Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Hvernig smáfræ verður að meginstoð í sköpun lærdómssamfélags: Um áhugasviðsverkefni í Grunnskólanum á Suðureyri

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jóna Benediktsdóttir

 

Grunnskólinn á Suðureyri er pínulítill skóli, svo lítill að þar þurfa kennarar að kenna fleiri greinar en sínar óskagreinar og eru yfirleitt ekki í samstarfi við neinn um sína kennslu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og meira en helmingur þeirra á annan eða báða foreldra af erlendum uppruna og greiningar vegna frávika eru ekki sjaldgæfari hjá okkur en öðrum. Þessar aðstæður hafa litað skólastarfið gegnum árin og eins og við vitum öll sem störfum í grunnskólum er auðvelt að festast í ákveðnu fari sem skapast bæði af ytri og innri aðstæðum í skólasamfélagi.

Skólaumhverfið er bæði hvetjandi og takmarkandi í senn

Í skólanum á Suðureyri hefur verið mikill stöðugleiki í starfsmannahaldi sem er auðvitað gott, en hefur þá hliðarverkun að hætt er við að fólk festist í vinnubrögðum sem það hefur góða reynslu af. Kennarar þurfa því að vera sérstaklega meðvitaðir um hvað er að gerast í stærra samhengi í skólamálum, einkum þeir sem eru landfræðilega einangraðir. Námshópar í skólanum eru tiltölulega fámennir, sem er kostur að sumu leyti, en takmarkar möguleika á að bjóða upp á valgreinar. Kennarar skólans þekkja nemendahópinn mjög vel, sem er gott, en hefur þá hliðarverkun, í það minnsta í okkar skóla, að fólk tekur meira tillit til einstaklingsbundinna þátta og nemendur með frávik njóta meiri tillitssemi en þeir myndu gera í stærri skóla. Góðar hliðar þess eru að nemendum líður mjög vel í skólanum en hins vegar er hætt við að kröfur til þeirra verði minni þar sem ,,allir vita” að þeir kunna, eða geta, ekki eitt og annað. Til dæmis hefur árangur nemenda við skólann í íslensku í 7. og 9. bekk, um nokkurt skeið, verið undir landsmeðaltali en ekki í stærðfræði sem bendir til þess að í íslenskunni séu vannýttir námsmöguleikar sem til þessa hafa verið skrifaðir á tungumálaumhverfi nemenda. Eitt af því sem við áttuðum okkur á við nánari skoðun var að fullorðna fólkið í skólanum lagði sig fram um að tala mál sem flestir nemendur skildu, eðlilega. Það, eins og annað, hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru að þá aukast líkur á að nemendur skilji til hvers er ætlast, en gallarnir eru að þá þróast orðaforði ekki eins og vera ber. Út frá öllu þessu fór starfsmannahópurinn að ræða saman um mögulegar leiðir til að stuðla að framþróun varðandi nám og kennslu í skólanum og hverjar þeirra væru líklegar til að geta sameinað þarfir skólasamfélagsins okkar til umbóta.

Samræður starfsmanna leiddu fljótt í átt að teymiskennslu og hvernig hægt væri að gefa henni rými þrátt fyrir fámenna námshópa. Sú umræða leiddi okkur svo aftur yfir í hugleiðingar um hvort ef til vill mætti um leið vinna að fjölbreyttara námsframboði fyrir nemendur sem jafnframt myndi efla þá í tjáningu á íslensku. Úr varð að leita leiðsagnar hjá Ingvari Sigurgeirssyni til að sameina þessa þætti í eitt verkefni sem myndi styðja kennara í öflugri samvinnu, búa til umhverfi fyrir teymiskennslu, styðja við framsögn og tjáningu og auka á fjölbreytni í starfi nemenda.

Verkefnið

Við fórum af stað haustið 2019 og kölluðum verkefnið okkar ,,föstudagsverkefni” en því voru ætlaðir fjórir samfelldir tímar í stundatöflu á föstudögum. Þátttakendur eru nemendur á mið- og unglingastigi. Til þess að búa til stundatöflurými fyrir verkefnið notum við við einn samfélagsfræðitíma, einn íslenskutíma, einn enskutíma og einn valtíma skóla í þessa vinnu. Verkefni nemenda eiga því alltaf að taka mið af þessum greinum.

