Í febrúar síðastliðinn heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada; Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu, sem hér birtist, fjallar hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Önnur greinin, sem birt verður fljótlega, fjallar um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira.
Sigrún Lilja Jónasdóttir
Skólaskrifstofa Torontó-héraðs (e.The Toronto Distric School Board, TDSB) er stærsta skólaskrifstofan í Kanada og ein sú stærsta í Norður Ameríku með rúmlega 450 grunnskóla (e. elementary schools eða primary schools), meira en 100 framhaldsskóla (e. secondary schools eða high schools) og fimm fullorðinsskóla (e. learning for life). Í viðtölum við skólastjórann, Anthony Vandyke, í Western Technical-Commercial School.kemur fram að stór hópur nemenda er með ensku sem viðbótartungumál.
Í stefnu frá ráðuneyti fræðslumála í Ontario um menntun má sjá að lögð er áhersla á menntun fyrir alla nemendur. Koma skal til móts við þarfir þeirra, þeim hjálpað eins og kostur er og þeir hvattir til að stunda lærdóminn af kappi. Þá er menningu og bakgrunni foreldra sýnd virðing og þeir boðnir velkomnir í skólana. Allir meðlimir skólasamfélagsins skulu vera öruggir, virða skal fjölbreytileikann, sýna öðrum virðingu og helga sig því að búa til réttlátt og umhyggjusamt þjóðfélag (Ontario Ministry of Education, 2009).
Í Kanada er mikill fjöldi innflytjenda og margir þeirra hafa annað móðurmál en ensku eða frönsku. Í enskumælandi hluta Kanada er talað um ELL nemendur, þ.e. english language learners, því svo margir nemendanna eru með mörg tungumál fyrir og þeim þykir ekki rétt að tala um ensku sem annað tungumál þeirra. Bekkirnir þar sem einungis er verið að kenna ensku og veita stuðning við tungumálið eru þó kallaðir ESL (e. english as a second language) bekkir. Það er Skólaskrifstofa Torontó-héraðs (TDSB) sem tekur á móti nýjum nemendum sem koma til héraðsins erlendis frá og þar fara þeir í nokkurs konar greiningu á stöðu sinni. Greiningarprófin fara einungis fram á skólaskrifstofunni, en mappa með verkefnum nemandans fylgir til þess skóla sem hann fer í. Skólaskrifstofan hefur síðan samband við skólana ef nemandinn býr í nágrenninu og hentugt úrræði fyrir viðkomandi er fundið. Hér á eftir mun ég segja frá því hvernig þessir tveir skólar sem ég dvaldi í taka á móti erlendum nemendum sem hafa annað móðurmál en ensku. Ég tók viðtöl við skólastjóra skólanna tveggja, fékk tækifæri til að vera með í mörgum kennslustundum og átti óformleg viðtöl og samræður við starfsfólk skólanna.
Western Technical-Commercial School – secondary school er með um 1200 nemendur. Þetta er framhaldsskóli þar sem nemendur eru í 9.–12. bekk. Þar af eru 400 með ensku sem viðbótartungumál. Það eru sex nemendahópar á vorönn með ELL nemendur. Hér er átt við litla hópa nýkominna nemenda með litla enskukunnáttu sem skipt er eftir námsgreinum. Nemendur eru hafðir sér í stærðfræði, náttúrufræði og fleiri greinum en eru í list- og verkgreinum með öðrum nemendum. Það eru einungis tveir til sex nemendur í hverjum svona hópi, en þeir eru síðan settir inn í fjölmennari hóp eins fljótt og hægt er. Þarna er lögð áhersla á að kenna enskuna í vinnu með faggreinar. Þessir nemendur eru svo líka saman í ESL hópum til að fá stuðning við tungumálið og æfa enskuna. Í byrjun vorannar 2019 eru um það bil 16 ELL nemendur í skólanum. Þarna eru á ferðinni nemendur sem enn kunna sáralitla ensku. Stærð nemendahópanna er mismunandi til að mæta þörfum ELL nemenda við innritun. Þegar ráðgjafar búa til stundatöflu fyrir erlenda nemendur, sem læra ensku á haust- og vorönn, eru þeir settir inn í ESL bekki eftir því sem hentar miðað við enskukunnáttu þeirra. ELL nemendur eru líka skráðir í áfanga um margvísleg efni. Þeir fara ýmist í áfanga sem eru sérstaklega ætlaðir nemendum sem eru að læra ensku eða áfanga þar sem þeir taka þátt með innfæddum enskumælandi nemendum. Með þessum fjölbreyttu áföngum í bóklegu námi og list- og verkgreinum er vel haldið utan um umrædda ELL nemendur bæði faglega og félagslega.
Hér á eftir er dæmi um kennslustund í ELL bekk í stærðfræði. Þótt bekkurinn tilheyri 10. bekk þá eru nemendur í honum á mismunandi aldri. Kennarinn er ungur en þó með mikla reynslu í að kenna ELL nemendum stærðfræði. Tíminn hefst á því að í gegnum innanhúskerfi skólans koma nokkrar tilkynningar og svo standa allir upp til að syngja saman. Þema mánaðarins er saga fólks af afrískum uppruna og tengist lagið því þema. Mættir eru þrír nemendur af sex, tvær stúlkur frá Sómalíu og drengur frá Eþíópíu sem hefur annað móðurmál en stúlkurnar. Þegar tíminn er meira en hálfnaður koma tveir spænskumælandi drengir inn. Nemendur tala litla sem enga ensku en kennarinn notar greinilega stærðfræðina til að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á tungumálinu. Hann hefur verið að kenna þeim á peninga og heldur því áfram í þessari kennslustund. Kennarinn reynir að ná nemendunum með um leið og hann útbýr verkefni á töfluna. Á veggjum kennslustofunnar eru miðar sem gefa til kynna að nemendur kunni litla ensku. Heiti daga og mánaða, helstu veðurlýsingar og margt fleira er sett upp bæði á ensku og á myndrænan hátt. Þegar kennarinn er búinn að vinna töluvert með námundun með peningum og láta nemendur finna út hve miklir peningar eru á myndum og fleira leggur hann lítið prófverkefni um peninga fyrir þá. Í prófinu eru myndir af peningum og eiga nemendur að námunda upphæðina að heilum dollurum og svo framvegis. Þetta er verkefni sem kennarinn útbýr sjálfur fyrir nemendur og hann er greinilega búinn að útbúa mörg góð verkefni af þessu tagi sem hann hefur líka látið aðra kennara fá.
Í kennslustund í sama bekk nokkrum dögum seinna eru sömu þrír nemendurnir frá Afríku mættir í upphafi tímans. Nú þekkja þeir mig og eru meira tilbúnir til að reyna að spjalla. Það kemur í ljós að foreldrar stelpnanna frá Sómalíu eru ekki með þeim í Kanada. Önnur kom fyrir ári og byrjaði hún þá í öðrum skóla. Hin byrjaði fyrir sex mánuðum og eru þrjú systkini hennar líka í Torontó. Báðar búa þær hjá frændfólki sínu. Strákurinn frá Eþíópíu talar aðeins meiri ensku, segist hafa lært hana svolítið í skólanum heima. Móðir hans dó þegar hann var kornabarn og hann er alinn upp hjá föðurforeldrum í Eþíópíu. Pabbi hans hefur verið í Kanada í 15 ár og tók hann til sín fyrir þremur mánuðum. Hann saknar heimalandsins. Stuttu eftir að kennslustundin hefst mætir strákur sem hefur náð þokkalegum tökum á ensku, þ.e. götumálinu, en vill ekkert læra. Það sama má segja um stúlku sem einnig bætist í hópinn, hún vill ekkert læra. Þessir tveir nemendur búa víst í einhvers konar kommúnu með ættingjum sínum. Kennarinn er enn að kenna nemendum að námunda og versla í búðum. Hann segir þeim hvar ódýrast sé að kaupa inn, lætur þá velja hvað á að kaupa og nemendur leggja svo saman í huganum. Kennarinn togar nemendur eins mikið inn í umræðuna og hann getur. Hann æfir þá einnig í að gefa til baka og lætur þá þjálfa hugarreikning með vinnu í búð í huga. Kennarinn þjálfar bara samlagningu og frádrátt því nemendur hafa enn ekki lært að margfalda. Hann fer yfir verkefni með nemendum, námundar að heilu hundraði eða þúsundi leggur svo saman og dregur frá. Kennarinn leggur fyrir mörg góð verkefni sem virðast henta nemendum. Hann nær að draga flesta inn í umræðuna. Hann notar mikið almenn orð eins og sækja, senda o.fl. Í lokin notar kennarinn símann og tekur mynd af verkefninu (notar App Cam Scanner) sem hann var að vinna með nemendum, fær skjöl og býr til pdf. Þetta sendir hann svo inn á Google Classroom þannig að allir nemendur sjái það og geti skoðað betur heima. Þessi bekkur er bara fyrir ELL nemendur en kallaður ELD (e. english language development) þá er búist við að staðan sé slæm. Nemendur gætu farið seinna í mismunandi stærðfræðiáfanga eins og MAT2LL, þá þýðir seinna ellið að þeir séu slakir í ensku, eða MAT2LI sem er hærri staðall og þau komin mun lengra með tungumálið. Áfangar sem enda á L eru ætlaðir fyrir ELL nemendur.
Central Toronto Academy– secondary school er með um 700 nemendur. Þetta er líka framhaldsskóli fyrir 9.–12. bekk. Þar af eru rúmlega 150 með ensku sem viðbótartungumál. Hér er líka talað um ELL nemendur og ESL fyrir hópana sem eru fyrst og fremst að læra enskuna. Þeim er skipt í A-B-C-D-E bekki þar sem A er fyrir þá sem ekkert kunna í ensku. Margir koma frá Kína og Víetnam. Þetta eru nemendur sem fara til Kanada til að hljóta betri alhliða menntun. Sumir nemendur koma til landsins með foreldrum sínum en aðrir eru í nokkurs konar skólabúðum þar sem við stjórn er maður sem talar þeirra tungumál. Í skólanum er ELL nemendum blandað inn í nemendahópa í námsgreinum eins og mögulegt er. Í stærðfræðinni er bara einn bekkur í hverjum árgangi sem er almennt fyrir nemendur með stærðfræðiörðugleika. Þarna er blanda af ELL og öðrum nemendum sem eiga erfitt með stærðfræðina. Það eru þó nokkrir ESL hópar í skólanum þar sem nemendur læra ensku á mismunandi stigum. Skólastjórinn, Iwona Kurman, er mjög ánæg með að fá inn þessa nemendur frá Kína og Víetnam. Hún segir að þeir séu svo duglegir námsmenn. Kennarar segja þessa erlendu nemendur fljóta að ná enskunni í gegnum stærðfræðina og að stærðfræðihugtökin lærist fljótt ef þeir séu í námi með innfæddum.
Hér á eftir er dæmi um kennslustund í ESL þar sem hópur nýkominna nemenda er að læra ensku. Um kennsluna sér ungur kennari með góða reynslu á þessu sviði. Í stofunni er hópborð og miklar enskubjargir út um allt. Má þar nefna: mynd af sól og orðið á ensku, tölustafirnir, dagatal, helstu sagnir. Námsumhverfið er vinalegt og kennarinn þolinmóður. Hann byrjar á að tala um hvaða dagur sé í dag og hvernig veðrið sé. Hann spjallar almennt við nemendur um þeirra daglega líf, hvað þeir hafi verið að gera í gær o.s.frv. Kennarinn notar lesvarpa til að varpa upp æfingu með því sem hann er að þjálfa í dag. Þarna er greinilega verið að bæta við orðaforða nemenda í ensku, notaðar eru stuttar setningar og svo fylgir verkefni með svipuðum orðum á eftir. Krakkarnir eru yfirleitt eina til tvær annir í umræddu ESL prógrammi og þá eingöngu í list- og verkgreinum að auki. Síðan fara þeir inn í stærðfræðina og byrja þeir þá oftast í áfanganum fyrir þá sem lítið geta, en þó ekki alltaf. Það tekur oftast eina til tvær annir fyrir nemendur að komast úr A og B bekkjunum í enskunáminu.
Ég varð vör við það í báðum skólunum að kennarar reyna að nýta sér ákveðið fyrirkomulag við kennslu nemenda sem eru með annað móðurmál. Í þessu fyrirkomulagi er unnið með fjóra lykla til fræðilegrar velgengni með ELL nemendur (e. four keys to academic success). Þessir lyklar byggjast á rannsókn Freeman og Freeman (2007) sem þeir gerðu í samvinnu við kennara í ensku sem viðbótartungumáli í kringum 2001. Lyklarnir heita eftir höfundum sínum og eru kallaðir Freeman og Freemans lyklar.
Fyrsti lykillinn felst í að fá nemendur með í námið. Notað er námsefni sem grundvallað er á fræðilegum hugtökum úr mismunandi námsgreinum sem hægt er að tengja við orðaforða og endurtaka eðlilega við ýmsar aðstæður. Efnið er skipulagt í kringum hugtök sem gefa nemendum tækifæri til að flytja til þekkingu og skilning sem þeir hafa í farteskinu. Þannig yfirfæra þeir fyrri þekkingu sína á annað tungumál.
Annar lykillinn hvetur kennara til að nota bakgrunn nemanda, þar með reynslu þeirra, menningu og tungumál. Kennarar eiga þá markvisst að fá nemendur til að nýta bakgrunn sinn og tengja síðan við enskuna. Kennurunum er ætlað að leggja áherslu á að gera hlutina skiljanlegri fyrir ELL nemendur með því að tengja viðbótarhugtök og hugmyndir við reynsluheim þeirra.
Þriðji lykillinn hvetur kennara til að skipuleggja samvinnu nemenda og reyna að byggja undir og efla enskan orðaforða í námsgreinunum. Heppilegt er að kennarar komi á góðum umræðum, vitrænu spjalli við nemendur og bæti við stuðningi til að vera vissir um að það sem sagt er sé skiljanlegt. Gott er að nota hjálpartæki s.s. myndir, leikræna tjáningu o.fl.
Fjórði lykillinn hvetur kennara til að styðja nemendur í að byggja upp sjálfstraust sitt. Mikilvægt er að ELL nemendur líti á sig sem hverja aðra námsmenn og að kennarar læri að þekkja hæfileika sérhvers nemanda og viðurkenna menningu og persónuleg sérkenni þeirra. Kennarinn þarf að byggja upp aðstæður og námsrými þar sem nemendur leggja sig fram um að læra (Freeman og Freeman, 2007).
Í báðum skólunum er boðið upp á sérhæft nám (e. specialist high skills major). Þessi sérhæfing er í 11. og 12. bekk. Þá geta nemendur sérhæft sig í ýmsum greinum s.s. matreiðslu, tækni, listum o.fl. Nemendur velja sér viðfangsefni sem henta getu þeirra og áhugasviði. Nemendur fá síðan útskriftarskjal frá skólunum um að þeir hafi sérhæfingu (e. Ontario Secondary School Diploma) í tilteknu fagi. Þetta er kallað OSSD útskrift. Nemendur þurfa að ljúka átta til tíu áföngum í fagi til að útskrifast. Þeir hafa þá tekið áfanga eins og skyndihjálp o.fl. sem tengist atvinnulífi og hafa með fjölmenningarlegri kennslu öðlast mikilvægan skilning á vinnu á sviði sérhæfingar sinnar. Í þessu námi felst starfsnám hjá fyrirtækum og er gott samstarf við fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfinu. Erfitt er fyrir ungmenni að fá vinnu ef þau hafa ekki a.m.k. lokið slíkri sérhæfingu.
Í skólunum er áberandi hvað skólastjórarnir eru mikið á ferðinni um skólann. Þeir koma inn í stofur, eru á göngunum og fylgjast vel með starfseminni frá degi til dags. Þeir eru jákvæðir og hrósa bæði nemendum og kennurum. Mjög er vandað til þess efnis sem fer inn á hátalarakerfin í skólunum. Þau er notuð til að þjappa saman hópnum, skapa skemmtilegan skólabrag og vera upplýsandi og fræðandi. Saga skólanna er sýnileg á veggjum þeirra, því þar má finna útskriftarmyndir nemenda, myndir af gömlum kennurum og stjórnendum. Sagan á staðnum er sýnd í bland við nýleg verkefni nemenda.
Mikil áhersla er lögð á fjölmenningarlega menntun og skóla margbreytileikans í báðum skólunum. Kennarar fá fræðslu um hvernig hentugt sé að vinna með nemendur með annað móðurmál en ensku og byggja á hugmyndafræðinni sem fram kemur í lyklunum fjórum (Gagné og Gordon, 2014). Reynt er eftir bestu getu að láta alla nemendur njóta sín og líða vel. Kennarar eru til staðar fyrir nemendur í kennslustofum sínum eftir kennslu eða í hádegi eftir samkomulagi. Á heildina litið virðast skólar í Kanada taka vel á móti nemendum af erlendum uppruna og reyna eins fljótt og hægt er að koma þeim inn í þjóðfélagið á allan hátt. Í 2. grein mun verða horft meira á stærðfræðikennarana og vinnuaðstöðu þeirra.
Heimildir
Gagné, A. og Gordon S.S. (2014). Social justice for English language learners at Parkdown Secondary School in Toronto. Í Hanna Ragnarsdóttir og Clea Schmidt (ritstjórar). Learning spaces for social justice: International perspectives on exemplary practices from preschool to secondary school. London: A Trentham book. IOE Press. Learning Spaces for social justice.
Freeman, D. and Freeman, Y. (2007). English language learners: The essential guide. New York: Scholastic.
Ontario Ministry of Education (2009). Equity and inclusive education in Ontario schools guidelines for policy development and implementation. Toronto.
Sigrún Lilja Jónasdóttir er stærðfræðikennari við Austurbæjarskóla þar sem hún hefur kennt í 33 ár. Meðfram kennslu sinni í Austurbæjarskóla hafði Sigrún Lilja lengi umsjón með samræmdum prófum í stærðfræði hjá Námsmatsstofnum sem þá var. Sigrún Lilja er ein af stofnendum Hollvinafélags Austurbæjarskóla sem meðal annars hefur komið upp skólamunastofu í risi skólans.