Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að þekkja uppruna sinn: Nemendur skyggnast um á síðum Íslendingabókar, á vef Landmælinga Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Rósa Eggertsdóttir

Þegar móður minni fannst það eiga við sagði hún: „Þriðja kynslóðin gleymir“. Henni fannst fenna fljótt í spor forfeðranna. Nýjar kynslóðir væru fáfróðar ef ekki alls ófróðar um hagi fólks fyrr á tímum. Í bréfi sem hún skrifaði frænku sinni í nóvember 1940, segir m.a.:

Einu sinni ráfaði ég úti heila jólanótt í snjó og kulda með einum kunningja mínum, vegna þess að við áttum hvergi heima – mér fannst það ákaflega broslegt, næstum því grátbroslegt. … Allstaðar þar sem við gengum framhjá húsum sáum við ljósadýrð, glöð börn sem nutu þess að jólin voru komin. Við ráfuðum úti frá kl. 9 til kl. 5 um morguninn. Það sem mér fannst ergilegast var að samferðafélagi minn var alltof „melankólskur“ hann gat ekki notið þess að vera heimilislaus flökkukind og sjá jólin koma til annarra.

Skiptir það máli fyrir afkomendur að hafa vitneskju um kjör formóður sinnar á krepputímum? Er mikilvægt að vita að langamma eignaðist tíu börn, þar af náðu sjö fullorðinsaldri? Í janúar 1907 fæddi hún tvíbura, annar dó eftir viku. Níu mánuðum síðar missti hún mann sinn þegar bátur fórst með allri áhöfn, fimm manns. Hún varð í einni svipan ekkja með fimm börn á framfæri, elsta 11 ára, það yngsta hvítvoðungur. Ekkert stoðkerfi var innan seilingar. Hún gat hvorki greitt húsaleigu né brauðfætt börnin. Fjórum börnum var komið fyrir hjá vandalausum. Það urðu örlög hvítvoðungsins að verða ómagi. Hún fékk starf sem fanggæsla[1] í verbúð og hafði hjá sér þriggja ára son sinn. Þau voru til heimilis á lofti verbúðarinnar. Á einu og sama árinu missti hún manninn, öll börnin utan eitt og heimilið sitt. Eftir þetta deildu börnin aldrei sama heimili. Það er ekki flókið að gera sér í hugarlund hvernig henni hefur liðið þegar þessi ósköp dundu yfir.

Flest af því sem hér að framan segir um langömmuna byggir á Íslendingabók og gögnum á vef Þjóðskjalasafns Íslands; manntölum og kirkjubókum, þ.e. sóknarmannatölum og prestþjónustubókum. Þessi gögn eru hafsjór upplýsinga um lifandi og látna. Það henti mig eins og marga að hrökkva of seint í gírinn varðandi munnlegar upplýsingar um afa og ömmur og önnur gengin skyldmenni.

Tengsl við Aðalnámskrá

Á hugann leitar sú spurning hversu vel grúsk af þessi tagi falli að skólastarfi og Aðalnámskrá grunnskóla. Skemmst er frá því að segja að mörg ákvæði um grunnþætti menntunar styðja verkefni af þessu tagi og verða örfá nefnd hér.

 • Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. … skiptir það höfuðmáli að tölvurnar eru ekki aðeins öflug ritvinnslu- eða reikningsverkfæri heldur tól sem má nota til fjölþættrar merkingarsköpunar (bls. 19).
 • Námshæfni felst m.a. í hæfni til að afla þekkingar og leikni eftir margvíslegum leiðum. Nemendur þurfa að ná valdi á þessum leiðum, m.a. með því að ná tökum á tæknimiðlum, öðlast vald á að nýta upplýsinga- og samskiptatækni og kunna að nýta margvíslegar uppsprettur þekkingar með heimildaleit á söfnum og í gagnabönkum af margvíslegu tagi (bls. 26).
 • Nemendur þurfa að kunna að sækja sér nýja þekkingu og leikni, jafnframt því að geta beitt þekkingu sinni. Þeir skulu einnig vera meðvitaðir um mikilvægi þess að vera ábyrgur og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrunda og rökstyðja.
 • Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra (bls. 22).
 • Til að öðlast fjölbreytilega hæfni á nemendum að gefast tækifæri til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins, umhverfi barna og ungmenna og daglegu lífi (bls. 25).

Varðandi greinanámskrár er sama upp á teningnum. Grúsk eins og hér um ræðir fellur að fjölmörgum markmiðslýsingum þeirra. Hér er látið duga að vísa til þátta í greinanámskrá um samfélagsfræði (Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013).

 • Vinna með heimildir er … stór hluti af kennslu samfélagsgreina og leggja þarf áherslu á upplýsingalæsi nemenda. Upplýsingalæsi er skilgreint þannig að einstaklingurinn geti fundið, staðsett, metið, skipulagt og notað upplýsingar á skilvirkan hátt við að fjalla um þau málefni og viðfangsefni sem fyrir liggja hverju sinni. Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til að læra að nota skólasafnið og Netið við heimildaleit.
 • Menntagildi samfélagsgreina felst í því að þroska hæfni nemenda til að eiga í innihaldsríkum samskiptum við aðra. Með því að nýta sér agaðar samræður og vönduð kennslugögn er nemendum gefinn kostur á að takast á við mikilvægar en umdeildar spurningar um möguleg lífskjör, farsæld einstaklinga og samfélaga í fortíð, nútíð og framtíð.
 • Í sögukennslu er byggt á heildstæðri og fjölbreyttri skoðun heimilda um samfélög og einstaklinga frá fortíð til samtíma.

Metnaðarfull hæfnimarkmið eru sett fram um reynsluheim, hugarheim og félagsheim nemenda. Við lok 10. bekkjar þurfa nemendur að geta

 • aflað sér, hagnýtt, ígrundað og metið upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni, sem birtast í munnlegum flutningi, samræðum, texta og myndrænum búningi,
 • sýnt fram á þekkingu og gagnrýna sýn á tímabil, atburði, persónur, menningartengsl og þróunarferla á ýmsum tímum, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
 • gert sér grein fyrir hlutverki heimilda, sjónarhorna og gildismats í sögu og sameiginlegum minningum,
 • gert sér grein fyrir hlutverki og margbreytileika fjölskyldna og gagnkvæmum áhrifum innan hennar á mismunandi tímum og menningarsvæðum,
 • útskýrt hvernig sjálfsmynd þeirra mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum, greint hvernig stjórnmál og samfélagsgerð tengjast lífi einstaklinga,
 • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum,
 • útskýrt með dæmum margbreytileika mannlífsins og ólíkan bakgrunn fólks,
 • komið þekkingu sinni og viðhorfum á framfæri með fjölbreyttum og markvissum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra.

Það er ekki ætlunin að leggja hér fram tilbúna kennsluáætlun heldur þess freistað að semja leiðbeiningar sem nemendur og aðrir geta nýtt sér við leit í gögnum Íslendingabókar, Landmælinga Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands. Allir hafa aðgang að skjölum á vef Landmælinga og Þjóðskjalasafnsins en skyldleiki ræður aðgangi að Íslendingabók. Ég valdi að kanna hvers ég yrði vísari um afasystur mína, Herdísi Eggertsdóttur (20. október 1885–14. nóvember 1963). Það sem ég hef vitað um hana fram að þessu er að finna í Íslendingabók sem reyndist vera gott veganesti fyrir nánari skoðun. Auk fæðingar- og dánardægurs, eru gefnir upp tveir bæir sem hún var til heimilis á fram til 16 ára aldurs en þá flutti hún til Vesturheims. Foreldra hennar og systkina er einnig getið. Að auki vissi ég að frá henni er kominn mikill ættbogi vestur í Bandaríkjunum. Í lok greinarinnar er samantekt á því sem ég varð vísari um Herdísi eftir skoðun heimilda.

Leit og leitargögn

Þegar lagt er upp í ferðalag til að efla þekkingu á gengnum kynslóðum þarf að huga að því að sumar upplýsingar kunna að vera mjög persónulegar og ekki ætlaðar fyrir almenning. Því er bent á að nemendur sæki eingöngu um aðgang að Íslendingabók að höfðu samráði við foreldra. Ef foreldrar gefa ekki samþykki sitt til að vinna með gögnin í skólanum, má athuga hvort nemendur megi læra á vefinn heima með aðstoð foreldra. Þjóðskjalasafnið birtir gögn af þessu tagi sem eru eldri en 50 ára.

Með þessari grein fylgja leiðbeiningar um:

 • Íslendingabók,
 • Landmælingar Íslands,
 • manntöl,
 • kirkjubækur; sóknarmannatöl,
 • kirkjubækur; prestþjónustubækur.

Lagt er til að nemendur kynnist þessum heimildum í þeirri röð sem listuð er hér:

Í Íslendingabók (https://islendingabok.is) er að finna upplýsingar um nálega alla Íslendinga sem heimildir eru til um. Leitandi getur skoðað upplýsingar um ættingja sína fyrr og nú, ásamt áhugaverðri tölfræði um ættina. Hann getur fundið út hvort um skyldleika við aðra er að ræða. Íslendingabók upplýsir um fæðingardag og dánardægur sem og um búsetu á tilgreindum eða ótilgreindum tíma. Bent er á vef Landmælinga Íslands ef leitandi er í vafa um hvar á landinu tiltekinn staður er.                   

Vefur Landmælinga Íslands (https://lmi.is) gerir leitanda kleift að staðsetja bæi og örnefni á landinu (sbr. kortasjá og örnefnasjá). Þegar leitað er upplýsinga um ættingja er ágætt að hefja hana í Íslendingabók. Þar eru oftast nefndir staðir þar sem viðkomandi bjó. Næst liggur leiðin í manntöl á vef Þjóðskjalsafns.

Á manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands (https://skjalasafn.is; https://heimildir.is) er hægt að leita upplýsinga í fjórtán manntölum frá árunum 1703, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1920. Í manntölum koma fram upplýsingar um heimili, kirkjusókn, aldur, stöðu í samfélaginu (húsbóndi, á sveit, hjú o.fl.), hjúskaparstöðu (giftur, ógiftur, ekkja, ekkill), fæðingarstað og fleira. Manntölin eru á stafrænu formi. Næsta skref er að skoða sóknarmannatöl.

Sóknarmannatöl á vef Þjóðskjalasafns Íslands (https://skjalasafn.is; https://heimildir.is) eru nokkurs konar árleg manntöl yfir kirkjusóknir, venjulega tekin í lok árs þegar presturinn húsvitjaði. Ríflega 1500 sóknarmannatöl eru á skrá Þjóðskjalasafns Íslands frá því um miðja 18. öld og fram yfir 1960. Sóknarmannatöl hafa verið skönnuð og sett á vefinn. Þau eru handskrifuð og líklega þarf að aðstoða nemendur við að lesa leturgerðina, þ.e. lykkjuskrift. Dæmigerð efnisatriði í sóknarmannatölum voru fram til 1880; bær/heimili, nafn, stétt eða staða í samfélaginu, aldur/fæðingardagur, um lestrarkunnáttu, um kunnáttu í kverinu, (kristnum fræðum), hvort viðkomandi sé fermdur, um hegðun og breytni og loks er reitur fyrir athugasemdir.

Prestþjónustubækur á vef Þjóðskjalasafns Íslands (https://skjalasafn.is; https://heimildir.is) geyma upplýsingar um prestsverk. Þar eru skráðar fæðingar, skírnir, fermingar, hjónavígslur og dauðsföll. Í eldri bókum eru einnig upplýsingar um þá sem fluttu inn í viðkomandi sókn og þá sem fluttu burtu úr sókninni. Prestþjónustubækur eru handskrifaðar og hefur Þjóðskjalasafnið skannað bækurnar og sett á vefinn.

Rétt er að nefna að prestar héldu misvel utan um þær skráningar sem voru á þeirra snærum. Ennfremur er letur orðið ógreinilegt sumstaðar og hugsanlega hafa einhverjar skrár glatast.

Nám og kennsla

Varðandi nám og kennslu er mælt með sýnikennslu fyrir bekk um leið og kennari hugsar upphátt, að nemendur fái í hendur leiðbeiningarnar til eignar og þeim verði kennt að nýta sér þær. Mælt er með paravinnu og að nemendur vinni saman að málum hvors annars. Trúnaður um málefni ættingja ætti að vera ræddur í bekk og hann haldinn. Kennari velti vandlega fyrir sér hvernig nemendur veljast í pör. Það má sjá fyrir sér eftirfarandi ferli í skólastofunni: Nemendur

 • fá kynningu á heimildinni.
 • sækja um aðgang að Íslendingabók, aðrar heimildir eru öllum opnar.
 • fá sýnikennslu þar sem kennarinn hugsar upphátt.
 • læra á leiðbeiningar fyrir viðkomandi heimild.
 • æfa sig frjálst.
 • fá sýnikennslu í samantekt upplýsinga úr heimildum.
 • fá sýnikennslu um hugleiðingar og spurningar sem gætu vaknað við lestur heimilda.
 • taka sjálfir til við samantekt á upplýsingum um sitt fólk (pör vinna saman að því).
 • setja fram hugleiðingar í það minnsta um tvo þætti og setja fram spurningar sem vakna við skoðun á heimildum. Svörin gæti verið að finna hjá fjölskyldum, í manntölum eða kirkjubókum eða hugsanlega á öðrum vettvangi, t.d. útgefnu efni.

Þegar nemendur hafa tileinkað sér allgóða leikni í leit að fólki og samantekt upplýsinga úr einni af þeim heimildum sem hér eru kynntar, getur verið gott að setja ramma um vinnulag til þess að námið verði markvisst og tíminn nýtist vel. Í bókinni Hið ljúfa læsi (Rósa Eggertsdóttir, 2019, bls. 76) er stoðkortið Haldreipi sem nemendur geta nýtt sér í því skyni (sjá mynd 1). Þeir vinna sig niður eftir dálkinum sem hefst á „Viðfangsefni verður til“. Þar fyrir neðan stendur „Spyrja spurninga, vinnulag, verkáætlun“. Nemendur merkja við þá reiti til hægri sem þeim finnst falla að sínu verkefni. Þar fyrir neðan stendur „Safna upplýsingum“. Þeir merkja á sama hátt við þá reiti til hægri sem þeir telja að henti verkefninu. Þeir vinna sig þannig niður eftir dálkinum „Viðfangsefni verður til“ uns þeir eru komnir alveg á endastöð. Þá yfirfara þeir merkingar sínar, og hefjast handa. Stundum gengur vel að vinna eftir merkingunum en þeim er frjálst að breyta um vinnubrögð eftir því sem þeir telja þörf á þegar á hólminn er komið. Gert er ráð fyrir að samantekt nemenda verði með fjölbreyttu formi, s.s. texti, myndir, kort og talað mál.

Mynd 1: Stoðkortið: Haldreipi.

Dæmi um leit að ættingja

Leitin um hagi Herdísar Eggertsdóttur (20. október 1885–14. nóvember 1963) hófst í Íslendingabók. Þar komu fram upplýsingar um fæðingar- og dánardægur, foreldra hennar og systkini, nefndir eru tveir bæir sem hún átti heima á og ennfremur að hún hafi farið til Vesturheims árið 1901. Með þetta veganesti hófst leit í öðrum heimildum, þ.e. á vef Landmælinga Íslands og á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Eftir skoðun manntala, sóknarmannatala og prestþjónustubóka hefur tekist að draga upp nokkra mynd af þeim aðstæðum sem Herdís bjó við fyrstu 16 árin. Samhliða hafa ýmsar spurningar vaknað varðandi kjör hennar og fjölskyldu, enn fremur og ekki síður, um samfélagsgerðina sem var við lýði á Íslandi um næst síðustu aldamót.

Herdís Eggertsdóttir

Herdís fæddist 20. október árið 1885 að Þóroddsstöðum í Staðarsókn í Húnavatnssýslu.[vi] Foreldrar hennar voru Eggert Jónsson, þá 41 árs og Guðbjörg Guðmundsdóttir 43 ára. Eggert var vinnumaður á bænum en Guðbjörg var sögð kona hans. Í manntölum og sóknarmannatölum voru giftar konur iðulega skráðar á þennan hátt. Herdís var yngsta barn þeirra hjóna en alls eignuðust þau sjö börn, þau voru:

 

Jón Sigurður Eggertsson 23. júní 1870 – 17. júní 1877 (lést 7 ára)
Guðmundur Eggertsson 1873 – 7. okt. 1889 (lést 16 ára)
Herdís Eggertsdóttir 4. sept. 1875 – 19. júní 1876 (lést 9 mánaða)
Ólöf Eggertsdóttir 7. maí 1877 – 11. maí 1877 (lést 4 daga)
Sigurjón Eggertsson 17. apríl 1879 – 29. júní 1963 (lést 84 ára)
Þorbjörn Eggertsson 28. des. 1880 – 9. júní 1962 (lést 81 árs)
Herdís Eggertsdóttir 20. okt. 1885 – 14. nóv. 1968 (lést 83 ára)

 

Fæðingardags Guðmundar er ekki getið í Íslendingabók en skv. prestþjónustubók Staðarprestakalls fyrir árin 1865–1899,[2] fæddist hann 15. nóvember árið 1872.[3] Hjónin misstu Herdísi eldri árið 1876 og Jón Sigurð og Ólöfu árið 1877.[4] Árið 1879 fæddist Sigurjón og ári síðar Þorbjörn. Á árunum 1873 til 1977 var Eggert lengst af bóndi á Óspaksstöðum í Hrútafirði. Fjölskyldan var áfram til heimilis á þeim bæ en Eggert var ekki lengur bóndi þar, heldur húsmaður og síðar vinnumaður. Eitthvað hefur því hallað undan fæti hjá þeim hjónum. Leiða má líkur að því að barnamissir hafi gengið nærri þeim. Svo líða nokkur ár.

Þegar Herdís fæddist árið 1885 voru foreldrar hennar til heimilis að Þóroddsstöðum í Hrútafirði, Eggert var þar vinnumaður, Guðbjörg kona hans var þarna einnig og Þorbjörn. Tveir eldri drengirnir voru ekki skráðir til heimilis á Þóroddstöðum þetta ár. Má því ætla að Eggert og Guðbjörg hafi ekki haft efni á að hafa drengina hjá sér. Ári síðar 1886, var enginn úr fjölskyldunni skráður á Þóroddsstöðum. Það ár dó Guðbjörg. Í kjölfarið leystist fjölskyldan upp.

Herdísi, rúmlega eins árs, var komið fyrir í Hrútatungu og skráð sem sveitarómagi. Hún var orðin einstæðingur í lægstu stétt. Húsbændur í Hrútatungu hafa tekið hana til sín og fengið með henni árlega greiðslu frá sveitarsjóði til framfærslu hennar. Herdís átti heima í Hrútatungu uns hún fór af landi brott. Fram til 12 ára aldurs var hún skráð ýmist sem sveitarómagi, sveitarlimur eða sveitarbarn. Eftir það var hún skráð sem tökubarn en léttastúlka 14 ára og síðasta árið hér á landi var hún sögð vikastúlka. Eggert var í vinnumennsku á ýmsum bæjum og hafði Þorbjörn hjá sér. Sigurjón var áfram sveitarómagi á ýmsum bæjum. Árið 1886 var hann samtíða Herdísi í Hrútatungu. Guðmundur var skráður smali á Tannstöðum í þrjú ár. Hann lést innan við tvítugt árið 1889 en Sigurjón (1879–1963) og Þorbjörn (1880–1962) lifðu báðir fram á gamals aldur.

Þegar Herdís var 5 ára var faðir hennar vinnumaður á Þóroddsstöðum. Hrútatunga var í um 11 km fjarlægð.[viii][5] Þessar heimildir svara því ekki hvort hún kynntist föður sínum eða bræðrum.

Gera má ráð fyrir að Eggert hafi ekki haft nein ráð með að halda fjölskyldunni saman eftir að Guðbjörg lést. Það lætur enginn barnið sitt til vandalausra sem ómaga á sveit nema öll önnur sund séu lokuð. Ekki hefur verið athugað markvisst á hvaða bæ eða bæjum feðgarnir bjuggu. Manntöl árin 1880 og 1890 gefa upplýsingar um hvar Eggert og synirnir þrír voru til heimilis á þeim tíma. Manntöl árin 1901, 1910 og 1920 gefa sömu upplýsingar um Eggert, Þorbjörn og Sigurjón. Sóknarmannatöl ættu að segja til um hvar þeir voru þau árin sem ekki voru gerð manntöl. Sú leit fer fram á sama hátt og dæmið um Herdísi. Nafn Herdísar Eggertsdóttur kemur einungis fram í manntalinu 1890. Hún fór til Vesturheims árið 1901.

Spurningar og hugleiðingar

 • Þegar Herdís fæddist var búið að koma tveimur bræðrum hennar fyrir á öðrum bæjum? Hvaða ástæður gátu legið þar að baki?
 • Hvað er hægt að álykta um félagslegar aðstæður almennings á Íslandi um næst síðustu aldamót?
 • Hvaða framtíðardrauma gat sveitarómagi leyft sér að hafa?
 • í ljósi aðstæðna Herdísar, hugleiðið hvernig dæmigerður dagur í lífi hennar gæti hafa verið þegar hún var níu ára.
 • Hvernig ætli Herdís hafi fengið fjármagn til að fara til Vesturheims?
 • Hver var munurinn á bónda, húsmanni og vinnumanni?
 • Hvernig skýrir orðabók hugtök eins og ómagi, lenda á sveit og fleira í þeim dúr?
 • Hvað veldur svo mikilli fátækt að vinnandi hjón geta ekki haft börn sín hjá sér?
 • Deyi annað foreldri frá ungum börnum hvaða möguleika hefur eftirlifandi maki til að halda börnum sínum hjá sér?
 • Hver er líkleg ástæða þess að Herdís ákvað að fara til Vesturheims?
 • Berið samfélagið á Íslandi í dag saman við þá mynd sem dregin er upp af aðstæðum á Íslandi þegar Herdís er að alast upp. Hvað hefur breyst í stórum dráttum? Ræðið hvað kann að hafa haft áhrif á breytingu samfélagsins.

Lokaorð

Vafalaust eru skiptar skoðanir á því hvort saga fyrri kynslóða skiptir máli fyrir nútímann hverju sinni. Sjálfri finnst mér mikilvægt að sjá samhengi hlutanna, hvaðan við komum, hvar við erum og hvert við stefnum. Sögur einstaklinga mynda sögu þjóðar.

Eftirmáli

Þessari grein fylgja leiðbeiningar um leit í Íslendingabók, á vef Landmælinga Íslands og á vef Þjóðskjalasafns Íslands, þ.e. í manntölum, sóknarmannatölum og prestþjónustubókum. Fullorðið fólk, sem hafði ekki áður haft kynni af þessum heimildum, las yfir leiðbeiningarnar og leitaði í heimildunum eins og sagt er til um. Athugasemdir þess hafa verið færðar inn í skjölin. Yfirlesurum eru færðar bestu þakkir.


 

Heimildatilvísanir

Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.

Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Akureyri: Höfundur.

 

Neðanmálsgreinar

[1] Verbúð skiptist í veiðarfærageymslu og loft en þar uppi sváfu og mötuðust áhafnir báta. Í hverri verbúð starfaði kona sem hafði starfsheitið fanggæsla. Hún bjó þar á meðan á vertíð stóð. Hlutverk hennar var að elda mat, þrífa verbúðina, þvo og hirða um föt sjómanna og gæta aflans þegar þeir voru á sjó. Í kaup fékk fanggæslan stærsta þorskinn sem á skip kom í hverjum róðri, og þar að auki einn vænan fisk af hverjum hundrað fiskum, sem framyfir var eitt hundrað. Starf fanggæslu var lagt niður árið 1934 en elstu heimildir eru um fanggæslur eru frá árinu 1466.

Heimildir:

Án höfundar. (1884). Fanggæslur í Bolungarvík. Ritstj.: Garðar Þorsteinsson og Jónas Guðmundsson. Sjómannadagsblaðið 47(1). https://timarit.is/page/4808486?iabr=on#page/n44/mode/1up/search/sj%C3%B3mannadagsbla%C3%B0i%C3%B0%201984

Hlynur Þór Magnússon. (2004, 29. desember). Kominn úr sjóklæðunum. Rætt við Geir Guðmundsson fyrrverandi safnvörð í Ósvör í Bolungarvík. Bæjarins besta. Óháð fréttablað á Vestfjörðum í 20 ár, 53(21). Bls. 8–10. https://www.bb.is/wp-content/uploads/2017/04/BB53.pdf

[2] Opna nr. 14 (tvær síður sýndar samtímis)

[3] Íslendingabók segir Guðmund hafa fæðst árið 1873 en Prestþjónustubók segir hann fæddan árið 1872.

[4] Sóknarmannatal 1863-1880, Staðarprestakall.

[5] Kortasjá á vef Landmælinga Íslands. Mælt í beinni línu.

 


Rósa Guðrún Eggertsdóttir, BA í sérkennslufræðum frá KHÍ og M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á starfsþróun kennara frá Institute of Education í Cambridge, Englandi 1995. Hún kenndi í grunnskólum frá 1972 til 1995, var deildarstjóri við Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra og Skólaþjónustu Eyþings og sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við HA. Rósa hefur aðallega starfað að umbótastarfi um læsi í skólum. Meðal útgefinna verka er Byrjendalæsi, Fluglæsi, Hljóðskraf, Stafur á bók, Lesmál og Hið ljúfa læsi. Hún er meðhöfundur að Lexíu og bókanna Aukin gæði náms. Einnig hefur hún skrifað greinar og bókarkafla og ritstýrt útgáfum með öðrum.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 29/1/2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp