Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Griðastaður þess seinlega

í Ritdómar

Ólafur Páll Jónsson

Atli Harðarson. (2019) Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Reykjavík: Menntavísindasvið og Heimspekistofnun.

Á síðasta ári kom út lítil bók eftir Atla Harðarson um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Við nánari athugun er þessi bók reyndar ekki svo lítil. Að vísu telur hún einungis 150 blaðsíður í litlu broti en við lestur bókarinnar fann ég að síðurnar áttu það til að tímgast í huga mér þannig að þegar ég lagði hana loks frá mér fannst mér ég ekki bara hafa lesið lítið kver um menntun og skólastarf heldur stóra bók, eiginlega margar bækur eftir ólíka höfunda. Atli hefur einstakt lag á að leiða lesandann inn í rökræður annarra fræðimanna og sjá síðan á þeim fleti sem gera þær í senn áhugaverðari og flóknari en mann hafði órað fyrir. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir hvern þann sem vill hugsa um menntun og skólakerfi, en þeim sem sækjast eftir skjótfengnum svörum ráðlegg ég að forðast þetta rit. Tvímælis er bók sem leggur manni til fleiri spurningar en svör.

Uppbygging og efnistök

Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans er gefin út bæði sem sérrit Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun (sérrit 2019) og sem prentgripur í ritröð heimspekistofnunar. Í fyrri útgáfunni er bókin 89 blaðsíður, aðgengilegt í opnum aðgangi á vefnum. Prentútgáfan er 171 blaðsíða í handhægu og fallegu broti. Bókinni er ritstýrt af Helga Skúla Kjartanssyni og Jóni Torfa Jónssyni og er gefin út í samstarfi Heimspekistofnunar og Menntavísindastofnunar.

Tvímælis skiptist í tólf kafla, auk inngangs og eftirmála. Meginviðfangsefni bókarinnar liggja á mörkum heimspeki og námskrárfræða annars vegar og heimspeki og stjórnmálaheimspeki hins vegar. Síðasti kafli bókarinnar fjallar um fagmennsku kennara og liggur á mörkum siðfræði og menntunar­fræði, skólasögu og kannski fleiri greina. Kaflarnir mynda ekki eina samfellu í þeim skilningi að einn sé nauðsynlegur undanfari þess næsta, en þó eru nokkrir kaflar sem mynda eins konar knippi. Kaflar 6 til 8, „Að skrá menntun“, „Vandi gagnadrifinnar stjórnsýslu“ og „Skrifræði og einkavæðing“ mynda samfellu og betra að lesa þá í þessari röð. Einnig er betra að lesa kafla 9, „Námsmarkmið“, á undan kafla 10, „Ólík vensl markmiða og leiða“ og þessir tveir kaflar undirbyggja að nokkru leyti umræðuna í kafla 11, „Umbætur eða skólaþróun“. Í lok hvers kafla er stuttur undirkafli sem ber yfirskriftina „Til umhugsunar“. Þar setur Atli fram nokkrar spurningar og býður lesandanum að halda áfram með pælingar kaflans og undirstrikar þannig að hans eigin orð eiga ekki að vera niðurstaða eða endapunktur heldur frekar hvatning til lesandans.

Í ágripi að bókinni eins og hún birtist í Netlu segir Atli m.a.: „Í bókinni eru tólf kaflar og hver þeirra lýsir hugtakalegum ógöngum eða rökum sem vísa í ólíkar áttir.“ Þetta er með sönnu eitt af megineinkennum á efnistökum Atla. Lesandinn er leiddur inni í rökræðu þar sem ólíkum sjónarmiðum er haldið á lofti. Í fljótu bragði virðast sjónarmiðin e.t.v. vera andstæð; sé tekið undir með öðrum aðilanum virðist jafnframt nauðsynlegt að hafna því sem hinn segir. En svo kemur þriðja röddin inn í þetta samtal og lesandann fer að gruna að hvorugur hafi beinlínis rétt fyrir sér en báðir nokkuð til síns máls. Það sem í upphafi virtist skýrt og greinilegt, fer að orka tvímælis.

Umræða um námsmarkmið

Til að gefa hugsanlegum lesendum smörþef af þessari bók langar mig að rekja í stuttu máli umfjöllun Atla í köflum 9 og 10 um námsmarkmið. Í fyrri kaflanum dregur hann upp mynd af rökræðum í námskrárfræðum þar sem ólíkar hugmyndir um eðli og mikilvægi markmiðasetningar í skólum takast á. Annars vegar hugmyndastraumar sem rekja má öld aftur í tímann til Bandaríkja­mannsins Johns Franklin Bobbitt og var þróuð áfram m.a. af Ralph W. Tyler, Benjamin S. Bloom og Hildu Taba (bls. 53/104). Kjarninn í þessum hugmyndum er að vel skilgreind markmið verði að vera undirstaða allrar námskrárgerðar. Meðal gagnrýnenda þessara hugmynda nefnir Atli m.a. Lawrence Stenhouse, sem hafði verið framhaldsskólakennari og fundið að því „að áhersla á markmið fremur en innihald gerði bókmenntirnar sem hann kynnti fyrir nemendum sínum að einberum verkfærum eins og þær hefðu ekkert eigið gildi og um leið skrumskældu markmiðin námsefnið í stað þess að láta það njóta sín í ríkidæmi sínu og fjölkynngi“ (bls. 56/109). Stenhouse taldi líka að með of stífri markmiðasetningu væri frelsi nemenda skert og auk þess næðu námsmarkmið ekki utan um allt sem mestu skipti í skólastarfi. Í næsta kafla bókarinnar heldur Atli rökræðunni áfram. Hann byrjar á að setja fram einfalda mynd af því „hvernig viðleitni fólks tengist því sem hún beinist að“. Þessi einfalda mynd gerir ráð fyrir því að:

  • Rétt sé að tilgreina námsmarkmið fyrir fram af nákvæmni.
  • Hægt sé að ná þeim og ganga úr skugga um að þeim hafi verið náð.
  • Þau náist sem afleiðingar af því sem gert er í skólanum og skólastarfið hafi gildi vegna þessara afleiðinga. (bls. 59/115)

Atli setur síðan fram þrennskonar rök gegn þessari einföldu mynd. Ég kalla þau naglasúpurökin, leiðarstjörnurökin og dansrökin. Nafngiftin er dregin af efnistökum Atla en hann vísar þó ekki til þeirra með þessum nöfnum. Fyrstu rökin setur Atli fram með því að rifja upp söguna af naglasúpunni og segir síðan:

Í þessari sögu hafði gesturinn augljóslega markmið, sem var að matreiða eitthvað gott. Hann gat þó ekki lýst markmiðinu af nákvæmni fyrir fram, því hann varð að nýta það sem gestgjafinn fékkst til að setja í pottinn og gat ekki vitað hvað það yrði. Ef hann hefði byrjað með tiltekna uppskrift og nákvæma lýsingu á einhverjum tilbúnum rétti þá hefði hann líklega ekki fengið neitt að borða. (bls. 59/116)

Andstæðan við naglasúpuaðferðina er að elda eftir fyrirfram gefinni uppskrift. Þegar þannig er unnið spyrjum við „hvernig við getum fengið það sem okkur vantar fremur en hvernig við getum nýtt það sem við höfum“ (bls. 60/117). Uppskriftaraðferðin einkennir iðnað þar sem markmiðið er að framleiða staðlaða vöru. Atli lýkur þessum undirkafla með því að segja að raunverulegur skóli sé „hvorki verksmiðja né eldhús. Þar þarf sífellt að vinna bæði með ofansæknum aðferðum [eftir uppskrift] þar sem sum lokamarkmið eru nokkuð nákvæmlega tilgreind og með neðansæknum aðferðum [naglasúpunnar] þar sem nemendur og kennarar sjá tækifæri í því óvænta“ (bls. 60/117).

Leiðarstjörnurökin byggja á greinarmuni á tvennskonar markmiðum. Annars vegar eru margvísleg markmið, eins og að taka til í herberginu sínu, sem við leitumst við að ná og þegar við höfum náð þeim getum við hætt að hugsa um þau – í bili að minnsta kosti. En sumum markmiðum sem stýra hversdagslegum athöfnum verður ekki lokið. „Sem dæmi um slík markmið má nefna heilbrigt líf, að reynast vinum sínum vel, farsælt hjónaband eða viðleitni til að þroskast og temja sér dyggðir eins og hugrekki, æðruleysi, hófsemi, visku, sanngirni og góðvild“ (bls. 60/117). Atli segir að slík markmið séu líkari „leiðarstjörnu sem við notum til að átta okkur þótt við séum ekki beinlínis á leiðinni þangað“ (bls. 60/117) frekar en vörðum sem við göngum að og höfum þá lokið tilteknum áfanga. Þessi greinarmunur á markmiðum sem vörðum og markmiðum sem leiðarstjörnum á við um nám eins og önnur svið mannlegrar breytni. Atli segir síðan: „Ef við einblínum á markmið sem hægt er að ná eða ljúka og staðfesta með námsmati að nemendur hafi náð þá er hætt við að það sem mestu skiptir glutrist niður og nemendur eignist aðeins svör til að standa skil á en ekki spurningar sem vekja löngun til að læra meira“ (bls. 61/120).

Þriðju rökin, sem ég kalla dansrökin, lúta að því hvernig sumar athafnir hafa eigin gildi eða verðmæti fólgin í sjálfum sér en ekki í neinni afurð sem af þeim kann að hljótast. Atli byrjar umræðuna um þessi rök með eftirfarandi orðum: „Fólk sem hefur einhvern tíma dansað til að skemmta sér veit væntanlega að tilgangur þess sem við gerum er ekki endilega nein lokaafurð. Fólk með sæmilega fullu viti stígur ekki dans til þess að uppskera skemmtun að honum loknum. Skemmtunin er innifalin í athæfinu og þannig er með margt af því besta sem við gerum, það hefur tilgang í sjálfu sér“ (bls. 62/121). Til að draga fram kjarnann í þessum rökum vísar Atli m.a. til bókar eftir John Dewey, Eðli og athæfi mansins, þar sem Dewey „segir eitthvað á þá leið að ef við fórnum hverju núi fyrir árangur í framtíð þá séu mestar líkur á að við fórnum allri ævinni fyrir ávinning sem aldrei fæst“ (bls. 62/121–122). Litlu síðar beitir hann þessari hugmynd Deweys á skólastarf: „Ef vel tekst til er skólastarfið ekki aðeins gott vegna afleiðinga sinna heldur líka vegna þess að fólk lifir góðu lífi í skólanum“ (bls. 62/122).

Naglasúpurökin, leiðarstjörnurökin og dansrökin segja okkur ekki hvernig eigi að skrifa námskrár eða skipuleggja skóla, en þau hjálpa okkur að sjá vitleysuna í þeirri námskrárhefð sem gerir ráð fyrir að öll markmið sem stýri skólastarfi eigi að vera skýr, þess eðlis að hægt sé að ná þeim og jafnvel ganga úr skugga um hvort svo sé með prófi eða öðru námsmati, og að gildi skólastarfs beri að meta í ljósi þess hvort slíkum markmiðum hafi verið náð.

Markmiðin sem stýra, og hljóta að stýra, viðleitni til að kenna og læra í skólum eru flókin blanda af eftirtöldu:

  • Markmiðum sem eru tilgreind fyrir fram af nákvæmni og markmiðum sem aðeins er lýst í grófum dráttum.
  • Vörðum og leiðarstjörnum – með öðrum orðum markmiðum sem hægt er að klára og markmiðum sem stjórna viðleitni fólks þótt þau náist ekki.
  • Markmiðum sem eru (oft fjarlægar) afleiðingar af skólastarfi og markmiðum sem eru innbyggð í starfið og gefa því gildi hvað sem öllum afleiðingum líður (bls. 62/121).

Meginatriði

Mér virðist að meginboðskapur bókarinnar sé af tvennu tagi, ef hægt er að tala um boðskap í bók sem leitast við að vera ekki boðandi og megin-eitthvað í bók sem drepur niður fæti á ólíkum stöðum og staldrar tiltölulega stutt við á hverjum stað: Annars vegar að hverskyns annaðhvort-eða hugsun sé skaðleg og hins vegar að skólar ættu að vera griðastaður hins seinlega. Hvort tveggja fer í bága við margt í samtímanum sem lýtur að menntamálum og stefnumótun á þeim vettvangi. Atli segir að afstaða hans hafi mótast annars vegar af langri starfsævi, bæði sem kennari og skólameistari, en líka af „lestri, rannsóknum og skrifum um heimspekileg efni, ekki síst tilraunum til að skilja það sem John Dewey skrifaði um menntun fyrir um það bil einni öld“ (bls. 75/147). Hann bætir svo við að áhrifin frá Dewey séu „líka óbein því aðrir fræðimenn sem [hann] sæki mest til nýttu sér rit hans“ (bls. 75/147).

Hvað seinna meginatriðið varðar segir Atli í lok eftirmálans að hann telji vísindi, fræði, listir, tækni og íþróttir meðal þess besta sem mannkynið á í sameiginlegri eigu sinni og bætir svo við: „Ég held líka að þegar best lætur geti skólar bæði ávaxtað þetta ríkidæmi og gefið nemendum sínum hlutdeild í því, en menntun sem miðar að slíkri hlutdeild tekur langan tíma“ (bls. 75/147). Hann lýkur svo eftirmálanum með orðum sem mér virðast bæði mikilvæg og tímabær:

Íslenska orðið skóli er komið af grísku orði (σχολή) sem merkir tómstundir. Andstæður þess eru orð yfir annríki, strit og vinnu. Skóli í þessum upprunalega skilningi var tími til að hugsa og rökræða, hlæja og leika sér. Skólar nútímans einkennast samt af tímapressu og kröfum um afköst og árangur. Margt sem er gagnrýnt í þessari bók eru nýjungar – eins og hæfniviðmið sem á að ljúka, samkeppni milli stofnana og árangurstenging á framlögum til skóla – sem vinna gegn því að skólar geti verið sá griðastaður þess seinlega sem við þurfum því meir á að halda því meiri sem hraðinn og æðibunugangurinn er allt í kringum okkur (bls. 75/147).


Ólafur Páll Jónsson (opj(hjá)hi.is) er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki menntunar (m.a. Lýðræði, réttlæti og menntun, 2011), heimspeki náttúrunnar (m.a. Náttúra, vald og verðmæti, 2007), um gagnrýna hugsun (m.a. Sannfæring og rök: Gagnrýnin hugsun, hversdagslegar skoðanir, og rakalaust bull) og um frumspeki (m.a. Fyrirlestrar um frumspeki: Ágrip af rökgreiningarheimspeki 20. aldar, 2012). Hann hefur einnig gefið út eina barnabók, Fjársjóðsleit í Granada (2014). Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni: https://uni.hi.is/opj/


Grein birt 28.3.2020
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp