Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Menntakerfið sem stórveldi: Nokkur orð um bókina The schooled society eftir David P. Baker

í Greinar

Atli Harðarson

 

David P. Baker er prófessor í menntavísindum og félagsfræði við ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Bók hans The schooled society: The educational transformation of global culture kom út hjá Stanford University Press árið 2014. Á íslensku gæti hún ef til vill heitið Skólaða samfélagið: Menntadrifin umbreyting á menningu heimsins.

Í bókinni fjallar Baker um samspil skólakerfisins við atvinnulíf, stjórnmál, trúarbrögð og menningu öðru vísi en flestir félagsvísindamenn hafa gert. Hann lýsir skólakerfinu sem einni af sterkustu stofnunum samfélagsins og ætlar því mátt sem er annars vegar sambærilegur við veldi auðmagns og stórfyrirtækja á markaði og hins vegar við ríkisvald og stjórnmál í þjóðríkjum nútímans. Jafnframt andmælir hann þeim sem lýsa menntakerfinu sem veikri stofnun og segja að það sé sett undir hagkerfið eða gegni einkum þjónustuhlutverki. Í seinni skrifum hefur Baker ítrekað meginefni bókarinnar og nokkrar af helstu kenningum hennar eru reifaðar í nýlegri grein sem hann skrifaði með Renata Horvatek (Horvatek og Baker, 2019).

Mannauðsfræði, marxismi og nýja stofnanahyggjan

Baker ber kenningar sínar saman við þau tvenns konar sjónarmið sem mest hefur borið á í skrifum félagsvísindamanna um samspil skóla og samfélags. Þetta eru annars vegar mannauðsfræði úr smiðju hagfræðinga og hins vegar ýmsar átakakenningar í anda marxisma. Fyrrnefndu kenningarnar ganga út á að skólar þjóni atvinnulífinu með því að uppfylla þarfir þess fyrir menntað og sérhæft vinnuafl. Þótt fáir félags- og menntavísindamenn haldi fram hreinræktuðum mannauðskenningum um skóla er hugsun í þessa veru engu að síður algeng og áberandi (Caplan, 2018, bls. 19). Síðarnefndu kenningarnar beina athygli að því hvernig skólar viðhalda stéttaskiptingu. Þær eiga sér öfluga talsmenn á seinni árum (Boliver, 2017) sem benda á að skólar fái fólk til að trúa því að velgengni þess velti á gáfum og dugnaði, en sjái samt til þess, að hvað sem öllum verðleikum líður, njóti afkvæmi yfirstéttarinnar að jafnaði auðs og valda umfram annað fólk.

Baker neitar því ekki að nokkuð sé til í þessum tvenns konar kenningum en segir að þær nái ekki utan um þau félagsfræðilegu sannindi um menntakerfið sem mestu varða því þær geri of lítið úr valdi þess. Hann segir að það umskapi bæði þarfir vinnumarkaðarins og stéttaskiptingu í samfélaginu og að þessu hafi verið of lítill gaumur gefinn (bls. 3)[1] enda séu áhrif menntakerfisins á mannlífið svo alltumlykjandi að við veitum þeim ekki athygli (bls. 6). Þótt Baker geri það ekki er freistandi að tengja þetta klisjunni um að fiskar sjái ekki vatnið sem þeir synda í. Meðal þeirra hugmynda sem hann segir að séu orðnar almennt viðteknar eru að: Skólaganga sé mannréttindi; Mismunum á grundvelli menntunar sé réttlát svo fremi allir hafi jafnan aðgang að skólum; Aukin skólaganga sé samfélagi til hagsbóta; Árangur í skóla jafngildi góðum gáfum (bls. 32–34).

Hugtökin sem Baker notar eru úr smiðju nýlegra afbrigða félagsfræðilegrar stofnanahyggju (e. neo-institutionalism) og hann skoðar skólakerfið sem stofnun í víxlverkun við aðrar stofnanir samfélagsins eins og fjölskylduna, ríkisvaldið, trúarbrögð og markaði. Í grein sem hann skrifaði með tveimur öðrum höfundum um svipað leyti og bók hans kom út er þessari stofnanahyggju lýst sem breiðfylkingu félagsvísindamanna sem eiga það sameiginlegt að skoða hvernig stofnanir móta samfélög manna (Wiseman, Astiz og Baker, 2014).

Nú getur það vel farið saman að skólakerfi mæti að nokkru marki þörfum sem fyrir eru og umskapi þær um leið. Eins getur það farið saman að það viðhaldi stéttaskiptingu að sumu leyti og breyti henni að sumu leyti. Þau þrenns konar sjónarmið sem hér hafa verið reifuð eru ekki svo andstæð að eitt þeirra útiloki að nokkuð sé til í hinum tveimur. Baker segir raunar að skrifum sínum sé ekki stefnt gegn öðrum kenningakerfum og tekur fram að átakakenningar bendi á mikilvægar hliðar félagslegs veruleika en bætir því við að þótt átök stétta og hópa skipti máli séu þau ekki eina driffjöður breytinga á samfélaginu (bls. 284).

Sérstaða Bakers felst í því að hann beinir athyglinni einkum að sjálfstæðum atbeina skólakerfisins meðan hin sjónarmiðin leggja fremur áherslu á hvernig það þjónar öðrum kerfum eða stofnunum.

„Gráðug stofnun“

Sumar stofnanir samfélagsins eru ævagamlar aðrar yngri. Þjóðríkið, með fullveldi sitt, landamæri og síðar lýðræði og fjölþætta opinbera þjónustu, tók að eflast snemma á nýöld og hefur náð undir sig flestum löndum heims á síðustu fjögur hundruð árum eða þar um bil. Á sama tíma hafa orðið til hagkerfi þar sem fjármagn skiptir meira máli en jarðeignir og nú eru markaðir og fjármálakerfi með sína banka, sjóði og kauphallir firnasterkar stofnanir. Eftir því sem Baker segir má rekja sögu menntakerfa langt aftur. En sú menntabylting sem hann jafnar við uppgang þjóðríkja og auðvalds hófst, segir hann, á nítjándu öld. Síðan þá hefur skólaganga orðið almenn og lengst með hverri kynslóð og mótað fólk í vaxandi mæli.

Styrkur skólakerfisins birtist, segir Baker, meðal annars í áhrifum þess á félagslegan hreyfanleika og hvernig stétt manna og staða ræðst meira og meira af árangri í skóla. Tengsl skóla og stéttaskiptingar eru flókin meðal annars vegna þess að staða fólks ræðst að hluta til af því hvort og hvernig sterkustu stofnanir samfélagsins vinna með eða á móti hagsmunum þess. Hún veltur því að nokkru leyti á því hvaða stofnanir hafa mestan styrk. Þess vegna má ætla að fræðimaður sem sér menntakerfið sem sterka stofnum líti áhrif skóla á stéttaskiptinu öðrum augum en þeir sem álíta styrk þess lítinn.

Baker neitar því ekki að ætt og uppruni einstaklings hafi áhrif á hvaða menntun hann hlýtur en segir að þessi uppruni, þ.e. „efnaleg og félagsleg staða foreldra velti í vaxandi mæli á hvaða menntun þeir fengu“ (bls. 54). Formleg menntun er orðin helsta leið fólks til að bæta stöðu sína og „bitlingar, arfgengi starfa, hjúskapartengsl, trúarlegir töfrar, aðild að gildum og þjálfun innan þeirra, voldugir bakhjarlar og erfðastéttir – allt þetta er tekið að líta út sem félagslegar menjar úr framandi heimi“ (bls. 54) og annars konar aðgöngumiðar að vinnumarkaði en skírteini frá skólum „eru orðnir tabú“ (bls. 156).

Baker hafnar sem sagt bæði hugmyndum í anda mannauðsfræða um að hægt sé að lýsa því í megindráttum hvað skólar gera með því að segja að þeir uppfylli þarfir atvinnulífs sem eiga sér tilvist óháð menntakerfinu og kenningum um að þeir viðhaldi aðeins stéttaskiptingu sem fyrir er í samfélaginu. Hann vitnar í skrif félagsfræðingsins Lewis Coser frá 1974 þar sem hann talaði um stofnanir sem „gráðugar“ ef þær reyndu að ríkja yfir öllum okkar lífsháttum og segir að með menntabyltingu síðustu 150 ára hafi skólakerfið orðið að „gráðugri stofnun“ (bls. 280).

Máttur háskólanna og vaxandi trú á gildi skólagöngu

Á Vesturlöndum eru háskólar nær einu stofnanirnar sem hafa starfað öldum saman – sumir jafnvel í átta hundruð ár – eru enn vaxandi og njóta samt almennrar virðingar. Baker segir að þeir móti í sívaxandi mæli þankagang alls almennings og að fleira og fleira í menningunni öðlist þá merkingu sem háskólarnir gefa því. Forysta þeirra birtist meðal annars í því að námsefni grunn- og framhaldsskóla verður sífellt fræðilegra. Jafnframt minnkar vægi starfsmenntunar og iðnfræðslu. „Þegar kom fram um 1950 var þriðjungur framhaldsskólanema í Norður Ameríku og Vestur Evrópu skráður í starfsnám, og á heimsvísu var hlutfallið um fjórðungur“ (bls. 212). Hlutfall nemenda í starfsnámi minnkaði svo allan seinni helming aldarinnar. Árið 1975 var það komið niður í 16 prósent á heimsvísu og fór lækkandi og „nú eru aðeins um 10 prósent námsleiða í framhaldsskólum í starfsmenntagreinum“ (bls. 213).

Jafnframt því sem nám á neðri skólastigum hefur mótast af háskólastiginu hafa æ fleiri sótt háskóla. Þegar leið á tuttugustu öld tóku þeir í vaxandi mæli að mennta fólk í því sem áður var numið heima og í vinnu. Við það breyttist verklag í fjölmörgum greinum og fagmennska af því tagi sem áður var einkum tengd gömlu háskólagreinunum, læknisfræði og lögfræði, varð samofin margs konar störfum (bls. 127). Baker rekur til að mynda upphaf og sögu háskóladeilda í Bandaríkjunum sem mennta fólk í að búa til rjómaís (bls. 105 o. áf.). Þegar nálgaðist aldarlok gerðu háskólar gott betur en að uppfæra störf sem til voru fyrir. Þeir áttu vaxandi hlut í að hnika til merkingu og venjum sem þóttu fastar fyrir í menningunni, svo sem eins og hugtökum okkar um kyn og kynhlutverk. Að þeir skuli geta þetta bendir til að þeir hafi undirtök í samfélagi nútímans og ærinn styrk.

Baker kemur víða við í bók sinni og ræðir meðal annars hvernig námsgengi í skóla mótar sjálfsmynd fólks og hvernig tekið var að skoða brottfall úr framhaldsskóla sem frávikshegðun á seinni hluta síðustu aldar. Umræðan um brottfall sem vandamál varð þá fyrst hávær þegar það varð sjaldgæft og „óeðlilegt“ að hætta í skóla og fara að vinna á unglingsaldri (bls. 245). Um svipað leyti fór alþjóðlegur samanburður á „árangri“ menntakerfa að skipta sífellt meira máli.

Vaxandi trú á gildi skólagöngu birtist á marga vegu. Ein birtingarmyndin sem Baker fjallar um er raunfærnimat sem hann segir að staðfesti trú fólks á formlega menntun. Áður en hugmyndafræði skólanna varð eins ríkjandi og hún er nú hugsuðu menn eitthvað á þá leið að prófgráða staðfesti hæfni fólks til að starfa í tiltekinni atvinnugrein. Starfshæfnin var það sem máli skipti og námið var tæki til að öðlast hana. Nú þykir hæfni sem menn öðlast í atvinnulífinu tæpast fullgild nema hún sé einhvern vegin metin til námseininga í menntakerfinu. Það er eins og fólki þyki nær óhugsandi að forréttindi á vinnumarkaði eða aðgengi að sérhæfðu starfi geti verið fyllilega réttmæt án staðfestingar frá skóla (bls. 174).

Þessar breytingar segir Baker að verði ekki raktar til þess að skólarnir elti þarfir atvinnulífsins, heldur séu þær til marks um að menntakerfið, með háskólana í farabroddi, sé sigursæl stofnun og voldug.

Atvinnulíf, stjórnmál og trúarbrögð

Fyrr á öldum hirtu háskólar ekki um að kenna greinar sem tengdust stofnun, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Pennsylvaníuháskóli var frumkvöðull í þessum efnum þegar hann hóf að kenna rekstrarhagfræði árið 1881. Síðan hefur margt breyst og nú eru viðskiptadeildir háskóla svo fjölsóttar að nær lætur að fjórði hver nemandi sem lýkur meistaranámi í Bandaríkjunum útskrifist með MBA gráðu (bls. 113).

Baker segir að þankagangurinn sem þessir nemendur tileinka sér í skóla móti starfshætti fyrirtækja – skólarnir svari ekki bara þörfum fyrirtækjanna heldur umskapi þær. Hann segir einnig að þessi þankagangur hafi gerbreytt starfsemi ríkisstofnana og haft mótandi áhrif á það sem kallað er nýskipan í opinberum rekstri (e. new public management) (bls. 117). Það sem hann segir um þetta efni er í dálítið svipuðum dúr og kenning sem stjórnmálafræðingurinn Jason Blakely (2020) reifar í bók sinni We built reality: How social science infiltrated culture, politics, and power (Við byggðum veruleikann: Hvernig félagsvísindin komust inn í menninguna, stjórnmálin og valdið). Þar segir Blakely eitthvað á þá leið að víst hafi hagrænir hvatar alltaf stjórnað lífi fólks að einhverju marki – við þurfum jú að verja fé okkar af ráðdeild – en við hagfræði- og viðskiptadeildir háskóla hafi lærdómsmenn reynt að skilja mestallt líf okkar eins og við værum hrein og klár hagmenni og um leið haft mótandi áhrif á félagslegan veruleika með þeim afleiðingum að við þokuðumst nær því að vera drifin áfram af einberri viðleitni til þess að bæta eigin efnahag.

Sagan sem Baker segir um áhrif skólanna á stjórnmálin er að sumu leyti lík frásögn hans af áhrifum þeirra á atvinnulífið. Hún fjallar um breytingar sem urðu án þess að stjórnmálaöfl sem fyrir voru kölluðu eftir þeim. Hann bendir á að aukin skólaganga virðist hvorki breyta miklu um þátttöku í hefðbundnum stjórnmálum né um fylgi við skoðanir af því tagi sem tíðkast að raða milli vinstri og hægri (bls. 249). En hann segir að hún auki virkni fólks á annars konar vettvangi, svo sem í umhverfismálum og kynjapólitík (bls. 252). Menntunin hefur þannig gert fleiri svið mannlífsins pólitísk og skapað almannavettvang um ýmis efni sem er ekki bundinn þjóðríkjum eða stjórnmálaflokkum. Íhaldssamt andóf gegn þessum hreyfingum er í sumum tilvikum jafnframt andóf gegn veldi háskólanna. Þótt leiðtogar þessa andófs séu yfirleitt langskólagengnir eru fylgismenn þeirra flestir með litla formlega menntun og stendur stuggur af vaxandi atbeina menntamanna (bls. 256). Baker nefnir Teboðshreyfinguna í Bandaríkjunum sem dæmi enda er bók hans frá 2014. Nú, sjö árum seinna, er hægt að tiltaka fleiri dæmi eins og flokk Viktors Orbán í Ungverjalandi sem reynir að standa gegn straumi tímans með því að banna kynjafræði í háskólum.

Enn eitt svið sem Baker fjallar um er trúarbrögðin. Sumir frumkvöðlar félagsfræðinnar álitu á sínum tíma að trúarbrögð hlytu að víkja fyrir veraldlegum þankagangi með aukinni menntun og nútímalegum samfélagsháttum. Eins og Ulrich Beck (2010) hefur gert skilmerkilega grein fyrir stenst þetta ekki: Trú á æðri máttarvöld er ekki á undanhaldi. En hún breytist. Baker segir að þessar breytingar séu nátengdar vaxandi áhrifum skólakerfisins – fólk lagi trúarskoðanir sínar að heimsmynd vísindanna og aukinni menntun fylgi líka aukið framboð trúfélaga sem í vaxandi mæli nýti sér þekkingu háskólamanna til þess að ná til fólks og hafa áhrif.

Félagsfræði menntunar og máttug þekking

Í bók sem kom út sama ár og bók Bakers fjallar William Deresiewicz (2014) fyrrum prófessor í ensku við Yale háskóla um æðri menntun í Bandaríkjunum og líkir henni við peningaþvott. Fyrirtæki er notað til að þvætta peninga láti það líta svo út að illa fengið fé sé afrakstur heiðarlegrar starfsemi. Ef ég afla til dæmis tekna með því að selja eiturlyf en á jafnframt kartöflugarð og held því fram að peningarnir séu fengnir með því að selja kartöflur þá nota ég kartöflugarðinn við peningaþvott.

Það sem Deresiewicz á við þegar hann líkir starfi dýrustu og virtustu háskólanna við peningaþvott er að þeir færa börnum yfirstéttarinnar aðgöngumiða að valdastöðum en láta líta svo út að vegtyllur þeirra séu fengnar með því einu að vera dugleg að læra. Sé þetta rétt þá blekkja þeir fólk til að halda að forréttindi sem ganga í erfðir (illa fengið fé) sé umbun fyrir yfirburða dugnað og gáfur (vel fengið fé). Þessi kenning er nokkurn veginn kjarninn í hugsun sumra þeirra félagsfræðinga sem beina athyglinni einkum að því hvernig skólakerfið viðheldur stéttaskiptingu. Í þeirra augum virðist allt kerfið jafnvel vera einhvers konar svikamylla sem lýgur því að börnum alþýðunnar að skólagangan sé þeim til góðs en heldur þeim samt niðri.

Ef lögreglan og skatturinn komast að því að ég noti kartöflugarðinn til að þvætta fé þá er þeim væntanlega nokk sama hvort kartöflurnar sem ég tek upp eru hollar og góðar. Á svolítið svipaðan hátt virðast sumir talsmenn marxisma í félagsfræði menntunar hafa fremur lítinn áhuga á öðru sem skólar gera en því að viðhalda stéttaskiptingu – hvort þeir kenni nemendum til að mynda eitthvað sem er gott fyrir þá að læra. Baker segir hins vegar að annað sem skólar gera en það eitt að tryggja eða auka forskot yfirstéttarbarna sé verðugt rannsóknarefni enda hafi það enn meiri afleiðingar fyrir samfélagið. Hann gagnrýnir því félagsfræðinga, eins og til dæmis Pierre Bourdieu (bls. 188), fyrir að horfa fram hjá því hvílíkt umbreytingaafl menntunin er fyrir fólk af öllum stéttum.

Menntabyltingin sem hófst á nítjándu öld er tæpast skiljanleg nema í ljósi þess að háskólarnir skapa raunverulega þekkingu sem skólar á öllum stigum færa nemendum sínum. Þetta útilokar auðvitað ekki að þeir stundi líka í einhverjum mæli rangláta iðju, heilaþvott og fimbulfamb. Í umfjöllun sinni um þessi efni vísar Baker í skrif Michaels F. D. Young um máttuga þekkingu (e. powerful knowlegde) og segir að Young hafi með skynsamlegum hætti gert grein fyrir því „að með almennri menntun hafi fleira fólk, einkum fólk sem ekki tilheyrir forréttindastéttinni, fengið aðgang (sem stundum var vissulega ófullkominn) að máttugri þekkingu, og þetta hafi ekki aðeins breytt einstaklingunum heldur líka samfélaginu“ (bls. 189).

Young benti á það á undan Baker að innan félagsfræði menntunar hafi allmargir daðrað við öfgafulla afstæðishyggju og skrýtnar gerðir hugsmíðahyggju og jafnvel hafnað því að skólaganga færði nemendum neinn raunverulegan skilning á veruleikanum. Á sama tíma ólu mannauðskenningar hagfræðinga af sér tæknihyggju í þá veru að nám í skóla snerist einungis um hæfni sem nýttist í vinnu en ekki um þekkingu. Hvorugur hópurinn tók þekkinguna alvarlega (Young, 2008, bls. 18–34). Young byggir fræði sín að miklu leyti á félagsfræðikenningum Basils Bernstein en í seinni ritum hans má finna frækorn þessarar hugsunar um hvernig þekkingin færir öllum mátt (Wheelahan, 2006). Bernstein (2000) sagði eitthvað á þá leið að þótt menntakerfi viðhaldi stéttaskiptingu og ójöfnuði færi skólar nemendum líka vald og atbeina til að breyta félagslegum veruleika. Bernstein var raunar fyrirrennari Bakers í fleiri efnum því hann rökræddi áhrif menntakerfisins á stéttaskiptingu í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og taldi að miðstétt þess tíma væri að nokkru leyti afsprengi skólaðs samfélags (Atkinson, 1985, bls. 160).

Þótt Baker lýsi skólakerfinu sem voldugri og sigursælli stofnun er bók hans ekki neinn lofsöngur. Hún er tilraun til að lýsa hluta af félagslegum veruleika nútímans þar sem menntakerfið stendur við hlið hagkerfisins og ríkisvaldsins sem ráðandi afl. Textinn gefur lesanda tæki og tilefni til að gagnrýna menntakerfið og minnir á að til að skilja veruleika nútímans þarf að skoða áhrif skóla, einkum háskóla, betur en gert hefur verið til þessa.

Rit

Atkinson, P. (1985). Language, structure and reproduction: An introduction to the sociology of Basil Bernstein. Methuen.

Baker, D. P. (2014). The schooled society: The educational transformation of global culture. Stanford University Press. https://www.amazon.com/Schooled-Society-Educational-Transformation-Culture/dp/0804790477

Beck, U. (2010). A God of one’s own: Religion’s capacity for peace and potential for violence. Polity Press.

Bernstein, B. (2000). Pedagogy, symbolic control and Identity. Rowman & Littlefield Publishers.

Blakely, J. (2020). We built reality: How social science infiltrated culture, politics, and power. Oxford University Press. https://www.amazon.com/We-Built-Reality-Infiltrated-Politics/dp/0190087382

Boliver, V. (2017). Misplaced optimism: How higher education reproduces rather than reduces social inequality. British Journal of Sociology of Education38(3), 423-432. https://doi.org/10.1080/01425692.2017.1281648

Caplan, B. (2018). The case against education: Why the education system is a waste of time and money. Princeton University Press. https://www.amazon.com/Case-against-Education-System-Waste/dp/0691174652

Deresiewicz, W. (2014). Excellent sheep: The miseducation of the American elite and the way to a meaningful life. Free Press. https://www.amazon.com/Excellent-Sheep-Miseducation-American-Meaningful-ebook/dp/B00GEEB960

Horvatek, R. og Baker, D. P. (2019). Histories of institutions and social change. Í Tanya Fitzgerald (ritstj.), Handbook of historical studies in education. Springer International handbooks of education (bls. 1–19). Springer. https://doi.org/10.1007/978-981-10-0942-6_4-1

Wheelahan, L. M. (2006). A Bernsteinian and realist synthesis to critique instrumental and constructivist theories of knowledge and learning. Í Fourth international Basil Bernstein symposium (bls. 6–9). https://www.researchgate.net/–publication/29461875_A_Bernsteinian_realist_synthesis_to_critique_instrumental_constructivist_theories_of_knowledge_learning

Wiseman, A. W., Astiz, M. F. og Baker, D. P. (2014). Comparative education research framed by neo-institutional theory: A review of diverse approaches and conflicting assumptions, Compare: A Journal of Comparative and International Education, 44(5), 688–709. https://doi.org/10.1080/03057925.2013.800783

Young, M. F. D. (2008). Bringing knowledge back in: From social constructivism to social realism in the sociology of education. Routledge.


Atli Harðarson (atlivh@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://notendur.hi.is/atlivh/


Neðanmálstilvísun

[1]Hér og annars staðar vísar blaðsíðutal innan sviga í Baker (2014).


Grein birt: 25/9/2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp