Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

Atli Harðarson

Geðveiki, skólastarf og skynsemismyrkur: Umsögn um nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education

í Greinar

Atli Harðarson

 

Nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education er helgað rökræðu um geðheilsu og menntun. Framan á heftinu stendur Policy Special Issue Philosophy, Mental Health and Education. Höfundar eru úr ýmsum áttum. Meðal þeirra eru sérfræðingar um menntamál, sálfræðingar, læknar, heimspekingar og listfræðingar. Flestir eru fræðimenn við háskóla en nokkrir starfandi á vettvangi. Greinarnar eru líka af ýmsu tagi. Tvær þeirra eru viðtöl, nokkrar eru örstuttar og nánast eins og fréttaskýringar en flestar eru fræðilegar og með vísunum í rannsóknir og kenningar. Í því sem hér fer á eftir segi ég stuttlega frá rökum sem eru áberandi í máli höfunda. Rétt er þó að taka fram að ég reyni ekki að greina frá nærri því öllu sem fjallað er um í þessu 189 blaðsíðna hefti. Ég sleppi til að mynda greinum um bókmenntir og kvikmyndir sem höfundar rökstyðja að varpi ljósi á umrædda fleti mannlífs og menntunar. Lesa meira…

Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher

í Greinar/Ritdómar

Atli Harðarson

 

Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.

Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).

Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun. Lesa meira…

Menntakerfið sem stórveldi: Nokkur orð um bókina The schooled society eftir David P. Baker

í Greinar

Atli Harðarson

 

David P. Baker er prófessor í menntavísindum og félagsfræði við ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Bók hans The schooled society: The educational transformation of global culture kom út hjá Stanford University Press árið 2014. Á íslensku gæti hún ef til vill heitið Skólaða samfélagið: Menntadrifin umbreyting á menningu heimsins.

Í bókinni fjallar Baker um samspil skólakerfisins við atvinnulíf, stjórnmál, trúarbrögð og menningu öðru vísi en flestir félagsvísindamenn hafa gert. Hann lýsir skólakerfinu sem einni af sterkustu stofnunum samfélagsins og ætlar því mátt sem er annars vegar sambærilegur við veldi auðmagns og stórfyrirtækja á markaði og hins vegar við ríkisvald og stjórnmál í þjóðríkjum nútímans. Jafnframt andmælir hann þeim sem lýsa menntakerfinu sem veikri stofnun og segja að það sé sett undir hagkerfið eða gegni einkum þjónustuhlutverki. Í seinni skrifum hefur Baker ítrekað meginefni bókarinnar og nokkrar af helstu kenningum hennar eru reifaðar í nýlegri grein sem hann skrifaði með Renata Horvatek (Horvatek og Baker, 2019). Lesa meira…

Hæfniviðmið og framleiðsla á bulli og vitleysu

í Greinar

Atli Harðarson

 

 

Kennsluskrár háskóla lýsa markmiðum námskeiða og námsleiða með því að telja upp hæfniviðmið. Þessi viðmið eiga að segja hvað hver einstakur nemandi getur að námi loknu. Það sama gildir um lýsingar áfanga og námsbrauta í framhaldsskólum sem liggja frammi á vefnum namskra.is og líka um Aðalnámskrá grunnskóla þar sem „[k]röfur um sértæka og almenna menntun nemenda eru settar fram sem hæfniviðmið“ (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 40). Grunnskólanámskráin gerir raunar grein fyrir markmiðum skyldunáms með mjög löngum listum af hæfniviðmiðum sem nemendur skulu hafa uppfyllt við lok fjórða, sjöunda og tíunda bekkjar. Það tíðkast meira að segja að forráðamenn fái tilkynningar og skilaboð um að börn þeirra hafi nýlega öðlast alls konar hæfni, meðal annars til að sýna frumkvæði eða tala með skýrum framburði. Þetta er ef til vill fróðlegt fyrir þá sem hitta börn sín sjaldan eða aldrei.

Þessi ríkjandi stefna í námskrárgerð gerir ráð fyrir að við lok hvers stigs í grunnskóla, áfanga í framhaldsskóla eða námskeiðs í háskóla hafi nemandi náð að tileinka sér hæfnina sem tilgreind er í námskrá eða námskeiðslýsingu. Lesa meira…

Griðastaður þess seinlega

í Ritdómar

Ólafur Páll Jónsson

Atli Harðarson. (2019) Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Reykjavík: Menntavísindasvið og Heimspekistofnun.

Á síðasta ári kom út lítil bók eftir Atla Harðarson um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Við nánari athugun er þessi bók reyndar ekki svo lítil. Að vísu telur hún einungis 150 blaðsíður í litlu broti en við lestur bókarinnar fann ég að síðurnar áttu það til að tímgast í huga mér þannig að þegar ég lagði hana loks frá mér fannst mér ég ekki bara hafa lesið lítið kver um menntun og skólastarf heldur stóra bók, eiginlega margar bækur eftir ólíka höfunda. Atli hefur einstakt lag á að leiða lesandann inn í rökræður annarra fræðimanna og sjá síðan á þeim fleti sem gera þær í senn áhugaverðari og flóknari en mann hafði órað fyrir. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir hvern þann sem vill hugsa um menntun og skólakerfi, en þeim sem sækjast eftir skjótfengnum svörum ráðlegg ég að forðast þetta rit. Tvímælis er bók sem leggur manni til fleiri spurningar en svör. Lesa meira…

Lærdómur páfagauksins

í Greinar

Rabindranath Tagore

 

Rabindranath Tagore (1861–1941) er þekktur sem höfundur indverska þjóðsöngsins, listamaður og hugsuður. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1913  og höfðu þau þá ekki áður verið veitt skáldi utan Evrópu. Tvær af þekktustu ljóðabókum hans komu út í íslenskum þýðingum Magnúsar Á. Árnasonar 1919 og 1922.

Sagan um lærdóm páfagauksins, sem hér birtist í þýðingu Atla Harðarsonar, var upphaflega gefin út á móðurmáli höfundar, bengali, árið 1918. Af öðrum skrifum Tagore um menntamál er ljóst að hann unni lærdómi og listum en var afar gagnrýninn á hefðbundið skólahald. Lesa meira…

Um bókina Flourishing as the Aim of Education eftir Kristján Kristjánsson

í Ritdómar
Kristján Kristjánsson
Atli Harðarson

 Atli Harðarson

 

Kristján Kristjánsson er löngu vel þekktur meðal fræðimanna sem fjalla um heimspeki menntunar. Hann er einkum kunnur fyrir skrif sín um viðfangsefni sem liggja á mörkum siðfræði og menntavísinda. Í ritum sínum um þau efni nýtir hann dygðasiðfræði Aristótelesar sem leiðarljós og bækur hans (Kristján Kristjánsson, 2007, 2015, 2018) eiga mikinn þátt í því að slík siðfræði nýtur vaxandi viðurkenningar og áhuga meðal þeirra sem fjalla um siðferðilegt uppeldi. Kristján er líka frumkvöðull í því að nota nýjustu rannsóknir í sálfræði til að varpa ljósi á viðfangsefni á sviði siðfræði eins og hann gerir í nokkrum bóka sinna (Kristján Kristjánsson, 2002, 2006, 2010, 2013).[1]

Nýjasta bók Kristjáns heitir Flourishing as the Aim of Education og hefur undirtitilinn A Neo-Aristotelian View. Í henni koma saman allmargir þræðir úr fyrri verkum hans þar sem hún fjallar í senn um sálfræðileg efni, siðfræði og skólastarf. Bókin er afar læsileg og lesandi getur vel skilið textann án þess að þekkja fyrri verk Kristjáns. Það hjálpar þó að hafa einhver kynni af heimspekilegri siðfræði og rökræðu um hlutverk og tilgang skóla. Lesa meira…

Fara í Topp