kennsluhættir

Innleiðing teymiskennslu í Vesturbæjarskóla

16. júní, 2020

Erna Guðríður Kjartansdóttir, Guðlaug Elísabet Finnsdóttir og Sunna Guðmundsdóttir

Í þessari grein er fjallað um hvernig kennarar í Vesturbæjarskóla þróuðu og innleiddu hugmyndir sínar um teymiskennslu. Við lýsum því hvernig þörfin fyrir breytingar vaknaði, segjum frá innleiðingunni og reynslu okkar af teymiskennslu og vísum í rannsóknir sem styðja við þessa hugmyndafræði. Okkar markmið er að skapa lærdómssamfélag þar sem fólk vinnur saman, deilir sameiginlegri sýn og styður hvert annað í þeirri viðleitni að stuðla að betri námsárangri og líðan nemenda og kennara. (meira…)

Stærðfræðikennslan, kennararnir og vinnuaðstaða þeirra: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

Í febrúar, fyrr á þessu ári heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada, Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu fjallaði hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku, sjá hér. Önnur greinin, sem hér birtist, fjallar um skólana, stærðfræðikennarana og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja, sem birt verður fljótlega, er um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira. (meira…)

„Námsmatið er leiðarljós inn í kennslu morgundagsins“ (Frelsi til að kafa djúpt III)

Oddný Sturludóttir

 

Þriðja grein mín um rannsókn á skólastarfi alþjóðlegs grunnskóla í Sádí-Arabíu, þar sem hugmyndafræði fjórðu leiðarinnar er höfð að leiðarljósi, fjallar um hvernig staðið er að námsmati og starfsþróun. Í upphafi rannsóknarferlisins gerði ég ráð fyrir því að fjalla um þessar tvær mikilvægu stoðir skólastarfs hvora í sínu lagi. En í rannsóknarferlinu kom smám saman í ljós að námsmat og starfsþróun var ekki hægt að slíta sundur. Saman myndar þetta tvennt ásamt námskránni (eða inntaki námsins) heild, þar sem hver þáttur styður annan. Yfirskrift greinarinnar er sótt í smiðju eins þátttakenda sem lýsti því hvernig kennarar unnu í sameiningu að því að meta verkefni nemenda: „Námsmatið er leiðarljós inn í kennslu morgundagsins“. Þetta segir í raun allt sem segja þarf! Ég ætla þó að orðlengja eilítið og lýsa betur fyrirkomulagi starfsþróunar og námsmats í Gardens Secondary School því ég tel nálgun skólans vera sérlega lærdómsríka fyrir okkur á Íslandi. Byrjum á starfsþróuninni. (meira…)

Átak í breyttum kennsluháttum – innleiðing spjaldtölva í Kópavogi

bjorn_gunnlaugssonBjörn Gunnlaugsson, verkefnisstjóri


Niðurstöður samræmdra prófa voru tilefni fréttar sem birt var á vef Kópavogsbæjar seint í mars 2015, fáeinum dögum áður en höfundur þessa greinarkorns hóf störf sem verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í grunnskólum bæjarins. Í fréttinni kom fram að grunnskólar í Kópavogi hefðu verið yfir landsmeðaltali í öllum greinum og árgöngum þetta árið. Það mátti því líta svo á að skólastarf í Kópavogi væri í miklum blóma, að minnsta kosti miðað við þennan mælikvarða. (meira…)

„Spotta, lyfta, gera sýnilegt – það er áskorunin akkúrat núna.“ Um þróun háskólakennslufræði við Háskóla Íslands

5. mars, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Guðrún Geirsdóttir

Eins og félagi minn góður, heiðursmaðurinn og stórafmælisbarnið Ingvar Sigurgeirsson, hef ég um langt skeið brunnið fyrir kennslufræðum og kennaramenntun og borið gæfa til að fá að sinna þeirri ástríðu minni á starfsvettvangi mínum innan Háskóla Íslands. Fyrir hartnær tuttugu árum var Kennslumiðstöð Háskóla Íslanda stofnuð, miðstöð sem ég hef stýrt sem stjórnarformaður frá stofnun og sem deildarstjóri síðasta áratug. Á þessum tuttugu árum hefur starfsþróun háskólakennara á sviði kennslu verið kjarni míns starfs og því langar mig að nota tækifærið hér til að fjalla um þróun kennslufræða fyrir háskólakennara við Háskóla Íslands. Mig langar að deila vegferðinni frá fyrstu tilraunum til að koma á laggirnar formlegu námi í kennslufræði fyrir háskólakennara til dagsins í dag þar sem kennsluþróun hefur öðlast formlegan sess í störfum kennsluþróunarstjóra sem sjá hlutverk sitt að „spotta, lyfta og gera sýnilegt“ (Elva Björg Einarsdóttir, 2020). (meira…)

„Skólinn er ekki undirbúningur fyrir lífið. Skólinn er lífið“

19. nóvember, 2020

Pétur Þorsteinsson og opni skólinn á Kópaskeri

Ingvar Sigurgeirsson


Í febrúar árið 1988 dvaldi ég í hálfan mánuð á Kópaskeri og fylgdist með kennslu í grunnskólanum. Ég var að afla gagna fyrir doktorsverkefni mitt sem beindist að því að rannsaka hvernig kennarar notuðu námsefni, ekki síst hvernig það tengdist ólíkum kennsluaðferðum á miðstigi grunnskólans. Skólaárin 1986‒1987 og 1987‒1988 fylgdist ég með kennslu í hálfan mánuð í tuttugu bekkjardeildum á miðstigi í tólf skólum og hafði valið skólana annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Norðurlandi. Skólarnir voru ólíkir að stærð; fjölmennir og fámennir og í ólíku umhverfi; í borginni og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, í kauptúnum og kaupstöðum og svo voru sveitaskólar, bæði heimanaksturs- og heimavistarskólar. Ég reyndi líka markvisst að velja skóla þar sem kennsluhættir voru ólíkir – ég valdi meðal annars að fara í nokkra opna skóla sem svo voru kallaðir á þessum tíma. Grunnskólinn á Kópaskeri var opinn skóli en skólastjóri var á þessum tíma Pétur Þorsteinsson, sem er líklega kunnastur fyrir brautryðjendastarf sitt í tengslum við innleiðingu upplýsingatækni í íslenska grunnskóla.

Áhugi minn á opna skólanum leiddi til þess að ég fór markvisst að leita uppi skóla hér á landi þar sem unnið var á þessum grunni og heimsótti þá marga – og þeir voru á þessum tíma allmargir  ‒ en aldrei komst ég í Grunnskólann  á Kópaskeri fyrr en árið 1988. Heimsóknin í skólann er mér sérstaklega minnisstæð fyrir margra hluta sakir, einkum vegna þess að þessi litli skóli var um svo margt langt á undan sinni samtíð. Um alllangt skeið hefur það verið ásetningur minn að skrifa um þessa heimsókn mína, enda á það sem þar bar fyrir augu fullt erindi við okkur rúmum þrjátíu árum síðar. (meira…)

Þurfa allir alltaf að gera það sama? Nemendur með í ráðum um val á verkefnum og námsmati

18. ágúst, 2020

Fríða Gylfadóttir og Tinna Ösp Arnardóttir

Sem starfandi framhaldsskólakennarar erum við stöðugt að leita nýrra leiða, bæði í kennslu og í námsmati, til að höfða til fjölbreyts nemendahóps, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð nemenda í námi. Fyrir nokkrum árum byrjuðum við að leyfa nemendum að velja að hluta til námsmat í ákveðnum áföngum sem við kennum. Við höfum alltaf haft áhuga á nemendamiðuðu námi með áherslu á verkefnavinnu. Báðar störfum við sem kennarar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem við kennum ensku og viðskiptagreinar. (meira…)

Stærðfræðikennslan, námsefnið og kennsluaðferðirnar: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

26. júní, 2019

Í febrúar, fyrr á þessu ári heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada, Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu, sjá hér, fjallaði hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Í annarri greininni, sjá hér, fjallaði hún um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja, sem hér birtist er um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira. (meira…)

Horft á móttöku nemenda með annað móðurmál en ensku eða frönsku: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

4. maí, 2019

Í febrúar síðastliðinn heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada; Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu, sem hér birtist, fjallar hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Önnur greinin, sem birt verður fljótlega, fjallar um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira. (meira…)

Áhrif í orði eða á borði? Skólarannsókna-/skólaþróunardeild 1966–1990

29. desember, 2018

Þann 12. maí 2018 var haldið í Veröld – húsi Vigdísar málþing sem ætlað var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966–1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni vafalítið eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum (sjá um það t.d. í bókinni Sögukennsluskammdegið – Rimman um sögukennslu og samfélagsfræði 1983–1984 í ritstjórn Lofts Guttormssonar, sjá hér).

Á málþinginu flutti Gerður G. Óskarsdóttir erindi þar sem hún velti fyrir sér áhrifum þessa starfs. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir að fá að birta erindið og varð Gerður góðfúslega við því. Fleiri greinar frá þinginu munu birtast í Skólaþráðum á næstunni.


(meira…)

Lýðræðisverkefni í leikskólanum Árbæ

27. september, 2017

Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri

Starfsfólk leikskólans Árbæjar hefur lengi unnið að því að móta lýðræðislegt skólastarf eins og Aðalnámskrá leikskóla gerir ráð fyrir. Starfsfólkið hefur verið áhugasamt um að auka hlut lýðræðis í daglegu starfi en vantaði til þess þjálfun. Sett var á fót þróunarverkefni sem unnið hefur verið eftir síðastliðin ár undir stjórn áhugasamra deildarstjóra sem voru tilbúnir til þess að að leiða verkefnið ásamt leikskólastjóra. Í gegnum árin hefur leikskólinn fengið til liðs við sig helstu sérfræðinga í þessum málum og leitaði eftir reynslu þeirra sem hafa unnið eitthvað með lýðræði í leikskólastarfi. Í leikskólanum er lögð áhersla á að fræða og leiðbeina starfsfólki leikskólans, efna til samræðna milli starfsfólks, skiptast á reynslu og viðhorfum. Nánari upplýsingar um þróunarverkefnið sem unnið var í leikskólanum má nálgast hér: http://www.sprotasjodur.is/static/files/leikskolinn_arbaer_nr30_lokaskyrsla.pdf (meira…)

 „Kannski voru það álfarnir?“ Álfaþema í Naustaskóla á Akureyri

22. mars, 2017

Kristín Sigurðardóttir, Gréta Björk Halldórsdóttir, Sunna Alexandersdóttir og Birgitta Laxdal, kennarar í Naustaskóla


Í ársbyrjun heimsótti einn ritstjórnarmanna Naustaskóla á Akureyri. Hann rak, satt best að segja, í rogastans þegar hann sá einstaka kastalabyggingu á svæði yngstu barna skólans. Í ljós kom að reistur hafði verið Álfakastali og að hann tengdist verkefni sem nemendur höfðu verið að glíma við. Það var Álfaþema – sem nemendur og kennarar – höfðu nánast orðið heillaðir af. Ekki sakaði að hér hafði verið leikið af fingrum fram og mörg skemmtileg verkefni orðið til. Álfakastalinn hafði líka fengið viðbótarhlutverk og var orðinn leskrókur!

Þess var farið að leit við kennarana að þeir segðu okkur sögu umrædds verkefnis – sem segja má að sé sannkallað ævintýri – og urðu þeir góðfúslega við því.

Megum við óska eftir fleiri sögum af þessu tagi!?


(meira…)

Nám sem þátttaka

6. desember, 2016

myndHafþór Guðjónsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands


Since the dawn of civilization, human learning is conceived of as an aquisition of something. Indeed the Collins English Dictionary defines learning as “the act af gaining knowledge”  (Sfard, 1998, bls. 5).


Hefðin kennir okkur að hugsa um nám sem viðtöku eða upptöku þekkingar. Þekking er þá eitthvað sem fyrri kynslóðir hafa skapað og sett í letur, yrðingar um hluti og fyrirbæri, eitthvað sem staðist hefur tímans tönn og við köllum ýmsum nöfnum, til dæmis staðreyndir, kenningar, lögmál, reglur eða formúlur. Kennslubækur eru fullar af svona yrðingum og það gefur þeim sérstaka virðingarstöðu. Fullkomin kennslubók geymir allt sem ungur nemandi þarf að vita, sagði kennari í rannsókn sem Ingvar Sigurgeirsson (1992, bls. 279) gerði á notkun námsgagna á miðstigi grunnskólans. Að minni hyggju endurspegla þessi orð kennarans ríkjandi viðhorf til náms. Að læra námsgrein í skóla felur í sér að tileinka sér það sem stendur í námsbókinni og leggja það á minnið. Um þetta hverfist skólastarfið að verulegu leyti, nokkuð sem endurspeglast í þungri áherslu á skrifleg próf sem ganga jafnan út á að kanna hvort og í hve ríkum mæli nemendur hafa tileinkað sér það sem stendur í námsbókinni. (meira…)

Færslusafn

Fara íTopp