Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Innleiðing teymiskennslu í Vesturbæjarskóla

í Greinar

Erna Guðríður Kjartansdóttir, Guðlaug Elísabet Finnsdóttir og Sunna Guðmundsdóttir

 

Í þessari grein er fjallað um hvernig kennarar í Vesturbæjarskóla þróuðu og innleiddu hugmyndir sínar um teymiskennslu. Við lýsum því hvernig þörfin fyrir breytingar vaknaði, segjum frá innleiðingunni og reynslu okkar af teymiskennslu og vísum í rannsóknir sem styðja við þessa hugmyndafræði. Okkar markmið er að skapa lærdómssamfélag þar sem fólk vinnur saman, deilir sameiginlegri sýn og styður hvert annað í þeirri viðleitni að stuðla að betri námsárangri og líðan nemenda og kennara.

Teymiskennsla felur í sér sameiginlega ábyrgð tveggja eða fleiri kennara á námi nemenda, kennslu, daglegum samskiptum og samstarfi með nemendahóp. Kennarar vinna náið saman og bera sameiginlega ábyrgð á námi, líðan og kennslu nemenda. Teymiskennsla gefur kennurum tækifæri til að vinna saman að verkefnum í daglegu starfi og er ein leið til að bregðast við breytilegu samfélagi. Fagleg teymi gefa kennurum tækifæri til að þróa og læra í starfi, þau skapa námsumhverfi og nýjar bjargir og umræðu um kennslu og nám (Svanhildur María Ólafsdóttir, 2009 bls. 18-20).

Ekki er alltaf samræmi í hugtakanotkun um teymiskennslu en kjarninn er að kennarar vinna saman og eru samábyrgir fyrir nemendum. Mikilvægt er að átta sig á muninum á teymiskennslu og teymisvinnu en munurinn felst í þessari sameiginlegu ábyrgð á nemendum (Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns, 2017).

Í teymiskennslu er einangrun kennara rofin og rannsóknir sýna að náið samstarf leiðir oftar en ekki til aukinnar starfsánægju og faglegs áhuga og bættu viðhorfi til skóla og náms (Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns, 2017). Þegar kennarar í teymiskennslu sameina hæfni sína getur það haft jákvæð áhrif á námsárangur nemenda (Main og Bryer, 2005). Í teymiskennslu aukast líkur á að kennarar eigi í faglegu samtali daglega, vinni saman við að skipuleggja verkefni og skiptast á hugmyndum um kennsluna. Í teymiskennslu fá kennarar tækifæri til að læra í starfi og skapa námsumhverfi og nýjar bjargir. Slík teymi nálgast kennsluna á nýjan hátt þar sem farið er dýpra í kennsluaðferðir og nám nemenda út frá þörfum þeirra. Teymi er mikilvægur þáttur innan skólasamfélagsins og þegar kennararnir í teyminu læra er líklegt að stofnunin læri líka (Svanhildur María Ólafsdóttir, 2009 bls. 18-20).

Teymiskennsla hefur verið rannsökuð í marga áratugi víða um heim á öllum skólastigum (Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns, 2017). Niðurstöður margra rannsókna hafa leitt í ljós betri námsárangur í teymiskennsluskólum og að samstarf kennara stuðli að margvíslegum ávinningi fyrir nemendur, kennara og skóla. Rannsóknir benda einnig til þess að teymiskennsla hafi jákvæða félagslega þýðingu fyrir nemendur, stuðli að betri hegðun, ástundun og viðhorfum til náms, kennara og skóla. Í öflugu lærdómssamfélagi þar sem teymiskennsla tíðkast eru kennarar opnari fyrir því að þróa kennsluhætti og starf.

Talið er að kennarar sem vinna í teymum þurfa meiri tíma til daglegra samskipta (Goetz, 2000). Stundum eru erfiðleikar í teymum eins og skortur á trausti eða kennarar ná ekki saman. Tímaskortur getur einnig verið vandamál og erfitt getur verið að finna tíma til undirbúnings. Ef einhverjir kennarar leggja minna á sig en aðrir getur það valdið togstreitu í teymi og einnig ef væntingar til kennslunnar eru ólíkar. Einstaka nemendur finna sig ekki í þessu skipulagi og þurfa kennarar að bregðast við því.

Teymiskennsla getur stuðlaða að öflugri skólaþróun sem verður til í lærdómssamfélagi þar sem fólk deilir gildum og hugsjónum, stunduð er fagleg ígrundun og faglegt samstarf er í hávegi haft. Í lærdómssamfélagi lærir hver af öðrum og hver með öðrum í viðleitni sinni til að ná sífellt betri árangri í samræmi við breyttar áherslur á hverjum tíma (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2015 bls. 7).

Með innleiðingu á teymiskennslu í Vesturbæjarskóla er verið að byggja upp lærdómssamfélag þar sem fólk vinnur saman og deilir sameiginlegum áhuga og sýn og styður hvert annað. Markmiðið er alltaf að stuðla að betri námsárangri og líðan nemenda. Fullan og Hargreaves (2016) fjalla um mikilvægi þess að auka gæði náms með faglegri starfsþróun til að byggja um faglegan mannauð.

Þörf fyrir breytingar

Í Vesturbæjarskóla hafa ýmsar leiðir verið prófaðar í samstarfi kennara og nemenda í gegnum árin í teymisvinnu með samkennslu nemenda í hringekjum, vali og þemavinnu. Í þessum útfærslum á samstarfi kennara hefur skipulagið ávallt tekið mið af því að árgöngum sé skipt í bekki og að hver bekkur hafi sinn umsjónarkennara. Í þessu nána samstarfi og blöndun nemenda hefur það verið umsjónarkennarinn sem ber ábyrgð á nemendum í sínum bekk. Hann ber ábyrgð á málum er varða framfarir í námi, samskipti við foreldra og mál er snerta félagslega stöðu nemenda.  Samstarf kennara hefur að mestu snúist um skipulag skólastarfsins og kennslu.

Í hefðbundnu bekkjarskipulagi gátu komið upp erfiðleikar vegna mismunandi fjölda drengja og stúlkna í bekk, skyndilegrar fækkunar nemenda í bekkjum og einnig vegna þess að oft á tíðum var lítið samneyti á milli bekkja innan sama árgangs. Félagslegt val nemenda var af skornum skammti og einstaklingar sem voru fyrirferðameiri fengu meiri athygli kennara en þeir sem minna fór fyrir. Í fjölbreyttum hópi nemenda taka ólíkir einstaklingar sér mismunandi stöðu út frá félagslegu samþykki og erfitt getur verið að brjóta upp slík samskipti. Þetta getur haft mikil áhrif á líðan, nám og sjálfsmynd margra nemenda. Út frá umræðu um þessa þætti fundu kennarar þörf fyrir að brjóta upp þetta hefðbundna bekkjarmynstur.

Almenna reglan var að þegar nemendur hófu nám í 1. bekk var búið að skipta þeim í bekki. Þetta var gert áður en nemendur komu saman að hausti og áður en kennarar hittu nemendur. Samspil nemendahópsins getur verið með ýmsu móti og því ekki gefið að þessi skipting og samsetning sé sú besta sem völ er á. Að færa nemendur á milli bekkja eftir að skólastarf var hafið var ekki sjálfsagt mál og oft á tíðum mjög viðkvæmt fyrir nemendur, kennara og foreldra. Með þessu hefðbundna bekkjarfyrirkomulagi teljum við að skólinn hafi ekki verið að nýta tækifærin sem best til að koma til móts við þarfir nemenda.

Þegar umræða um samsetningu nemenda í bekkjum hófst reyndu kennarar ýmsar leiðir til að brjótast út úr þessari hefð með því að blanda nemendum milli bekkja. Nemendum var skipt í smærri vinnuhópa, sérstaka námsgreinahópa og svo framvegis. Nemendur áttu þó alltaf áfram sína heimastofu þar sem þeir hófu  og luku skóladeginum, borðuðu nesti og geymdu námsgögnin sín. Kennarar sem þetta reyndu fundu að þetta var gott uppbrot á hinu hefðbundna bekkjarkerfi, sérstaklega hvað varðar félagsleg tengsl nemenda. Í þessu fyrirkomulagi fóru nemendur á milli kennara sem reyndist jákvætt en foreldrasamskipti, samráðsfundir, námsmat, teymisfundir og ábyrgð á nemendum var þó í höndum eins umsjónarkennara. Í óformlegri og formlegri umræðu fann hópur kennara í skólanum fyrir þörf til að ganga enn lengra og finna leiðir til að koma betur til móts við fjölbreyttan nemendahóp og vera betur í stakk búin til að takast á við breytingar.

Í matstæki um þróun skólastarfs í anda hugmynda um einstaklingsmiðað nám, lýðræðislegt og nemendamiðað skólastarf og lærdómssamfélag sem gefið var út af Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviði HÍ (2018) er skólastarfi lýst á fimm stiga kvarða. Í framtíðarsýn um skólastarf er áhersla lögð á teymiskennslu, lýðræðislegt skólastarf og lærdómssamfélag. Leiðarljós nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar er fagmennska og samstarf sem á að mæta áskorunum sem felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum sem umbreyta uppeldisaðstæðum barna og hefðbundnum hugmyndum um menntun.

Í upphafi ræddu kennarar um eftirfarandi markmið með teymiskennslunni:

 • að bæta og auka samstarf kennara með aukinni faglegri samvinnu og sameiginlegri ábyrgð,
 • að kennarar njóti stuðnings hver af öðrum til að auka fagmennsku,
 • að efla kennara í starfi og styðja við skólaþróun,
 • að skapa heildstæða kennslu árganga þannig að litið verði á árganginn sem eina heild,
 • að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir betur til að koma til móts við mismunandi þarfir, þroska og getu nemenda í einstaklingsmiðuðu námi,
 • að styrkja nemendur félagslega og að þeir læri að takast á við breytingar,
 • að nemendur verði sjálfstæðir og ábyrgir í námi sínu og læri að vinna saman í fjölbreyttum hópi.

Með þetta að leiðarljósi hófst þróun teymiskennslu hér í Vesturbæjarskóla haustið 2017. Við vildum hafa sameiginlega umsjón og ábyrgð gagnvart nemendum. Við öfluðum okkur upplýsinga um slíkt fyrirkomulag úr mörgum áttum og fannst sú hugmynd að árganginum væri skipt í litla hópa sem færu á milli kennara góð leið. Annað hagnýtt sem tengist teymiskennslunni höfum við aflað okkur með reynslu og með því að koma að þessu verkefni með opnum huga. Sumt hefur gengið vel en annað ekki eins vel og allt er þetta hluti af þróun sem stendur enn yfir.

Teymiskennsla í Vesturbæjarskóla

Skólaárið 2017−2018  hófst teymiskennsla í 1. og 4. bekk svo bættust fleiri bekkir við í kjölfarið. Skólaárið 2018−2019 var teymiskennsla í 1.−5. bekk og á þessu skólaári 2019−2020 er kennt í teymiskennslu í 1.−6. bekk. Kennararnir höfðu ákveðnar hugmyndir um fyrirkomulagið áður en farið var af stað og öfluðu sér upplýsinga úr ýmsum áttum.

Stjórnendur voru mjög áhugasamir og hvöttu kennara til að prófa teymiskennslu en bæði skólastjóri og aðstoðarskólastjóri höfðu áður starfað í teymiskennsluskólum. Þessi stuðningur skólastjórnenda var mjög mikilvægur en það er hlutverk stjórnenda að skapa sameiginlega sýn um markmið, gildi og framtíðarsýn.

Í upphafi mættu kennarar nokkurri tregðu innan skólasamfélagsins. Foreldrar voru óöruggir með skipulagið og ekki voru allir kennarar og starfsfólk innan skólans sannfærðir. Stjórnendur og kennarar þurftu því að útskýra hugmyndirnar að baki teymiskennslunni og rökstyðja breytingarnar á fundum með starfsfólki, bekkjarfulltrúum, foreldrafélaginu og skólaráði. Eftir á að hyggja hefði mátt undirbúa breytingarnar betur í upphafi en þannig er það oft með breytingarstarf að stundum verður bara að byrja. Oft er unnið samhliða með alla þætti í breytingastarfi eins og að skilgreina framtíðarsýn, innleiða verkefni með því að prófa sig áfram og festa í sessi. Þessi hugmynd snýst um að prófa sig áfram þó endanleg markmið hafa ekki verið skilgreind (Fullan, 2015, bls. 78−79).

Kennarar í teymi

Í upphafi skólaárs ræða kennarar í teymum væntingar sínar til teymiskennslunnar og viðhorf og gildi til náms, kennslu og nemenda. Sameiginleg sýn kennara er að teymiskennsla einkennist af gagnkvæmum skilningi, virðingu og trausti. Teymin setja sér reglur um samvinnu og samskipti, ræða um fyrirkomulag í kennslustofunum, námsefni, kennsluaðferðir, námsmarkmið, námsmat og annað sem viðkemur námi nemenda og vinnulagi teymisins. Slík samræða styrkir og styður við menningu teymisins. Kennarar vinna í sameiningu að öllum undirbúningi fyrir kennslu og daglegu starfi með nemendum. Teymin staldra reglulega við og ræða stöðu teymisins á gagnrýninn og hreinskilinn hátt og skoða hvort verið sé að vinna í samræmi við þau markmið sem sett voru í upphafi. Samstarf kennara í teyminu er mjög mikið og daglega skiptast þeir á upplýsingum um nemendur, eiga í samskiptum við foreldra og annað er við kemur skólastarfinu. Kennarar í teymi vinna sameiginlega að námsmati hvers nemenda og eiga samtal um námsframvindu sem gerir námsmat faglegra. Kennarar hafa betri yfirsýn yfir samskipti nemenda og félags-, tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem hafa svipaðan skilning á nemandanum. Sveigjanleikinn sem teymiskennsla hefur í för með sér gerir kennurum kleift að bregðast hraðar og betur við þegar upp koma vandamál í félagslegum samskiptum nemenda.

Mikilvægt er að kennarar séu samstíga til að koma í veg fyrir misskilning og ósamræmi í skilaboðum til nemenda. Allar ákvarðanir sem teknar eru í skólastarfinu eiga að vera vel ígrundaðar og byggjast á faglegum sjónarmiðum, ávallt með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Nemendur

Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni er í verkefnum fyrir nemendur í teymiskennslu og námsmat er sanngjarnara. Kennarar telja að hægt sé að hafa fjölbreyttari hópa og mæta þannig ólíkum þörfum nemenda, en rannsóknir sýna að getublandaðir hópar leiða til betri námsárangurs. Nemendur tengjast fleiri kennurum og geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifað jákvæðar fyrirmyndir í samskiptum fullorðinna. Öryggi er fyrir hendi hjá nemendum þótt einn kennara vanti. Í teymiskennslu fá nemendur tækifæri til aukinnar reynslu og þroska, bæði félagslega og námslega. Einhverjir foreldrar hafa lýst áhyggjum sínum af því að börn geti týnst í þessu kerfi en kennararnir eru sammála um að þau týnist síður þar sem betur sjá augu en auga.

Skipulag skólastarfsins

Kennarar vinna náið saman með nemendahóp og bera sameiginlega ábyrgð á námi, líðan og kennslu nemenda. Hópaskiptingarnar eru til þess að allir kennarar og nemendur nái að kynnast en því fylgir stuðningur fyrir bæði kennara og nemendur og að finna bestu mögulegu aðstæður fyrir hvern og einn.

Nemendum er skipt í mismunandi marga hópa og fer það eftir stærð árganga og fjölda kennara hversu margir nemendur eru í hverjum hóp. Á hverju tímabili eru tveir hópar í senn hjá hverjum kennara. Hópar geta tekið breytingum yfir skólaárið og eru slíkar ákvarðanir ávallt teknar með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Mismunandi er hversu oft skipti fara fram en algengast er að þau fari fram á tveggja til þriggja vikna fresti sem þýðir að nemandi er hjá sama kennara í fjórar til sex vikur. Kennarar teymisins ákveða hversu oft er skipt og getur það tekið breytingum yfir skólaárið. Kennarar hittast fyrir skipti, fara yfir nemendahópinn og undirbúa skiptinguna. Nemendur eru upplýstir um hvenær skipti fara fram og þannig undirbúnir fyrir þau. Í yngri bekkjum eru foreldrar upplýstir um skipti með fyrirvara og geta einnig undirbúið börnin sín fyrir þau. Þegar skipti fara fram ganga nemendur á milli með skúffur sínar og önnur gögn í þá stofu sem þeir eiga næst að fara í.

Fyrir skiptingar er mikilvægt að kennarar fari yfir ákveðin atriði:

 • Prenta nýja nemendalista.
 • Gögn sem fylgja hóp til kennara (ef ekki rafræn).
 • Nemendalistar hengdir upp við stofur og nemendur skipta sjálfir í upphafi skóladags. Hentar frekar eldri börnum.
 • Nemendur mæta í heimakrók, kennari fer yfir nýja hópa og allir skipta á sama tíma. Hentar yngri börnum.
 • Nemendur taka með sér nafnaspjald af borði, skúffu og önnur gögn ef á við.

Kennarar hafa hver sína stofu til umráða og nemendur flæða á milli. Reynt er að hafa skipulag sem líkast í öllum stofunum þannig að nemendur viti að hverju þeir ganga þegar þeir koma í nýja stofu. Kennarar undirbúa námsumhverfið þannig að sömu reglur gilda í hverri stofu eins og hægt er. Flæði nemenda á milli stofa einskorðast ekki við skipti og fá nemendur oft að vinna í öðrum rýmum eftir því sem hentar.

Samskipti við foreldra

Kennarar senda foreldrum sameiginlegan póst vikulega um starfið í skólanum og annað sem er á döfinni. Í vikupósti koma meðal annars fram upplýsingar um væntanleg skipti. Algengast er að foreldrar hafi samband við þann kennara sem barnið er hjá hverju sinni en foreldri getur einnig haft samband við einn ákveðinn kennara eða alla eftir því sem þykir henta. Markmiðið er að alltaf sé hægt að ná sambandi við kennara sem þekkir nemandann og er inni í málum hans, veit um hagi hans og getur brugðist við ef kennari í teyminu forfallast til dæmis vegna veikinda til lengri eða skemmri tíma. Ef haldnir eru fundir með foreldrum sitja allir kennarar teymisins fundinn og stundum einnig samráðsfundi sem haldnir eru tvisvar sinnum á skólaári. Meginreglan varðandi samráðsfundi er að sá kennari sem nemandi er hjá þegar samráðsfundirnir fara fram hittir nemanda og foreldra á þeim fundi. Að samráðsfundum loknum upplýsa kennarar hvern annan um það sem fram kom í viðtölunum.  Bæði foreldrar og kennarar geta óskað eftir því að fleiri kennarar úr teyminu sitji fundinn og er reynt að koma til móts við það eins og unnt er. Skólaárið 2019-2020 gerðu kennarar nokkurra teyma tilraun til að taka öll samráðsviðtölin saman með góðum árangri og ánægju nemenda og foreldra.

Mat á verkefninu

Liður í árangursríkri skólaþróun er að áætlanir byggi á gögnum úr skólastarfinu sem segja til um hvað þurfi að bæta svo árangur verði betri fyrir nemendur (Guskey, Roy og Frank, 2014, bls. xii). Þegar farið var af stað með innleiðingu á teymiskennslu var ákveðið að það yrði metið með formlegum hætti. Kannanir voru lagðar fyrir nemendur, kennara og foreldra vorið 2018 og 2019 þar sem spurt var um viðhorf þeirra til teymiskennslunnar.

Niðurstöður kannananna sýna að langflestir nemendur, kennarar og foreldrar eru jákvæðir gagnvart teymiskennslu. Langflestum nemendum líður vel í skólanum, finnst gott að skipta reglulega um hóp og gengur vel að eignast vini í skólanum. Flestum finnst einnig gott að eiga fleiri en einn umsjónarkennara og upplifa að þeir þekki kennarana sína og að kennararnir þekki sig.

Kennurum finnst gott að vinna í teymiskennslu og segja teymiskennslu efla þá faglega í starfi. Þeim finnst gott að bera sameiginlega ábyrgð á nemendum og segja að það hafi dregið úr persónulegu álagi í starfinu þó vinnutími sé alls ekki styttri. Kennurum  finnst gott að fá að kynnast öllum árgangnum og þannig eflast og þroskast í starfi. Kennarar segja nemendur styrkjast félagslega og að teymiskennsla styrki sjálfsmynd nemenda.  Öllum kennurum finnst hafa gengið vel og vilja ekki snúa til baka í hefðbundna bekkjarkennslu.

Foreldrar eru ánægðir með skólastarf í Vesturbæjarskóla, telja að verið sé að koma til móts við þarfir barnsins þeirra í skólanum og að barninu sínu líði vel í teymiskennslu. Langflestir segja barnið sitt eiga vini í skólanum og að teymiskennsla hafi góð áhrif á félagslega stöðu barns þeirra. Flestum foreldrum finnst gott að geta leitað til fleiri en eins umsjónarkennara til að fá upplýsingar um nám og líðan barnsins síns.

Helstu niðurstöður þessara kannana gefa til kynna að viðhorf þessara hópa til teymiskennslu sé almennt jákvætt og hafa veitt okkur gagnlegar upplýsingar í tengslum við þróun teymiskennslu í skólanum. Skýrslur um niðurstöður kannananna er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.

Lokaorð

Í teymiskennslu er einangrun kennara rofin og rannsóknir sýna að náið samstarf leiðir oftar en ekki til aukinnar starfsánægju, faglegs áhuga og jákvæðara viðhorfs til skóla og náms og er það í samræmi við okkar upplifun og niðurstöður matsins. Í mannauðnum felast styrkleikar og eru kennarar jákvæðir, lausnamiðaðir, faglegir, vanir samvinnu og áhugasamir um skólaþróun. Tækifæri felast í því að læra hvert af öðru og finna lausnir á þeim vandamálum sem upp koma. Nýir kennarar hafa lýst ánægju sinni með teymiskennsluna og hversu gott það er að hefja störf á nýjum vinnustað í teymi. Mikilvægt er að gefa teymum tíma og svigrúm til samráðs sem er lykilatriði í svona nánu samstarfi. Í teymiskennslu er meiri sveigjanleiki til fjölbreyttari kennsluhátta og námsmat er sanngjarnara. Teymiskennsla hefur jákvæða félagslega þýðingu fyrir nemendur, stuðlar að betri hegðun, ástundun og viðhorfum til náms, kennara og skóla. Þegar kennarar forfallast til lengri tíma er það gott fyrir börnin, þau missa ekki umsjónarkennarann sinn og skipulagið heldur sér. Við þessar aðstæður getur álag orðið meira á þá kennara sem halda utan um hópinn og er mjög mikilvægt að stjórnendur sýni því skilning og stuðning. Við teljum okkur vera á góðri leið til að ná þessum markmiðum og munum halda áfram að þróa teymiskennslu í Vesturbæjarskóla í faglegu lærdómssamfélagi.

Heimildir

Fullan, M. (2015). The New Meaning of Educational Change. New York: Teachers College Press.

Fullan, M. og Hargreaves, A. (2016). Bringing the Profession Back In. Oxford, OH: Learning Forward. https://learningforward.org/docs/default-source/pdf/bringing-the-profession-back-in.pdf

Goetz, K. (2000). Perspectives on Team Teaching.  Egallery, 1(4). https://people.ucalgary.ca/~egallery/goetz.html

Guskey, T. R., Roy, P. og von Frank, V. (2014). Reach the Highest Standard in Professional Learning. Thousand Oaks: Corwin.

Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns. (2017). Er samvinna lykill að skólaþróun? Samanburður á bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Kennaraháskóli Íslands http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/10.pdf

Main, K. og Bryer, F. (2005). What does a good teaching team look like in a middle school classroom? https://core.ac.uk/download/pdf/143858341.pdf

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2015). Ákall og áskoranir. Vegsemd og virðing í skólastarfi. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/greinar/2015/alm/005.pdf

Skóla- og frístundasvið og Menntavísindasvið. (2018). Matstæki um þróun skólastarfs. https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/matstaeki_12.3.18.pdf

Svanhildur María Ólafsdóttir. (2009). Ef teymiskennsla er svarið hver er þá spurningin? (Óútgefin meistararitgerð). Háskóla Íslands, Reykjavík.  https://skemman.is/bitstream/1946/4000/1/Ef%20teymiskennsla%20er%20svari%C3%B0%20hver%20er%20%C3%BE%C3%A1%20spurningin..pdf


Erna Guðríður Kjartansdóttir lauk B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands 2010 og hefur starfað sem umsjónarkennari við Vesturbæjarskóla síðan 2010.

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir kauk kennsluréttindanámi að loknu BS-prófi í ferðamálafræði við Háskóla Íslands 2007 og hefur starfað sem umsjónarkennari, verkefnastjóri og deildarstjóri við Vesturbæjarskóla frá 2014.

Sunna Guðmundsdóttir lauk B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands 2007 og hefur starfað sem umsjónarkennari við Vesturbæjarskóla síðan 2007.


Grein birt 16.6.2020

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp