Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

„Hann er umhverfisvænn og sjálfbær“. Nemendur í skóla margbreytileikans

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Kristín Björnsdóttir, prófessor.

Grunnskólanemar í 3.–10. bekk ásamt Kristínu Björnsdóttur

Snemma árs 2020 hafði Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins samband við mig og bauð mér að halda inngangserindi á vorráðstefnu þeirra um menntun og margbreytileika. Viðbrögð mín voru sambland af gleði, eftirvæntingu og efasemdum. Margt fræða- og skólafólk hefur, í ræðu og riti, fjallað um fjölbreytta nemendahópa, skóla án aðgreiningar, skóla margbreytileikans, skóla fyrir alla, algilda hönnun náms og kennslu, einstaklingsmiðun í námi, inngildandi menntun og ýmsar þarfir nemenda. Í ljósi ofangreindrar skilgreiningasúpu fannst mér ég knúin til að finna nýjan flöt á viðfangsefninu. Nemendur eru þeir sérfræðingar í skólamálum sem gjarnan vilja gleymast og því fór ég í samstarf við grunnskólanemendur í nokkrum mismunandi skólum. Sameiginlegt markmið okkar var að komast að því hvað það væri sem gerði skóla góða en öll tilheyrðu þau skólum þar sem nemendahópurinn var margbreytilegur.

Mynd 1. Sjálfsmyndir. Grunnskólanemendur.

Þegar líða tók á vorið og skólastarf skertist vegna Covid-19 heimsfaraldursins, varð okkur ljóst að við gætum ekki hist og unnið verkefnið eins og við höfðum skipulagt með þjóðfundarfyrirkomulagi, einingakubbum og myndsköpun. Þess í stað notaði ég síðuna Padlet.com sem er vefræn korktafla. Nemendur voru beðnir um að svara spurningunni: „Hvað er góður skóli?“ Hver nemandi mátti svara eins oft og hann vildi og allir svöruðu í nafnleysi. Padlet opnaði möguleika á að ná til stærri hóps nemenda af öllu landinu. Einnig bað ég nemendur um að túlka ákveðnar aðstæður í skólastarfinu með myndsköpun. Þátttaka nemenda var með vitneskju og leyfi foreldra eða forráðamanna. Vorráðstefnan var haldin að hausti 2020 og var fyrirlesturinn byggður á svörum nemenda og myndefni. Í þessari grein lýsi ég niðurstöðum samstarfs míns við grunnskólanemendurna og er hún að miklu leyti sambærileg fyrirlestrinum.

Hvað einkennir góðan skóla?

Í stað þess að spyrja nemendur beint um skóla margbreytileikans ákvað ég spyrja þau hvaða atriði það væru sem gerðu skóla góða en mitt hlutverk var að setja svör nemenda í samhengi við rannsóknir á skóla margbreytileikans. Þegar ég var búin að flokka svör nemenda óttaðist ég að það gæti reynst erfitt að tengja sum svör þeirra fræðunum. Það voru óþarfa áhyggjur en áherslur fyrirlestursins voru vissulegar ólíkar þeim áherslum sem ég hefði sjálf valið hefði ég ekki verið í samstarfi við nemendurna. Ég greindi eftirfarandi þemu: kennari, heppni, vinir, matur, öryggi og klósett.

Heppin með kennara

Það kemur eflaust fáum á óvart að allir nemendurnir töldu kennara mikilvæga í góðum skólum. Einn nemandinn skrifaði: „Það er gott að hafa skemmtilegan kennara því þá er stemmingin í bekknum betri og enginn pirraður“. Þá töldu nemendurnir upp mikilvæga þætti í framkomu og vinnubrögðum kennara eins og til dæmis:

 • Kennarinn á að hlusta
 • Kennarinn á að kenna og hjálpa
 • Kennarinn á ekki að skamma of mikið
 • Kennarinn á ekki að öskra
Mynd 2. Kennari sem skammar of mikið.

Það er engu líkara en að nemendur hafi sjálfir lesið Litróf kennsluaðferðanna eftir Ingvar Sigurgeirsson (1999) en þar útskýrir hann hvernig fas og framkoma kennara getur haft áhrif á það hvernig þeir ná til nemenda. Einnig leggur hann áherslu á virka hlustun en þannig sýna kennarar áhuga og eru nemendum til fyrirmyndar. Í nýrri rannsókn sem ég er að vinna að ásamt Eiríksínu Eyju Ásgrímsdóttur kemur fram að margir þátttakenda fóru í kennaranám af því að þau höfðu sjálf verið „heppin“ með kennara í grunn- eða framhaldsskóla. Þau lýstu kennurum sem voru fyrirmyndir, náðu vel til nemenda sinna og hrifu þau með sér. Nokkrir nemendur töldu sig hafa verið heppna með kennara og stóð ég sjálfa mig að því að ímynda mér þau sem kennara framtíðarinnar.

Niðurstöður rannsókna um skólagöngu fatlaðra nemenda sýna að hugmyndin um „heppni“ er nokkuð útbreidd (Kristín Björnsdóttir, 2014; Snæfríður Þóra Egilson, 2003). Oft er það áhugi og viðmót einstakra kennara sem hefur hvað mest áhrif á það hversu vel tekst að koma til móts við þarfir nemenda og tryggja þeim tækifæri til menntunar til jafns við aðra. Nemendurnir sem tóku þátt í semja fyrirlesturinn fyrir Greiningarstöðina vildu læra eitthvað skemmtilegt eða eins og einn nemandinn skrifaði: „Það er skemmtilegt í stærðfræði og íþróttum og listgreinar eru skemmtilegar“. Nokkrir minntust á óhefðbundna skóladaga og einn þeirra sagði: „Langskemmtilegustu dagarnir eru þegar uppbrotsdagar eru; þemadagar, öskudagur, fjölgreindaleikar og þannig“. Annar sagði: „Ég vil meiri útikennslu, hún er fáránlega skemmtileg!“ Ekkert þeirra virtist vilja komast undan því að læra.

Svipaðar niðurstöður fékk ég í rannsókn með konum með þroskahömlun sem fjallaði um skólagöngu þeirra og barnæsku. Samkvæmt lýsingum þeirra er góður kennari sá sem ber virðingu fyrir nemendum sínum og gerir kröfur til þeirra (Kristín Björnsdóttir, 2014). Rannsóknir sýna að oft og tíðum er nemendum sem hafa verið skilgreindir með sérþarfir í námi gefinn námslegur afsláttur, væntingar til þeirra eru litlar og takmarkaðar kröfur gerðar til námsframvindu (Kristín Björnsdóttir, 2014; Ragnhildur Íris Einarsdóttir, 2019). Svo virðist vera sem aðlögun í námi sé í einhverjum tilvikum ranglega túlkuð og skilin sem minnkaðar kröfur eða afsláttur. Það getur ekki verið góð tilfinning fyrir nemendur ef þeir upplifa að kennarar hafi litlar væntingar til náms þeirra og framtíðar.

Ekki man ég til þess að heppni hafi nokkrun tímann verið kynnt sem kennslufræðilegt hugtak. Heppni vísar til þeirrar hugmyndar að eitthvað sé tilviljanakennt og að ekki sé hægt að stjórna henni eða hafa áhrif á hana. Engu að síður upplifir heppið fólk sig njóta gæða og gæfu umfram aðra. Að heppni sé ráðandi afl í skólagöngu fatlaðra nemenda er óásættanlegt en tryggja þarf að allir nemendur verði heppnir með kennara.

Góðir bekkjarfélagar

Amalía Björnsdóttir og Kristín Jónsdóttir (2014) skoðuðu viðhorf nemenda til skólastarfs og komust að því að rúmlega helmingur nemendanna (56%) sem tóku þátt í könnuninni töldu að skólinn ætti að leggja mjög mikla áherslu á góðan námsárangur en 63% þeirra töldu að skólinn ætti að leggja mjög mikla áherslu á að öllum nemendunum liði vel. Einn af nemendunum skrifaði á Padlet síðuna: „Okkur líður vel í skólanum af því að vinirnir eru góðir og kennararnir eru góðir. Það er ekki verið að stríða okkur“. Eftirfarandi eru nokkur dæmi um það sem nemendurnir skrifuðu:

 • Krakkarnir eru nice.
 • Góðir bekkjarfélagar gera skólann góðan. Þeir hjálpa og vinna saman. Þeir eru góðir við aðra og meiða ekki og stríða ekki og eru góðir við alla nema kannski hrekkjusvín.
 • Fyrir mér er skólinn góður þegar ég hef vini mína. Það er allt skemmtilegt í skólanum ef ég get verið með þeim.
 • Góður skóli er skóli þar sem allir eru góðir við aðra, hlusta á alla, grípa ekki fram í fyrir fólki og það er passað upp á alla.
 • Góður skóli er skemmtilegur skóli þar sem krakkar eru allir vinir.
Mynd 3. Frímínútur.

Í þessu samhengi nefndu nemendurnir einnig áhrif bekkjarstærðar á skólastarfið eða eins og einn nemandinn orðaði það: „Ekki of stór bekkur. Heldur ekki of fáir“. Nemendahópurinn þarf að vera mátulegur bæði í samhengi við nám og félagstengsl.

Það kom mér ekki á óvart að nemendur nefndu þátt bekkjarfélaga í að gera skóla góða en það vekur upp spurningar um það hvernig hægt sé að skapa þannig skólabrag að allir séu vinir í skóla margbreytileikans. Umfjöllun um félagstengsl í margbreytilegum nemendahópi fylgja oft og tíðum klisjur á borð við „líkur sækir líkan heim“, „fremstur meðal jafningja“ og „að vera með sínum líkum“. Slíkar hugmyndir hafa verið notaðar til að réttlæta skólaúrræði þar sem nemendur með sérþarfir í námi, fatlaðir nemendur, nemendur sem eru innflytjendur, nemendur sem eru hælisleitendur eða nemendur sem sýna krefjandi hegðun fá ekki tækifæri til náms án aðgreiningar í sínum hverfisskóla.

Mynd 4. Nemandi að læra.

Amalía Björnsdóttir og Kristín Jónsdóttir (2014) spurðu nemendur í 7.–10. bekk hvar börn með þroskahömlun og börn sem tala litla íslensku ættu að sækja skóla. Á meðan meirihluti nemenda taldi að börn sem tala litla íslensku ættu að vera í almennum bekk (59%) þá voru ekki nema 24% þeirra sem töldu að börn með þroskahömlun ættu heima í almennum bekk í skóla eins og þeirra. Það er vandmeðfarið að spyrja einn hóp um líf annarra og allt of sjaldgæft að fatlaðir nemendur séu spurðir um viðhorf sín til skólagöngu ófatlaðra nemenda. Og kalla ég hér með eftir því að slík rannsókn verði gerð.

Í rannsókn sem snéri að hugmyndum ófatlaðra ungmenna um fatlað fólk kom í ljós að fæst höfðu leitt hugann að því hvað fötlun væri og áttu þau erfitt með að skilgreina hvað fælist í hinum ýmsu fötlunarhugtökum. Þau áttu erfitt með að greina á milli fötlunarhugtaka og blótsyrða og töldu til dæmis hugtök á borð við þroskaheftur og vangefinn vera blótsyrði. Unglingarnir lýstu mikilli aðgreiningu í skólakerfinu og upplifuðu fötlun sem feimnismál sem ekki mátti tala um (Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir og Kristín Björnsdóttir, 2012; Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir, 2010). Unglingunum fannst almennt illa komið fram við fatlað fólk og töldu að fatlað fólk hefði takmörkuð tækifæri í lífinu. Einnig kom fram að þau höfðu efasemdir um að nemendur í sérdeildum væru raunverulega hluti af skólanum þar sem þau væru ekki með sömu kennara, ekki á sama stað og aðrir í skólanum og að þrátt fyrir að þau væru í skólanum þá væru þau ekki hluti af honum. Þetta væri „bara plat“ (Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir og Kristín Björnsdóttir, 2012, bls. 5).

Mikið hefur verið ritað og rætt um innleiðingu skólastefnu um skóla án aðgreiningar og samkvæmt niðurstöðum úttektar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar virðist vanta sameiginlegan skilning eða skilgreiningu á stefnunni og hvernig hún skuli útfærð (Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir, 2017). Kannski erum við komin á þann stað í umræðunni að farsælast væri að leggja til hliðar hugtakið „skóli án aðgreiningar“ og reyna að finna betri þýðingu á enska hugtakinu „inclusion“. Berglind Rós Magnúsdóttir (2016) hefur lagt til orðið „inngilding“ en það fellur vel að hugtakinu um „útilokun“ sem er andstæðan við skóla án aðgreiningar. Hún leggur áherslu á að með inngildandi menntun sé átt við skólastarf þar sem allir nemendur eru samþykktir sem fullgildir meðlimir skólasamfélagsins. Inngildandi menntun byggir á mannréttindasýn á fötlun þar sem það er óyggjandi réttur allra nemenda að hafa aðgang að sínum hverfisskóla.

Í umræðunni um skóla án aðgreiningar er sjónum oft beint að hlutverki kennara í að stuðla að félagslegum þroska og tengslum nemenda. Ég tel að hlutverk og þáttur foreldra sé vanmetinn hvað þetta varðar. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 kemur skýrt fram að foreldrar eigi að gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Það þýðir ekki að það sé eingöngu á ábyrgð foreldra jaðarsettra nemenda að tryggja að þau eignist vini meðal samnemenda sinna. Þvert á móti tel ég það vera á ábyrgð allra foreldra að skapa börnunum tækifæri til jákvæðra vinatengsla. Allt of algengt er að margbreytileikanum sé fagnað á tyllidögum í stað þess að litið sé á hann sem hversdagslegan og „eðlilegan“ hluta fjölbreytileika samfélagsins. Í skólum er til dæmis alþjóðlegi Downs-dagurinn haldinn hátíðlegur með því að nemendur og kennarar mæta til skóla í mislitum sokkum og bláklædd á alþjóðlegum degi einhverfu. Við foreldrar tökum mörg hver myndir af skólabörnunum, birtum á samfélagsmiðlum og fögnum þannig margbreytileikanum opinberlega. Við erum á hinn bóginn ólíklegri til að leggja okkur fram við að bjóða nemandanum með Downs heilkenni í heimsókn, að kynna okkur fyrir fjölskyldunni sem var að flytja í hverfið eða að muna eftir trans drengnum þegar bjóða á í strákaafmæli. Í þeim tilfellum þar sem vel hefur tekist til við innleiðingu á skólastefnu um skóla án aðgreiningar má merkja vilja og áhuga meðal foreldra um að allir nemendur séu fullgildir meðlimir skólasamfélagins (Connor og Berman, 2019).

Mynd 5. Sjálfsmyndir. Grunnskólanemendur.Matur og öryggi

Nemendurnir töldu mikilvægt að maturinn í skólanum væri góður. Einn nemandi skrifaði: „Maturinn þarf að vera ætilegur þá er auðveldara að læra og gera allt“. Dæmi um önnur svör sem snéru að mat eru eftirfarandi:

 • Að það sé góður hádegismatur.
 • Þegar það er góður matur. Ekki upphitaður.
 • Maturinn er góður. Nesti er gott.
 • Vatnið er nógu kalt nema það vantar klakana í skólann okkar.
 • Góður og vondur matur. Hollur og óhollur matur, fiskur sem er vondur, pizzur og pylsur sem er góður matur og svo allt hitt sem er í lagi.
 • Maður fær að kjósa góðan mat til að hafa í hádeginu.

Þegar sjónum er beint að mat í skólum margbreytileikans kemur helst tvennt til hugar. Í fyrsta lagi matur eða matarvenjur sem tengjast ofnæmi, óþoli eða menningu og í öðru lagi matarskortur vegna félagslegra aðstæðna nemenda. Þegar ég las svör nemenda þá rifjaðist upp fyrir mér ákvörðun skólastjórnenda í Austurbæjarskóla að bjóða ekki upp á svínakjöt í skólanum. Skólinn rak svokallaða móttökudeild nýbúa og af tillitsemi við þau sem ekki borðuðu svínakjöt trúar sinnar vegna var svínakjötið tekið af matseðlinum. Talsvart var skrifað í blöðin í mótmælaskyni og í minningunni voru það helst svínabændur og framsóknarmenn. Ég var kennari í Austurbæjarskóla á þessum tíma og rekur ekki minni til þess að nemendur eða foreldrar hafi mótmælt þessari ákvörðun skólastjórnenda. Reyndar man ég ekki til þess að svínakjöt hafi nokkurn tíma verið á matseðlinum í skólanum þau ár sem ég starfaði þar. Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvort og hvenær við erum að fórna íslenskri matarhefð? Á einhverjum tímapunkti virðast kálbögglar og hamborgarar hafa orðið íslenskir.

Mynd 6. Skólamatur.

Í meistaraprófsverkefni sínu í heilsueflingu og heimilisfræði bendir Arndís Sara Þórsdóttir (2020) á þau tækifæri sem felast í því að kynna nemendum fyrir matarhefðum annarra þjóða. Kennarar geta samþætt kennslu í samfélagsfræði, trúarbragðafræði og heimilsfræði með því að nemendur fái tækifæri til að elda mat frá ólíkum löndum og ræða saman um upplifun sína og menningu þessara landa. Þrátt fyrir að matarvenjur sökum trúar eða lífstíls nemenda kalli á breytta kennsluhætti þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að þeim fylgja líka spennandi tækifæri og áskoranir.

Einnig virðast nemendum með fæðuóþol og ofnæmi hafa fjölgað í skólum sem hefur áhrif á allt skólastarf. Tryggja þarf að ofnæmisvaldar berist ekki milli nemenda á snertiflötum, í mat eða í loftinu. En hversu langt á að ganga? Svarið getur aldrei orðið annað en að það á að ganga eins langt og þarf til að tryggja öryggi allra nemenda.

Mynd 7. Sjálfsmyndir. Grunnskólanemendur.

Nokkrir nemendur skrifuðu að öryggi væri eitt af því sem gerði skóla góða. Ég viðurkenni að þrátt fyrir að ég vissi vel að sumir nemendur upplifðu sig alls ekki örugga í skólanum þá hafði ég ekki leitt hugann að því að margir nemendur upplifa ákveðinn frið og öryggi að vera kominn í skólann. Í meistararitgerð Helga Þórs Gunnarssonar (2009), sem fjallar um lífshlaup afbrotamanna með ADHD, greinir hann frá því hvernig erfiðar félagslegar aðstæður á heimilum þátttakenda hafi orðið til þess að þeir upplifðu sig ekki örugga. Þá hafi verið mikilvægt að vel væri tekið á móti þeim í skólanum og að þeir finndu að einhver stæði með þeim. Eins virðist stéttaaðgreining vera að aukast á höfuðborgarsvæðinu sem getur haft áhrif á námsleg og félagsleg tækifæri nemenda (Berglind Rós Magnúsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir og Kolbeinn Stefánsson, 2020). Efnahagsleg og félagsleg staða nemenda getur haft áhrif á námsgengi þeirra en niðurstöður rannsóknar á upplifun kennara í fyrstu bylgju Covid-19 heimsfaraldursins benda til þess að kennarar hafi meðal annars áhyggjur af því að ákveðnir nemendur séu svangir í skólanum og upplifi vanlíðan þar sem þeir eru hvorki með nesti né mataráskrift. Það hefur orðið til þess að kennarar koma oft með nesti handa nemendum að heiman eða finna til mat á kennarastofunni og í einhverjum tilvikum hafa einkafyrirtæki í sveitarfélaginu styrkt þessa nemendur um mataráskrift. Kennararnir lýstu áhyggjum sínum af þessum nemendum í skertu skólastarfi vegna heimsfaraldursins og óttuðust um velferð þeirra (Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir, 2020). Sennilega eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir löngu orðnar tímabærar í skólum margbreytileikans.

Hrein klósett

Mynd 8. Skólaklósett.

Síðasta þemað sem ég vann upp úr svörum nemenda snéri að skólaklósettum og skrifaði einn nemandinn: „Góður skóli er með góð klósett og hrein“. Ég viðurkenni að ég hafði talsverðar áhyggjur af því að allt skólafólkið, fagfólkið og foreldrarnir sem hlýddu á fyrirlesturinn hefðu engan áhuga á að heyra gráhærðan prófessor fjalla um skólaklósett. Í örvæntingu leitaði ég að heimildum um skólabyggingar en Anna Kristín Sigurðardóttir (2014) bendir á að lítið hefur verið fjallað um skólabyggingar í íslenskum rannsóknum. Ég fann ekkert um salernisaðstöðu í skrifum um skólabyggingar og námsumhverfi en í nokkrum gömlum skýrslum um mat á skólastarfi kom fram að skólaklósett og búningsklefar væru líklegir staðir eineltis.

Allar myndirnar sem ég fékk sendar af skólaklósettum voru gróteskar og bentu til þess að mögulega finnst sumum nemendum þrifnaði ábótavant. Erlendar rannsóknir sýna að óaðgengileg og óaðlaðandi skólaklósett hafa neikvæð áhrif á heilsufar skólabarna (Lundblad, Hellström og Berg, 2010). Börnin halda í sér og upplifa líkamlega vanlíðan sem vafalaust hefur einnig áhrif á einbeitingu þeirra í náminu.

Á undanförnum misserum hafa málefni trans nemenda fengið aukna athygli en Samtökin ʹ78 (2016) bentu á að víða sé klósett- og búningsaðstöðu í skólum ábótavant hvað öryggi og velferð trans nemenda varðar. Víða hafa skólar brugðið á það ráð að sleppa kynjamerkingum á salernisaðstöðu en einhverjar efasemdir hafa verið um að slíkt samræmist reglugerð um húsnæði vinnustaða. Enn og aftur má sjá ósamræmi í lögum og reglugerðum og væri áhugavert að skoða nánar hvaða lög og reglugerðir eru yfirskipaðri lögum um réttindi til náms og velferðar barna. Hér virðast lög um grunnskóla vera undirskipuð reglugerð um vinnustaði fullorðinna.

Umræðan um skólaval hefur að mestu snúist um þrá grunnskólanema um skólavist í Verzlunarskólanum eða öðrum samkeppnisskólum og háð tískubylgju hverju sinni. Við heyrum síður um þá nemendur sem þurfa fötlunar sinnar vegna að velja sér skóla sem hafa aðgengileg salerni. Fatlaður framhaldsskólanemi sagði eitt sinn á fundi: „Þegar ég fékk bréfið um að ég hefði komist inn í námið, þá lét ég panta stærstu gerð af bleium“. Hann var ekki öruggur um að komast á klósettið á skólatíma en vildi ekki missa af draumaskólanum. Í þessu samhengi má benda á að nemendur í starfstengdu diplómanámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands mótmæltu slæmu aðgengi í Stakkahlíð og börðust fyrir úrbótum á salernisaðstöðu sviðsins (Hersir Aron Ólafsson, 2017). Salernisaðstaða sviptir suma nemendur skólavali. Borið hefur á því að fötluðum nemendum sem þurfa hvað mestan stuðning í daglegu lífi hafi verið beint í ákveðna framhaldsskóla vegna þess að skólabyggingin og salernisaðstaðan er betri en víða annars staðar. Það skýtur skökku við að nemendur velji sér nám eða skóla eftir salernisaðstöðu. Ég efast um að nokkur annar nemendahópur þurfi að gera það. Auk þess er ólíklegt að skólastjórnendur finni sig knúna til að fara í kostnaðarsamar og jafnvel tímafrekar úrbætur á skólahúsnæðinu á meðan til eru aðrir skólar sem eru skilgreindir sem aðgengilegir og eigi þar af leiðandi að henta þessum nemendum. Þannig hefur salernisaðstaðan einnig áhrif á það hvernig skólar velja sína nemendur þar sem þeir geta notað aðstöðuna sem afsökun fyrir því að veita hreyfihömluðum nemendum ekki skólavist.

Mynd 9. Sjálfsmyndir. Grunnskólanemendur.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá höfðu krakkarnir rétt fyrir sér að skólaklósett eru mikilvægur þáttur í umræðunni um skóla margbreytileikans. Til frekari glöggvunar um aðgengi, öryggi og salernisaðstöðu vil ég benda lesendum á heimasíðu verkefnisins Around the toilet (https://aroundthetoilet.wordpress.com) en þar má finna gagnleg myndbönd og sögur sem hægt væri að nota í kennslu og við fræðslu starfsmanna.

Lokaorð

Það var mjög áhugavert að vinna með nemendum með þessum hætti og var samstarfið gjöfult og gaf mér hugmyndir að því hvernig hægt væri að vinna rannsóknir um skólastarf með þeirra þátttöku. Það er gagnlegt að læra af og sjá skólastarfið út frá sjónarhorni nemenda og sennilega kom það mér mest á óvart hversu auðvelt var að finna rannsóknir sem studdu skoðanir þeirra. Allt sem þau skrifuðu á Padlet síðuna var mikilvægt innlegg í umræðuna um skóla margbreytileikans.

Ég hef oft fengið nemendur mína í grunnnámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands til þess að skilgreina hvaða nemendur eru í skóla margbreytileikans. Algengt er að þau fylli töfluna í stofunni af greiningum, hugtökum sem tengjast fötluðum nemendum, hinsegin veruleikanum, innflytjendum og hælisleitendum áður en þau komast að þeirri niðurstöðu að allir nemendur skólans tilheyra skóla margbreytileikans. Hugmyndin um skóla margbreytileikans er ekki ætlað að vísa til minnihlutans eða jaðarsetningar. Skóla margbreytileikans tilheyra allir nemendur hvernig svo sem hörundslitur þeirra er eða hvernig þeim gengur að tileinka sér námsefnið. Nemendurnir sem tóku þátt í þessu samvinnuverkefni voru alls konar, sumum fylgdu greiningar, aðrir voru hinsegin, einhver var af fyrstu kynslóð innflytjenda. Einnig voru nemendur sem hafa alla tíð verið álitnir „normal“, „dæmigerðir“ og sennilega endurspegla þau öll nokkuð vel margbreytileika íslenskra grunnskóla. Ef skólarnir drægju alla fána skólastarfsins og nemendahópsins að húni þá væri fánaborgin líklega æði fjölbreytt eins og til dæmis ýmsir þjóðfánar, hinseginn fáninn, fáni Sameinuðu þjóðanna og grænfáninn.

Ég enda þessa grein með sama hætti og fyrirlesturinn fyrir Greiningarstöðina en það var í fyrra sem tíu ára gamall sonur minn sagði mér frá því að hann þurfi stundum að vera þolinmóður við skólafélaga sinn af því að sá væri „umhverfisvænn og sjálfbær“. Ég hváði og spurði hvort hann væri að meina með ADHD. „Já, eða einhverfur“ sagði pilturinn, yppti öxlum, hljóp út í vorið og var nákvæmlega sama um alla þá merkimiða sem við fullorðna fólkið límum á börnin.

Heimildir

Amalía Björnsdóttir og Kristín Jónsdóttir. (2014). Viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skóla. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstjóri), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 29–56). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Anna Kristín Sigurðardóttir. (2014). Skólabyggingar og námsumhverfi. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstjóri), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 57- 86). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Arndís Sara Þórsdóttir. (2020). Matarhefðir þriggja trúarbragða. Samþætt námsefni í heimilisfræði og samfélagsfræði fyrir nemendur í unglingadeild (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.

Around the toilet. A cross-disciplinary, arts-based research project funded by the AHRC Connected Communities programme. Sótt af https://aroundthetoilet.wordpress.com/

Berglind Rós Magnúsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir og Kolbeinn Stefánsson. (2020). Dreifing efnahags- og menntunarauðs meðal foreldra í skólahverfum höfuðborgarsvæðisins 1997–2016. Stjórnmál & stjórnsýsla 2(16), 285-308.

Berglind Rós Magnúsdóttir. (2016). Skóli án aðgreiningar: Átakapólar, ráðandi straumar og stefnur innan rannsóknarsviðsins. Í Dóra S. Bjarnason, Hermína Gunnþórsdóttir og Ólafur Páll Jónsson (ritstjórar), Skóli margbreytileikans. Menntun og manngildi í kjölfar Salamanca (bls. 67-94). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Connor, D.J. og Berman, D. (2019). (Be)Longing: a family’s desire for authentic inclusion. International Journal of Inclusive Education, 23(9), 923-936, DOI: 10.1080/13603116.2019.1602361

Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir og Kristín Björnsdóttir. (2012). Þegar fötlun verður feimnismál. Í Sveinn Eggertsson og Ása G. Ásgeirsdóttir (ritstjórar) Þjóðarspegillinn. Rannsóknir í félagsvísindum XII. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/13322.

Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir. (2017). Menntun fyrir alla á Íslandi: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Helgi Þór Gunnarsson. (2009). Líðan og lífshlaup afbrotamanna með athyglisbrest (ADHD) (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.

Hersir Aron Ólafsson. (2017). Hindranir daglegs skólalífs dregnar fram í stuttmynd. Vísir.is. Sótt af https://www.visir.is/g/2017827501d?fbclid=IwAR3XysX9qwfb-SWQjArbsUbBO9pAvt6duZl4LWrG4yO26ajDbzYWmbh5PRg

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Æskan.

Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir (2020). „Covid bjargaði mér“ Störf kennara í fyrstu bylgju heimsfaraldurs. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2020 – Covid-19. https://netla.hi.is/serrit/2020/menntakerfi_heimili_covid19/04.pdfhttps://netla.hi.is/serrit/2020/menntakerfi_heimili_covid19/04.pdf 

Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir. (2010). „Þau eru bara óheppin“ Um skilning og notkun ófatlaðra ungmenna á fötlunarhugtökum. Í Helga Ólafs og Hulda Proppé (ritstjórar) Þjóðarspegillinn. Rannsóknir í félagsvísindum XI. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/6829.

Kristín Björnsdóttir. (2014). „Ég fékk engan stuðning í skólanum“: Fötlun, kyngervi og stétt. Í Annadís G. Rúdolfsdóttir, Guðni Elísson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Irma Erlingsdóttir (ritstjórar), Fléttur III – Jafnrétti, menning, samfélag (bls. 233-257). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Lundblad, B., Hellström, A.‐L. og Berg, M. (2010). Children’s experiences of attitudes and rules for going to the toilet in school. Scandinavian Journal of Caring Sciences, 24, 219-223. https://doi.org/10.1111/j.1471-6712.2009.00707.x

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

Ragnhildur Íris Einarsdóttir. (2019). „Ég er búinn að gera mitt allra besta til að gleyma þessum tíma“ : ungir karlmenn sem upplifðu vanlíðan í grunnskóla (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.

Samtökin ʹ78. (2016). Kynhlutlaus salerni og búningsklefar. Sótt af https://samtokin78.is/kynhlutlaus-salerni-og-buningsklefar/

Snæfríður Þóra Egilson. (2003). Hreyfihamlaðir nemendur í almennum grunnskóla: Tækifæri og hindranir í umhverfinu. Í Rannveig Traustadóttir (ritstjóri) Fötlunarfræði: Nýjar íslenskar rannsóknir (bls. 91-111). Reykjavík: Háskólaútgáfan.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Kristín Björnsdóttir (kbjorns(hja)hi.is) er prófessor í fötlunarfræði og sérkennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.M.-prófi í músíkþerapíu frá East Carolina University í Bandaríkjunum 1997, fékk kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1999, lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2002 og doktorsprófi í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands 2009. Auk þess stundaði hún nám í fötlunarfræði við University of Sheffield í Bretlandi. Kristín starfaði um árabil með fötluðum börnum og ungmennum í skólakerfi og tómstundum. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að skólagöngu og samfélagsþátttöku fólks með þroskahömlun og samspili menningar, kyngervis og fötlunar.


Grein birt 8.2. 2021
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp