Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Raddir af vettvangi

í Greinar

Anna María Gunnarsdóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Jón Torfi Jónasson

 

Í þessari grein segir af tilraunaverkefni sem Kennarasamband Íslands réðist í með fulltingi Jóns Torfa Jónassonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur vorið 2021. Að hálfu KÍ vann Anna María Gunnarsdóttir að verkefninu í samráði við Framkvæmdarstjórn skólamálaráðs KÍ og skólamálanefndir og fagráð aðildarfélaga.

Hlutverk Kennarasambands Íslands er margþætt. Það gætir ekki einungis hagsmuna og réttinda félaga sinna heldur hefur aukinheldur þau hlutverk að auka samstarf kennara, efla fagvitund, efla skólastarf og stuðla að framförum í skólamálum (Kennarasamband Íslands, 2022). Til að sinna þessum hlutverkum eru sjálfsagt margar leiðir en mjög mikilvægt er fyrir forystufólk í Kennarasambandinu að vera í sterkum tengslum við sitt félagsfólk og byggja umræður og stefnumótun á því sem sprettur úr dagsins önn í skólastarfinu sjálfu.

Megintilgangur verkefnisins var að þróa aðferð fyrir samtök kennara til að tengjast vettvangi og rækta umræðu um fagleg málefni við kennara og skólastjórnendur og virkja þannig raddir skólafólks af vettvangi innan raða KÍ , meðal annars til að það heyri hvert í öðru og að sjónarmið fagfólks sem í skólunum vinnur berist víðar. Slíkt samtal getur hvort tveggja nýst Kennarasambandinu við stefnumótun og vinnu að faglegum málefnum og tengt starfandi kennara við samtök sín, vettvang og faglega umræðu.

Ákveðið var að kafa sérstaklega ofan í málefni sem hefur verið ofarlega á baugi, bæði hér heima og á alþjóðavísu, og reyna að fá fram sjónarhorn þeirra sem í skólunum starfa. Að þessu sinni var ákveðið að stofna til umræðu um gögn og gagnavæðingu í skólastarfi, en undanfarna tvo áratugi eða svo hefur áhersla á gögn og gagnasöfnun í skólastarfi víða verið mikil og mjög sýnileg í stefnumótun á alþjóðavettvangi. Menntun skiptir alla máli en spurningin er hvort vegurinn sé fetaður í rétta átt, m.a. hvað varðar áherslu á gögn. Bæði á grunn- og framhaldsskólastiginu fer fram fjölþætt og nokkuð fyrirferðarmikil gagnasöfnun um árangur og hæfni nemenda og fjölmarga fleiri og ólíka þætti skólastarfs. Þar við bætast námsstjórnunarkerfi þar sem árangur nemenda er skráður miðlægt og opinberar mælingar eins og samræmdu prófin og síðan PISA gögnin sem margir þekkja.

Því vaknar spurningin í hugum margra sem starfa í skólum um hvort tíma og fé sem varið er til allra þessara verkefna, ekki síst í viðamikið prófa- og matskerfi sem og innra og ytra mat í skólastarfi, sé örugglega vel varið í þágu nemenda eða hvort áherslurnar ættu að vera aðrar. En aðalatriðið með því að efla til þessa samtals var að kalla fram sjónarmið af vettvangi um þessi mál. Þess ber að geta að þegar til samræðnanna var efnt voru samræmd próf og framkvæmd þeirra eins og þau hafa tíðkast að breyttu breytanda í íslenskum grunnskólum frá árinu 1976 í töluverðu uppnámi en síðan þá hafa þau verið lögð af í núverandi mynd og nýtt verkfæri, Matsferill, kemur í þeirra stað (Stjórnarráð Íslands, 2022).

Rétt er að árétta að verkefninu var ekki ætlað að fá fram einhverskonar sameiginlega skoðun eða sjónarmið heldur ólíkar raddir, ólíkar skoðanir sem ættu svo að verða efniviður áframhaldandi lifandi umræðu á öllum vettvangi skólamála. Einstaklingar setja fram sjónarmið sem sum vilja taka undir eða andmæla. Önnur sjá tilefni til að benda á að önnur sjónarhorn vanti og einhver telja sig hafa tilefni til að andæfa tilteknum staðhæfingum eða leiðrétta. Raddir úr öðrum hópum telja sig ugglaust vilja einnig koma að niðurstöðum rannsókna eða pælingum sem þeim finnst vanta. Ef til tekst eins og vonað er þá gæti með þessu móti skapast lifandi umræða á faglegum vettvangi skólans. Þar ætti samtalið sjálft að vera aðalatriði málsins.

Fyrirkomulag verkefnisins

Verkefnið fól í sér þrjú samtöl við kennara úr grunn- og framhaldsskólum og skólastjóra úr grunnskólum. Viðmælendur voru valdir með þeim hætti að aðildarfélög og skólamálanefndir Félags framhaldsskólakennara, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands auglýstu innan sinna raða eftir viðmælendum til að taka þátt í faglegu samtali um skólastarf. Lagt var upp með að fá fimm til sex viðmælendur í hvert samtal sem fór fram í húsnæði Kennarasambandsins. Þegar kom að atburðunum urðu einhver forföll og því var fjöldi aðeins mismunandi.

Í fyrsta samtalinu, sem fór fram þann 17. maí árið 2021, tóku þátt fjórir grunnskólakennarar sem allir kenna nemendum í fjórum efstu bekkjum grunnskólans. Einn kennarinn kennir í Reykjavík en hin þrjú í nágrannasveitarfélögum. Þrír kennaranna höfðu frá 10-30 ára reynslu en einn þeirra var að hefja sitt þriðja kennsluár. Samtalið við framhaldsskólakennarana fór fram degi seinna og í því tóku þátt sex framhaldsskólakennarar. Einn þeirra kennir ensku, einn líf- og efnafræði, tveir eðlisfræði og stærðfræði, einn sögu og einn íslensku. Flest höfðu þau 10-20 ára reynslu en tvö fimm ár eða minna. Síðasti hópurinn var kallaður til 26. maí. Þá voru það fjórir skólastjórar úr grunnskólum, þrír úr Reykjavík og einn úr nágrannasveitarfélagi. Þrír voru búnir að vera í starfi skólastjóra í rúmlega 15 ár og einn í rúm fimm ár. Allir höfðu fyrir þann tíma starfað við kennslu og sem aðstoðarstjórnendur.

Valgerður S. Bjarnadóttir stýrði öllum samtölunum en Jón Torfi og Anna María komu einnig inn í umræðurnar einkum til að ydda tilteknar spurningar. Notast var við hálfopinn spurningaramma sem þó var aðlagaður að hverjum hóp til að leiða samræðurnar áfram. Sem fyrr segir var viðfangsefni fundanna umræða um notkun gagna í skólastarfi. Í öllum tilfellum var byrjað á að fara yfir hvað væri átt við með gögnum. Má þar nefna námsmat af ýmsu tagi, innra og ytra mat, samræmd próf og alþjóðlegar mælingar, greiningargögn og niðurstöður rannsókna. Umræðan hverfðist svo um hvernig gögn væru hluti af daglegu starfi viðmælenda, hvers konar gagna væri aflað á vettvangi skólans, gagnsemi þeirra og aðgengi, hvernig þau væru notuð til að bæta skólastarf, leiðsagnargildi og stýringu.

Hver fundur tók um 90 mínútur. Leyfi var fengið til að hljóðrita samtölin og í kjölfarið voru þau afrituð og aðalatriði umræðunnar greind. Eftir viðtölin var viðmælendum þakkað fyrir þátttökuna með tölvupósti og boðið að bæta við og tjá sig um hvernig þeim hefði þótt að taka þátt. Jafnframt var upptökum eytt. Samtölin gengu vel og allir viðmælendur höfðu skoðanir á efni umræðunnar í tengslum við starf sitt í þrengra og víðara samhengi sem þeir vildu gjarnan ræða. Um sumt ríkti einhugur en annað ekki. Í öllum tilvikum komu fram mörg skýr og vel rökstudd skilaboð eða þemu. Í stað þess að gera grein fyrir öllum sjónarmiðum verður hér farin sú leið að velja fimm sameiginlega þræði sem komu skýrt fram í öllum umræðunum og nokkur dæmi tekin til að skýra þá betur. Með því móti teljum við okkur virða áherslur þátttakenda. Það skiptir miklu máli að draga fram að hér á eftir fara aðeins sjónarmið þeirra sem taka þátt, en eru hvorki endilega sjónarmið Kennarasambandsins né þeirra hópa sem þátttakendur tilheyra.

Niðurstöður

Þeir fimm sameiginlegu þræðir sem hér verður greint frá beinast að i) togstreitu um formlega ytri mælikvarða, eins og samræmd próf og PISA, ii) að dýrmætustu gögnin eru þau sem verða til í samskiptum á vettvangi skólans, iii) takmörkuðu leiðsagnargildi innra og ytra mats að mati þátttakenda, iv) samskiptum milli aðila innan og utan kerfis tengd upplýsingum og v) fagmennsku kennara og umræðum um kjarna skólastarfs.

Togstreita um formlega ytri mælikvarða eins og samræmd próf og PISA

Allir viðmælendur virtust sammála um að hlutverk formlegra ytri mælikvarða eins og PISA og samræmdra prófa væri óskýrt og að samræmd próf væru stýrandi og hvorugt þessara verkfæra væri nógu góður mælikvarði til leiðsagnar í skólastarfi. Þá komu fram mjög athugasemdir og efasemdir um hvers vegna við ættum yfirhöfuð að taka þátt í prófum eins og PISA og hvernig það gangi að rökstyðja tilgang formlegra ytri mælikvarða án þess að ræða fyrst tilgang menntunar. Réttmæti beggja prófanna var dregið í efa fyrir margra hluta sakir. Ekki vegna þess að endilega væri andstaða við slík próf, heldur vegna þess hvernig framkvæmd og fyrirlögn þeirra er háttað. Nefnt var að þau skorti tengingu við námsskrá, mælikvarðar séu of þröngir, í prófunum sé ekki prófað úr skilningi, heldur fremur staðreyndum. Þá þótti viðmælendum prófin ekki næm á fjölbreytileika og ólíkar aðstæður nemenda, skóla, skólahverfa, og landshluta. Allir viðmælendur töldu að gögn ættu fremur að snúast um lykilþætti menntunar og skólastarfs en auðmælanlega utanbókarkunnáttu.

Hvað varðar samræmdu prófin sérstaklega kom fram að þau væru of stýrandi en á sama tíma ekki nægilega góður mælikvarði. Samræmd próf ætti eingöngu að nota fyrir skólana, kennarana, nemendurna sjálfa, námi þeirra til hagsbóta. Einnig voru viðmælendur sammála um að samkeppnisumhverfið og fjölmiðlaumfjöllun vegna samræmdra prófa væri ósanngjörn og að samræmd próf eigi alls ekki að nota til að auka samkeppni milli skóla eða dæma þá á nokkurn hátt.

Sem dæmi um ummæli grunnskólakennara sem styðja þetta má nefna þessi tvenn:

Ég er alls ekki á móti samræmdum prófum. Þau eru bara ekki í takti við námskrána.

Annar grunnskólakennari komst svona að orði:

Mér finnst alveg sjálfsagt að hafa samræmd próf. Þetta er fínt tæki ef við erum að nota þetta fyrir nemandann, fyrir kennarann og fyrir námsárangur og framvindu í námi. En ég meina, ég var í skóla sem æfði börn til þess að hífa upp töluna. Ef samræmdu prófin eru notuð svona þá eru þetta ónýtt tæki.

Þá kom fram að samræmd próf stýrðu og endurspegluðu vægi ákveðinna námsgreina í skólunum og ýttu undir að sumar greinar yrðu mikilvægari en aðrar.

Hvað varðar PISA umræðuna voru viðmælendur sammála um að þeir sem störfuðu í skólunum reyndu að aftengja sig umræðunni og segðu að prófin vantaði raunverulega tengingu við skólastarf. Nemendur legðu sig ekki fram því prófin hefðu ekki gildi fyrir þá í sjálfa. Þá væru nemendur ekki vanir þessari gerð af prófum og þætti þau óskiljanleg. Skólastjórnendur gerðu minna úr því að PISA prófin væru stýrandi en sögðu að þau væru truflandi vegna yfirborðskenndrar fjölmiðlaumfjöllunar, þar sem skólakerfið væri dæmt út frá þeim og því væri alls ekki hægt að segja að þau kæmu skólafólki ekki við eða kæmu ekki við það.

Einnig var nefnt að gögn eins og úr PISA líti fram hjá góðum hlutum sem séu að gerast í íslensku skólakerfi. Hlutum eins og að nemendum líði yfirleitt vel í skólanum og að í þeim ríki jöfnuður. Skólastjóri einn komst svo að orði:

Við erum ýmist alveg rosalega, oftast á móti PISA eða við kunnum einhvern veginn ekki alveg að sortera eða forgangsraða. Þannig að þessi gögn eru bara orðið eitthvað sem við þurfum að samþykkja inn í skólann og kunna að umgangast. Við þurfum að viðurkenna þau og við þurfum líka að kunna að búa ekki til gögn sem við þurfum ekki. Togstreitan er um hvernig gögn eru notuð. Vissrar tortryggni gætir vegna gagnasöfnunar utan frá og hún er töluð niður.

Annar orðaði áhyggjur sínar svo:

Hver á að taka gögnin og vinna með þau áfram? Maður þarf sem skólastjóri náttúrulega að velta því fyrir sér. Hvað gerum við við þessi gögn sem við fáum hérna? Þau eiga ekki bara að fara ofan í skúffu og það þarf einhvern veginn að forma það.

Myndin fengin af heimasíðu Menntamálastofnunar.

Óhjákvæmilega leiðir þetta hugann að því hvort að neikvæðni í garð formlegrar, ytri gagnasöfnunar sé vegna óöryggis þegar kemur að því að rýna í og nýta sér þessa gerð gagna. Getur verið að stjórnendur og kennara skorti hreinlega þekkingu og tíma til að nýta gögnin og greina á milli þess sem er gagnlegt og þess sem er það ekki, eins og örlaði á í umræðunni? Eða skortir matið sem þarna fer fram tengingu við skólastarf og nám nemenda? Ólík sjónarmið um þetta eru að okkar mati skýr dæmi um efni sem gagnlegt er fyrir skólasamfélagið að ræða innan sinna raða, en það má að vísu segja um hvaðeina sem við nefnum.

Gögn sem verða til í samskiptum á vettvangi skólans dýrmætustu gögnin

Viðmælendur töldu að talsverður hluti þeirra gagna sem safnað væri tengdust einungis kerfinu og yrðu beinlínis til í þágu þess vegna aðgengis eða flokkunar nemenda vegna frekara náms. Skólastjórnendur ræddu að því miður væri það þannig að sum gögn nýttust ekki í skólastarfinu. Stundum væru til gögn um einhverja tiltekna stöðu sem þyrfti að bregðast við, t.d. varðandi einstaka nemendur en það væru engin úrræði tiltæk. Gagnasöfnun og mat á skólastarfi væri þannig sumpart í þágu kerfisins frekar en nemenda og menntun nemenda liði fyrir kröfur um gagnasöfnun, enda væri dýrmætum tíma varið í að prófa nemendur og safna gögnum. Tíma sem hægt væri að verja í nám.

Þróunin bæði í grunn- og framhaldsskólum, samkvæmt viðmælendum okkar, virðist vera sú að hverfa frá stórum lokaprófum í annarlok í einhvers konar mat sem dreifist á alla önnina og minni hluti námsefnis er tekinn fyrir í hvert sinn og mikil vinna fer í að passa upp á svindl, passa að nemendur haldi sig við efnið og passa upp á að verkefnum sé ekki stolið. Þetta síðasta á kannski einkum við um framhaldsskólann en leiðir óneitanlega hugann að því hvar ábyrgð á námi nemenda liggi og hvaða augum eigi til dæmis að líta þau gögn sem búa í höfði kennara og eru byggð á sífelldum samskiptum við nemendur og reynslu hans og fagmennsku. Hvaða augum ætti að líta samtöl við nemendur í þessu ljósi?

Svona komust tveir grunnskólakennarar að orði um mikilvægi samtalsins:

Ég er alltaf að skrá niður, sérstaklega þegar ég sé að þau komast ekki áfram. Mér finnst það lykillinn við námsmatið. […] Námsmat er ekki til þess að stimpla þau. Námsmat á að vera menntandi. Að þau geti tekið matið og farið lengra með það og viti hvar þau eru stödd og þannig að samtal við nemendur í námsmati verður að eiga sér stað.

Þannig að þessi gögn og kaflapróf og síðan finnst mér að þetta samtal og að vera með verkefnabókina. Krakkarnir voru með sína verkefnabók og maður tók bara mynd eða setti inn í möppuna sína. Þetta voru gögn sem urðu til frá viku til viku með stöðu nemenda og alltaf í samtali við hann um það sem hann var að gera, þannig að maður kynntist honum miklu betur.

Í framhaldi af umræðunum um mat í hópunum, einkum í hópi skólastjóranna, spunnust umræður um að skólafólkið sjálft þyrfti að breyta umræðunni um gögn og hafa áhrif á hana með því að tengja gögn og umræðuna um þau við fagmennsku og óformlegri þætti náms. Kominn væri tími til að hverfa frá kröfunni um að gott skólastarf væri einungis það sem hægt væri að leggja á samræmda og einfalda mælistiku. Hér á eftir fara tilvitnanir í tvo skólastjóra.

Á hverjum einasta degi, inni í hverri einustu skólastofu, er kennari sem að hvort sem hann skráir það hjá sér akkúrat þá eða ekki, þá er hann að meta. Við erum alltaf að vinna með nemendur og horfa á nemendur og hvernig þeim gengur. Ég held að allir kennarar sem að á annað borð brenna fyrir kennslunni, þeir vinna þannig og hugsa þannig.

En upplýsingarnar, við höfum svo gríðarlega mikið magn af þeim og það er bara markmið alltaf þegar þær koma að vinna úr þeim á jákvæðan hátt.

Ummæli sem þessi vekja óneitanlega upp spurningar um traust til kennarans og fagmennsku hans. Allir viðmælendur voru sammála um að traust væri algert grundvallaratriði. Án trausts til kennara miði skólastarfi ekki áfram. Aðspurðir voru viðmælendur á einu máli um að dýrmætustu gögnin væru þau sem yrðu til í skólastarfinu sjálfu, gögnin sem yrðu til í samstarfi og samtali við nemendur. Þau væru þekking kennara á nemendum sínum, byggð á reynslu hans og fagmennsku og þekking nemenda á því sem þeir hafa í farteski sínu. Þannig og aðeins þannig gæti námsmatið orðið hluti af lærdómsferli nemenda og fleytt þeim lengra.

Takmarkað leiðsagnargildi innra og ytra mats

Markmið ytra mats er samkvæmt 35. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 og 40. grein laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 fyrst og fremst að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda. Eins er því ætlað að stuðla að betra skólastarfi og vera leiðbeinandi, framfaramiðað og stuðla að umbótum (Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008; Lög um grunnskóla nr. 92/2008).

Í viðtölunum komu fram efasemdir um gildi innra og ytra mats sem tækja til að auka gæði náms. Viðmælendur voru á því að gögn sem væri safnað við ytra mat sneru frekar að umgjörð skólastarfs en gæðum starfsins sjálfs og kjarna þess, þ.e. námi nemenda. Ályktanir væru iðulega dregnar af of fátæklegum gögnum og stundum gölluðum spurningum sem ekki hefðu verið uppfærðar í takti við tímann. Þegar kæmi að innra mati væri það gagnlegra en liði fyrir tímaskort og stundum vankunnáttu. Þá stæði það fólki of nærri og það færi í vörn. Því væri oft meira gagn í gögnum sem verða til í samtali heldur en stöðluðum spurningakönnunum. Allir viðmælendur voru á því að það skorti tíma og ígrundun til að bregðast við bæði ytra og innra mati og fylgja því eftir, svo gagnsemi þess yrði meiri. Einn skólastjóranna gagnrýndi ytra matið á eftirfarandi hátt.

Þegar ytra matið kemur og einhver starfsmaður þar fer inn í kennslustund hjá einum kennara í klukkutíma eða 40 mínútur og svo er bara tekið mat á því sem hann sá í þetta eina sinn. Og kennararnir alveg nervous og aldrei lent í þessu áður, allt bara í einhverju svakalegu afmörkuðu. Það sem þeir sáu, matsmennirnir, var örugglega rétt á þeim tíma sem þeir sáu það, en það var ekki lýsandi fyrir skólann.

Grunnskólakennari sló svipaða varnagla varðandi réttmæti ytra matsins:

Hjá okkur síðast vorum við gagnrýnd fyrir hvað væri lítil hópavinna. En það vildi bara einhvern veginn þannig til, að þau sem komu í skólann urðu ekki vitni að þeim kennslustundum nema í fáum tilfellum.

Þessu til viðbótar nefndu framhaldsskólakennarar kennslukannanir sem lagðar eru fyrir nemendur og sögðu að kennarar tækju þær mátulega hátíðlega. Og eins og í öðru mati vantaði þar oft eftirfylgnina. Í seinni tíð hefði þó verið unnið með þennan þátt og mat væri orðið fjölbreyttara. Jákvæð þróun væri einnig tilkoma skólaþinga þar sem nemendum gæfist færi á að koma röddum sínum á framfæri. Einn þeirra komst svo að orði:

Þegar ég var að byrja þá var mikið af opnum spurningum sem var síðan dömpað beint í fangið á kennurum og maður lenti í því að mæta samkennurum sínum grátandi á göngunum …. Það er búið að vera að vinna svolítið með það, upp á að gögnin sem komi út úr þessu séu nothæf í að þróa skólastarfið hjá okkur.

Samskipti milli aðila innan og utan kerfis

Mjög líflegar umræður spruttu í öllum samtölunum um samskipti milli skólastiga og svo út fyrir skólakerfið. Glögglega kom í ljós að þrátt fyrir að samskipti milli skólastiganna virðist vera lítil eru mjög sterkar hugmyndir um það sem fram fer á „hinu“ skólastiginu; kannski ekki byggt á haldgóðum upplýsingum. Þarna virðist skorta samtal og skilning milli skólastiga og hugmyndir eru á reiki um hlutverk og vinnubrögð á „hinu“ skólastiginu. Þannig komu fram vísbendingar þess efnis að grunnskólafólkið áliti framhaldsskólann gamaldags og staðnaðan og aðeins sinna ákveðnum nemendum meðan mikil fagmennska og umhyggja kom fram í samtalinu við framhaldsskólakennarana. Í þessum mismunandi sjónarmiðum kristallast vel að frekara samtal væri af hinu góða.

Einkunnir í lok grunnskóla og inntaka í framhaldsskóla var eitt af því sem brann á grunnskólakennurum og skólastjórum þar sem inntaka í örfáa framhaldsskóla býr til þrýsting frá foreldrum og nemendum og áhyggjur af því að viðkomandi grunnskóli meti verr en aðrir, samanber sjónarmið eins grunnskólakennarans:

Ég kenni mikið í 10. bekk og töluvert mikið nemendum sem eru að fara upp í framhaldsskóla. Það vantar alveg einhverja samfellu og tengingu. Ég veit ekki hver á að gera hvað. Ég er ekki með neina lausn á því. En mér finnst vanta rosa mikið umræðuna um hver tengingin er.

Hvað varðar almenna orðræðu um skólakerfið frá þeim sem standa utan þess, töldu viðmælendur hana oft óvægna og byggjast á vanþekkingu og því að allir telja sig sérfræðinga í skólastarfi, því allir hafi, jú, verið í skóla og telja að þar hafi ekkert breyst eða þróast. Því væri umræðan, t.d. í fjölmiðlum oft óvægin og þar kæmi í ljós skortur á trausti til skólastarfs. Niðurstöðum úr samræmdum prófum og þá ekki síður PISA væri slegið upp og ávallt það neikvæðasta dregið upp sem fréttaefni eins og annar grunnskólakennaranna benti á:

Fjölmiðlar eru svo fljótir að dæma kennara og skólakerfið og það er bara „ekki nógu gott hjá ykkur“. En það er ekkert verið að skoða af hverju fáum við þessar niðurstöður og hvernig eru skólarnir í Japan og Singapore og hvernig er kennslan þar og hvenær byrja þau í skóla og svo framvegis. Þetta er ekkert skoðað. Það er bara verið að dæma okkur. Maður verður pirraður.

Fagmennska og umræða um kjarna skólastarfs

Áberandi þáttur í öllum hópviðtölunum var mikilvægi þess að treysta fagmennsku kennara og dómgreind. Þá endurspeglaðist mikil umhyggja fyrir velferð nemenda og gengi þeirra í öllum umræðuhópunum. Viðmælendur lögðu áherslu á að með reynslu kennarans byggjast upp mikilvægustu gögnin og að kennarar viti nákvæmlega hvar nemendur þeirra eru staddir, án ytri mælikvarða. Sú spurning vaknar hvort ytri mælikvarðar stýri án þess að hafa innbyggt leiðsagnargildi. Hvað varðar stefnumótun í skólakerfinu upplifðu bæði skólastjórnendur og kennarar skort á samráði við hina raunverulegu sérfræðinga sem í skólunum starfa, þ.e. þá sjálfa. Það hefði í för með sér að heildarsýn skorti og óvissu um hverjar væru rætur tiltekinna hugmynda. Skólastjórar nefndu sérstaklega að þegar unnið væri að mótun menntastefnu þyrfti að horfa til áskorana nútímans og til framtíðar og nálgast hugmyndafræði um menntun fyrir alla nemendur með skýran fókus. Oft væri það því miður þannig að stefnumótendur hefðu ekki nema takmarkað samráð við vettvang og fyrir bragðið vantaði inn í stefnuna. Einn grunnskólakennaranna hafði þetta um ástandið að segja í sínu sveitarfélagi:

Ég held að [mitt sveitarfélag] sé það sveitarfélag á landinu þar sem skólunum er stjórnað hvað mest frá skólaskrifstofunni. Það er alveg óþolandi þegar það bara kemur að ofan og það er alveg sama hvað skólastjórarnir segja. Þeir bara eiga að gera eitthvað ákveðið og þeir eiga að bara hafa þetta þannig.

Jafnframt kom fram sú skoðun að engin framþróun verði í skólastarfi án trausts til kennara og mikilvægi þess að kennarar fái að láta rödd sína heyrast og að á þá sé hlustað. Samhljómur var um í stað aukinnar áherslu á mat, vantaði meira rými fyrir kennara til vaxtar á eigin forsendum og aukið traust í þeirra garð. Einn skólastjóranna lýsti því þannig:

Ég held við myndum vilja byrja á að hugsa, hvernig viljum við nesta krakkana? Ég held ég myndi vilja byrja á að hugsa það. Hvernig myndum við vilja nesta börnin? Það myndi ég vilja hafa sem útgangspunktinn. Og hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir í dag.

Í öllum samræðunum kom fram sterkt ákall um aukna umræðu um tilgang skólastarfs og markmið námsins, hvað væri verið að gera í bæði grunn- og framhaldsskólum og hvers vegna. Hvernig vill skólakerfið skila nemendum af sér og hver er sýnin? Eftirfarandi er tilvitnun í grunnskólakennara.

En hver er tilgangurinn, hvað erum við að gera, hvað viljum við í nemandanum? Við viljum útskrifa heilbrigða einstaklinga sem hafa góða og sterka sjálfsmynd og eru góðir lýðræðisþegnar, koma vel fram og kunna að vinna og kunna að vinna með öðrum og þú veist, allt þetta, sem er ekki verið að meta í þessum samræmdu prófum.

Glögglega kom fram að mikilvægt er að kennarar og skólastjórnendur hafi skýra tilfinningu fyrir því hvað starf þeirra snýst í raun um og eitt af því er að það er nauðsynlegt að samþykkja þá staðreynd að menntun fylgir alltaf spurningin um tilgang hennar. Og að þau sem eru best fallin til að fylgja henni eftir sé skólafólk á vettvangi. Því væri nauðsynlegt að kennarar væru leiðandi í samtali um stefnumótun í skólastarfi, tilgang þess og markmið.

Spurningum um hve mikið af þessum sjónarmiðum speglaðist í stefnuplöggum stjórnvalda eða um það samráð sem stjórnvöld eða sveitarfélög hafi haft um mótun þeirra var ekki beint inn í umræðuna.

Samantekt og lokaorð

Eins og áður sagði var tilgangur þessara samræðna við fólk af vettvangi skólastarfs tvíþættur. Annars vegar að þróa aðferð sem gæti nýst Kennarasambandi Íslands og aðildarfélögum þess til að tengjast skólastarfi með nánari hætti með því að virkja raddir beint af vettvangi, með öllum þeim fyrirvörum sem að ofan eru nefndir, og hins vegar að ræða mat á skólastarfi sem hefur verið mjög ofarlega á baugi í skólamálaumræðu bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi og fá þannig hugmyndir úr grasrótinni um sumt af því sem brynni á fólki í því efni.

Þessar helstu niðurstöður sem hér hafa verið raktar, eftir greiningu á hópviðtölunum þremur, voru teknar fyrir í framkvæmdarstjórn Skólamálaráðs KÍ veturinn 2021-2022. Þar nýttust þær bæði sem grundvöllur frekari umræðu og féllu vel inn í tiltekna þætti stefnumótunar til næstu fjögurra ára.

Niðurstöður verkefnisins eru einnig tvíþættar. Segja má að tilraunin hafi verið árangursrík. Vel tókst til með umræðuhópana og skilningur dýpkaði á vinnu og sjónarmiðum bæði þeirra sem tóku þátt í samræðunum og fulltrúa Kennarasambandsins sem fjölluðu síðar um niðurstöðurnar. Eftir viðtölin var öllum þátttakendum sendur tölvupóstur þar sem þakkað var fyrir þátttökuna. Í svörum við þeim pósti kom fram að þeim sem tóku þátt þótti samtalið mikilvægt og nærandi að ræða skólamál og að í umræðunum hefði skilningur þeirra á viðfangsefninu dýpkað og fengið þau til að hugsa um mat á skólastarfi á gagnrýnni og fjölbreyttari hátt en áður. Skólafólk vill gjarnan ræða málin og hefur vitaskuld mikið til málanna að leggja og við teljum gagnlegt fyrir alla aðila að raddir af vettvangi heyrist enn betur.

Af umræðum í hópunum að dæma fer fjölþætt mat vaxandi bæði í grunn- og framhaldsskólum og gagnasöfnun um árangur og hæfni nemenda er gríðarleg. Sammerkt er að þátttakendur sáu lítinn tilgang með samræmdum prófum, finnst þau ekki góður mælikvarði á getu nemenda og skorta tengingu við námsskrá. Gagnasöfnun og mat í skólastarfi er að þeirra mati sumpart í þágu kerfisins, frekar en nemenda og skólastarf líður hugsanlega fyrir kröfur að utan um gagnasöfnun. Umræða um próf og samræmt námsmat ræðst af því er virðist fremur um gildi mats og prófa fyrir kerfið en gildi prófa fyrir nám nemenda. Hvað alþjóðlegar mælingar varðar kom fram hjá bæði kennurum og skólastjórnendum í grunnskólum að PISA prófin væru fjarlæg skólastarfinu, á tyrfnu máli og að nemendur sæju ekki tilgang í að leggja sig fram við úrlausn prófanna. Hvað varðar leiðsagnargildi innra og ytra mats þá fannst viðmælendum augljóslega tilefni til að ræða kosti og galla hvors þáttar fyrir sig. Kennararnir sem rætt var við nýttu oft og tíðum nokkuð umfangsmikið námsmat til að rökstyðja lokamat sitt, en voru einhuga um að komast mætti að svipaðri niðurstöðu með minni formlegri gagnaöflun. Jafnframt virðist talsvert vanta upp á samtal og skilning milli skólastiga og hugmyndir eru á reiki um hlutverk og vinnubrögð á „hinu“ skólastiginu.

Einhugur var meðal viðmælanda um að mikilvægasta námsmatið byggist upp með reynslu og fagmennsku kennara og í samtali við nemendur. Meðal allra viðmælenda okkar mátti greina mikla umhyggju fyrir velferð nemenda og gengi þeirra og ljóst er að góð samskipti við nemendur sem byggjast upp af trausti er betri og vænlegri jarðvegur fyrir mat en ytri mælikvarðar sem stýra skólastarfi án leiðsagnargildis.

Í lokin er rétt að árétta að grein þessari koma fram raddir af vettvangi grunn- og framhaldsskóla sem höfundar þessarar greinar telja að verðskuldi að heyrist betur. Fleira var rætt og mikilvæg sjónarmið komu fram í umræðunni sem ekki er rými til að draga fram hér. Við leggjum jafnframt áherslu á að þau sem tóku þátt í verkefninu eru fulltrúar eigin reynslu og sjónarmiða en ekki kennarastéttarinnar í heild. En því er jafnframt varpað fram hvort þessi leið eða einhver ámóta gæti verið gagnleg fyrir fagstéttina, bæði til að heyra í sjálfri sér og hlusta og til þess draga fram mikilvæg sjónarmið innan frá um ólík brýn málefni.

Heimildaskrá

Kennarasamband Íslands. (2022). Lög Kennarasamband Íslands. https://www.ki.is/um-ki/ki/log-ki/

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

Stjórnarráð Íslands. (2022). Samræmd próf lögð af. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/02/22/Samraemd-konnunarprof-ekki-logd-fyrir/

 


Anna María Gunnarsdóttir (anna.m.gunnarsdottir(hja)gmail.com) er framhaldsskólakennari, lengst af við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og fyrrverandi varaformaður Kennarasambands Íslands. Hún er með BA prófi í íslensku, diplómu í uppeldis- og kennslufræðum og meistaragráðu í menntun framhaldsskólakennara frá Háskóla Íslands.

Jón Torfi Jónasson (https://uni.hi.is/jtj/) sinnti um langt árabil kennslu og rannsóknum á skólastarfi og einnig ýmsum stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands, síðast við Menntavísindasvið.

Valgerður S. Bjarnadóttir (vsb(hja)hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræði, meistaragráðu í alþjóðamenntunarfræðum og doktorspróf í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Valgerður starfaði um árabil sem framhaldsskólakennari.


Grein birt: 31/8/2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp