfðir með áætlunum um hlutverk og ábyrgð. Kennarar hafa einkum samband beint við aðra sérfræðinga innan skólans (sjá mynd 3) til dæmis ef eitthvað bjátar á og viðbrögð einkennast gjarna af því að fá fleiri stuðningsaðila til starfa.

Stig 2: Hér hafa stuðningsteymi  verið mótuð og hugmyndir settar fram um hvernig mismunandi fagaðilar í teyminu geta tengst kennurum, til dæmis með því að bjóða mögulega ráðgjöf. Á sama tíma eru hnökrar á samskiptum og þau ekki fullmótuð, því enn er gjá milli mismunandi aðila og þeirra hlutverka og ábyrgðarsviðs.

Stig 3: Á þessu stigi er teymisvinnan orðin að eðlilegu verklagi og hluti af menningu skólans. Það hafa verið myndaðir kjarnar (sameindir) sem binda saman ólíka aðila í eina samverkandi heild með skilgreind hlutverk og ábyrgð.

Lokaorð

Það blasir við að skólaþjónusta í höndum sveitarfélaga hefur ekki þróast eins og væntingar voru um þegar þau tóku við henni 1996. Stefnumótun og forysta sveitarfélaganna sjálfra um þennan mikilvæga málaflokk er ekki nægilega markviss. Skólaþjónustan sem málaflokkur er ekki byggð á mótuðu þjónustulíkani sem styðst við fræðilegar eða skólapólítískar forsendur og gæti orðið bakland fyrir þjónustustefnu og forystu skólaþjónustunnar sjálfrar í einstökum sveitarfélögum. Stuðningur við starfsfólk skóla og skóla sem stofnanir hefur orðið undir í samkeppni við greiningar – sem eru fyrst og fremst á klínískum forsendum. Skólaþjónusta er mismunandi eftir sveitarfélögum og töluverður fjöldi skóla er án virkra tengsla við hana.

Skólaþjónusta sveitarfélaga stendur einnig á krossgötum vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu við börn (nr. 86/2021), laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (nr. 88/2021) og  nýrrar menntastefnu (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021). Þessi lög eru án efa framfaraskref, en þau eru ekki lög um skólaþjónustu og það er ekki hægt að sjá á hvern hátt þau gera ráð fyrir henni í þeim skilningi sem kynntur hefur verið í þessari grein. Lögin fjalla fyrst og fremst við viðbrögð sem beinast að barninu sjálfu: mat – greiningar – eftirfylgd – fremur en námsumhverfi barna og aðstæður sem þeim eru búnar í skólum. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að sveitarfélögin sjálf marki þjónustunni skýrt hlutverk og stöðu í framkvæmd laganna á þann hátt sem lagt er til í greininni. Því aðeins að það verði gert getur þjónusta við börn orðið heildstæð í þeim skilningi að jafnvægi verði milli allra þátta hennar og ekki skilið á milli þess sem beinist að barninu sjálfu annars vegar og þess sem beinist að námsumhverfi þess innan skóla hins vegar.

Bæði félags- og skólaþjónusta eru lögbundin viðfangsefni sveitarfélaga. Í framangreindum lögum eru afdráttarlaus ákvæði um skyldur sveitarfélaga á sviði félagsþjónustu sem þau geta með engu móti vikist undan. Ef félagsþjónustan og skólaþjónustan eiga raunverulega að fléttast saman við innleiðingu laganna verður það sama að gilda um bæði þjónustukerfin og þau þurfa að vera á sama stað og á sömu hendi. Í þessari grein hafa verið færð rök fyrir því að meginviðfangsefni skólaþjónustu verði að fléttast saman og styðja hvert annað. Þess vegna verður að telja ólíklegt að einhvers konar miðlæg skólaþjónustustofnun – með eða án aðkomu stofnana á vegum ríkisins – sem hefði fyrst og fremst starfsþróun og skólaþróun á sinni könnu, megni að byggja upp þá heildstæðu skólaþjónustu sem lýst er í greininni. Með slíku fyrirkomulagi er hætt við að stuðningur við börn og foreldra þeirra sitji eftir í því klíníska fari sem hann er nú, slitinn úr samhengi við starfsþróun þeirra sem starfa í skólunum og almenna þróun skólastarfs. Jafnólíklegt er að miðlæg skólaþjónustustofnun stuðli að þeirri samþættingu félags- og skólaþjónustu sem telja verður forsendu fyrir skilvirkri innleiðingu laganna um samþættingu þjónustu við börn. Þrátt fyrir það gæti skólaþjónusta sveitarfélaga haft ávinning af miðlægum bakhjarli eða samstarfsvettvangi fyrir faglegt starf sitt, rétt eins og annað skólastarf á hendi sveitarfélaga; ekki til að taka yfir verkefni sveitarfélaga á sviði skólaþjónustu eða draga úr ábyrgð sveitarfélaga á þeim heldur til að valdefla og styðja samþætta svæðisbundna þjónustu í þágu skóla, nemenda og foreldra.[i]

Mjög mikilvægt er að skólaþjónusta verði gerð sýnileg í þeirri samþættingu þjónustu sem hér er til umræðu. Sveitarfélög þurfa að skilgreina betur en nú er þá þjónustu sem þeim ber að veita og sameinast um þjónustulíkan og mannauðsstefnu sem skapar jafnvægi milli þjónustuþátta og hlutverka, skilgreinir skiptingu ábyrgðar milli skóla og skólaþjónustu og leitast við að mennta starfsfólk til að vinna samkvæmt þjónustulíkaninu. Jafnframt þarf að gera sömu kröfur til skólaþjónustu og annarra þátta farsældarþjónustu. Til þess þarf meðal annars að skilgreina viðmið um skólaþjónustu á sama hátt og kveðið er á um í lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og fylgja því eftir að hún sé veitt samkvæmt þeim á sama hátt og aðrir þættir farsældarþjónustunnar. Það er engin ástæða til að skólaþjónustan sé undaþegin slíkum ákvæðum. Jafnframt verður ríkið, sem rekstraraðili framhaldsskóla, að svara því hvernig á að tryggja framhaldsskólum skólaþjónustu í þágu þróunar skólastarfs og farsældar barna í framhaldsskólum.

Skólaþjónusta sem stendur undir nafni verður ævinlega lausnamiðað samstarf skóla og þjónustustofnana utan þeirra: Um þá almennu starfshætti sem eru undirstaða farsældar allra barna í skólanum, um þau innri stoðkerfi skólans sem grípa þá nemendur sem þurfa á auknum stuðningi að halda innan skólans og um þá nemendur sem þurfa mikinn stuðning og jafnvel meðferð utan skólanna (sjá myndir 1–4).

Oft er spurt hvernig fámenn sveitarfélög með dreifðri búsetu eigi að vera þess megnug að standa undir skólaþjónustu. Það er út af fyrir sig mikilvæg spurning en hún er ekki gild ef hún snýr að skólaþjónustunni einni. Spurningin verður að vera sú hvernig fámenn sveitarfélög með dreifðri búsetu séu þess megnug að standa undir samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Til þess að svara þeirri spurningu er ekki hægt að taka einn þátt þjónustunnar út fyrir sviga – svarið verður að taka til þeirra allra. Það er þó ekki viðfangsefni þessarar greinar, því greiningin sem hér er sett fram og lausnirnar sem bent er á snerta starfshætti og þjónustustefnu skólaþjónustu jafnt í fjölmennum sveitarfélögum sem fámennum.

Heimildir

Birna Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson og Sigríður Margrét Sigurðardóttir. (2020a). Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla: Niðurstöður spurningakönnunar til leikskólastjóra, grunnskólastjóra og forsvarsaðila skólaþjónustu. https://www.unak.is/is/rannsoknir/rannsoknir-vid-ha/skolathjonusta-sveitarfelaga-vid-leik-og-grunnskola-stefna-umgjord-fjarmognun-og-starfshaettir

Birna Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson. (2020b). Skólaþjónusta sveitarfélaga við leik- og grunnskóla: Niðurstöður tilviksrannsóknar. https://www.unak.is/is/rannsoknir/rannsoknir-vid-ha/skolathjonusta-sveitarfelaga-vid-leik-og-grunnskola-stefna-umgjord-fjarmognun-og-starfshaettir

Birna María Svanbjörnsdóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir, Trausti Þorsteinsson, Hermína Gunnþórsdóttir og Jórunn Elídóttir. (2021).  Skólaþjónusta sveitarfélaga: Starfsþróun og skólar sem faglegar stofnanir. Tímarit um uppeldi og menntun, 30(2), 3–26. https://doi.org/10.24270/tuuom.2021.30.5 

Birna Svanbjörnsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Laufey Petrea Magnúsdóttir og Rúnar Sigþórsson (2019). Menntun fyrir alla: Horft fram á veginn. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/MFA_horft%20fram%20a%20veginn_starfshops_vefur.pdf

European Agency for Special Needs and Inclusive Education. (2017). Menntun fyrir alla á Íslandi: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx-?itemid=cca962f5-be4f-11e7-9420-005056bc530c

Conoley, J. C. og Gutkin, T. B. (1995). Why didn‘t – why doesn‘t – school psychology realize its promise? Journal of School Psychology, 33(3), 209–2017.

Gutkin, T. B. og Curtis, M. J. (2009). School-based consultation: The science and practice of indirect service delivery. Í T. B. Gutkin og C. R. Reynolds (ritstjórar), The handbook of school psychology (4. útgáfa, bls. 591–635). Wiley.

Hagstofa Íslands: Grunnskólar. (e.d.). https://www.hagstofa.is/talnaefni/samfelag/menntun/grunnskolastig

Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir. (í ritrýningu). Skólaþjónusta sveitarfélaga við nemendur og foreldra: Skipulag, inntak og tilgangur.

Hermína Gunnþórsdóttir og Lilja Rós Aradóttir. (2021). Þegar enginn er á móti er erfitt að vega salt: Reynsla nemenda af erlendum uppruna af íslenskum grunnskóla. Tímarit um uppeldi og menntun, 30(1), 51–70. https://doi.org/10.24270/tuuom.2021.30.3

Hermína Gunnþórsdóttir, Stéphanie Barillé og Markus Meckl. (2017). Nemendur af erlendum uppruna: Reynsla foreldra og kennara af námi og kennslu. Tímarit um uppeldi og menntun, 26(1–2), 21–41. https://doi.org/10.24270/tuuom.2017.26.2

Hylander, I. og Skott, P. (2020). Samordning för ett hållbart elevhälsoarbete. FoU skriftserie nr. 10/2020. https://webbutiken.spsm.se/globalassets/publikationer/filer/samordning-for-ett-hallbart-elevhalsoarbete-tillganglig-version.pdf

Lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.

Manitoba Education and Advanced Learning. (2014). Supporting inclusive schools: A handbook for resource teachers in Manitoba schools. https://www.edu.gov.mb.ca/k12/specedu/res_teacher/pdf/sis_resource_teachers_mb_schools.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2021). Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaráætlun 2021–2024. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Menntastefna_2030_fyrsta%20adgerdar%c3%a1%c3%a6tlun.pdf

Múlaþing: Austurlandslíkanið – Velferð barna – Allra ábyrgð. (e.d).

Nanna Kristín Christiansen. (2021). Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? Höfundur.

Reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019.

Samband íslenskra sveitarfélaga: Skólaskrifstofur (e.d). https://www.samband.is/verkefnin/fraedslumal/skolaskrifstofur

Sigríður Margrét Sigurðardóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Kjartan Ólafsson og Rúnar Sigþórsson. (2022). Educational leadership regarding municipal school support services in Iceland. Educational Management Administration and Leadership. https://doi.org/10.1177/17411432221076251

Sigrún Daníelsdóttir o.fl. (2019).  Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi: Tillögur starfshóps. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item38658/skyrsla-starfshops-um-gedraekt-i-skolum.


 

[i]Hér má benda á nýstofnuð samtök átta skoskra fræðsluumdæma undir heitinu: Northern Alliance, sjá: https://northernalliance.scot. Ennfremur á nýja skýrslu um skoska menntakerfið: Muir, K. (2022). Putting learners at the centre: Towards a future vision for Scottish Education. https://www.gov.scot/publications/putting-learners-centre-towards-future-vision-scottish-education/documents


Birna María B. Svanbjörnsdóttir (birnas(hjá)unak.is) er dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún starfaði sem grunnskólakennari um árabil, var forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri 2010-2016 og lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2015. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum lúta að gæðum kennslu, starfsþróun kennara, starfstengdri leiðsögn, og uppbyggingu og þróun faglegs lærdómssamfélags.

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina(hjá)unak.is) er prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur starfað við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2014. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum tengjast félagslegu réttlæti í menntun, skóla og námi án aðgreiningar, fjölmenningu og fjöltyngi, fötlunarfræði, menntastefnu og framkvæmd. 

Rúnar Sigþórsson (runar(hjá)unak.is) er prófessor emeritus við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann lauk meistaraprófi í skólaþróun frá Háskólanum í Cambridge, Englandi 1996 og doktorsprófi í menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 2008. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að námskrá, kennslutilhögun, námi og námsmati, ásamt stefnumótun og þróun skólastarfs á þessum sviðum.

Jórunn Elídóttir (je(hja)unak.is) er dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún var á árum áður leikskólasérkennari, síðar sérkennari og sérkennsluráðgjafi í grunnskólum. Hún lauk doktorsprófi frá Worcester University 2002 . Kennslu- og rannsóknarsvið hennar eru menntun án aðgreiningar, sérkennslufræði, leikskólafræði og málefni er varða ættleidd börn.

Sigríður Margrét Sigurðardóttir (sigridurs(hjá)unak.is) er lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún lauk grunnskólakennarafræðum frá Danmörku 1998, M.Ed.-gráðu í menntunarfræði með áherslu á stjórnun skólastofnana frá Háskólanum á Akureyri 2010 og er í doktorsnámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur leyfisbréf til kennslu á leik- og grunnskólastigi og reynslu úr grunnskóla sem kennari og skólastjóri. Helstu rannsóknarviðfangsefni hennar hafa verið á sviði forystu, skólastjórnunar, skólaþróunar, starfsþróunar og stefnumótunar. Síðustu misseri hefur hún rannsakað menntaforystu og skólaþjónustu sveitarfélaga.

Trausti Þorsteinsson er fyrrverandi dósent við Kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Auk þess starfaði hann sem grunnskólakennari, skólastjóri og fræðslustjóri á Norðurlandi-eystra og lauk MEd-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 2001. Megináherslur hans í kennslu- og rannsóknum lutu að skólastjórnun, starfsþróun kennara og fagmennsku.


Grein birt: 1/6/2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp