Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Leikir sem kennsluaðferð – vannýtt auðlind

í Greinar
Mynd 1 – Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson.

Ingvar Sigurgeirsson

 

Þann 25. október átti stórafmæli Ása Helga Ragnarsdóttir, leikkona og aðjúnkt við Menntavísindasvið. Ása hefur verið leiðandi í innleiðingu leiklistar sem kennsluaðferðar hér landi. Hún er, með öðrum, höfundur handbóka og námsefnis um þetta efni fyrir kennara og kennaraefni, auk fjölmargra rannsóknargreina.

FLÍSS – félag um leiklist í skólastarfi og vinir og samstarfsmenn Ásu Helgu  ákváðu að halda ráðstefnu, henni til heiðurs, um leiki og leiklist. Sá sem þetta ritar flutti eitt erindanna á ráðstefnunni og er þessi grein byggð á því, en talsverðu efni bætt við. Ég hef, eins og Ása Helga, lengi haft áhuga á að auka hlut leiks og leikja í skólastarfi. Vissulega þarf ekki að hafa  miklar áhyggjur af fyrsta skólastiginu, leikskólastiginu, þar er leikurinn í öndvegi – en þetta breytist heldur bratt þegar börn hefja grunnskólanám. Rannsóknir benda til þess að leikir skipi yfirleitt ekki stóran sess í grunnskólastarfi (Ingvar Sigugeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Kristín Jónsdóttir, 2014). Nemendur hafa fyrst og fremst tækifæri til leikja í frímínútum, íþróttatímum og í frístundastarfi

Mynd 2 – Vefsíða Birte Harksen sýnir skemmtilegt dæmi um frjótt og skapandi skólastarf þar sem leikir og tónlist eru í öndvegi.

Rannsóknir sýna einnig að í framhaldsskólum virðist ekki vera mikil áhersla á að nýta leiki sem kennsluaðferð. Í nýlegri rannsókn sem náði m.a. til 130 kennslustunda (alls 167 klukkustunda) komu leikir fimm sinnum við sögu, fyrst og fremst í tungumálakennslutímum (Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2018).

Auðvelt er að finna rök fyrir aukinni notkun leikja í kennslu og skólastarfi. Þótt það hafi vafist fyrir fræðimönnum að skilgreina hvað leikur er – það er raunar lygilega ólíkt atferli sem við kennum við leik og leiki (og getum við ekki örugglega leikið okkur bara í huganum?) – þá virðast flestir fræðimenn sem um þetta hafa fjallað sannfærðir um mikilvægi og margþætt gildi leiks og leikja fyrir þroska barna; hreyfiþroska, félagsþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska og ekki síst siðferðisþroska. Þetta eru niðurstöður fjölmargra heimspekinga, uppeldisfræðinga, menntunarfræðinga, sálfræðinga, sálkönnuða, atferlisfræðinga, félagsfræðinga, félagssálfræðinga, mannfræðinga, dýrafræðinga – um þetta hafa verið skrifaðar fjölmargar bækur og vísindagreinar (sjá mynd 3).

Mynd 3 – Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um uppeldisgildi leikja.

Og leikur og sköpun skarast og fléttast saman. Þetta sjáum við kannski best í leiklistinni og í dansinum, já, í öllum listformum. Er myndlist ekki leikur með form, rými og liti og ritlist leikur með orð og hugmyndir? Um þetta hafa líka verið skrifaðar margar bækur (sjá mynd 4).

Mynd 4 – Fjöldi bóka hafa verið skrifaðar um tengsl leiks og listiðkunnar.

Skemmtilegt var að uppgötva þegar ég var að undirbúa þetta örerindi að finnski kennslufræðingurinn og Íslandsvinurinn Pasi Sahlberg gaf nýlega út bók með félaga sínum William Doyle um þetta efni (Sahlberg og Doyle, 2019), sjá mynd 5. Pasi hefur meðal annars verið aðalráðgafi Reykjavíkurborgar um innleiðingu nýrrar menntastefnu borgarinnar.

Mynd 5 – Forsíða bókarinnar Let the Children Play.

Sahlberg og Doyle eru ekki að skafa utan af hlutunum. Leikurinn er grundvallarþáttur í því því að vera manneskja, segja þeir, lykillinn að því að börn öðlist hæfni til að ná árangri – hæfni eins og sköpunargáfu, samstarfshæfni, einbeitni, þrautseigju, hæfni til að tjá sig og setja sig í annarra spor – að ekki sé minnst á sjálfsstjórn. Þeir félagar, eins og flestir aðrir fræðimenn sem um þetta hafa fjallað, halda því fram að fullyrða megi að það sé víðtækt samkomulag um að leikur og hreyfing séu mikilvægur grunnur að þroska barna, námsárangri og hæfni í framtíðinni. Samt, benda þeir á, að stjórnmálamenn séu að eyðileggja leikinn og setja í staðinn samræmingu, stöðlun, streitu og skorður, sem er náminu skaðlegt og samfélagslega eyðileggjandi (sjá í bók þeirra t.d. á bls. 95‒127).

Þetta er alvörumál. Sem minnir á að leikur getur verið börnum rammasta alvara. Hörður Arnarson (2019) kennari við Ártúnsskóla, sem hefur hannað áhugavert leikferli sem hann kennir við teningasögur (sjá mynd 6) og byggir á hlutverkaleik, sagði nýlega frá dreng einum sem tók þátt í þessum leik og þar var komið í sögunni að persónan hans átti að höggva tré. Teningi var kastað til að ákveða framhaldið og kom þá upp talan einn á teningnum sem í þessu tilviki í leiknum þýddi að öxin endaði í fæti hans! Skömmu síðar kom mamma hans að sækja hann en hann gat alls ekki farið heim því öxin sat enn föst í fæti hans og hann gat sig því hvergi hreyft (Hörður Arnarson, tölvupóstur 14.10. 2019).

Mynd 6 – Hörður Arnarson heldur úti vefsíðu þar sem hann kynnir þetta skemmtilega og árangursríka verkefni. Sjá á þessari slóð: http://teningasogur.is/

Eitthvert skemmtilegasta dæmið um þetta er úr bók hollenska sagn- og menningarfræðingsins Johan Huizinga (1949), sem skrifaði bókina Homo Ludens (sem upphaflega kom út 1938). Þar færir hann rök að því að leikurinn gegni mikilvægu hlutverki í mótun og þróun menningar. Hann tekur dæmi af syni sínum til að undirstrika hve gagntekin börn geta orðið af leiknum. Huizinga, sem er að koma heim eftir vinnu, kemur að ungum syni sínum, sem er búinn að raða upp nokkrum stólum í röð. Hann situr á þeim fremsta og gefur frá sér hátt blísturshljóð. Hann er að leika járnbrautarlest. Huizinga ætlar að taka drenginn upp og heilsa honum með knúsi, en þá segir barnið þessa dásamlegu fleygu setningu: Pabbi, þú mátt ekki trufla eimreiðina – því þá trúa vagnarnir því ekki að þetta sé í alvörunni! (Huizinga, 1949, bls. 8).

Að svipta börn leik getur verið skaðlegt. Ókjör rannsókna virðast undirstrika mikilvægi leiks og leikja fyrir eðlilegan þroska (Lester og Russell, 2010; Milteer og Ginsburg, 2011; Sahlberg og Doyle, 2019). Það eru til dæmis talin vera tengsl á milli afbrotahegðunar og félagslegra vandamála og þess að hafa ekki fengið að leika sér með eðlilegum hætti sem barn (Brown, 2014; Gray, 2011).

Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvað varð til þess að ég fékk áhuga á að nota leiki sem kennslu- og námsaðferð.

Mynd 7 – Úr grein Þorsteins Sigurðssonar í Menntamálum 1962.

Ekki fór mikið fyrir námsleikjum í mínu barna- og gagnfræðaskólanámi í Austurbæjarskóla og Vogaskóla þótt ég muni vel eftir uppsetningu leikrita og spurningakeppnum milli raða sem voru í miklu uppáhaldi. Ég man þó eftir skólakubbunum hans Þorsteins Sigurðssonar (1962) sem var stórmerkileg útgáfa byggð á leik, þ.e. ef rétt var unnið röðuðust kubbar þannig að mynd birtist (mynd 7). Leikir í skólastofunni voru fyrst og fremst bundnir við svokallaða frjálsa tíma í leikfimi og auðvitað  frímínúturnar. Ég man vel eftir leiknum Bimm, bamm, bimm, bamm, bimbirimbirimmbamm og auðvitað ýmsum hópleikjum eins og Yfir, Hlaupa í skarðið og Stórfiskaleik. Og svo voru það leikjaslagsmálin sem voru leyfð í frímínútum! Munið þið eftir gamnislag, eða hanaslagnum, riddaraslagnum og æðstu keppnisgreinininni burtreiðunum, þegar maður fékk einhvern léttan á axlirnar, hljóp á móti andstæðingnum og sá sem sat á öxlunum reyndi að rífa mótherjann niður?

Líklega voru það fjórir frömuðir sem öðru fremur vöktu áhuga minn á að nota leiki markvisst í kennslu.

Sá fyrsti var Baldur Ragnarsson, námstjóri í móðurmáli, sem árið 1973 gaf út bókina Mál og leik, en hún var að stórum hluta þýðing og staðfærsla á bók Bryan Way (1967), Delvelopment through Drama (sjá mynd 8). Þessi bók er í fullu gildi þó ekki hafi útgáfan verið vönduð. Ég fór að láta nemendur leika Íslandssöguna og ekki síst að túlka ljóð með leikrænni tjáningu – að því er mér fannst með lygilega góðum árangri. Ég féll fyrir leikrænni tjáningu sem kennsluaðferð og hef aldrei skilið hvers vegna þessi magnaða aðferð hefur ekki náð meiri útbreiðslu.

Mynd 8 – Forsíður bókanna Máls og leiks (Baldur Ragnarsson, 1973)og Development through Drama (Way, 1967).

Svo var það Erla Kristjánsdóttir sem lengi var kennari í Melaskóla á áttunda áratugnum og kennslustjóri og lektor í kennslufræðum við Kennaraskóla Íslands sem líka hafði uppgötvað möguleika leikrænnar tjáningar.  Við unnum saman að námsefnisgerð í samfélagsfræði og leituðum þar leiða til að nýta leikræna tjáningu sem kennsluaðferð. Um þetta tókum við saman tvo bæklinga. Annars vegar kver sem kallað var Leikir í samfélagsfræði (Erla Kristjánsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson, 1976) og hins vegar kver sem átti að verða hluti af handbók fyrir samfélagsfræðikennara og kallað var Handbók um samfélagsfræði: Kennsluaðferðir: Leikir – hlutverkaleikir (Erla Kristjánsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson, 1978). Bæði kverin voru ljósrituð og notuð í tengslum við kennaranámskeið þar sem námsefni í samfélagsfræði var kynnt (hægt er að nálgast þessi kver í afriti með því að smella á heiti þeirra hér að ofan). Einnig þýddum við litla myndabók um leikræna tjáningu sem ég hef alltaf haldið mikið upp á, Að leika og látast (Malm og Unden, 1977) sem er handbók um leikræna tjáningu fyrir börn – bók sem er enn í fullu gildi (sjá mynd 9). Við Erla vorum bæði virk í Dramikfélaginu sem svo var kallað, sem var hópur kennara og annars áhugafólks um leikræna tjáningu. Um þetta félag má vísa til skrifa Kristínar Ólafsdóttur (2009) um útbreiðslu leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum.

Mynd 9 – Að leika og látast (Malm og Unden, 1977).
Mynd 10 – Söguspil Þórarins Þórarinssonar.

Þriðji áhrifavaldurinn var Þórarinn Þórarinsson, fyrrverandi skólastjóri á Eiðum. Hann kom í Vogaskóla,þar sem ég kenndi snemma á áttunda áratug síðustu aldar, og kynnti fyrir okkur kennurunum Söguspilið (1973, sjá mynd 10) sitt og Íslendingaspilin (1974, sjá mynd 11).

Mynd 11 – Íslendingaspilin.

Í kjölfarið fór ég að búa til mín eigin spil fyrir enskukennslu, málfræði og stafsetningu – með góðum árangri. Nemendum fannst þetta gaman og þeir voru að læra af þessu. Ég sá líka þá og oft síðar hversu skemmtilegt verkefni það er fyrir nemendur að búa til eigin námspil (sjá mynd 10). Árið 1976 gaf menntamálaráðuneytið, skólarannsóknadeild út lítið kver sem ég skrifaði og nefndi „Nafnorð fram um þrjá reiti“: Um notkun spila í kennslu og var ætlað að vekja athygli á þessari leið. Tíu árum síðar tókst samstarf með hópi áhugafólks um námspil sem tók saman handbók sem Námsgagnastofnun gaf út (Anna Kristjánsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Jacqueline Friðriksdóttir, Matthildur Guðmundsdóttir, Stella Guðmundsdóttir og Þóra Kristinsdóttir, 1987). Hópurinn samdi einnig ýmis námspil sem Námsgagnastofnun gaf út og gekkst fyrir fjölmörgum námskeiðum um námspilagerð sem kennd voru við verkstæði.

Mynd 12 Hér er skemmtilegt dæmi um námspil gert af nemendum. Þetta spil gerðu tvær stúlkur í 7. bekk Grunnskólanum á Bakkafirði fyrir nokkrum árum en þær höfðu valið sér að læra um Vestfirði (sjá um þetta verkefni og fleira í María Guðmundsdóttir, Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson, 2013).

Ég hef síðan haft áhuga á námspilum, ekki síst flóknustu gerð þeirra, hermileikjunum og skrifaði drög að handbók um þetta efni, Handbók um samfélagsfræði handa kennurum og kennaranemum: Kennsluaðferðir – hermileikir, sjá hér. Einhverjir lesenda kunna að muna eftir Landnámsleik sem við Guðmundur Ingi Leifsson og Ólafur Helgi Jóhannsson sömdum og Námsgagnastofnun gaf út 1982 (sjá mynd 13).

Mynd 13 – Á myndinni má sjá kennaranema kynna sér Landnámsleik.

Síðan var það Wolfgang Edelstein, minn strangi lærifaðir, sem lét mig lesa Play, Dreams and Imitation in Childhood eftir Jean Piaget  (1951, sjá mynd 14) – sem leiddi mig síðan að hugmyndum Hans Furth og Harry Wachs (1974) um hugþroskaleiki (e. thinking games) og ég tók saman lítið leikjasafn upp úr bók þeirra Thinking Goes to School (sjá mynd 14). Hægt er að nálgast þetta litla leikjasafn hér. Þessi bók varð ein aðalkveikjan að því að til varð valnámskeið um leiki sem kennsluaðferð í Kennaraháskólanum.

Mynd 14 – Forsíður bókanna Play, Dreams and Imitation in Childhood og Thinking Goes to School.

Það hefur líklega verið árið 1992 að ég bauð fyrst upp á þetta námskeið. Það var þá  valnámskeið í grunnskólakennaranáminu og varð raunar svo vinsælt að það varð til vandræða. Ég heyrði samstarfsfólk mitt kvarta yfir því að það væri ekki líðandi að námskeið um leiki drægi svona marga til sín! Hvað um það; námskeiðið hélt velli meðan til var frjálst val í grunnskólakennaranáminu og árið 2007 kom Ása Helga að námskeiðinu með mér og hefur nú verið aðalumsjónarmaður þess um nokkurt skeið. Námskeiðið snýst öðrum þræði um Leikjavefinn (sjá mynd 15) sem var stofnaður fljótlega eftir að námskeiðið hófst, en eitt verkefni nemanda á námskeiðinu er einmitt að halda Leikjavefnum við og safna nýjum leikjum. Þar er nú að finna hátt í 500 leiki af fjölbreyttu tagi.

Mynd 15 – Forsíða Leikjavefsins, sjá á þessari slóð: www.leikjavefurinn.is

Fyrir nokkrum árum var frjálst val aflagt í grunnskólakennaranáminu og ekki lengur pláss fyrir námskeiðið okkar. Ása Helga Ragnarsdóttir beitti sér þá fyrir því að námskeiðinu var fundinn staður á tómstundabraut og þar hefur það fengið að vera síðan, undir hennar umsjón og nemendahópurinn skemmtilega blandaður; þar eru leikskólakennaraefni, verðandi grunnskólakennarar, þroskaþjálfanemar, íþróttafólk og tómstundafræðingar og við höfum raunar líka fengið nemendur af öðrum sviðum. Námskeiðið er kennt á laugardögum og í fjarnámi með útsendingum og efni á vefsíðu – sem er öllum opin (sjá mynd 16).

Við höfum fengið til liðs við okkur frábæra gestakennara og höfum fjallað um marga af hinum fjölbreyttu möguleikum á að nota leiki í námi, inni og úti, um fræðilegar forsendur þeirra, um hreyfileiki, skynjunarleiki, rökleiki, leiklist, leikræna tjáningu, hlutverkaleiki, námspil, hermileiki, söng- og hreyfileiki, tölvuleiki, kynningarleiki, ratleiki, hópstyrkingarleiki, gátur, þrautir og heilabrjóta. Og við höfum líka stundum fengist við orðaleiki og umhverfisleiki.

Það er auðvitað von okkar Ásu Helgu að þetta námskeið fái að lifa áfram – og að einhverjir taki við keflinu. Þess vegna er það á opnu vefsvæði þar sem allir geta nálgast það og nýtt sér það. Það má t.d. auðveldlega nýta það til sjálfsnáms og það er ekki síst tilgangur þessarar greinar að vekja athygli á því að allir kennarar geta nýtt sér það.

Mynd 16 – Ef smellt er á myndina opnast námskeiðið. Vonandi nýtist það!

Heimildir

Anna Kristjánsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Jacqueline Friðriksdóttir, Matthildur Guðmundsdóttir, Stella Guðmundsdóttir og Þóra Kristinsdóttir (1987). Námspil: hugmyndasafn um notkun námspilanna. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Baldur Ragnarsson. (1973). Mál og leikur: Handbók handa kennurum og kennaranemum um leikræna tjáningu, tal og framsögn. Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka og menntamálaráðuneytið, skólarannsóknadeild.

Brown, S. L. (2014). Consequences of play deprivation. Scholarpedia, 9(5):30449. doi:10.4249/scholarpedia.30449

Erla Kristjánsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. (1977). Leikir í samfélagsfræði handa kennurum á samfélagsfræðinámskeiði í ágúst 1977. Sótt af: https://notendur.hi.is/ingvars/rit/Leikir_i_samfelagsfraedi.pdf

Erla Kristjánsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. (1978). Handbók um samfélagsfræði handa kennurum og kennaranemum. Kennsluaðferðir: Leikir  hlutverkaleikir. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, skólarannsóknadeild.

Gray, O. (2011). The decline of play and the rise of psychopathology in children and adolescents. American Journal of Play, 3(4), 443-463.

Ingvar Sigurgeirsson. (1976). „Nafnorð  fram um þrjá reiti“. Um notkun spila í kennslu. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, skólarannsóknadeild.

Ingvar Sigugeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Kristín Jónsdóttir. (2014). VI Kennsluhættir. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstjóri), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 113–158). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2018). Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2018 – Framhaldsskólinn í brennidepli. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt af http://netla.hi.is/serrit/2018/framhaldskolinn_brennidepli/09.pdf DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.9

Ingvar Sigurgeirsson og Erla Kristjánsdóttir. (1976). Leikir í samfélagsfræðinámi. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson og Erla Kristjánsdóttir. (1978). Handbók um samfélagsfræði handa kennurum og kennaranemum. Kennsluaðferðir: Leikir  hlutverkaleikir. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, skólarannsóknadeild.

Hörður Arnarson. (2019). „Þurfum við endilega að hætta núna?“ Prófun og endurhönnun hlutverkaspilsins „Teningasögur“ (óútgefin meistararitgerð). Háskóla Íslands, Reykjavík.

Huizinga, J. (1949)  Homo ludens: a study of the play-element in culture. Milton Park: Routledge.

Kristín Á. Ólafsdóttir. (2009). Margslungið að útbreiða nýjung. Um hvata og hindranir á vegferð leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2009/012/index.htm

Kristján J. Gunnarsson. (1967). Skólaljóð. Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka.

Lester, S. og Russell, W. (2010) Children´s right to play. An examination of the importance of play in the lives of children worldwide. Working paper no. 57. Hag: Bernard van Leer. Foundation Bernard van Leer Foundation.

Malm, B. og Unden, A.-M. (1977). Að leika og látast. Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka.

María Guðmundsdóttir og Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir í samvinnu við Ingvar Sigurgeirsson (2013). Þegar nemendur taka ábyrgð á eigin námi … Skýrsla um þróunarverkefni í Grunnskólanum á Bakkafirði 2012–2013. Kjós: Skólastofan slf – rannsóknir og ráðgjöf.

Milteer, R. M. og Ginsburg, K. R. (2011). The importance of play in promoting healthy child development and maintaining strong parent-child bond: Focus on children in poverty. Pediatrics, 129(1), 204-213. DOI: https://doi.org/10.1542/peds.2011-2953

Piaget, J. (1951). Play, dreams and imitation in childhood. London: Routledge

Sahlberg, P. og Doyle, W. (2019). Let the children play. How more play will save our schools and help children thrive. New York: Oxford University Press.

Way, B. (1967). Development through drama. London: Longman.

Þorsteinn Sigurðsson. (1962). Ný kennslutæki. Menntamál, 35(1), 17-24.

Þórarinn Þórarinsson. (1973). Söguspilið: Æsispennandi kapphlaup um aldir sögunnar. Útg.st. ekki getið: Leiknám.

Þórarinn Þórarinsson. (1974). Íslendingaspilin. Útg.st. ekki getið: Leiknám.

 


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor í kennslufræði við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.


 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp