Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, Arnfríður Hermannsdóttir og Eva Harðardóttir
Umbætur í skólastarfi tengjast nú í auknum mæli miðlun þekkingar og upplýsinga sem og samskiptum kennara og nemenda. Á tímum heimsfaraldursins COVID-19 hefur upplýsinga- og samskiptatækni fengið umtalsvert stærri sess í skólahaldi en áður og það á undraskömmum tíma. Margir kennarar og nemendur hafa nú stigið inn í nýjan veruleika náms og kennslu þar sem stafrænar lausnir, samspil og samvinna leika stærra hlutverk en öllu jafna. Kórónuveiran hefur minnt alla, sem að skólahaldi koma, á hversu mikilvægt það er að deila reynslu okkar og upplifunum á jafningagrundvelli. Læra hvert af öðru og vera óhrædd við að kanna nýjar slóðir. Í þessari grein verður rætt um nýsköpunar- og þróunarverkefni í ofangreindum anda sem unnið hefur verið í Menntaskólanum á Akureyri á undanförnum þremur árum og hefur nú skipað sér mikilvægan sess í skólahaldinu. (meira…)
Ingvar Sigurgeirsson tók saman í samstarfi við Birnu Hlín Guðjónsdóttur, Ingu Margréti Skúladóttur og fleiri kennara unglingadeildar í Grunnskólanum í Borgarnesi
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Grunnskólann í Borgarnesi þar sem reist hefur verið viðbygging sem inniheldur samkomusal og eldhús, ásamt björtu kennslurými fyrir yngsta stig skólans. Allar list- og verkgreinastofur skólans hafa verið endurgerðar, en það eru stofur fyrir heimilisfræði-, smíða-, textíl- og myndmenntakennslu. Öll aðstaða til kennslu fyrir nemendur og starfsfólk er nú að verða til fyrirmyndar. Framkvæmdir drógust á langinn haustið 2019 og þurfti að grípa til þess ráðs að færa unglingastig skólans í húsnæði Menntaskóla Borgarfjarðar í rúman mánuð. Unglingarnir fengu aðstöðu annars vegar í samkomusal Menntaskólans og hins vegar í félagsaðstöðu menntskælinganna í kjallara skólans. Var tilefnið notað til að brjóta upp hefðbundið skólastarf og farið var af stað með stórt samþætt þemaverkefni sem hlaut nafnið Draumalandið. Nemendum í áttunda til tíunda bekk var skipt upp í aldurs- og kynjablandaða fimm til sex manna hópa sem unnu að því að skapa ímyndað draumaland sem þeir þurftu að finna stað einhvers staðar í heiminum. (meira…)
r
Sá sem þetta ritar hefur á undanförnum árum leitast við að safna dæmum um framsækið starf í skólum hér á landi. Á bak við þessa viðleitni býr sú hugmynd að það þurfi ekki allir að finna upp hjólið. Ég hef ótal sinnum orðið vitni að því að góðar hugmyndir kveikja nýjar. Ég hef ekki síst reynt að hafa augun opin fyrir hvers konar skapandi verkefnum þar sem nemendur hafa fengið að taka nokkra ábyrgð á námi sínu; verið þátttakendur og fengið að hafa hönd í bagga um inntak, vinnubrögð og útfærslur.
Hvað áhugaverðust hafa mér þótt verkefni sem ná út fyrir skólastofuna, tengjast samfélaginu og sérlega eftirsóknarvert er að þau komi þar að notum; bæti umhverfið eða leggi til þess með einhverjum jákvæðum hætti.
Fyrir nokkrum árum var ég ráðgefandi um innleiðingu teymiskennslu í grunnskólunum á Snæfellsnesi (sjá um þetta verkefni hér). Ég heimsótti skólana nokkrum sinnum og fékk að fylgjast með kennslu og ræða við nemendur, kennara, stjórnendur og annað starfsfólk. Í þessum ferðum kynntist ég fjölmörgum áhugaverðum viðfangsefnum. Eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína, en það var verkefni sem nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóladeild (en deildin er gjarnan nefnd Lýsa) fengu að vinna í Salthúsinu á Malarrifi. Í deildinni eru nú 20 nemendur í 1.-10. bekk, auk leikskóladeildar. Nemendum er í grunninn kennt í þremur aldursblönduðum hópum og áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám. (meira…)
Sólveig Jakobsdóttir
Um langt skeið hefur verið ljóst hversu mikilvæg starfsþróun og símenntun er fyrir kennara ekki síst á sviði upplýsingatækni og í síbreytilegu stafrænu landslagi (Sólveig Jakobsdóttir, McKeown og Hoven, 2010). Leiðir og möguleikar til starfsþróunar hafa jafnframt verið að þróast í takt við tæknina (Sólveig Jakobsdóttir, 2011). Kennarar og annað skólafólk hefur til dæmis haft góð tækifæri til að gefa hugmyndir og fá ráðgjöf og ábendingar á samfélagsmiðlunum en þar hafa myndast nokkurs konar stafræn kjörlendi (e. digital habitats, sjá Wenger, White og Smith, 2009) fyrir fjölmarga faghópa sem tengjast menntun, námi og kennslu. Þá hafa svokallaðar menntabúðir notið sívaxandi vinsælda um allt land til að deila þekkingu og reynslu.
Menntabúðir eru óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Á ensku hafa hugtökin educamp (Leal Fonseca, 2011), edcamp og unconference (Carpenter, 2016; Carpenter og Linton, 2018; Carpenter og MacFarlane, 2018) eða teachmeet (Turner, 2017) verið notuð um þessa gerð fræðslu. Hún hefur reynst vel í starfsþróun kennara. (meira…)

Ólafur Páll Jónsson
Atli Harðarson. (2019) Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Reykjavík: Menntavísindasvið og Heimspekistofnun.
Á síðasta ári kom út lítil bók eftir Atla Harðarson um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Við nánari athugun er þessi bók reyndar ekki svo lítil. Að vísu telur hún einungis 150 blaðsíður í litlu broti en við lestur bókarinnar fann ég að síðurnar áttu það til að tímgast í huga mér þannig að þegar ég lagði hana loks frá mér fannst mér ég ekki bara hafa lesið lítið kver um menntun og skólastarf heldur stóra bók, eiginlega margar bækur eftir ólíka höfunda. Atli hefur einstakt lag á að leiða lesandann inn í rökræður annarra fræðimanna og sjá síðan á þeim fleti sem gera þær í senn áhugaverðari og flóknari en mann hafði órað fyrir. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir hvern þann sem vill hugsa um menntun og skólakerfi, en þeim sem sækjast eftir skjótfengnum svörum ráðlegg ég að forðast þetta rit. Tvímælis er bók sem leggur manni til fleiri spurningar en svör. (meira…)
Guðmundur Smári Gunnarsson
Nemendur Framhaldsskólans á Laugum í Þingeyjarsveit vinna nú að stóru verkefni í líffræði. Verkefnið, sem hefur verið í vinnslu í yfir 2 ár, snýst um vöktun á vistkerfi í nágrenni við skólann og lýkur með ferð nemenda á ráðstefnu í Flórída sumarið 2020 þar sem verkefnið verður kynnt. (meira…)
Rabindranath Tagore
Rabindranath Tagore (1861–1941) er þekktur sem höfundur indverska þjóðsöngsins, listamaður og hugsuður. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1913 og höfðu þau þá ekki áður verið veitt skáldi utan Evrópu. Tvær af þekktustu ljóðabókum hans komu út í íslenskum þýðingum Magnúsar Á. Árnasonar 1919 og 1922.
Sagan um lærdóm páfagauksins, sem hér birtist í þýðingu Atla Harðarsonar, var upphaflega gefin út á móðurmáli höfundar, bengali, árið 1918. Af öðrum skrifum Tagore um menntamál er ljóst að hann unni lærdómi og listum en var afar gagnrýninn á hefðbundið skólahald. (meira…)
Hjálmar Árnason
Haustið 2019 hófu rúmlega 40 nemendur nám í Menntaskólanum á Ásbrú (MÁ) undir merkjum Keilis. Þetta nám sker sig úr öðru námi að tvennu leyti, auk nútímalegrar vinnuaðstöðu. Annars vegar er sérsvið nemenda tölvuleikjagerð og hins vegar eru teknir upp að mörgu leyti „öðruvísi“ kennsluhættir en almennt tíðkast. Segja má að fyrsta önnin hafi farið einkar vel af stað ef marka má umsagnir nemenda og foreldra þeirra. MÁ er undir styrkri stjórn Nönnu K. Traustadóttur. (meira…)

Ingvar Sigurgeirsson
Þann 25. október átti stórafmæli Ása Helga Ragnarsdóttir, leikkona og aðjúnkt við Menntavísindasvið. Ása hefur verið leiðandi í innleiðingu leiklistar sem kennsluaðferðar hér landi. Hún er, með öðrum, höfundur handbóka og námsefnis um þetta efni fyrir kennara og kennaraefni, auk fjölmargra rannsóknargreina.
FLÍSS – félag um leiklist í skólastarfi og vinir og samstarfsmenn Ásu Helgu ákváðu að halda ráðstefnu, henni til heiðurs, um leiki og leiklist. Sá sem þetta ritar flutti eitt erindanna á ráðstefnunni og er þessi grein byggð á því, en talsverðu efni bætt við. Ég hef, eins og Ása Helga, lengi haft áhuga á að auka hlut leiks og leikja í skólastarfi. Vissulega þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af fyrsta skólastiginu, leikskólastiginu, þar er leikurinn í öndvegi – en þetta breytist heldur bratt þegar börn hefja grunnskólanám. Rannsóknir benda til þess að leikir skipi yfirleitt ekki stóran sess í grunnskólastarfi (Ingvar Sigurgeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Kristín Jónsdóttir, 2014). Nemendur hafa fyrst og fremst tækifæri til leikja í frímínútum, íþróttatímum og í frístundastarfi
(meira…)
Viðtal Valgerðar S. Bjarnadóttur við Björk Ingadóttur, Jónu Svandísi Þorvaldsdóttur og Vibeke Svölu Kristinsdóttur, kennara í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ
Undanfarinn áratug hefur verið mikil gróska í jafnréttisfræðslu í framhaldsskólum á Íslandi. Sífellt fleiri framhaldsskólar bjóða upp á áfanga í kynjafræðum og í mörgum skólum eru þeir orðnir hluti af skyldu fyrir nemendur á félagsvísindabrautum. Á sama tíma hafa verið stofnuð femínistafélög í þó nokkrum framhaldsskólum og aukin áhersla verið lögð á jafnrétti í námi og félagslífi. Þessi þróun hefur ekki síst verið fyrir tilstuðlan öflugra eldhuga í hópi kennara í þeim skólum sem hafa verið í fararbroddi í þessum málum. Óhætt er að segja að Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sé einn þeirra. Þar hafa þrír kennarar skólans, Björk Ingadóttir, Jóna Svandís Þorvaldsdóttir og Vibeke Svala Kristinsdóttir, opnað vefsíðuna sjalfsmatskvardi.com en síðan inniheldur tvo kvarða sem ætlaðir eru til að leggja mat á jafnrétti í framhaldsskólum, skólakvarða og kennarakvarða. Kvarðana tvo má finna á þessari vefsíðu. Óhætt er að fullyrða að mikill fengur sé að kvörðunum, sem geta meðal annars gagnast skólum við að meta innleiðingu á grunnþættinum jafnrétti og lýðræði. Ritstjórn Skólaþráða óskaði eftir viðtali við þær stöllur um tilurð og markmið kvarðanna. (meira…)