Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Sjálfsmatskvarðar fyrir jafnrétti í framhaldsskólum

í Viðtöl

Viðtal Valgerðar S. Bjarnadóttur við Björk Ingadóttur, Jónu Svandísi Þorvaldsdóttur og Vibeke Svölu Kristinsdóttur, kennara í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ

Undanfarinn áratug hefur verið mikil gróska í jafnréttisfræðslu í framhaldsskólum á Íslandi. Sífellt fleiri framhaldsskólar bjóða upp á áfanga í kynjafræðum og í mörgum skólum eru þeir orðnir hluti af skyldu fyrir nemendur á félagsvísindabrautum. Á sama tíma hafa verið stofnuð femínistafélög í þó nokkrum framhaldsskólum og aukin áhersla verið lögð á jafnrétti í námi og félagslífi. Þessi þróun hefur ekki síst verið fyrir tilstuðlan öflugra eldhuga í hópi kennara í þeim skólum sem hafa verið í fararbroddi í þessum málum. Óhætt er að segja að Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sé einn þeirra. Þar hafa þrír kennarar skólans, Björk Ingadóttir, Jóna Svandís Þorvaldsdóttir og Vibeke Svala Kristinsdóttir, opnað vefsíðuna sjalfsmatskvardi.com en síðan inniheldur tvo kvarða sem ætlaðir eru til að leggja mat á jafnrétti í framhaldsskólum, skólakvarða og kennarakvarða. Kvarðana tvo má finna á þessari vefsíðu. Óhætt er að fullyrða að mikill fengur sé að kvörðunum, sem geta meðal annars gagnast skólum við að meta innleiðingu á grunnþættinum jafnrétti og lýðræði. Ritstjórn Skólaþráða óskaði eftir viðtali við þær stöllur um tilurð og markmið kvarðanna.

Björk Ingadóttir, Jóna Svandís Þorvaldsdóttir og Vibeke Svala Kristinsdóttir

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að þróa sjálfsmatskvarða?

Við vorum alltaf að velta fyrir okkur spurningum eins og: Hvernig er hægt að hjálpa kennurum, stjórnendum og starfsfólki að gera sér betur grein fyrir stöðu jafnréttismála í framhaldsskólum? Hvernig er best að skoða stöðuna svo hægt sé að taka skref til framtíðar? Er yfir höfuð hægt að meta stöðu jafnréttismála í framhaldsskólum?

Við fundum fyrir því að margir kennarar höfðu áhuga á því að skoða sjálfa sig með tilliti til jafnréttismála og bæta jafnrétti í kennslu sinni og í skólanum almennt. Tími til samstarfs er dýrmætur en oftar en ekki fullnýttur svo erfitt getur reynst að finna tækifæri til skrafs og ráðagerða með samstarfsfélögum. Þar að auki hefur, að okkar mati, verið ákveðinn skortur á verkfærum til að nota við matið. Sjálfsmatskvarðanum er ætlað að einfalda kennurum mat á eigin starfi í skólastofunni og í skólanum í heild. Við vitum að kennarar hafa verið að skoða starf sitt, t.d. með starfendarannsóknum, og virðist það bæta starfsánægju og sjálfstraust kennara.

Til að byrja með fengum við styrk frá skólanum okkar, Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, til að þróa verkefnið í eina önn. Árið 2017 fengum við svo styrk frá Framkvæmdasjóði jafnréttismála til að reyna að auðvelda kennurum að meta sjálfa sig. Þeir setja sér markmið til að auka jafnrétti í eigin kennslu og jafnframt  að þróa lausn fyrir skóla til að meta starfsemi sína út frá grunnþættinum jafnrétti.

Getið þið sagt mér frá því hvers konar verkfæri sjálfsmatskvarðinn er?

Í rauninni er um tvo sjálfsmatskvarða að ræða.  Annars vegar er matskvarði fyrir kennara. Áhugasamir kennarar geta fyllt kvarðann út og fengið yfirsýn yfir stöðu jafnréttis í kennslu sinni og unnið út frá niðurstöðunum. Þær má sömuleiðis geyma og nota til samanburðar frá ári til árs.

Hins vegar er matskvarði fyrir skóla. Margir skólar taka þátt í sjálfsmatskerfi heilsueflandi framhaldsskóla. Það fyrirkomulag þótti okkur einfalt og við sáum fyrir okkur að svipað kerfi gæti hentað skólum til að leggja mat á starfsemi sína út frá jafnréttissjónarmiðum og leggja á ráðin um næstu skref. Sérstaklega þótti okkur mikilvægt að fulltrúar allra hópa í skólanum mynduðu teymi til að koma sjónarmiðum sem flestra á framfæri.

Kvarðarnir eru verkfæri fyrir skóla til að færa jafnréttismál markvisst og meðvitað upp á yfirborðið. Ýmsar leiðir eru til að nota kvarðana en gott er að nota þá samhliða virkri jafnréttisstefnu skólans. Helstu kostir þeirra eru að þeir eru aðgengilegir, opnir öllum á vefsíðunni sjalfsmatskvardi.com án endurgjalds og einfaldir í notkun.

Mættuð þið einhverjum áskorunum við þróun hans?

Helstu áskoranir sem við mættum við þróun kvarðans sneru að því að ákveða hvaða þættir þyrftu að vera hluti af kvarðanum. Þótt aðaláherslan hafi í upphafi verið á kynjajafnrétti þar sem við höfum brennandi áhuga á því sviði, þá reyndum við að koma inn á jafnréttismál í víðari skilningi.

Við höfum reynt að bregðast strax við athugasemdum sem tengjast notkun kvarðans og munum halda áfram að gera það. Fyrst um sinn þurfti að gefa upp persónulegt netfang til að fylla út kennarakvarðann en nú höfum við bætt við þeim möguleika að hægt sé að nota okkar netfang, sjalfsmatskvardi@gmail.com, ef fólk vill ekki fá sendar niðurstöður.

Önnur áskorun sem við höfum mætt er að erfitt getur verið að kynna svona verkefni í skólum. Kennarar þurfa hvatningu frá stjórnendum og jafnréttisfulltrúum til að fylla út kvarðann og nýta niðurstöðurnar til að efla sig í starfi. Kvarðarnir eru sérstaklega ætlaðir framhaldsskólum en hægt væri að þróa verkefnið áfram fyrir önnur skólastig eða nýta það til hliðsjónar við slíka vinnu. Verkefnið Jafnrétti í skólum og fleiri verkefni hafa innihaldið fjölbreytta gátlista sem einnig má styðjast við.

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að þetta verkefni þróist áfram?

Við munum halda áfram að kynna verkefnið og fínpússa kvarðann eftir þörfum. Við fögnum hvers konar ábendingum og athugasemdum um verkefnið og hægt er að hafa samband við okkur á netfanginu sjalfsmatskvardi@gmail.com (eða á jona@fmos.is).  Við vonumst til þess að sem flestir kennarar noti kennarakvarðann til að leggja mat á eigin kennslu og nýti hann í markvissa ígrundun um eigið starf. Einnig vonumst við eftir því að sem flestir skólar nýti skólakvarðann til að vinna markvisst að jafnréttismálum.

Kvarðana má finna á vefsíðunni www.sjalfsmatskvardi.com


Valgerður S. Bjarnadóttir (valgerdur@unak.is) er nýdoktor við Háskólann á Akureyri. Hún lauk doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2019 en starfaði áður við Menntaskólann á Akureyri þar sem hún kenndi félagsgreinar og sinnti verkefnastjórn.


 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp