Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Draumalandið – Hefðbundið nám á unglingastigi í Grunnskólanum í Borgarnesi brotið upp

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson tók saman í samstarfi við Birnu Hlín Guðjónsdóttur, Ingu Margréti Skúladóttur og fleiri kennara unglingadeildar í Grunnskólanum í Borgarnesi

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við Grunnskólann í Borgarnesi þar sem reist hefur verið viðbygging sem inniheldur samkomusal og eldhús, ásamt björtu kennslurými fyrir yngsta stig skólans. Allar list- og verkgreinastofur skólans hafa verið endurgerðar, en það eru stofur fyrir heimilisfræði-, smíða-, textíl- og myndmenntakennslu. Öll aðstaða til kennslu fyrir nemendur og starfsfólk er nú að verða til fyrirmyndar. Framkvæmdir drógust á langinn haustið 2019 og þurfti að grípa til þess ráðs að færa unglingastig skólans í húsnæði Menntaskóla Borgarfjarðar í rúman mánuð. Unglingarnir fengu aðstöðu annars vegar í samkomusal Menntaskólans og hins vegar í félagsaðstöðu menntskælinganna í kjallara skólans. Var tilefnið notað til að brjóta upp hefðbundið skólastarf og farið var af stað með stórt samþætt þemaverkefni sem hlaut nafnið Draumalandið. Nemendum í áttunda til tíunda bekk var skipt upp í aldurs- og kynjablandaða fimm til sex manna hópa sem unnu að því að skapa ímyndað draumaland sem þeir þurftu að finna stað einhvers staðar í heiminum.

Námsgreinum fléttað inn í verkefnið

Umsjónarkennarar á unglingastigi skólans og aðrir kennarar sem koma að kennslu unglinganna heimsóttu í haust Grundaskóla á Akranesi, en þar hafði verið unnið að sambærilegu verkefni og þótti áhugavert að nýta reynslu þeirra. Allir kennarar voru meðvitaðir um að ekki væri hægt að kenna eftir hefðbundinni stundatöflu meðan á verkefninu stóð, og var því leitast við að flétta sem flestar námsgreinar inn í það; íslensku, stærðfræði, dönsku, ensku, samfélagsfræði, náttúrufræði og lífsleikni. Mat kennaranna var að verkefnamiðað nám eins og Draumalandið félli vel að hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Verkefnið snerist um að nemendur sköpuðu ímyndað land eða eyju í ímyndaðri heimsálfu. Þeir gæfu nýja landinu nafn, lýstu samfélaginu sem þar byggi, teiknuðu kort, hönnuðu gjaldmiðla og raunar allt sem að venjulegum samfélögum snýr. Byggja þurfti upp heilbrigðiskerfi, stjórnsýslu, ákveða tungumál, gjaldmiðil, fjölmiðla og svo framvegis.

Framkvæmd

Í upphafi fengu nemendur þessa verkefnalýsingu í hendur:

Verkefnalýsing

Í  þessu verkefni verður unnið með hugtakið ,,Draumalandið”.  Þið eigið að teikna eða búa til líkan af draumalandinu ykkar. Þið þurfið að búa til kynningu á draumalandinu þar sem þið segið frá þjóðinni sem býr í landinu, stjórnskipulagi, samfélagsgerð, auðlindum, atvinnu, innviðum, menningu, landafræði og öllu því sem  gerir landsvæði að landi og fólk að samfélagi.

Til þess að geta unnið þetta af sannfæringu þurfið þið að leggjast í rannsóknarvinnu og kynna ykkur alla þessa hluti hjá raunverulegum löndum og nýta ykkur við vinnuna á ykkar draumalandi.

Það sem þarf að koma fram í verkefninu

Það eru ótal hlutir sem gera land að landi og samfélag að samfélagi. Listinn hér fyrir neðan er alls ekki tæmandi en hann gefur ykkur vonandi hugmyndir um það sem þarf að koma fram í svona verkefni. Svo verðið þið að lesa námsefnið og afla ykkur upplýsinga og þá fáið þið vonandi fleiri hugmyndir um það sem hægt er að setja fram í lýsingu á draumalandinu ykkar.

  • Þjóðin sem býr í landinu, t.d. trúarbrögð, tungumál, menntun, stéttaskipting, jöfnuður, réttindi og fjölskylduhagir.
  • Velferðakerfi landsins, skólakerfi, heilbrigðiskerfi o.fl.
  • Efnahagur, auðlindir, skattkerfi, atvinnulíf o.fl.
  • Innviðir eins og samgöngur, orkuflutningar og samskipti.
  • Menning, t.d. íþróttir, tómstundir, listir, fjölmiðlar, tíska, söfn, skemmtigarðar, frægt fólk, hvað einkennir þjóðina o.fl.
  • Landafræði; stærð landsins, landslag, loftslag, veðurfar, mannfjöldi, þéttbýli, dreifbýli o.fl.
  • Náttúra; orka, auðlindir, umhverfi, mengun, hamfarir o.fl.
  • Stjórnskipulag, t.d. þjóðarleiðtogar, þing, lagasetning, þrískipting ríkisvaldsins, verkefnaskipting milli ríkisins og sveitarfélaga.

Munið svo bara að þessi vinna á bæði að vera fræðandi og skemmtileg. Nýtið  öll tækifæri sem gefast til að vera skapandi og hugmyndarík. Oft er hægt að koma miklu meiri upplýsingum til skila með litríkum teikningum og myndum heldur en með orðum.

Eins og sjá má felur verkefnið í sér mikla rannsóknar- og sköpunarvinnu.

Umsjónarkennarar byrjuðu á því að kynna og skýra helstu hugtök sem nemendur unnu svo með, eins og t.d. samfélag, innviði, auðlindir, heilbrigðis- og menntakerfi og stjórnskipulag. Hver hópur fékk síðan nokkur hugtök til þess að útskýra vel og setja á veggspjöld sem hengd voru upp og allir gátu nýtt sér við vinnuna.

Hóparnir fóru síðan á fullt í sköpunarvinnu. Sumir byrjuðu á að hanna landið sjálft með því að teikna og hanna kort af því á meðan aðrir fóru í að ákveða samfélag, stjórnarfar o.þ.h.

Til að ljúka verkefninu þurftu nemendur að fá til grænt ljós hjá kennurum sem gjarnan bentu á atriði sem bæta mætti við við. Það var því ekki hægt að drífa verkefnið af og segjast vera búin fyrr en komið var að sýningu sem var lokapunkturinn í þessari vinnu.

Til urðu hin fjölbreyttustu lönd og eyjar eins og hér má sjá:

Námsmat

Námsmati í verkefninu var hagað þannig að umsjónarkennarar fundu hæfniviðmið úr aðalnámskrá grunnskóla í þeim námsgreinum sem tengdust verkefninu og bjuggu til námslotu í Mentor sem fyllt var inn í að verkefninu loknu.

Meðal þeirra hæfniviðmiða sem stuðst var við voru þessi:

 • Nemandi notar orðaforða á fjölbreyttan hátt og viðeigandi hugtök sem tengjast margskonar umfjöllunarefni.
 • Nemandi spyr rannsakandi spurninga, skipuleggur eigin áætlun og endurskoðar ferli við efnistök og úrvinnslu verkefna.
 • Nemandi nýtir fjölbreyttar aðferðir við að miðla þekkingu sinni og leikni, skoðunum, hugsunum og tilfinningum á skipulegan og skýran hátt sem við á hverju sinni.
 • Nemandi vinnur með öðrum og tekur á jákvæðan hátt þátt í samskiptum og leggur sitt af mörkum í uppbyggilegu samstarfi.

Uppskeruhátíð

Í lok september var haldin sýning á Draumalandinu í Hjálmakletti, samkomusal Menntaskólans. Þar mátti sjá nemendur miðla þekkingu sinni og leikni með fjölbreyttum aðferðum og í rituðu máli á þremur tungumálum; íslensku, ensku og dönsku. Auk þess sátu nemendur fyrir svörum og fræddu sýningargesti um hvaðeina sem viðkom vinnunni við verkefnið sem og draumalöndin sjálf og lífið í þeim.

Frá sýningunni í samkomusal Menntaskólans.
Nemendur þurftu að skila lýsingu á eyjunni sinni á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og dönsku.

Mat á verkefninu

Kennararnir höfðu ekki ráðist í jafn umfangsmikið verkefni áður og fannst það ganga vonum framar. Engu að síður reynir stórt samþætt verkefni eins og Draumalandið bæði á kennara og nemendur, og þá sérstaklega í mannlegum samskiptum. Byggja þurfti upp traust og deila ábyrgð og vinnu. Mikilvægur þáttur í verkefninu var samvinna og því efldi verkefnið nemendur í samskiptum og á eftir að nýtast þeim í framtíðinni.

Það sem einkum tókst vel að mati kennara var að margir nemendur nutu sín sérstaklega vel í verkefninu þar sem það var skapandi og fjölbreytt . Nemendur sem eiga oft erfitt í hefðbundnu bóknámi nutu sín oft á tíðum mjög vel á meðan sumum þeim sem njóta sín í bóknámi fannst óþægilegt að fara út fyrir þægindarammann og unnu því ekki eins vel í þessu verkefni og þeir eru vanir í hefðbundnu bóknámi.

Áhyggjur kennara í upphafi skólaárs voru meðal annars þær að 8. bekkur næði ekki nægilega góðum tengslum við unglingadeildina þar sem þau voru í öðru húsnæði úti í bæ allan síðastliðinn vetur vegna framkvæmda við skólann. Þetta voru óþarfa áhyggjur, því allir nemendur blönduðust mjög vel saman og tóku eldri nemendur mjög vel á móti þeim yngri.

Helstu agnúar voru að verkefnið tók of langan tíma og alltof mörg hæfniviðmið voru undir. Því var mjög mikil vinna og erfitt að meta verkefnið í lokin. Einnig var enn erfiðara að halda utan um vinnu hvers og eins, þar sem það er auðvelt að láta sig fljóta með í svona stóru hópverkefni. Það reyndist líka erfitt fyrir marga að treysta hópfélögum og deila verkefnum. Þetta átti bæði við um nemenda- og kennarahópinn.

Í fyrstu létu nokkrir foreldrar efasemdir í ljós, óttuðust jafnvel að nemendur myndu dragast aftur úr jafnöldrum þeirra í öðrum skólum í námi. En þessir foreldrar hafa sannfærst um að verkefnið hafi verið fræðandi, enda voru nemendur jákvæðir ekki síður en kennararnir. Þessi jákvæðu viðhorf komu vel í ljós í lok verkefnisins þegar foreldrum boðið á sýninguna í húsi Menntaskólans þar sem afrakstur vinnunnar var kynntur.

Viðhorf nemenda

Kallað var eftir mati nemenda á verkefninu og voru þeir almennt ánægðir með verkefnið í heild sinni. Þeim þótt verkefnið og sá tími sem þeir vörðu í Menntaskólanum skemmtilegur og góð tilbreyting. Þeim fannst jákvætt að fá að vinna þvert á árganga með nemendum sem þeir hefðu annars ekki kynnst jafn vel. Nemendur lýstu ánægju sinni með að þessi hundrað manna unglingahópur væri nú miklu samheldnari en hann var áður en verkefnið hófst. Nemendur í áttunda bekk voru sérstaklega ánægðir með að fá að samlagast eldri nemendum í gegnum Draumalandsverkefnið. Verkefnið varð til þess að nemendur „smullu allir saman sem ein flís“ svo vísað sér í umsögn eins umsjónarkennarans.

Kennarar nefndu að hópurinn hefði fengið mjög góðar móttökur hjá nemendum og starfsfólki Menntaskóla Borgarfjarðar og töldu að nú, þegar nemendur þekkja skólann vel og það starf sem þar er í gangi, kæmi ekki á óvart að stærra hlutfall útskrifaðra nemenda skólans en áður velji að hefja þar skólagöngu þegar þar að kemur.

Að lokum

Eins og sjá má minnir uppbygging þessa verkefnis nokkuð á landnámsaðferð Herdísar Egilsdóttur (1987; 1988) sem margir þekkja. Herdís nam sín lönd með yngri nemendum og munurinn á hennar nálgun og þeirri sem farin var í Borgarnesi er einnig sá að hún lét nemendur ímynda sér að þeir væru íbúar í þeim löndum sem búin voru til. Verkefni Herdísar og nemenda hennar enduðu gjarnan á þjóðhátíð sem nemendur undirbjuggu. Eins má tengja áherslur í landnámsverkefni Borgnesinganna við söguaðferðina (e. story-line, einnig nefnd skoska aðferðin), en margir kennarar hér á landi hafa notað þá aðferð við ýmis konar landnámsverkefni og er þá einnig byggt á hugmyndum frá nemendum og þeir leiddir áfram með spurningum sem krefjast lausnaleitar (Björg Eiríksdóttir, e.d.; The Scottish Storyline Method, 2020). Þegar söguaðferðinni er beitt taka nemendur virkan þátt í að móta söguna sem og þær persónur sem til verða. Þeir verða að setja sig í spor persónanna og glíma við fjölbreytt úrlausnarefni með skapandi hætti.

Þeim kennurum sem hafa áhuga á að prófa sig áfram með aðferðir í þessum anda er bent á þær heimildir sem hér er vísað til. Og hér skal fullyrt að söguaðferðin er aðferð sem á fullt erindi á við nemendur á unglingastigi. Um aðferðina og fleiri kennsluaðferðir í svipuðum anda má líka lesa í Litrófi kennsluaðferðanna (Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Heimildir

Björg Eiríksdóttir. (e.d.). Söguaðferðin. Sótt af http://soguadferdin.weebly.com/

Herdís Egilsdóttir. 1987. Kisuland. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Herdís Egilsdóttir. 1998. Nýtt land – ný þjóð: Landnámsaðferðin – samþætting námsgreina í grunnskóla. Reykjavík: Edda.

Ingvar Sigurgeirsson. (2013). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Iðnú.

The Scottish storyline method (2020). Sótt af http://www.storyline.org/Storyline_Design/Welcome.html


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor í kennslufræði við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi. Birna Hlín Guðjónsdóttir og Ingu Margrét Skúladóttir eru kennarar í Grunnskólanum í Borgarnesi.


Grein birt 20.4.2020

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp