Greinar - Page 11

Fjórar meginstoðir teymiskennslu

10. febrúar, 2021

    Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

 

Viðfangsefni þessarar greinar er um leiðir til að innleiða teymiskennslu í skipulag grunnskólastarfs. Kveikja greinarinnar er meistararitgerðin, Það er óttalegur línudans, og fjallar greinin um niðurstöður þeirrar rannsóknar en fléttað er inn í dæmum um hvernig hægt er að styðja við þá undirstöðuþætti sem þurfa að vera til staðar svo að teymiskennsla gangi sem best. Í dæmunum er starfsfólk nafngreint eftir persónum úr uppáhaldsskáldsögu höfundar þessarar greinar og því geta lesendur haft gaman að því að finna út hvaða saga það er um leið og þeir lesa greinina.

Í teymiskennslu felst að kennarar sameina krafta sína og þekkingu við að leysa sameiginleg verkefni og ná fram ákveðnum markmiðum. Tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir einum árgangi eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna einnig að einhverju marki saman. Faglegt teymi hefur yfir að ráða kennsluúrræðum sem henta öllum nemendum. (meira…)

„Hann er umhverfisvænn og sjálfbær“. Nemendur í skóla margbreytileikans

8. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Kristín Björnsdóttir, prófessor.

Grunnskólanemar í 3.–10. bekk ásamt Kristínu Björnsdóttur

Snemma árs 2020 hafði Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins samband við mig og bauð mér að halda inngangserindi á vorráðstefnu þeirra um menntun og margbreytileika. Viðbrögð mín voru sambland af gleði, eftirvæntingu og efasemdum. Margt fræða- og skólafólk hefur, í ræðu og riti, fjallað um fjölbreytta nemendahópa, skóla án aðgreiningar, skóla margbreytileikans, skóla fyrir alla, algilda hönnun náms og kennslu, einstaklingsmiðun í námi, inngildandi menntun og ýmsar þarfir nemenda. Í ljósi ofangreindrar skilgreiningasúpu fannst mér ég knúin til að finna nýjan flöt á viðfangsefninu. Nemendur eru þeir sérfræðingar í skólamálum sem gjarnan vilja gleymast og því fór ég í samstarf við grunnskólanemendur í nokkrum mismunandi skólum. Sameiginlegt markmið okkar var að komast að því hvað það væri sem gerði skóla góða en öll tilheyrðu þau skólum þar sem nemendahópurinn var margbreytilegur. (meira…)

Í hvað erum við að flýta okkur? Ofuráhersla á bóklega færni ungra barna dregur úr hæfni þeirra í því sem mestu máli skiptir

5. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ingvi Hrannar Ómarsson

Við höfum öll takmarkaðan tíma og það hvernig við notum hvern dag safnast saman í það sem við gerum. Ekki það sem við ætlum kannski að gera á morgun, heldur er hæfni okkar, heilsa og þekking byggð á því sem við gerðum, borðuðum og lærðum í dag. Lífið er fullt af deginum í dag … ekki morgundögum. Ef við ætlum að verða góð í einhverju þurfum við að gera það í dag. Ekki mögulega á morgun.

Hvernig börn verja sínum tíma skiptir gríðarlegu máli. Árin, frá eins til sex ára, eru líklega þau mikilvægustu í lífi hverrar manneskju. Þá byggjum við upp mikið af hæfni okkar til samskipta og það er einmitt á þessum aldri sem samhygð (e. empathy) barna þroskast og mótast. Án hennar er grundvöllur fyrir nær öllum eðlilegum samskiptum og velgengni í lífinu á veikum grunni byggður. (meira…)

Að þekkja uppruna sinn: Nemendur skyggnast um á síðum Íslendingabókar, á vef Landmælinga Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands

5. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Rósa Eggertsdóttir

Þegar móður minni fannst það eiga við sagði hún: „Þriðja kynslóðin gleymir“. Henni fannst fenna fljótt í spor forfeðranna. Nýjar kynslóðir væru fáfróðar ef ekki alls ófróðar um hagi fólks fyrr á tímum. Í bréfi sem hún skrifaði frænku sinni í nóvember 1940, segir m.a.:

Einu sinni ráfaði ég úti heila jólanótt í snjó og kulda með einum kunningja mínum, vegna þess að við áttum hvergi heima – mér fannst það ákaflega broslegt, næstum því grátbroslegt. … Allstaðar þar sem við gengum framhjá húsum sáum við ljósadýrð, glöð börn sem nutu þess að jólin voru komin. Við ráfuðum úti frá kl. 9 til kl. 5 um morguninn. Það sem mér fannst ergilegast var að samferðafélagi minn var alltof „melankólskur“ hann gat ekki notið þess að vera heimilislaus flökkukind og sjá jólin koma til annarra.

Skiptir það máli fyrir afkomendur að hafa vitneskju um kjör formóður sinnar á krepputímum? Er mikilvægt að vita að langamma eignaðist tíu börn, þar af náðu sjö fullorðinsaldri? Í janúar 1907 fæddi hún tvíbura, annar dó eftir viku. Níu mánuðum síðar missti hún mann sinn þegar bátur fórst með allri áhöfn, fimm manns. Hún varð í einni svipan ekkja með fimm börn á framfæri, elsta 11 ára, það yngsta hvítvoðungur. Ekkert stoðkerfi var innan seilingar. Hún gat hvorki greitt húsaleigu né brauðfætt börnin. Fjórum börnum var komið fyrir hjá vandalausum. Það urðu örlög hvítvoðungsins að verða ómagi. Hún fékk starf sem fanggæsla[1] í verbúð og hafði hjá sér þriggja ára son sinn. Þau voru til heimilis á lofti verbúðarinnar. Á einu og sama árinu missti hún manninn, öll börnin utan eitt og heimilið sitt. Eftir þetta deildu börnin aldrei sama heimili. Það er ekki flókið að gera sér í hugarlund hvernig henni hefur liðið þegar þessi ósköp dundu yfir. (meira…)

Um meint ólæsi drengja við lok skyldunáms

1. febrúar, 2021

Þorlákur Axel Jónsson

Oft er rætt um slaka frammistöðu drengja á PISA prófunum. Stór hluti þeirra er sagður illa læs við lok skyldunáms og er jafnvel ályktað sem svo að skólakerfið bregðist drengjum við undirbúning fyrir líf og starf í nútímasamfélagi. Spurning um hvort grunnskólar mismuni piltum og stúlkum hangir í loftinu. Henta grunnskólar stúlkum vel en strákum ekki?

Almennt standa stúlkur sig betur en piltar á lesskilningshluta PISA rannsóknarinnar sem lögð hefur verið fyrir á þriggja ára fresti frá aldamótum. Í skýrslu Menntamálastofnunar um síðasta PISA-prófið segir: „Stúlkur stóðu sig töluvert betur en drengir í lesskilningshluta PISA 2018 á Íslandi. Þetta er óbreytt staða frá fyrri könnunum því kynjamunur í lesskilningi á Íslandi (og að meðaltali í löndum OECD) hefur verið stúlkum í hag síðan í fyrstu könnun PISA“ (bls. 29). Munurinn var 40 stig á mælikvarðanum fyrir lesskilning sem er meira en þær framfarir sem gert er ráð fyrir að verði á einu skólaári. Samtals voru 19% stúlkna og 34% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 „og teljast því ekki búa yfir grunnfærni í lesskilningi“ (bls. 30). Við bætist að frammistaða bæði pilta og stúlkna hefur versnað jafnt og þétt frá aldamótum.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ættu að hvetja okkur til þess að álykta varlegar um slæma stöðu drengja en tíðkast hefur. (meira…)

Hvernig smáfræ verður að meginstoð í sköpun lærdómssamfélags: Um áhugasviðsverkefni í Grunnskólanum á Suðureyri

29. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Jóna Benediktsdóttir

Grunnskólinn á Suðureyri er pínulítill skóli, svo lítill að þar þurfa kennarar að kenna fleiri greinar en sínar óskagreinar og eru yfirleitt ekki í samstarfi við neinn um sína kennslu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og meira en helmingur þeirra á annan eða báða foreldra af erlendum uppruna og greiningar vegna frávika eru ekki sjaldgæfari hjá okkur en öðrum. Þessar aðstæður hafa litað skólastarfið gegnum árin og eins og við vitum öll sem störfum í grunnskólum er auðvelt að festast í ákveðnu fari sem skapast bæði af ytri og innri aðstæðum í skólasamfélagi. (meira…)

Nýr skóli á nýrri öld – um þróunarstarf í Salaskóla í tuttugu ár

27. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Hafsteinn Karlsson

Í upphafi aldarinnar var mikil gerjun í skólastarfi. Sveitarfélögin höfðu nýlega tekið við rekstri grunnskólanna af ríkinu og víðast hvar var mikill metnaður og áhugi heimamanna á að gera skólana sína sem besta. Í Reykjavík var t.a.m. markvisst umbótastarf í gangi þar sem lagt var upp með einstaklingsmiðað og fjölbreytt skólastarf. Kennaraháskólinn var kominn vel af stað með sérstakt framhaldsnám fyrir skólastjórnendur með áherslu á faglega forystu skólastjórnenda í sínum skólum og mikilvægi þess að starf hvers skóla byggi á skýrri hugmyndafræði. Meistaranám í kennslufræðum hafði einnig fest rætur. Fjölgreindakenning Gardners var á hvers mann vörum og bók Thomasar Armstrongs um hana kom út í íslenskri þýðingu Erlu Kristjánsdóttur árið 2001. Hún opnaði augu margra kennara fyrir mikilvægi fjölbreytts skólastarfs. Einnig voru hugmyndir um samfellu skóla- og frístundastarfs, umhverfismál, jafnréttismál og möguleikar upplýsingatækninnar í námi og kennslu ofarlega á baugi. Þá voru gerðar tilraunir til að stokka upp kjarasamninga kennara m.a. í því skyni að auka möguleika á faglegu samstarfi og samvinnu kennara við undirbúning og skipulagningu náms. (meira…)

Fjórar myndir: Kennslukona leitar fótfestu

20. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Súsanna Margrét Gestsdóttir

September 1985

„Reyðarfjörður, Eskifjörður, Fráskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður!“ kallar rútubílstjórinn yfir flugvöllinn á Egilsstöðum með skrolli sem slær allt út sem áður hefur heyrst. „FRÁskrúðsfjörður? Heitir hann það?“ spyrja tveir táningar sem eru að troða farangri sínum inn í rútuna þetta blauta haustkvöld. Þau vita ekkert um það og reyndar ekkert um staðinn yfir höfuð, hafa aldrei komið þangað. Engu að síður hafa þau ráðið sig til kennslu við grunnskólann á staðnum þennan vetur og þó að skólinn hafi reyndar verið settur án þeirra nokkrum vikum fyrr þótti fagnaðarefni að fá þau til starfa því að þau eru nefnilega með glóðvolgt stúdentspróf. Þau gátu ekki mætt fyrr því að þau þurftu auðvitað að fara á Interrail með félögum sínum að sumarvinnu lokinni og í farangrinum er gott safn af vínilplötum, beint frá London – má þar nefna Cure, Stranglers og Talking Heads. Steinsnar er frá kjallaraíbúðinni í Skólabrekku yfir í grunnskólann og næsta dag má sjá þau skottast þangað. Stúlkan er rúmlega einn og hálfur metri á hæð, með leifar af unglingabólum í kinnum þó að hún sé orðin 19 ára og hefur vissulega áhyggjur af því að eiga að kenna 11 ára gömlum börnum að reikna. En hún er ekki fyrr komin inn í skólastofuna en hún fyllist vellíðan og gleði: Nemendur reynast gríðarlega skemmtilegir, námsefnið er allt viðráðanlegt og hún skrifar foreldrum sínum sendibréf í fyrstu viku þar sem segir í algerri einlægni: „Ég er fædd til að kenna.“ Þessi ummæli slá svo í gegn í Seljahverfinu að systir hennar nýtir sér aðstöðuna hjá Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins og býr til barmmerki með sömu orðum sem enn er til. (meira…)

Spjaldtölvuskammdegið: Óljósar vangaveltur um uppsprettu andstöðu við viðleitni til að bæta skólastarf og valdefla nemendur

20. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Björn Gunnlaugsson

Ritvélin var fundin upp á nítjándu öld og var mikil völundarsmíð. Hnappar á lyklaborði voru prýddir öllum bókstöfum stafrófsins og þegar þrýst var á hnappana skutust hamrar leiftursnöggt úr sætum sínum, einnig prýddir sömu bókstöfum upphleyptum sem lentu með þunga á blekborða með þeim afleiðingum að á blaði undir borðanum sat eftir afrit bókstafsins. Þvílíkur galdur! Skrásetningargeta mannkyns margfaldaðist við þetta á einni nóttu en einn ljóður var á ráði þessa nýja galdratækis, eins og oft er með nýjungar. Hamrarnir áttu það til að rekast á þegar þeir flugu að blekborðanum og blaðinu og læsast saman. Nú voru góð ráð dýr.

Ráðist var í að raða hömrunum upp á nýtt og var beitt þeirri aðferð að rýna uppröðun bókstafa í orðum og setja saman hlið við hlið í ritvélinni þá bókstafi sem sjaldnast stóðu saman í orðum, því þannig mætti fækka árekstrunum. Þetta krafðist þess hins vegar að fram færi mikil þjálfun til að ritari lærði þessa nýju uppröðun stafanna en hún lá alls ekki í augum uppi. Þeirri þjálfun er enn haldið áfram í skólum þótt áratugir séu liðnir síðan síðast komu við sögu hamrar með upphleyptum stöfum, blekborðar og blöð þegar setið var við skriftir.

Þegar höfundur þessa pistils var að læra vélritun í grunnskóla á síðustu öld voru rafknúnar ritvélar til á mörgum heimilum og öllum vinnustöðum. Í skólanum var slíkum vélum ekki til að dreifa heldur þurfti að beita allnokkru afli með fingrunum til að fá hamrana til að gera sitt gagn. Nemendum var að sjálfsögðu bannað að nota rafmagnsritvélarnar heima til að vinna vélritunarverkefnin, því þá væri hætta á að þeir næðu ekki að þjálfa upp nægilegt afl í fingurna til að geta notað þessar úreltu ritvélar sem voru hvergi lengur til nema í skólum.

Í dag notast enginn lengur við ritvélar og þótt lyklaborðin hafi fylgt tölvum fyrstu áratugina eru þau nú á útleið því með tækniframförum má nú nota röddina til að gefa tölvunni fyrirmæli um hvað eigi að skrifa. Sé því ekki til að dreifa eru lyklaborð nú oftast á örlitlum skjá þar sem best er að nota þumlana til að þrýsta á stafina. Samt þráumst við við að þjálfa nemendur í vinnubrögðum fortíðar okkar.

Eins og góður skólamaður sagði eitt sinn: „Í skólastarfi erum við miklir sérfræðingar í að gera ranga hluti mjög vel.“ (meira…)

Þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

20. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson

Menntastefna Reykjavíkur- „Látum draumana rætast“, var samþykkt í lok árs 2018 eftir tæplega tveggja ára mótunarferli með aðkomu um 10.000 aðila innan og utan borgarinnar. Í þeim hópi voru börn, foreldrar, kennarar og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi, erlendir og íslenskir sérfræðingar um menntamál og almenningur í gegnum Betri Reykjavík. Áhugaverða samantekt á opnu samráði við mótun menntastefnunnar má lesa í niðurstöðum rannsóknarinnar Crowdsourcing Better Education Policy in Reykjavik (King, 2019). (meira…)

1 9 10 11 12 13 23

Færslusafn

Fara íTopp