Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

farsældarlögin

Sprettur – Snemmtæk og samþætt þjónusta í þágu farsældar barna

í Greinar

Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir og Óskar Sturluson

 

Hvernig getum við veitt snemmtæka og samþætta þjónustu í nærumhverfi barna í dreifðari byggðum landsins?

Undirrituð fengu tækifæri til að þróa verkefni með það að markmiði að bjóða snemmtækan stuðning til barna og foreldra þeirra. Frumvarp að farsældarlögunum var haft til hliðsjónar og gætt að því að réttindi barna væru virt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Afurðin er þverfaglegt teymi sem kallast Sprettur. Heitið vísar til þess að hvert mál er unnið hratt og af krafti í skamman tíma. Vinna teymisins fer fram í grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar. Þar gefast tækifæri til að vinna markvisst í nærumhverfi barnsins í samstarfi við starfsfólk skólanna og aðra sem hafa með málefni barnsins að gera, s.s. heilsugæslu og félagsþjónustu.

Þjónustan, sem veitt er í Sprett-teymum, er í flestum tilvikum annars stigs þjónusta samkvæmt skilgreiningu farsældarlaganna þar sem „einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur“ er veittur og því er málastjórn í höndum starfsmanns fjölskyldusviðs. Lesa meira…

Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag

í Greinar

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Árið 2020 kynnti rannsóknarhópur við Kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrstu niðurstöður rannsóknar á skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla í tveimur skýrslum (Birna Svanbjörnsdóttir o. fl. 2020a, 2020b). Enn fremur hefur rannsóknarhópurinn birt tímaritsgreinar um niðurstöður rannsóknarinnar (Birna María Svanbjörnsdóttir o. fl., 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. í ritrýningu; Sigríður Margrét Sigurðardóttir o. fl. 2022) og kynnt þær á ráðstefnum og málþingum. Rannsóknin beindist að því að kanna umgjörð og starfshætti skólaþjónustunnar og hvernig sveitarfélögin standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019).

Þrenns konar gagna var aflað í rannsókninni: Í fyrsta lagi var spurningakönnun send til skólastjóra í leik- og grunnskólum og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu. Þeir sem svöruðu fyrir hönd skólaþjónustunnar voru í flestum tilvikum yfirmenn skólaskrifstofa, s.s. fræðslustjórar, en gátu einnig verið sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem ekki reka skólaskrifstofu. Í öðru lagi var tilviksrannsókn þar sem tekin voru nítján viðtöl við fræðslustjóra eða yfirmenn skólaskrifstofa, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólaskrifstofa, svo sem sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa og talmeinafræðinga í fimm völdum tilvikum. Viðtalsramminn tók mið af spurningakönnuninni og miðaði að því að fá efnismeiri svör um ýmsa þætti en þar fengust. Í þriðja lagi voru greind helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaganna í tilvikunum fimm þar sem viðtölin voru tekin. Lögð var áhersla á að greina hversu skýr stefna sveitarfélaganna um skipulag og inntak skólaþjónustu birtist á vefsíðum þeirra, hvers konar þjónustustefna birtist í umfjöllun skólaskrifstofa sveitarfélaganna um eigin starfsemi og hver væri umgjörð, skipulag og starfsskilyrði skólaþjónustunnar. Að auki var kannað hvers konar eyðublöð fyrir notendur þjónustunnar eru tiltæk og enn fremur var kannað aðgengi að ýmsum upplýsingum um skólaþjónustuna, svo sem um starfsfólk, starfslýsingar og samstarf við önnur þjónustukerfi. Lesa meira…

Fara í Topp