Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Fjórar meginstoðir teymiskennslu

í Greinar

    Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

 

Viðfangsefni þessarar greinar er um leiðir til að innleiða teymiskennslu í skipulag grunnskólastarfs. Kveikja greinarinnar er meistararitgerðin, Það er óttalegur línudans, og fjallar greinin um niðurstöður þeirrar rannsóknar en fléttað er inn í dæmum um hvernig hægt er að styðja við þá undirstöðuþætti sem þurfa að vera til staðar svo að teymiskennsla gangi sem best. Í dæmunum er starfsfólk nafngreint eftir persónum úr uppáhaldsskáldsögu höfundar þessarar greinar og því geta lesendur haft gaman að því að finna út hvaða saga það er um leið og þeir lesa greinina.

Í teymiskennslu felst að kennarar sameina krafta sína og þekkingu við að leysa sameiginleg verkefni og ná fram ákveðnum markmiðum. Tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir einum árgangi eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna einnig að einhverju marki saman. Faglegt teymi hefur yfir að ráða kennsluúrræðum sem henta öllum nemendum.

Teymiskennsla verður ekki til af sjálfu sér, hana þarf að hugsa vel í upphafi, leggja þarf línur í samstarfi stjórnenda og kennara. Með teymiskennslu eru kennarar oft og tíðum að feta nýja slóð. Þeir ætla að breyta kennsluháttum, nota samvinnu til að þjónusta nemendahópinn sem best og nýta styrkleika sína og samvinnuna til að ná betri árangri heldur en sem kennari sem starfar einn og er alvaldur í sinni skólastofu. Í teymiskennslu eru kennarar nefnilega samábyrgir fyrir nemendunum, velgengni þeirra og velferð. Til að skapa góða teymiskennslu þarf að hafa góðan grunn og sá grunnur er byggður á fjórum meginstoðum ; Samvinnu, skipulagi, stuðningi og samræðu. Þessar meginstoðir fléttast saman og engin ein getur ekki án hinna verið.

Fyrsta stoðin er samvinnan. Með henni er átt við að kennarar sem starfa saman í teymi séu með sömu eða mjög svipaða hugmyndafræði varðandi skólastarf. Því er afar mikilvægt að huga vel að því hvernig fólki er raðað saman í teymi. Í teymi þarf að vera fólk með sameiginlega sýn og sameiginleg markmið varðandi kennsluna og nám nemenda. Kennarateymið þarf að vita fyrir hvað hver og einn í teyminu stendur, í hverju er hann góður, hvar slakur, og síðan þarf hver og einn að treysta sér til að vinna með hinum, með kostum þeirra og göllum. Traust er lykilorð í þessu samhengi. Þeir sem starfa saman í teymi þurfa að treysta hver öðrum og treysta sjálfum sér til að vinna í teymi. Ef kennari treystir sér ekki til þess að leggja sjálfan sig undir í samstarfinu á hann ekki að gefa kost á sér í teymiskennslu. Teymiskennsla er samvinna og hugsunin er að saman gerum við betur og öðruvísi en við gerum ein. Því þurfa kennarar sem fara í teymiskennslu að breyta vinnulagi sínu, þeir kenna ekki lengur eins og þegar þeir voru alvaldar í skólastofunni. Kennararnir þurfa að taka ákvarðanir saman, skipta með sér verkum og deila ábyrgð á kennslu, undirbúningi, framkvæmd, og nemendum, bæði námi þeirra og líðan. Traust verður ekki til í tómarúmi en til eru ótal leiðir til að nýta samræðuna til að byggja upp traust og það þarf að gera í upphafi teymisvinnu. Skapa þarf leiðir til að kennarar deili hugmyndafræði sinni, sínum sterku hliðum og veiku- bæði hvað varðar kennslufræði og persónuleika. Hver kennari þarf að vita hvar teymisfélagar hans standa og að þeir viti hvar hann stendur. Þá fyrst er hægt að huga að næsta þætti sem er skipulag.

Dæmi um samvinnu:

Salvör, Steinunn og Eyjólfur mæta til starfa í Axlarskóla. Þau hafa verið upplýst um að þau eigi að vinna saman sem kennarateymi næsta skólaár og eiga kenna 6. bekk öll bókleg fög. Þegar þau mæta í vinnuna á starfsdögum í ágúst fá þau að vita að þar sem taka á upp teymiskennslu á öllu miðstigi skólans verði Arnaldur deildarstjóri miðstigs ráðgjafi þeirra og fyrsta starfsdaginn eigi þau að vera á fundi með öllum sem eru að fara í teymiskennslu. Þegar þau koma á fundinn er stafli af tímaritum á kennaraborðinu, skæri og lím. Arnaldur biður alla kennara að taka nokkur blöð, blaða í gegnum þau og klippa út myndir eða orð sem hverjum finnst lýsa hugmyndum sínum um gott skólastarf. Síðan á hver kennari að gera klippimynd eftir sínu höfði. Þegar þessu er lokið setjast þau saman hvert í sínu teymi og nú þarf hver að útskýra sína mynd eða hugmynd um gott skólastarf fyrir hinum í teyminu. Svona verkefni er gott til að fá fólk til að skerpa á hugmyndum sínum og deila þeim með samstarfsfólki. Verkefni sem þetta getur stuðlað að trausti innan teymisins. Síðan fá kennararnir verkefni þar sem þeir skrifa niður og segja hinum í hverju þeir eru góðir kennslufræðilega ásamt því að greina frá helstu persónuleikaeinkennum sínum. Í lok dagsins gerir teymið saman klippimynd sem heitir skólastarfið í 6. bekk í vetur. Yfir skólaárið eru fundir með deildarstjóra og kennarateymunum mánaðarlega og þar eru ætíð unnin einhver verkefni sem eiga að efla samvinnu þeirra. Arnaldur hittir líka hvert teymi fyrir sig á fundi mánaðarlega en þar er meira rætt um samvinnu innan teymisins og hvernig þau skipuleggja starfið. Teymin geta líka óskað eftir fundi með deildarstjóranum til að ræða mál sem koma upp. Kennarateymið safnar verkefnum saman í möppu og Arnaldur heldur alltaf fundargerðir sem hann sendir á teymin. Fundargerðirnar eru ekki mjög ítarlegar en skráð er hvert var efni fundarins og eins er skrifað niður ef það hafa verið teknar ákvaðanir um mál sem viðkoma teyminu.

Skipulag er önnur meginstoð teymiskennslu. Hvernig ætlar teymið að skipta með sér verkum? Hvernig er stundataflan sett niður? Hvar nýtast hæfileikar hvers kennara best? Þegar teymið hefur tekið ákvaðanir varðandi þetta þarf hver og einn að taka þá ákvörðun að treysta því að skipulagið haldi og að hinir í teyminu geri það sem búið er að ákveða. Þá reynir oft á kennarana, þeir eru vanir að vinna einir og að hafa kennsluna eftir sínu höfði. Nú þurfa þeir að draga djúpt andann og ákveða með sjálfum sér að þó hinir kennararnir í teyminu skipuleggi og kenni á annan hátt en þeir sjálfir hefðu gert ætla þeir ekki að skipta sér af því. Þeir ætla að treysta verkaskiptingunni sem ákveðin hefur verið og muna að það eru margar leiðir að markinu og það sem skiptir máli er að nemendur komist í mark. Ef kennari eyðir orkunni í að hafa áhyggjur af því hvernig aðrir í teyminu kenna kemur hann sjálfur litlu í verk og teymisvinnan er í hættu. Þetta er svona svipað og þegar sambýlisfólk skiptir með sér verkum en síðan er annar aðilinn alltaf að spá í að hann hefði nú gert helgarhreingerninguna á annan hátt. Hann hefði nú gengið frá öllum hlutum á sinn stað fyrst, síðan þurrkað af, sópað, ryksugað og endað á að skúra. Hinn gerir kannski allt í einu setur hluti á sinn stað í hverju rými, sópar jafnóðum, þurrkar svo af og skúrar og fer síðan í næsta rými. Það sem skiptir máli er að heimilið verður hreint að lokum. Önnur aðferðin er ekki betri en hin, en ef að annar fer að nöldra og naggast yfir vinnubrögðum hins, þá fer trúlega að hylla undir endalok sambúðarinnar. Þannig er teymiskennslan, treysta þarf hvert öðru fyrir verkunum þegar búið er að skipuleggja og hver og einn þarf að hugsa um sín verk, ekki hinna. Skipulag snýr auðvitað að mörgum öðrum atriðum en verkaskiptingu kennaranna. Hér þurfa stjórnendur að hafa í huga að í hverju teymi sé fjölbreyttur hópur kennara, hvað varðar kennslugreinar, kennsluhætti og persónuleika til að skapa breidd í þekkingu og hæfni meðlima. Í skipulaginu felst einnig að setja saman stundatöflu sem gerir ráð fyrir mismunandi hópaskiptingu nemenda, fundatíma fyrir teymið til að ræða og skipuleggja skólastarfið, samvinnuna og kennsluna og það þurfa að vera góðar fundaraðstæður fyrir teymið.  Gera þarf ráð fyrir rými með stólum og borði fyrir teymið þar sem það getur fundað og unnið saman án þess að þurfa að færa til stóla og borð í kennslustofu og sitja á húsgögnum sem eru ætluð fyrir börn. Í skipulaginu felst að auki að teymið hafi rými í stundatöflunni fyrir samstarf og gott aðgengi að stuðningsfólki teymisins.

Dæmi um skipulag:

Á fyrsta fundi áttar kennarateymi 6. bekkjar sig á því að þau eru missterk í námsgreinunum. Því ákveða þau að Eyjólfur sjái um að skipuleggja íslenskukennsluna, Salvör enskuna og Steinunn stærðfræðina. Þau eru ekki búin að ákveða hvort hver kenni alfarið sína grein eða hvort þau leggi skipulagið í hendur hinna, eru að hugsa um að gera jafnvel hvorutveggja og sjá hvort reynist betur. Þau eru sammála um að kenna lífsleikni, náttúrufræði og samfélagsfræði í þemum og undirbúa það saman að mestu leyti. Þau eru líka að velta fyrir sér að ganga lengra a.m.k. einu sinni og vera með þema sem tekur til allra greina, kannski fyrir jólin. Teymið er með 62 nemendur í umsjón og fá þrjár samliggjandi kennslustofur á hæð með kennarateymi 5.bekkjar. Á milli tveggja stofanna er lítið rými sem þau ætla að nota fyrir sína fundi og eins að nýta sem afdrep fyrir nemendur sem vilja stundum vinna afsíðis. Gangurinn er breiður og góður og Steinunn hefur á orði að það væri fínt að fara í samvinnu við 5. bekkarteymið og setja upp lestrarstöð á ganginn, kósýhorn og mögulega hreyfisvæði. Á ganginum er líka kennslustofa Sigurlínu sérkennara sem sinnir sérkennslu hjá 5. og 6. bekk. Teymið er hæstánægt með stundatöfluna, nemendahópurinn fer allur á sama tíma í list- og verkgreinar og því er kennarateymið með lausa tíma í stundatöflunni og þau ákveða að nota einn tímann í að funda um ákveðna nemendur, annan til að gera vikupóst og áætlun næstu viku og þriðja í að ræða mál sem mögulega koma upp hjá teyminu. Eyjólfur stingur upp á því að ræða við Sigurlínu sérkennara og fá hana á fasta fundi með þeim vegna ákveðinna nemenda sem vitað er að hún verður mikið að vinna með. Nemendur fara í þrískiptum hópum í íþróttir og sund en allir umsjónarkennararnir eru með hópinn sem fer ekki og þá tíma ætlar teymið að nýta í stærðfræði og geta þá aðstoðað nemendur einstaklingslega. Þar sem teymið á að vera með sameiginlega umsjón ákveða þau að skipta hópnum upp fimm sinnum á skólaárinu og hafa hópaskiptingar fjölbreyttar, t.d. að skipta hópnum upp eftir námsþörfum, kyni eða afmælismánuði. Salvör bendir á að það þurfi alls ekkert alltaf að hafa jafnmarga í hópunum, þau gætu einhvern tímann haft einn lítinn hóp sem þarf mikla hreyfingu í námi og unnið með hann út um allan skóla og á leiksvæði, þá væru hinir hóparnir stærri og kannski í áhugasviðsverkefnum. Þau ákveða líka að þegar eru viðtalsdagar þá ætla þau að leyfa foreldrum að velja við hvaða kennara þeir tala. Foreldrarnir skrá sig í viðtöl á Mentor hjá þeim kennara sem þeim hentar.

Stuðningur er þriðja stoðin í grunni teymiskennslu. Mjög áríðandi er að geta veitt stuðning meðan teymin eru að fóta sig í teymiskennslunni. Best er ef verkefnisstjóri teymiskennslu er starfandi við skólann, deildarstjóri eða annar stjórnandi eða kennari sem hefur sérþekkingu og reynslu af teymiskennslu. Teymin þurfa að finna að stjórendum sé annt um þau og kennslu þeirra. Verkefnisstjóri ætti að vinna að teymisuppbyggingu, efla traust í teymunum, aðstoða við að takast á við vandamál sem upp koma og styðja við þá breytingu á kennsluháttum sem teymiskennslunni er ætlað að stuðla að.

Allt það starfsfólk skóla sem kemur að nemendum er stuðningur við umsjónarkennara. Það þarf t.d. að skoða aðkomu sérkennara, hvort þeir gera einstaklingsnámskrár fyrir ákveðna nemendur og fylgja henni eftir eða hvort þeir eru til ráðgjafar við teymið um gerð einstaklingsnámskrár. Einnig þarf að ákveða fyrirkomulag á aðkomu kennara sem kenna íslensku sem annað mál, hlutverk stuðningsfulltrúa og skólaliða sem sjá um gæslu á göngunum. Það þarf alltaf að ræða og gera ráð fyrir í skipulagi að þeir aðilar sem veita teyminu stuðning fái fundartíma með teyminu til að ræða m.a. hlutverk þeirra og fyrirkomulag á samstarfi. Ákveða þarf hvenær sérkennari tekur nemendur út og þá hverja, hvenær hann eða hún kemur inn í nemendahópinn og kennir með umsjónarkennurum og svo framvegis. Góður stuðningsfulltrúi er gulli betri en það þarf að skilgreina hlutverk hans innan teymisins. Hann á að vera samverkamaður teymis og því er mjög mikilvægt að hafa tíma til samvinnu um skipulag.

Endurmenntun, námskeið og ráðstefnur er allt stuðningur við kennarateymi, sérstaklega þegar teymið fer saman á námskeið eða ráðstefnu þannig að upplifun verður sameiginleg. Það leiðir til frekari þróunar lærdómssamfélagsins innan skólans og kennarar vinna með nýfengna þekkingu og reynslu í samræðum innan teymisins.

Dæmi um stuðning:

6. bekkjarteymið er nokkuð ánægt með Arnald verkefnisstjóra.  Hann er þeim til halds og trausts á fundum og kemur með verkefni sem kennurunum þykja efla sig í starfi. Reyndar finnst Salvöru stundum aðeins of margir fundir fara í blaður um ekki neitt en eftir að Arnaldur kom með verkefni þar sem hver kennari átti að skrifa hvað hann vildi bæta í samstarfinu, hafa fundir gengið betur, því hún skrifaði þetta sem það sem hún vildi bæta. Blöðin voru nefnilega látin ganga á milli teymismeðlima og allir áttu að skrifa hugmynd að lausn. Síðan þurfti hver og einn að segja frá og teymið ræddi um lausnirnar. Í lausnaleitinni var rætt um að hafa fundina skýrari og gera dagskrá fyrir þá. Þetta nýtir teymið sér reyndar einnig  í kennslunni og hafa tekið upp á því að skrifa alltaf upp á töflu í upphafi kennslustunda hvað á að gera og að hvaða hæfniviðmiðum nemendur eiga að vinna. Teymisfundirnir virka vel þegar þau halda sig við dagskrána og Eyjólfur er að skólast til í því að fara ekki alltaf að tala um hvernig var þegar hann kenndi á Óseyri. Þau eru ekki alltaf sammála en skrifa nú niður allar ákvarðanir sem þau taka svo það sé á hreinu hvað var ákveðið og hver á að gera hvað. Á fundum með Sigurlínu sérkennara var ákveðið að hún gerði einstaklingsnámskrár fyrir nemendur, en í miklu samstarfi við umsjónarkennarana. Síðan fer hún alltaf yfir hvernig gengur með hvern og einn og sumir nemendur eru alveg með skipulag frá henni í náminu. Hún hefur hjálpað kennurunum við að skipuleggja lestrarátak sem heppnaðist gríðarlega vel og Steinþór sem kennir nemendum með annað móðurmál en íslensku er farinn að koma mikið inn í kennslustundir og vinna með pólsku stelpunum og kemur með góð ráð og leiðbeiningar fyrir Jóhann stuðningsfulltrúa. Jóhann tók sig til þegar sýrlenskur drengur kom inn í árganginn alveg mállaus á íslensku og skrifaði upp alla hluti í skólastofunni og merkti þá á íslensku, pólsku og sýrlensku. Steinunn stakk upp á því að teymið færi saman á námskeið sem hún sá auglýst um útikennslu og í framhaldinu skipulögðu þau þemaviku í anda þess sem gekk svo ljómandi vel.

Samræðan er fjórða undirstaða teymiskennslu. Hún er í raun rauður þráður í öllum hinum undirstöðunum og límið sem heldur teymiskennslunni saman. Í teymiskennslu þarf alltaf að vera samræða, en það gildir ekki að meirihlutinn ráði. Það þarf að skapa aðstæður til að allir í teyminu komi skoðunum sínum á framfæri og geti viðrað hugmyndir sínar í trausti þess að á þær sé hlustað. Kennarateymi þurfa að ræða saman og taka sameiginlega ákvörðun og standa síðan með henni. Það gengur ekki að halda fund og ákveða eitthvað sameiginlega en fara svo á kaffistofuna og tala ákvörðunina niður. Teymismeðlimir verða líka að geta rætt um erfiða hluti, æfa sig í að taka því vel þó hinir séu ósammála og ef traust hefur verið byggt upp í teyminu þá ættu samræður að verða hreinskilnar og ærlegar. Tími þarf einnig að gefast fyrir óformlega spjallfundi, þar sem hugmyndir flæða og eflast. Þannig verður oft til frábært kennsluskipulag og skapandi skólastarf. Kennarateymi þurfa jafnframt að fá tækifæri til að ræða við önnur kennarateymi, segja frá því sem vel gengur og því sem miður hefur farið, læra af reynslu hvers annars og efla þannig faglegt starf og opna samræðu. Það þarf líka að kynna starfið í skólasamfélaginu öllu, kynna teymiskennslu fyrir foreldrum og forráðamönnum og stjórnendur ættu að nota hvert tækifæri til að tala fyrir teymiskennslunni og halda merkjum hennar á lofti. Það getur verið gott að hafa matsfundi í skólanum með foreldrum þar sem nýttar eru leiðir samræðufunda þannig að allir fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Með virka samræðu sem fastan og sjálfsagðan lið í skólastarfi breytist hugarfar þeirra sem að koma og skólinn verður virkt og öflug lærdómssamfélag.

Dæmi um samræðu:

Í upphafi skólaársins hélt Valgerður skólastjóri fund með foreldrum allra miðstigsbekkjanna þar sem hún kynnti teymiskennsluna. Það var reyndar búið að birta frétt um hana á heimasíðu skólans um vorið og senda póst. Valgerði fórst kynningin vel úr hendi, notaði glærur frá virtum prófessor við Menntavísindasvið þar sem kostir teymiskennslu voru dregnir fram en líka gallar og farið yfir rannsóknir um teymiskennslu. Foreldrahópurinn fékk færi á að spyrja og kennurunum fannst Valgerður svara af hreinskilni. Hún lofaði jafnframt að í lok skólaárs yrði fundur með þjóðfundafyrirkomulagi þar sem mat yrði lagt á starfið og línur lagðar með framhaldið. 6. bekkjar kennarateymið nýtir samræðu til að komast að niðurstöðu. Í upphafi vildi Eyjólfur að það yrði gengið til atkvæða þegar þau væru ekki sammála um hvaða leiðir ætti að fara en hann sættist á að það væri heillavænlegra að ræða saman þar til sameiginleg ákvörðun lægi fyrir. Það hefur gengið ótrúlega vel þó ekki séu allir sáttir alltaf. Þegar þau byrjuðu að skipuleggja útiskólaþemað fékk Salvör hin með sér út til að kanna svæðið í kringum skólann og þá ræddu þau mikið saman og fengu fullt af nýjum hugmyndum sem þau tóku inn í þemað. Nú reyna þau að fara saman í göngutúr þegar þau eru að vinna með nýjar hugmyndir, kalla það fund á fæti og hafa leyfi stjórnenda til þess. 6. bekkjarteyminu fannst ótrúlega gaman þegar þau kynntu starfið sitt fyrir hinum teymunum á miðstigi. Þeim fannst svo gott að fara yfir hvað hefði gengið vel og eins að segja frá því þegar allt fór í rugl hjá þeim í skipulaginu og skemmtilegum misskilningi. Hin teymin hafa líka sagt frá sínu starfi og hugmyndir hafa flætt á milli teyma. Umsjónarkennarahópurinn á miðstigi hefur ákveðið að fá leyfi til að fara í heimsókn í teymisskólann á Óseyri næsta starfsdag og að stofna síðan leshring innan skólans um teymiskennslu sem hluta af endurmenntun.

Með teymiskennslu opnast möguleikar fyrir kennara til faglegrar umræðu, til að deila ábyrgð á nemendum og kennslu, sveigjanlegri vinnubragða og aukinna tækifæra til að laga kennsluna að þörfum nemenda. Kennarar fá frekari möguleika til þróunar í starfi og skólinn verður lærdómssamfélag þar sem áhersla á nám nemenda og árangur þeirra er í brennidepli. Til verður sterk og öflug skólamenning með samvinnu, skipulag, stuðning og samræðu sem grunnstoðir.

Myndin er tekin af heimasíðu Tampa Bay Times

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir er kennsluráðgjafi hjá grunnskóladeild menntasviðs Kópavogs. Þórhildur Helga lauk kennaraprófi við KHÍ 1993 og meistaranámi við HÍ 2013. Hún hefur starfað sem faggreinakennari, umsjónarkennari og skólastjóri auk ráðgjafar við innleiðingu teymiskennslu í nokkrum grunnskólum.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 10.2. 2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp