Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Þegar nemendur leggja af mörkum til samfélagsins …

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson í samstarfi við Rósu Erlendsdóttur

 

 

Sá sem þetta ritar hefur á undanförnum árum leitast við að safna dæmum um framsækið starf í skólum hér á landi. Á bak við þessa viðleitni býr sú hugmynd að það þurfi ekki allir að finna upp hjólið. Ég hef ótal sinnum orðið vitni að því að góðar hugmyndir kveikja nýjar. Ég hef ekki síst reynt að hafa augun opin fyrir hvers konar skapandi verkefnum þar sem nemendur hafa fengið að taka nokkra ábyrgð á námi sínu; verið þátttakendur og fengið að hafa hönd í bagga um inntak, vinnubrögð og útfærslur.

Hvað áhugaverðust hafa mér þótt verkefni sem ná út fyrir skólastofuna, tengjast samfélaginu og sérlega eftirsóknarvert er að þau komi þar að notum; bæti umhverfið eða leggi til þess með einhverjum jákvæðum hætti.

Fyrir nokkrum árum var ég ráðgefandi um innleiðingu teymiskennslu í grunnskólunum á Snæfellsnesi (sjá um þetta verkefni hér). Ég heimsótti skólana nokkrum sinnum og fékk að fylgjast með kennslu og ræða við nemendur, kennara, stjórnendur og annað starfsfólk. Í þessum ferðum kynntist ég fjölmörgum áhugaverðum viðfangsefnum. Eitt þeirra vakti sérstaka athygli mína, en það var verkefni sem nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóladeild (en deildin er gjarnan nefnd Lýsa) fengu að vinna í Salthúsinu á Malarrifi. Í deildinni eru nú 20 nemendur í 1.-10. bekk, auk leikskóladeildar. Nemendum er í grunninn kennt í þremur aldursblönduðum hópum og áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám.

Salthúsið var byggt um 1940 og hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, m.a. var þar saltfiskverkun. Það var að hruni komið um síðustu aldamót en Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull lét endurgera það og þá var að finna því nýtt hlutverk. Þjóðgarðsvörður leitaði til deildarinnar á Lýsu með hugmynd um að nemendur þar byggju til sýningu sem höfðaði til barna. Hugmyndin var að leggja áherslu á staðbundinn fróðleik um sögu, samfélag og náttúru og bjóða upp á einhverja afþreyingu. Í þetta var ráðist og allt þetta unnu nemendur undir verkstjórn kennara sinna. Og það sem meira er; þessari sýningu, sem var opnuð 2. júní 2016, hefur verið haldið við fram til þessa dags og hefur það verið viðfangsefni nemenda á hverju ári að sinna henni. Auk þess hafa nemendur fengist við fjölmörg afleidd verkefni, m.a. rannsóknarverkefni sem byggð hafa verið á gögnum sem hafa orðið til á sýningunni.

Salthúsverkefnið hefur til að bera allt það sem prýða má gæða skólastarf; ábyrgð nemenda á eigin námi og virka þátttöku þeirra, sköpun, samfélagsþjónustu, þ.e. raunverulegt framlag til umhverfisins, samvinnunám og teymisvinnu.

Þegar ég heyrði fyrst af verkefninu bað ég Rósu Erlendsdóttur, deildarstjóra á Lýsu, að senda mér upplýsingar um verkefnið í því skyni að ég gæti frætt aðra um það. Rósa varð  góðfúslega við þessu og sendi mér þessa lýsingu með leyfi til sýna hana öðrum:

Á haustdögum 2015 barst okkur í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla, erindi frá Guðbjörgu Gunnarsdóttur, þjóðgarðsverði, þess efnis hvort við vildum taka að okkur að vinna verkefni eða sýningu inn í Salthúsið á sjávarbakkanum á Malarrifi. Verkefnið átti að höfða til barna og tengjast umhverfinu á Malarrifi.

Við þáðum það og eftirfarandi atburðarás fór af stað:

Nemendur fóru í vettvangsferð að Malarrifi til að kynna sér staðinn út frá hugsanlegri verkefnisgerð.

Haft var samband við Lovísu Sævarsdóttur og Pétur Pétursson sem síðast stunduðu búskap og vitavörslu á Malarrifi og beðið um viðtal til að afla upplýsinga um staðinn.

Þegar viðtalsbeiðnin var fúslega samþykkt hófust nemendur handa við að semja spurningar fyrir viðtalið og þær voru flokkaðar eftir því hvaða þáttum þær beindust að, t.d. um búskapinn, söguna, lífið almennt, veðurfar og sjósókn.

Mæðgurnar Lovísa Sævarsdóttir og Selma Pétursdóttir komu til okkar í skólann og svöruðu greiðlega spurningum nemenda og bættu við ýmsum fróðleik. Þess má geta að Selma ólst upp á Malarrifi til sjö ára aldurs og var alla sína grunnskólatíð í Lýsuhólsskóla. Viðtalið var skráð og gefið út í skólablaði nemenda, Æskunni á Ölduhrygg sem kom út fyrir jólin 2015.

Nemendur gerðu lista yfir hugmyndir um búnað og sýningarefni sem sniðugt væri að setja inn í Salthúsið.

Undir vor var hafist handa við að raungera hugmyndirnar. Lagt var upp úr því að nota sem mest náttúruleg efni, endurvinna og endurnýta. Nemendur tóku upplýsingar um „það sem gaman væri að vita um staðinn“ upp úr fyrrnefndu viðtali. Smíðuð voru flettispjöld til að koma þeim upplýsingum á framfæri.

Dæmi um flettispjöld. Krakkarnir sáu um smíðina og þar eru spurningar og svör upp úr viðtali við Lovísu Sævarsdóttur sem síðast stundaði búskap og vitavörslu á Malarrifi, og dóttur þeirra, Selmu Pétursdóttur, sem er fyrrverandi nemandi í Lýsuhólsskóla. Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Þar sem upphaflegur tilgangur með Salthúsinu var að verka þar saltfisk voru útbúin skilti úr samanlímdum dagblaðapappír og þau mótuð og máluð eins og saltfiskur. Á saltfiskana skrifuðu nemendur ýmsan fróðleik.

Hér má sjá dæmi um skiltin sem nemendur gerðu og skráðu á margs konar fróðleik. Takið eftir því að textinn er bæði á íslensku og ensku. Myndin er úr safni skólans

Lóndrangarnir eru áberandi í landslaginu á Malarrifi og ein hugmyndin var verkefnið „Hvað eru Lóndrangar?“ Þeir koma fyrir í sögum en í Landnámabók er sagt frá trölli sem sást sitja á öðrum drangnum og róta í briminu með fótunum. Sjáendur hafa séð í dröngunum álfabyggð þar sem annar drangurinn er kirkja og hinn bókasafn álfa en út frá jarðfræðilegu sjónarhorni eru þeir taldir vera gígtappar í fornum eldgíg. Nemendur gerðu myndræna útlistun á þessu hlutverki Lóndranganna og á vegg hanga þrjár myndir sem sýna Lóndrangana sem tröllasæti, álfakirkju og -bókasafn og sem gjósandi eldgíg.

Myndræn útlistun hlutverki Lóndranganna: Tröllasæti. Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Til að auka virðingu trölla og kynjavera var mótaður úr pappamassa og fleiru, töluvert magnaður tröllshaus sem fékk nafnið Steinn, ritað á nafnspjald um hálsinn (á ensku Stoney), og fjölmargir steinar fengu hin ýmsu andlit úr pappamassa. Tröllið Steinn situr í hálfbrotnu steypukari og vekur töluverða athygli gesta.

Tröllið Steinn. Myndin er úr safni skólans.
… og steinar fengu hin ýmsu andlit úr pappamassa. Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Sjórinn er mjög nálægur og því var talið ómissandi að hafa til sýnis það sem finnst við sjávarsíðuna. Nemendur fóru í fjöruferð til að safna náttúrulegum efnum, s.s. beinum, steinum, þangi og spýtum en ekki vildu þeir sýna hina mjög svo leiðu plastmengun á ströndum á þessum vettvangi. Síðan smíðuðu þeir hillur úr flutningsbrettum til að raða fengnum á.

Hilla, smíðuð úr flutningsbretti. Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Malarrifsviti er afar áberandi og frá yngstu deildinni komu klippimyndir af honum.

Í viðtalinu kom fram að í æsku fannst Selmu gaman að leika í búi með alls kyns dót sem fannst við sjóinn. Nemendur komu því með kjálka, horn og fleira til að setja inn í húsið sem dæmi um leikföng barna fyrr á tímum og í nútímanum líka, því enn þekkist að börn leiki sér með bein og horn í búi.

Nemendur vildu að gestir gætu leikið sér eitthvað í verkefninu og þar sem fuglalíf á Malarrifi er fjölskrúðugt gerðu yngstu nemendurnir fuglaminnisspil sem gestir geta glímt við.

 

Fuglaminnisspil. Takið eftir borðinu! Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Einnig var ákveðið að hafa í húsinu liti og blöð svo gestir gætu teiknað það sem þeir sáu út úr umhverfinu og fest upp á töflu. Fyrir fuglaspil og teikniverkefni var smíðað borð úr flutningsbrettum.

Gestir sýningarinnar voru hvattir til að deila myndum sem þeir tóku í húsinu á Instagram og brugðust margir við því eins og sjá má ef smellt er á myndina. Mynd úr safni skólans.

Þegar allt til sýningarinnar var tilbúið í skólanum þann 30. maí 2016, var haldið að Malarrifi og sýningin sett upp. Þá kom sér vel að hafa aðgang að ýmsu efni í fjörunni til að bæta við.

Sýningin í Salthúsinu var formlega opnuð 2. júní 2016.

Rósa var spurð hvernig sýningin hefði gengið:

… við höfum stöðugar spurnir af því að fólk sé afar hrifið af henni og gaman sé að fara með börn í Salthúsið. Sýningin er í ólæstu húsi og við reiknuðum með að hlutir yrðu teknir og eitthvað yrði skemmt, því það hefur gjarnan gerst á Gestastofu þjóðgarðsins en þarna er allt enn í besta standi og þjóðgarðsverðir hafa ekki þurft að laga eða þrífa mikið inni. Sýningunni hefur sem sagt verið sýnd virðing. Gestir hafa tekið góðan þátt í að teikna myndir og festa upp og gestabókin  fyllist fljótt af  nöfnum, myndum, skilaboðum og hrósi. Við förum með krakkana að hausti og vori til að bæta við blöðum í gestabók, teikniblöðum og –áhöldum og tökum þá heim í skóla teikningar og skrif gesta til að skoða og vinna ýmislegt úr.  Við sjáum alltaf eitthvað skemmtilegt sem við getum nýtt okkur svo sem þjóðerni gesta og  umsagnir sem við getum tekið saman og unnið úr og myndirnar er hægt að flokka eftir myndefni og sýna í skólanum svo eitthvað sé nefnt.

Hér má sjá myndir sem gestir sýningarinnar hafa skilið eftir í Salthúsinu. Myndin til vinstri (í rammanum) sýnir Lóndrangana gjósandi. Ljósmynd: Guðrún Jenný Sigurðardóttir.

Sýningin í Salthúsinu vakti mikla athygli og árið 2017 veitti Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, nemendum skólans  viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins.

Um þetta mátti lesa í fjölmiðlum:

Hér má lesa umfjöllun um Varðliða umhverfisins í Skessuhorni 28. apríl 2017. Smellið á fréttina til að lesa alla fréttina.
KrakkaRUV birti frétt um viðburðinn þegar nemendur í Lýsuhólskóla fengu viðurkenningu ráðherra. Smellið á myndina til að sjá fréttina.

Salthúsið hefur orðið uppspretta fjölmargra  verkefna sem nemendur hafa fengist við í námi sínu, meðal annars á þemadögum í skólanum. Sem dæmi má nefna að nemendur hafa gert rannsókn á þjóðerni gestanna sem skrifuðu í gestabók á sýningunni og unnið hefur verið úr myndum sem gestir hafa skilið eftir á myndatöflu sýningarinnar. Gerð voru kynningarspjöld um heimalönd gestanna. Loks var þar valinn einn listamaður frá hverju landi.

Skráning, talning og úrvinnsla úr gestabók Salthússins: Gestir taldir og flokkaðir eftir þjóðernum og niðustöður settar fram í súluriti. Myndin er fengin af heimasíðu skólans.
Heimskort: Teiknað og merkt hvaðan gestir komu. Myndin er úr safni skólans.
Kynningarspjöld um heimalönd gestanna þar sem fram kom m.a. fáni, þjóðarréttur, tungumál, valin orð í orðalista og einn listamaður valinn frá hverju landi. Myndir voru flokkaðar eftir gerð og valið úr þeim til sýningar í skólanum. Myndin er fengin af heimasíðu skólans.

Fróðlegt er að opna Aðalnámskrá grunnskóla (2011/2013) og máta ákvæði hennar við þessi vinnubrögð. Minnt skal á áherslu námskrárinnar á lykilhæfni; skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu, hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn, hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og til að bera ábyrgð á eigin námi (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011/2013, bls. 55).

Eins og fram kom í inngangi hafa nemendur og kennarar haldið sýningunni í Salthúsinu við.  Á hverju ári fara nemendur  í Salthúsið og huga að sýningunni. Tekið hefur verið til, gestabók endurnýjuð og lagað sem laga hefur þurft. Má nefna að upplýsingsspjöld hafa verið tekin heim til viðgerða.

Myndin er tekin 6. maí 2019 þegar nemendur heimsóttu sýninguna til að huga að þrifum og viðhaldi. Myndin er fengin af heimasíðu skólans.

Þetta metnaðarfulla verkefni er eitt af mörgum áhugaverðum verkefnum sem nemendur hafa verið  að kljást við á undanförnum árum. Nefna má fjölmörg umhverfismenntaverkefni, m.a. tengt Grænfánanum og Skólum á grænni grein, en skólinn er þátttakandi í báðum þessum verkefnum og  hefur flaggað Grænfánanum átta sinnum. Þá má nefna þátttöku í verkefninu Rusl á ströndum (sjá um það hér) og verkefninu Menningarmót. Til viðbótar má nefna ræktun í gróðurhúsi, rannsóknarverkefni, tæknimennta- og nýsköpunarverkefni.

Þá hefur Grunnskóli Snæfellsbæjar sett sér námskrá í átthagafræði og verkefnið í Salthúsinu er hluti af átthaganámi nemenda í Lýsudeild (sjá einnig um þessa námskrá hér).

Þessar kennsluhættir hafa lengi fylgt skólanum. Sem dæmi má nefna að í Skólavörðunni, 8. tölublaði 2004, birtist frétt um skólann þar sem m.a. mátti lesa þetta:

Úr grein Guðlaugar Guðmundsdóttur um Lýsuhólsskóla í Skólavörðunni 2004 (8. tbl.)

Deildin á Lýsu er fámenn. Þar hefur engu að síður tekist að halda uppi öflugu og lærdómsríku skólastarfi. Fámennir skólar hafa átt undir högg að sækja, enda oft dýrari í rekstri en stærri skólaeiningar. Ég hef á undanförnum árum heimsótt marga fámenna skóla, bæði grunn- og framhaldsskóla. Tvennt hefur einkennt marga þessara fámennu skóla. Annars vegar góður skólabragur og óþvinguð og góð samskipti milli aldurshópa, sem og milli nemenda og kennara. Hins vegar mikil hugmyndaauðgi í kennslunni. Margir þessara litlu skóla hafa ráðist í verkefni sem hafa orðið öðrum skólum fyrirmynd. Um þetta mætti nefna fjölmörg dæmi. Og auðvitað ætti ríkisvaldið að styðja betur við sveitarfélög sem  halda uppi fámennum skólum. Að eiga fjölbreytta skóla er í sjálfu sér auðlind fyrir skólakerfið.


Hér má sjá þátt um sýninguna í Salthúsinu sem sýndur var á N4 í október 2019. Hlédís Sveinsdóttir ræðir við nemendur og Rósu Erlendsdóttur deildarstjóra um tilurð og viðhald sýningarinnar.

 

Tilvísun

Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor í kennslufræði við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.


 

 

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp