Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

menntakerfið

Virkjum sköpunarkraft, forvitni, ímyndunarafl og nýsköpun

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein III  

Soffía Vagnsdóttir

 

Þetta er þriðja og síðasta greinin sem ég birti til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni. Heiti fyrri greina voru: Lífsagan og lærdómurinn og Ástríðan – hvað viltu læra?

Það hefur verið gaman að gefa sér tíma til að setja nokkur orð á blað um nám, menntun og þróun skólastarfs. Ég hef ekki gert mikið af því að tjá mig á opinberum vettvangi um skólamál. Ætti kannski að gera meira af því, enda er þessi vettvangur ástríða mín!

Það er svo merkilegt að framtíðin hefur alltaf verið mér hugleikin. Ég hef til dæmis mest gaman af fantasíukvikmyndum sem fjalla um framtíðina get varið ótrúlegum tíma í að „gúggla” og skoða myndbönd, hlusta á viðtöl og lesa greinar og bækur þar sem fólk er að velta fyrir sér framtíðinni. Þegar  ég var í meistaranámi, annars vegar í Menningarstjórnun og hinsvegar í Evrópufræðum, naut ég þess í botn að gefa mér tíma til þess. Í þessari grein langar mig að líta til framtíðar.

Ákall um breytingar á innihaldi náms og breyttum kennsluháttum birtist í skrifum fræðimanna um þessar mundir. Rætt er um menntun sem byggir á dýpri þekkingu (e. deep learning) þar sem samvinna (e. collaboration), samskipti (e. communication) sköpun (e. creativity), gagnrýnin hugsun (e. critical thinking), samfélagsleg þátttaka (e. social citizenship) og manngerð (e. character) þurfa að vera megin áhersluþættir. Kyrrstaða er ekki lengur í boði. Litið er svo á að hreyfiafl breytinga á menntakerfinu þegar kemur að eðli náms sé eins og umbylting sem birtist í samspili úthugsaðrar stefnumótunar og stefnubreytinga og ófyrirséðum, stjórnlausum öflum þar sem tæknibyltingar eru fyrirferðarmestar (Fullan o.fl., 2018). Lesa meira…

Menntakerfið sem stórveldi: Nokkur orð um bókina The schooled society eftir David P. Baker

í Greinar

Atli Harðarson

 

David P. Baker er prófessor í menntavísindum og félagsfræði við ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Bók hans The schooled society: The educational transformation of global culture kom út hjá Stanford University Press árið 2014. Á íslensku gæti hún ef til vill heitið Skólaða samfélagið: Menntadrifin umbreyting á menningu heimsins.

Í bókinni fjallar Baker um samspil skólakerfisins við atvinnulíf, stjórnmál, trúarbrögð og menningu öðru vísi en flestir félagsvísindamenn hafa gert. Hann lýsir skólakerfinu sem einni af sterkustu stofnunum samfélagsins og ætlar því mátt sem er annars vegar sambærilegur við veldi auðmagns og stórfyrirtækja á markaði og hins vegar við ríkisvald og stjórnmál í þjóðríkjum nútímans. Jafnframt andmælir hann þeim sem lýsa menntakerfinu sem veikri stofnun og segja að það sé sett undir hagkerfið eða gegni einkum þjónustuhlutverki. Í seinni skrifum hefur Baker ítrekað meginefni bókarinnar og nokkrar af helstu kenningum hennar eru reifaðar í nýlegri grein sem hann skrifaði með Renata Horvatek (Horvatek og Baker, 2019). Lesa meira…

Fara í Topp