Fríða Gylfadóttir og Tinna Ösp Arnardóttir
Umræða er nú mikil um hvaða tækifæri notkun gervigreindar býður upp á í námi og kennslu. Margir álíta að hún bjóði upp á framfarir á meðan aðrir hafa efasemdir um gildi hennar í menntun. Í ljósi þessa þurfa kennarar að íhuga markvisst þá möguleika sem gervigreind býður uppá í kennslu en líka þær áskoranir sem tilkoma hennar inn í skólastarf hefur í för með sér. Með notkun gervigreindar hafa kennarar tækifæri til að endurskipuleggja vinnu sína og jafnvel hugsa kennsluna upp á nýtt. Gott dæmi um slíka nýsköpun er notkun spjallmenna í kennslu, en þeim er hægt að beita til að veita nemendum persónulega einstaklingsmiðaða aðstoð, þau má nota til að dýpka skilning og auka virkni nemenda í kennslustofunni. Hér verður sagt frá dæmi um þetta sem byggir á reynslu okkar sem kennarar í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Eitt af áhugasviðum okkar er að nýta tækni í kennslu. Á haustönn 2024 sátum við námskeið í Háskóla Íslands sem heitir Nám og kennsla á netinu en umsjón með því hafði Tryggvi Thayer. Námið í þessum áfanga hvatti okkur til að prófa nýjar aðferðir við notkun gervigreindar. Fyrir námskeiðið höfðum við aðeins nýtt okkur gervigreind til dæmis við gerð matskvarða, verkefna, prófa og mynda. Í upphafi namskeiðisins kynnti Tryggvi fyrir okkur spjallmenni sem hann hafði búið til sem nýttist nemendum sem aðstoðarkennari. Við heilluðumst af þessari hugmyndafræði og tókum akvörðun að nýta þetta sem tæki í kennslu.
Flestir hafa prófað spjallmenni á heimasíðum fyrirtækja og á sama hátt má nýta spjallmenni til að aðstoða nemendur í námi. Mat okkar er að spjallmenni geti verið verkfæri kennara til að auka gæði og fjölbreytni í kennslu. Hér skiptir máli að allir nemendur geta nýtt sér það á án tillits til bakgrunns, menningar og ólíkra þarfa. Við gerð spjallmennis er fyrsta skrefið að kaupa aðgang að ChatGPT 4.0 og síðan tekur við það ferli að safna saman gögnum sem spjallmenninu er ætlað að nota til þess að byggja svör sín á. Dæmi um þau gögn sem við notuðum til að búa til spjallmennin voru námsáætlanir, matskvarðar, verkefnalýsingar og leiðbeiningar um notkun heimilda og önnur gögn sem tengjast þeim aföngum sem um ræðir. Við bjuggum til eitt spjallmenni fyrir ensku og annað fyrir fjármálalæsi.
Notendaviðmót ChatGPT 4.0 er aðgengilegt og leiðir notandann áfram við gerð spjallmennisins. Þegar notandinn hefur valið „mitt gpt“, valmöguleika sem er einungis í boði fyrir keypta áskrift, opnast tveir gluggar. Vinstra megin á skjánum opnast gluggi þar sem „kennarinn“ setur inn upplýsingar ásamt gögnum fyrir spjallmennið. Hægra megin er gluggi þar sem hægt er að „sjá sem nemandi“. Kennarinn byrjar á að mata spjallmennið á upplýsingum sem það á að vinna úr. Síðan er mikilvægt að prófa spjallmennið sjálfur í nemendasýn til sjá hvernig það mun svara spurningum nemenda. Ef spjallmennið svarar rangt er mikilvægt að leiðrétta það og það er gert í vinstri glugganum. Þetta þarf að prófa nokkrum sinnum. Við prófuðum spjallmennin okkar á milli, út frá þeim spurningum sem við höfum fengið frá nemendum í gegnum tíðina. Næsta skref var að prófa með nemendum. Nemendur fengu aðgang að spjallmönnunum í kennsluumhverfi afanganna á Innu. Í upphafi fengu nemendur kynningu á spjallmenninu og þeir voru allir reiðubúnir til að prófa. Nemendur þurfa ekki að vera með keyptan aðgang til að nota spjallmennið en þeir þurfa að skrá sig inn á ChatGPT. Við létum koma skýrt fram að við værum að prófa og einhverjir hnökrar gætu komið upp.
Við höfum fengið jákvæð viðbrögð nemenda og sjáum þetta sem tækifæri til að auka og bæta gæði náms og kennslu. Nemendur í enskuáfanga fengu tækifæri til að nota gervigreindarkennarann við vinnslu á heimildaritgerð. Dæmi um spurningar sem nemendur spurðu voru til dæmis varðandi lengd, skilafrest, uppsetningu, orðanotkun og almenn skrif. Spjallmennið svaraði spurningum bæði a íslensku og ensku. Í fjármálalæsi voru nemendur helst að spyrja um skilgreiningar á hugtökum, innihaldi og uppsetningu skilaverkefna.
Nemendur í þessum aföngum tileinkuðu sér tæknina hratt og sýndu mikinn vilja til að prófa nýjar aðferðir. Upplifunin var afar jákvæð þar sem nemendur voru opnir fyrir nýjungum sem má rekja til þess að kennarinn hafði frá upphafi hvatt þá skýrt til að nýta verkfærið. Spjallmennið svaraði nemendum snöggt sem er mikill kostur eins og til dæmis í stórum nemendahópum þegar kennarinn getur ekki aðstoðað alla í einu. Auk þess gefur spjallmennið nemendum sem annars þora ekki að spyrja tækifæri til að fá svar við sínum spurningum. Nemendur þekkja umhverfið vel þar sem þau eru vön að nota leitarvélar og voru ánægðir með að fá skjót svör í stað þess að fletta upp í glærum og leita eftir svörum sjálfir.
Hér kemur umsögn frá nemenda í áfanganum ENSK3hr05:
Ég notaði gervigreindaraðstoðarkennaranann í hr áfanganum. Að mínu mati þá er gervigreindin mjög góð í að hjálpa til við uppsetningu á verkefnum, hún hjálpaði mér að setja upp ritgerðina og hvað hver efnisgrein ætti að fjalla um. Gervigreindin nýttist mér vel í að lesa yfir og koma með punkta hvernig mætti skrifa þetta meira faglegra. Gervigreindin er mjög góð í að svara almennum spurningum, þegar kemur að skrifa langan texta með heimildum er ekki hægt að treysta Chat gpt. Ég myndi ekki nota gervigreind í stór verkefni þar sem hún er ekki alveg orðin áreiðanleg. Ég mun hiklaust halda áfram að nota gervigreind í að lesa yfir og hjálpa til við uppsetningu, en ég veit sjálfur að það er mikilvægt að lesa yfir allar upplýsingar sem hún skrifar. Ég lét gervigreindina lesa yfir ritgerðina og gefa henni einkunn, gervigreindin var „spot on“ á einkunnina. Gervigreindin sagðist myndi gefa mér 7.5-8 fyrir ritgerðina og ég fékk 7.5 frá Fríðu. Ég held að það ætti ekki að banna gervigreindina í verkefnum heldur frekar kenna nemendum að nota hana rétt.
Niðurstaða okkar er að spjallmennið stuðli að meira og betra námi. Hver og einn nemandi hefur aðgengi að „aðstoðarkennara” hvenær sem honum hentar og getur fengið aðstoð þegar honum hentar. Nemandinn þarf ekki að bíða eftir svari frá kennara og spjallmennið er góður stuðningur í námi og þegar kemur að heimanámi
Gervigreind er verkfæri í kennslu, og í okkar tilviki má segja að spjallmennið hafi nýst eins og aðstoðarkennari. Mikilvægt er eftir sem áður að kennarar sinni sínu hlutverki hver í sinni kennslustofu og kenni nemendum að nýta sér gervigreind til stuðnings í námi. Um leið þarf að kenna nemendum gagnrýna hugsun og hvetja þá til að rýna í þær upplýsingar sem settar eru fram af gervigreind. Því fylgja áskoranir eins og að kennarar tileinki sér nýja tækni en einnig fjölmörg tækifæri sem styrkja nemendur í námi. Því hvetjum við alla kennara til að taka stökkið og prófa að búa til spjallmenni.
Fríða Gylfadóttir er kennslustjóri enskudeildar í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ásamt því hefur hún kennt lífsleikni við skólann. Hún lauk BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands og síðar diplómanámi í menntun framhaldsskólakennara. Hún lýkur í vor meistaragráðu frá HÍ í kennslu upplýsingatækni, nýsköpunar og miðlunar. Fríða hefur skrifað rafræna kennslubók í lífsleikni.
Tinna Ösp Arnardóttir er kennslustjóri viðskiptadeildar í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og kennir viðskiptafög og lífsleikni við skólann ásamt því starfar hún sem félagsmálafulltrúi. Hún hefur skrifað kennslubækur í fjármálalæsi, markaðsfræði og rafræna bók í lífsleikni. Tinna lauk viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og síðar diplómanámi í menntun framhaldsskólakennara. Hún klárar í vor meistaragráðu frá HÍ í kennslu upplýsingatækni, nýsköpunar og miðlunar.
Helstu áhugasvið þeirra eru fjölbreyttar kennsluaðferðir, leiðsagnarmat og upplýsingatækni í kennslu.