Verkefnið hefur skilgreind markmið bæði fyrir kennara og nemendur. Markmið fyrir kennara eru að auka fagvitund, færni í samþættingu námsgreina og skipulagi fjölbreyttra kennsluhátta. Markmið fyrir nemendur eru að efla sjálfstæði og ábyrgð í námi, að auka vægi tjáningar og að nemendur upplifi frekar gleði í skólastarfinu í gegnum samvinnu. Einnig var lagt upp með að gera nemendum kleift að sökkva sér í viðfangsefni sem þeir hafa áhuga á, meðal annars með því að þeir skipulegðu verkefni sín að mestu sjálfir.

Til að efla fagvitund og færni kennara í samþættingu námsgreina höfum við bæði fengið námskeið um fjölbreytta kennsluhætti, leiðsögn um teymiskennslu og samþættingu námsgreina frá Ingvari Sigurgeirssyni. Við höfum einnig fengið fjölbreytta fræðslu frá Miðju máls og læsis um tjáningu og eflingu orðaforða. Þá höfum við lesið greinar sem birtast í Skólaþráðum og á Skólaumbótaspjallinu um hvernig unnið er í öðrum skólum og tekið mið af því við okkar vinnu. Einnig hafa kennarar verkefnisins skipulagðan samvinnutíma en það er nýjung í vinnuskipulagi þessa vinnustaðar.Til þessa hafði aðeins verið einn kennari í hverri kennslugrein eða með hvern námshóp þannig að sú þörf sem skapast fyrir samvinnu í stærri skólum hafði ekki skapast hjá okkur. Kennsluhættir eiga svo að þjóna markmiðunum sem sett eru fyrir nemendur.

Verkefnið er sett þannig upp að í fjórar kennslustundir á viku vinna nemendur að skilgreindum áhugasviðsverkefnum. Hvert verkefni tekur þrjár til fimm vikur, eftir því hvernig stendur á í dagatali. Nemendur gera samning við kennara um hvert viðfangsefni. Lykilhæfniviðmið fyrir nemendur sem gilda fyrir öll viðfangsefni eru skilgreind og hanga á veggjum í kennslustofunum. Á grundvelli þeirra er hvert verkefni metið. Í vetur leggjum við mesta áherslu á að nemendur tileinki sér sjálfstæði í vinnubrögðum og almenna vinnusemi þar sem við teljum það vera eiginleika sem gagnast þeim við öll viðfangsefni og því hafa þessir þættir nokkuð mikið vægi í mati á hverju verkefni. Í  verkefnunum eiga svo alltaf að koma fram þættir sem tengjast þeim námsgreinum sem eru skertar í stundatöflu vegna þessarar samþættingar og eru þeir skilgreindir sérstaklega hverju sinni. Nemendur fá tillögur og spurningar um viðfangsefni sín frá kennurum á meðan þeir eru að vinna auk þess sem mat á verkefnum er útskýrt með vísan í lykilhæfnina og þær samræður sem nemendur og kennarar hafa átt meðan á ferlinu stendur.

Þar sem við þorðum ekki alveg að sleppa nemendum lausum við val á viðfangsefnum í byrjun ákváðum við að í annað hvert skipti veldu kennarar tiltekið þema sem verkefni nemenda ættu að falla undir og á móti væru svo verkefni sem væru algjörlega að þeirra vali. Þetta hefur reynst mjög vel og gert okkur kleift að koma að viðfangsefnum sem opna augu nemenda fyrir þáttum sem þeir hafa ekki hugsað um áður og líka námsþáttum sem tengjast beint efni námsgreina eins og náttúrufræði og Íslendingasögum. Þá hafa kennarar einnig sett verkefnum nemenda ýmis skilyrði eins og að í kynningum verði að beita einhverju sem nemendur hafa ekki gert áður eða sýna fram á nýja þekkingu bæði á viðfangsefninu og á sviði tækni eða framkomu.

Hvað höfum við lært á þessu verkefni og hvernig tengist það skólaþróun?

Fagmennska kennara er lykilþáttur í gæðastarfi í skólum og þess vegna ber okkur að skapa umhverfi þar sem kennarar frá tækifæri til að rækta fagmennsku sína. Það gefur augaleið að það er erfitt að vera einn í að meta eigið starf og tækifæri til að efla fagmennsku margfaldast með því að geta verið í samvinnu við aðra sérfræðinga á sviðinu. Það er því nauðsynlegt að skapa kennurum tækifæri til að ræða það sem gert er, hvernig það er gert og hvaða afleiðingar það hefur. Það hefur tekist í þessu verkefni því kennarar vinna saman í kennslustofunum með fjölbreyttan nemendahóp sem vinnur að ólíkum verkefnum. Þeir velta fyrir sér sameiginlega hvaða spurninga er skynsamlegt að spyrja nemendur og til hvers konar vinnu eða nýrrar þekkingar þær gætu leitt. Á samstarfsfundunum er einnig fjallað um hvernig verkefni vekja áhuga nemenda og hvetja þá áfram til að leita nýrrar þekkingar. Þá er einnig rætt hvernig viðbrögð kennara geta leitt til bættrar vinnusemi nemenda og hvernig viðbrögð gagnast minna og þannig fá kennarar endurgjöf samstarfsmanna á vinnu sína og hugleiðingar.

Í upphafi voru starfsmenn aðeins óöruggir í þessari vinnu en eftir því sem verkefnum nemenda fjölgaði lærðum við betur á verklagið. Eitt af því sem við rákum okkur á var nauðsyn þess að skilgreina almenn viðmið fyrir nemendur sem gætu átt við um hvaða viðfangsefni sem var, til að leggja mat á verkefni þeirra og vinnuframlag. Í ljósi þeirrar áherslu sem hafði verið ákveðið að leggja á vinnusemi, frumkvæði og sjálfstæði í skólastarfinu voru sett viðmið fyrir þá þætti og einnig fyrir efnistök og skil á verkefnunum. Dæmi um viðmið fyrir vinnusemi er að ef nemendur koma sér beint að verki, nota ipad bara í verkefnunum, halda sig að verki allan tímann og vinna með leiðbeiningar kennara fá þeir vinnueinkunnina B+, ef þeir hins vegar komast ekki að verki þrátt fyrir leiðbeiningar, nota ipad til leikja og skipta sér ítrekað af því sem aðrir eru að gera fá þeir vinnueinkunnina D. Við höfum nú þegar séð talsverðar framfarir hjá nemendum í almennri vinnusemi sem við teljum að rekja megi að miklu leyti til þess að þeir skilja á hverju mat á vinnu þeirra er byggt og fá leiðbeiningar um hvernig þeir geta gert betur og sjáum nú fram á að á næsta ári munum við geta breytt viðmiðum og lagt meiri áherslu á efnistök. Vinnan við að skilgreina viðmiðin hefur svo stutt við umræðu um markmiðsbundna kennslu meðal starfsmanna og þannig haft margfeldisáhrif til góðs í skólasamfélaginu.

Nemendum hefur farið mikið fram í vinnulagi og í mörgum verkefnanna hafa þeir komið okkur skemmtilega á óvart með nýjum þekkingarmolum. Val þeirra á viðfangsefnum er fjölbreytt, það hefur verið unnið með geimvísindi, eldfjöll, Disneypersónur, náttúrulíf í heimabyggð, kökuuppskriftir, drauga og margt fleira. Eins og áður kom fram er kunnátta og beiting íslensku veikur þáttur í umhverfi nemenda og því er afar ánægjulegt að sjá nemendur pæla í notkunarmöguleikum orðasambanda íslensku að eigin frumkvæði eins og sá má af þessari mynd frá kynningu nemenda sem þá voru í 5. bekk.


Við teljum einnig að þar sem vinnan við áhugasviðsverkefnin hefur gefið okkur tækifæri til að vinna meira með framsögn og framkomu hafi hún áhrif á allt annað sem nemendur fást við. Það að nemendur finni sjálfir lærdómsefni í þeim verkefnum sem þeir hafa valið sér að fást við ýtir undir sjálfsprottna forvitni og áhuga á námi og er þannig hvetjandi fyrir persónulegan þroska og almennar framfarir.

Nemendur eru líka lausnamiðaðir í verkefnum sínum og sýna stundum skemmtilega útsjónarsemi við að finna út hvaða hlutir koma að gagni í kvikmyndagerð og annarri vinnu á kynningarefni eins og þessir piltar hér sem voru að vinna með hestamennsku, en hestar voru hvergi á næstu grösum.

Flestum nemendum finnst þetta líka skemmtilegt og nefna þar þætti eins og að verkefnin séu fræðandi, áhugaverð og skemmtileg og kenni mjög mikið. Yngri nemendur eru almennt jákvæðari en þeir eldri, þeir hafa líka minni áhyggjur af námsmati og vinna meira fyrir gleðina. Í hugum unglinganna koma stundum upp efasemdir um hvort það sé raunverulega í lagi að vera að vinna bara að því sem mann langar en ekki í námsbókunum. Í mati nemenda á skólastarfinu í vetur, sem unnið er með aðferðum Gæðagreina, telja þeir sig oft eiga í samræðum við starfsmenn um tilgang náms og oft fá góðar leiðbeiningar frá starfsfólki vegna náms síns. Eðlilega eru ekki allir alltaf glaðir en niðurstöður úr Skólapúlsi sýna okkur með óyggjandi hætti að nemendum líður vel í skólanum og þegar spurt er um hvað sé jákvætt við skólann nefna margir nemendur þetta verkefni.

Við höfum ekki fullkomna stjórn á því um hvað nemendur læra í skólanum okkar en það má þó ekki taka fyrir hvað sem er og það hefur komið fyrir að við höfnum verkefni. Dæmi um slík verkefni er þegar nemendur vilja skoða einhliða einhver fyrirbæri eða atburði í sögunni þar sem öfgahópar reyna að telja viðhlæjendum trú um að eitthvað hafi verið með öðrum hætti en viðurkennd sagnfræði segir til um. Við setjum líka ákveðin skilyrði í sumum verkefnum, það er að ef þú ætlar að fjalla um x, verðir þú að taka líka fyrir y, til að spegla ólík viðhorf. Þetta á fyrst og fremst við um hugmyndir sem koma frá unglingum sem hafa stundum verið að lesa óáreiðanlega fjölmiðla og mynda sér skoðanir á þeim grunni. Með þessu teljum við okkur vera að ýta undir gagnrýna samfélagslega hugsun hjá nemendum og hvetja þá til að skoða mál og atburði frá ólíkum sjónarhornum.

Þegar nemendur voru spurðir um skoðun sína á áhugasviðsverkefninu og höfðu fjóra valmöguleika á svari völdu 72% þeirra möguleikana ,,mjög skemmtilegt” eða ,,skemmtilegt” og 28% völdu ,,hvorki skemmtilegt né leiðinlegt” en enginn valdi möguleikann ,,leiðinlegt” sem einnig var í boði.

Lokaorð

Þó að skólastarfið eigi ekki að snúast um tómar skemmtanir vitum við að það er ekkert öðruvísi með nemendur en okkur sjálf, viðfangsefni sem okkur finnast áhugaverð fá meiri tíma og við leggjum okkur frekar fram um að vinna þau vel. Sjálfstraust nemenda hefur vaxið mikið við það að kynna verkefni sín fyrir skólasystkinum og starfsmönnum og framfarir í framsögn og tjáningu eru umtalsverðar. Í lokaskilum síðasta vors settum við saman stutt myndband með kynningum nemenda og það kemur oft fyrir að við sjáum að þeir eru að horfa á myndbandið og velta fyrir sér hvað hefði mátt betur fara á eigin kynningum þannig að þessi verkefni eru sannarlega hvetjandi fyrir námssamfélagið og leiða til þess að nemendur hugsa um eigin framfarir.

Við erum sannfærð um að það að efla innri áhugahvöt nemenda hafi margfeldisáhrif á námsgetu þeirra því þannig efla þeir eigin einbeitingu og vilji til æfinga og tilrauna eykst sem leiðir að sjálfsögðu til aukinnar færni. Þetta verkefni hefur sýnt okkur með afgerandi hætti hvernig lítið hugmyndafræ, sprottið úr samræðum um skólastarf, getur vaxið og dafnað ef það fær viðeigandi stuðning og þannig orðið vísir að lærdómssamfélagi sem hefur áhrif á framtíð unga fólksins sem við reynum að leiðbeina þannig að það læri að leiðbeina sér sjálft í gegnum líf sitt.

 


Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri. Jóna lauk B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1994, M.Ed gráðu á sérkennslusviði frá HÍ 2012 og Dipl.Ed á sviði stjórnunar menntastofnana frá HÍ 2017. Jóna hefur starfað sem umsjónarkennari, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 29/1/2021

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp