Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Um meint ólæsi drengja við lok skyldunáms

í Greinar

Þorlákur Axel Jónsson

 

Oft er rætt um slaka frammistöðu drengja á PISA prófunum. Stór hluti þeirra er sagður illa læs við lok skyldunáms og er jafnvel ályktað sem svo að skólakerfið bregðist drengjum við undirbúning fyrir líf og starf í nútímasamfélagi. Spurning um hvort grunnskólar mismuni piltum og stúlkum hangir í loftinu. Henta grunnskólar stúlkum vel en strákum ekki?

Almennt standa stúlkur sig betur en piltar á lesskilningshluta PISA rannsóknarinnar sem lögð hefur verið fyrir á þriggja ára fresti frá aldamótum. Í skýrslu Menntamálastofnunar um síðasta PISA-prófið segir: „Stúlkur stóðu sig töluvert betur en drengir í lesskilningshluta PISA 2018 á Íslandi. Þetta er óbreytt staða frá fyrri könnunum því kynjamunur í lesskilningi á Íslandi (og að meðaltali í löndum OECD) hefur verið stúlkum í hag síðan í fyrstu könnun PISA“ (bls. 29). Munurinn var 40 stig á mælikvarðanum fyrir lesskilning sem er meira en þær framfarir sem gert er ráð fyrir að verði á einu skólaári. Samtals voru 19% stúlkna og 34% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 „og teljast því ekki búa yfir grunnfærni í lesskilningi“ (bls. 30). Við bætist að frammistaða bæði pilta og stúlkna hefur versnað jafnt og þétt frá aldamótum.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ættu að hvetja okkur til þess að álykta varlegar um slæma stöðu drengja en tíðkast hefur.

Gerð var rannsókn í Kanada á hverju munaði á lesskilningi pilta og stúlkna þegar þau voru 15 ára og 24 ára. Borin var saman frammistaða árgangs sem tók PISA próf við frammistöðu úrtaks úr þeim sama árgangi sem tók sérsamið PISA próf fyrir 24 ára. Greinilegur munur var á lesskilningi kynja hjá 15 ára kanadískum unglingum, stúlkum í hag eins og í öðrum löndum. Við 24 ára aldur höfðu bæði piltar og stúlkur meiri lesskilning en á fyrra prófi, dreifing innan hópsins var minni, færri höfðu lítinn lesskilning og fleiri höfðu mikinn lesskilning. Hlutfall þeirra sem voru undir hæfniþrepi 3 hafði lækkað úr 21% í 7% (tölurnar fyrir hlutfall undir 2 miðað við 424 stig eru 11% og 3% (OECD, 2012, tafla 3.1)). Kynjamunur hafði minnkað mikið og strákarnir höfðu bætt sig. Höfundar skýrslu um þessa rannsókn (OECD, 2012) segja kynjamuninn við 24 ára aldur ekki nógu mikinn til að gera mætti ráð fyrir að hann kæmi fram við endurteknar mælingar. Að auki getur þessi munur varla talist markverður. Sé reiknuð áhrifastærð út frá þeim tölum sem birtar eru í skýrslunni er tölugildið til vitnis um lítinn kynjamun (d’ = (608 – 590)/78 = 0,23) og er fjarri því að teljast miðlungs mikill munur (0,50) eða mikill (0,80). Munur á lesskilningi kynja reynist umtalsvert minni meðal 24 ára ungmenna en hann var hjá 15 ára unglingum og ekki sama ástæða til þess að tala um mun á lesskilningi kynja eins og verið hafði.

Mynd 1: Samanburður á dreifingu lesskilnings ungra karla og ungra kvenna, PISA-15 og PISA-24. (Heimild: OECD, 2012, bls. 33)

Hér á Íslandi hafa stúlkur staðið sig betur í stærðfræði á PISA í fjórum skiptum af þeim sex sem prófað hefur verið. Þó munurinn teljist tölfræðilega marktækur getur hann ekki talist mikill (t.d. 10 stig 2018). Frammistaða íslenskra nemenda í stærðfræði er yfir meðaltali innan OECD, þó við komumst ekki í efsta flokk landa. Óvenjulegt er að hér standa stúlkur sig betur í stærðfræði en piltar.

Svipað gildir um læsi á náttúruvísindi en þar erum við undir meðaltali OECD. Stúlkur eru oftar hærri en piltar, og þó munurinn teljist yfirleitt tölfræðilega marktækur er hann í raun smávægilegur (8 stig 2018). Grunnskólar mismuna ekki kynjum í stærðfræði og náttúruvísindum samkvæmt þessu.

Einnig má nefna að mælikvarðinn, sem skiptir nemendahópnum á sex hæfniþrep, er til þess gerður að mæla mun á lesskilningi innan nemendahóps sem er læs á texta, í venjulegri merkingu þeirra orða. Í þeim fjölmenna hópi nemenda sem tóku prófið 2018 náðu 24% ekki hæfniþrepi 2 í löndum OECD (OECD, 2019, viðauki B1). Það átti við um 26% íslenskra nemenda. Stúlkurnar stóðu sig betur (19% undir hæfniþrepi 2) en nemendur almennt í vestrænum ríkjum, strákarnir ver (34% undir hæfniþrepi 2). Stjórnvöld hafa sett það markmið að þetta hlutfall sé 10%. Gott og vel, það sýnir metnað.

Talandi um metnað. Í PISA eru nemendur spurðir hversu mikið þeir lögðu sig fram á prófinu á skalanum 1–10. Öll gögn PISA eru birt á heimasíðu verkefnisins (www.oecd.org/pisa) og því er hægt að athuga hvernig nemendur svöruðu þessu. Almennt gáfu íslenskir nemendur viðleitni sinni 7,7 í einkunn (stúlkur 7,8 : piltar 7,5). Aftur á móti, hefði prófið gilt til einkunnar fyrir nemendur sjálfa, gáfu þeir viðleitni sinni 9,1 í einkunn (stúlkur 9,3 : piltar 8,9). Stúlkur gáfu sér hærri einkunn á báðum mælikvörðunum en piltar, en enn á ný telst munurinn ekki mikill. Það væri verðugt athugunarefni hvort þessi munur tengist frammistöðu, en Menntamálastofnun hefur áður upplýst að yfirleitt sé það ekki. Athyglisvert finnst mér að viðleitnin til að standa sig sé ekki meiri en þetta. Próf mæla það sem þau eiga að mæla ef sá sem tekur prófið leggur sig allan fram. Ef PISA rannsóknin væri íþrótt, þá er hún liðakeppni. Allir eru í landsliðinu og eru með fyrir Íslands hönd. Taki 13 nemendur eða fleiri í sama skólanum þátt, þá skipta þeir á milli sín einu PISA-prófi og skólinn sendir lið til keppni. „Hvað lagði liðið sig mikið fram í leiknum? – Svar: 77%“. Er þetta vandinn, að við höfum vanið nemendur á að leggja sig þá og því aðeins fram, að þeir hafi persónulegan hag af því? Hvernig fáum við unglinga til þess að leggja sig alla fram fyrir skólann sinn og fyrir lýðveldið Ísland?

Munur á frammistöðu pilta og stúlkna á lesskilningshluta PISA gefur ekki tilefni til þess að álykta um mismunun kynja í grunnskólum landsins. Ekki skal lítið gert úr því að samkvæmt mælingum PISA skortir unglingspilta hæfni til þess að bera saman upplýsingar, skerpa skilning á þeim og fella í flokka á mismunandi forsendum. Áhugavert er að rannsaka hvers vegna unglingsstrákar ná ekki betur þeirri hæfni sem PISA mælir, hæfni sem er áþekk því sem stjórnvöld setja fram í aðalnámskrá sem markmið læsis: „Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa“ (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 19). Það hlýtur þó að mega gefa unglingum nokkurra ára svigrúm í lífi sínu til þess að ná þessu göfuga markmiði.

Heimildir

Menntamálastofnun. (2019). PISA 2018: Helstu niðurstöður á Íslandi. Höfundur.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti: Greinasvið. Höfundur.

OECD. (2012). Learning beyond fifteen: Ten years after PISA. OECD Publishing. http://dx.doi.org/10.1787/9789264172104-en

OECD. (2019). PISA 2018 results: What students know and can do 1. Höfundur. https://www.oecd-ilibrary.org/education/pisa-2018-results-volume-i_5f07c754-en

OECD. (jan. 2021). PISA: Programme for international assessment. Höfundur. http://www.oecd.org/pisa/

 

Lesið við vasaljós í Húsaskóla. Mynd: IS.

Þorlákur Axel Jónsson, cand. mag., aðjúnkt við kennaradeild og sálfræðideild Háskólans á Akureyri.


Grein birt: 1/2/2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp