Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Þurfa allir alltaf að gera það sama? Nemendur með í ráðum um val á verkefnum og námsmati

í Greinar

Fríða Gylfadóttir og Tinna Ösp Arnardóttir

 

Sem starfandi framhaldsskólakennarar erum við stöðugt að leita nýrra leiða, bæði í kennslu og í námsmati, til að höfða til fjölbreyts nemendahóps, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð nemenda í námi. Fyrir nokkrum árum byrjuðum við að leyfa nemendum að velja að hluta til námsmat í ákveðnum áföngum sem við kennum. Við höfum alltaf haft áhuga á nemendamiðuðu námi með áherslu á verkefnavinnu. Báðar störfum við sem kennarar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem við kennum ensku og viðskiptagreinar.

Kveikjan að nýrri nálgun kom eftir fyrirspurn nemanda sem var að velta fyrir sér námsmati áfangans. Hann gagnrýndi það að allir þyrftu að gera það sama í áfanganum, t.d. að skila vinnubók í lok annar. Honum fannst ósanngjarnt að áfanginn væri metinn eins fyrir alla nemendur. Hann tók sem dæmi að skil á vinnubók væri verkefni sem hentaði mun betur fyrir stelpur. Hann hélt því fram að stelpurnar í áfanganum stæðu betur að vígi þar sem þær týndu ekki verkefnum og skiluðu vel unnum vinnubókum, allt í röð og reglu og jafnvel með myndskreytingum og þess vegna fengu þær oft hærri einkunn.

Út frá þessum samræðum fórum við velta því fyrir okkur hvernig hægt væri að koma betur til móts við hvern og einn nemenda og um leið auka nemendasjálfstæði. Niðurstaðan var sú að leyfa nemendum að ráða námsmati áfangans og þannig gera þeim kleift að nýta styrkleika sína við gerð verkefna. Hugmyndin að samningi um val á námsmati varð til. Samningurinn krefst þess að nemendur sýni sjálfstjórn og beri ábyrgð á eigin námi. Kennarinn þarf að styðja vel við nemendur og leiðbeina þeim við gerð samningsins. Það er á hans ábyrgð að benda nemendum á það hvernig þeir geti nýtt sér styrkleika sína í námi. Þessi útfærsla krefst samvinnu milli nemenda og kennara.

Þessi nálgun flokkast sem verkefnastýrt nám og hefur verið notuð í stjórnunaráfanga innan viðskiptadeildar og í leikrita- og bókmenntaáfanga í ensku. Í upphafi annar er búinn til samningur þar sem öll verkefni áfangans eru útlistuð ásamt skilyrðum samningsins. Við gerð samninganna er lögð áhersla á að hafa fjölbreytt og krefjandi verkefni þannig að hver og einn nemandi geti fundið verkefni við sitt hæfi.

Í báðum áföngunum er gerður bindandi samningur í samvinnu við nemendur. Nemendur hafa áhrif á hvaða verkefni falla undir samninginn. Hver nemandi velur sér svo verkefni og gefur því vægi. Að lokum skrifar nemandinn undir samninginn og skilar honum til kennara. Ábyrgð nemenda er mikil þar sem þeir þurfa sjálfir að ákveða vægi verkefna og að fylgjast með skilum á þeim verkefnum sem þeir velja.

Í stjórnunaráfanganum skipta nemendur 80% af vægi námsmats áfangans niður á átta ólík verkefni. Af þessum átta verkefnum eru þrjú skylduverkefni. Skilyrðin eru meðal annars þau að ekkert verkefni má gilda minna en 5% eða meira en 15%. Sjá má samninginn í stjórnun með því að smella á þessa mynd:

Í leikrita- og bókmenntaáfanganum í enskunni hefur verið val um námsmat í einni lotu/hluta af námsmati áfangans, þ.e. 25% af námsmati. Nemendur fá að velja sér verkefni og ákveða hvað þau vega mikið. Skilyrðin eru að ekkert verkefni má gilda minna en 3% eða meira en 10%. Verkefnin eru fjölbreytt, til að mynda skapandi skrif, stiklur, spurningar, tímaritgerð og skyndipróf.

Samningur í ensku

Hér má sjá dæmi um úrlausnir nemenda (stiklur):

Viðbrögð nemenda hafa verið jákvæð. Þeir taka gerð samningsins alvarlega og mikil hugsun liggur á bak við val á verkefnum og vægi. Þeir tala oft um hversu erfitt það sé að velja námsmatið og sumum finnst ábyrgðin jafnvel of mikil. Aðrir þora ekki að setja háa prósentu á eitt verkefni umfram annað og velja þvi að hafa jafnt vægi á öllum verkefnum. Það leynir sér ekki  að nemendur velja verkefni sem þau telja skemmtileg og eru tengd áhugasviði hvers og eins. Það er virkilega áhugavert fyrir okkur að fylgjast með umræðunni sem á sér stað við samningsgerðina, sumir taka fram reiknivélina og eru mjög nákvæmir,  til að mynda setti einn nemandi 7,8% vægi á eitt verkefni.

Það er skoðun okkar að samningurinn hafi haft góð áhrif á nemendur. Þeir eru jákvæðari, áhugasamari og sýna meiri ábyrgð gagnvart verkefnum og námsmati. Þau fá tækifæri til þess að nýta styrkleika sína og þannig ná þau betri árangri í áfanganum. Samningurinn hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi. Við sjáum fyrir okkur að halda áfram að nota hann og þróa í samvinnu við nemendur. Í stjórnun munu nemendur fá að velja sér verkefni í samninginn og í enskunni stendur til að prófa að gera samning um alla námsþætti áfangans. Það athygilsvert að sjá hvað nemendur hafa um fyrirkomulagið að segja en hér gefur að líta athugasemdir sem við höfum fengið frá nemendum okkar:

Þetta er mjög sniðugt og brýtur upp hefðbundna kennslu. Hér geta nemendur valið eftir þeirra styrkleika með því að velja verkefni sem hentar hverjum og einum.

 Að velja sitt eigið námsmat kennir manni að bera ábyrgð á sínu eigin námi, sem gekk reyndar misvel hjá mér.


Fríða Gylfadóttir er enskukennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Tinna Ösp Arnardóttir er viðskiptagreinakennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.


Athugasemd ritstjóra: Eins og sjá má er sú nálgun sem lýst er í þessari grein mjög í anda verkefnamiðaðs eða verkefnastýrðs náms (e. project based learning). Hér er bent á tvær greinar sem birst hafa í Skólaþráðum sem fjalla um kennsluhætti á framhaldsskólastigi í þessum anda:


 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp