Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

SKÓLASLIT – einstök lestrarupplifun

í Greinar

Kolfinna Njálsdóttir, Heiða Ingólfsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir

Á þessu skólaári höfum við unnið að þróunarverkefninu Skólaslitum sem lýkur formlega nú í vor. Okkur langar að deila með ykkur sögu verkefnisins þar á meðal kveikjunni og hvað við höfum lært af verkefninu hingað til. Að verkefninu standa grunnskólar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt kennsluráðgjöfum, félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar. Á vefsíðu verkefnisins www.skolaslit.is var sett inn allt efni sem tengdist verkefninu og var vefurinn öllum opinn. Að auki var netfangið skolaslit(hja)gmail.com nýtt til að koma upplýsingum til annarra skóla og taka við spurningum nemenda, kennara og annarra sem sýndu verkefninu áhuga. Í gegnum netfang verkefnisins tengdust grunnskólar um allt land og töldum við rúmlega hundrað skóla sem tóku þátt í verkefninu að hluta til eða öllu leyti. Hluti þessarar greinar hefur áður birst í Víkurfréttum, bæjarfjölmiðli á Suðurnesjum.

Markmið Skólaslita voru að búa til nýstárlega lestrarupplifun í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson rithöfund, læra af drengjum, hlusta á þá og fá innsýn í hugarheim þeirra og hugmyndir varðandi nálgun á lestri og öflun og úrvinnslu upplýsinga. Einnig var markmiðið að auka áhuga þeirra á lestri með fjölbreyttri nálgun og með áherslu á áhugahvetjandi og merkingabær verkefni. Auk þess vildum við vinna með viðhorf kennara til drengja og lesturs og opna huga þeirra gagnvart ólíkum leiðum til öflunar upplýsinga og þekkingarsköpunar. Enn fremur vildum við gefa feðrum tækifæri til aukinnar þátttöku í lestrarnámi drengja og kanna viðhorf þeirra til lesturs.

Upphaf Skólaslita hófst í byrjun árs 2021 þegar kennsluráðgjafar á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar hófu samtal og vegferð sem vatt upp á sig og hafði áhrif á marga í skólasamfélaginu. Samtalinu var haldið áfram við Ævar Þór Benediktsson rithöfund og þróaðist það í átt að því að hann myndi skrifa sögu sem yrði að skemmtilegri lestrarupplifun. Allir aðilar höfðu tröllatrú á því að vegferðin yrði nýstárleg og myndi vekja athygli nemenda. Við vorum svo lánsöm að með Ævari Þór fylgdi annar listamaður, Ari Yates teiknari og myndskreytir, sem setti mark sitt á myndsköpun sögunnar og þá upplifun sem hún veitti. Hópurinn sem tók þátt í samtalinu stækkaði og margir voru tilbúnir til þátttöku og stuðnings við verkefnið. Auk grunnskóla Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga vildi starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar leggja sitt af mörkum til þess að styðja við verkefnið og fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima vildu taka virkan þátt í ferlinu og skoða alla möguleika til þess að flétta söguna inn í starfsemi miðstöðvarinnar. Allir sem leitað var til vildu vera með og var mikil jákvæðni í garð verkefnisins. Sótt var um styrk til Sprotasjóðs sem var veittur og vegna þess gátum við farið af stað í þetta stóra og áhugaverða verkefni. Verkefnið þróaðist og varð að læsisverkefni sem er ólíkt öllu öðru sem við höfum áður gert.

Undirbúningur verkefnisins hófst þegar líða fór á vorönn 2021 og tóku kennarar rýnisamtöl við drengi á miðstigi í öllum grunnskólum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum en einnig var send út spurningarkönnun til drengja á unglingastigi. Send var út rafræn könnun til fulltrúa kennara og foreldra til að fá gagnlegar upplýsingar um upplifun drengja, foreldra og kennara af lestri því rödd þeirra er afar mikilvæg. Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir vorum við búin að fá þó nokkra innsýn í áhugasvið nemenda, hvaða lestrarform þeir vilja helst nýta sér og hvað gæti mögulega aukið áhuga þeirra á lestri. Einnig spurðum við drengi hvort lestur væri þeim sýnilegur á heimili. Niðurstöður sýndu að áhugasvið drengja eru mjög fjölbreytt en margir svöruðu því að lestrarefni um íþróttir, tölvuleiki, tónlist, hrollvekjur og ævintýri heilluðu mest. Flestir vildu þeir geta lesið efni sem tengdist áhugasviði þeirra. Hvað varðar lestrarform þá nefndu flestir vefmiðla, hefðbundnar bækur, rafbækur og hljóðbækur. Einnig voru teiknimyndabækur nefndar og hlaðvörp. Langflestir drengirnir svöruðu því að lestur væri þeim mikilvægur. Þeir vildu einnig fá fleiri tækifæri til þess að hlusta á sögur og hafa eitthvað um það að segja hvenær þeir lesa fyrir aðra. Einn drengur orðaði þetta vel og sagðist vilja ,,lesa þegar við erum í stuði ekki þegar aðrir eru í stuði fyrir að láta okkur lesa”. Misjafnt var eftir svörunum hvort drengir teldu að lestur væri sýnilegur á heimilum og voru þeir sammála foreldrum sínum þar. Á heildina litið taldi meirihluti svarenda að lestur væri sýnilegur á heimilum.

Væntingar til verkefnisins eru breytt orðræða um drengi og lestur því þeir geta vel lesið. Við þurfum að hlusta betur á þá og reyna að skilja hvað þarf til þess að fá þá til þátttöku. Þó svo að áherslan hafi verið á drengi í upphafi verkefnisins þá var það ætlað öllum nemendum á mið- og unglingastigi grunnskóla sem höfðu áhuga  og vildu vera með. Allur októbermánuður var undirlagður af sögunni Skólaslit í grunnskólunum okkar og það var sama hvert litið var, alls staðar hafði efni hennar áhrif og var sjáanlegt í verkum nemenda. Heimilin tóku þátt, nemendur og foreldrar hlustuðu eða lásu saman í upphafi dags eða áttu notalega kvöldstund. Það vildu allir fylgjast með því hvernig sögupersónur Skólaslita tókust á við áskoranir sem þær stóðu frammi fyrir enda magnaðist spennan eftir því sem leið á mánuðinn. Nemendur ræddu söguna sín á milli og spáðu fyrir um framhaldið, myndbönd voru gerð, teikningar litu dagsins ljós, en sköpun var allsráðandi. Í skólunum voru unnin verkefni í anda sögunnar og sögupersónur lifnuðu við þegar nemendur og kennarar klæddu sig upp á Hrekkjavöku þar sem þau settu sig í spor sögupersóna Skólaslita. Þann tíma sem sagan var í gangi hrúguðust inn tölvupóstar á netfang verkefnisins þar sem nemendur, kennarar og foreldrar spurðu spurninga úr sögunni eða vildu vita meira. Spurningarnar voru teknar saman og var reynt að svara þeim öllum. Ævar Þór gerði nokkur myndbönd sem sett voru á vefsíðu verkefnisins með svörum við spurningum sem til okkar komu. Þarna sáum við að nemendur og kennarar um allt land voru að taka virkan þátt í verkefninu og að það hafði vakið athygli og áhuga fjölda barna og ungmenna.

Úr Holtaskóla.

Í lok októbermánaðar er Hrekkjavaka og nýttu skólarnir sér þann tíma að hluta til sem uppskeruhátið Skólaslita. Í öllum skólum var sköpun nemenda í kjölfar sögunnar fjölbreytt og sýnileg, en hver og einn skóli útfærði það á sinn hátt. Félagsmiðstöðin Fjörheimar sá um að undirbúa draugahús í tilefni Hrekkjavökunnar og varð sú vinna lituð af sögunni Skólaslit. Þarna var öllu til tjaldað og ungmenni á vegum Fjörheima höfðu veg og vanda að uppsetningu draugahússins og var magnað að sjá allar þær hugmyndir sem fram komu og voru útfærðar til að skapa stemningu í anda Skólaslita. Þarna fengu frjóar hugmyndir byr undir báða vængi, þær útfærðar og framkvæmdar. Draugahúsið var opið í þrjá daga í kringum Hrekkjavöku í lok október. Húsnæðinu, sem er rúmlega fjögur hundruð fermetrar að stærð, var skipt upp í níu svæði og undirlagt af hrollvekju og draugagangi þessa daga. Tvær útfærslur voru á draugahúsinu, annars vegar hefðbundin þar sem myrkur var og hugmyndaflugið réði för og hins vegar þar sem ljósin voru kveikt þannig að þeir sem vildu taka þátt gátu komið án þess að dvelja í myrkrinu. Í heildina fóru um tvö þúsund manns á öllum aldri í gegnum draugahúsið þá daga sem það var opið og mikill meirihluti nemenda miðstigs grunnskóla á svæðinu var þar á meðal. Ungmenni í Fjörheimum útbjuggu einnig kynningarmyndbönd fyrir Skólaslit, uppsetningu á kynningarefni og fleira.

Fjör í Fjörheimum!

Fulltrúar Fjörheima fóru alla leið með verkefnið og leystu úr öllum þeim áskorunum sem þeir stóðu frammi fyrir með glæsibrag. Bókasafn Reykjanesbæjar setti upp sýningu í anda Skólaslita í hluta húsnæðis síns og buðu nemendum á öllum aldri að koma, sjá og upplifa. Vakti sú sýning mikla lukku nemenda og þá sérstaklega hjá yngri nemendum sem ekki höfðu tekið fullan þátt í verkefninu en höfðu heyrt af því í skólanum. Þar fengu nemendur að prófa og upplifa margt sem tengdist sögunni bæði beint og óbeint. Verkefnið Skólaslit fékk góða umfjöllun í fjölmiðlum og gerðu Víkurfréttir því góð skil bæði í blaðinu og í sjónvarpi þeirra, Suðurnesjamagasíni. Einnig heimsótti RÚV okkur og sagði frá verkefninu í Landanum.

Áætlaður afrakstur verkefnisins var að færa kennurum verkfæri sem myndu hafa áhrif á lestrarnám drengja og upplifun þeirra. Einnig að skapa lifandi vefsíðu sem segði sögu Skólaslita þar sem áhersla væri lögð á myndræna og lifandi framsetningu þar sem kennarar og nemendur hefðu tækifæri til að deila og miðla hugmyndum sínum og fjölbreyttum afurðum tengdum sögunni. Að auki höfðum við vonir um að drengir myndu sýna meiri áhuga og taka virkari þátt þegar verkefnin voru fjölbreytt og sniðin að áhugasviðum þeirra og námsleiðum sem hentuðu þeim mögulega betur en þær aðferðir sem þeir höfðu áður nýtt sér. Að lokum verður gefin út bók af höfundi sem unnin er út frá efni lestrarverkefnisins og er væntanleg vorið 2022.

Eftir samtöl við kennara er ekki annað að heyra en að þeir hafi almennt verið mjög ánægðir með hvernig til tókst. Það sem stóð upp úr eftir samtöl við þá var að verkefnið gaf aukin tækifæri til samstarfs innan skóla og á milli þeirra. Nú þegar höfum við náð flestum þeim markmiðum sem við settum okkur í byrjun. Við ætlum okkur að eiga annað samtal við drengina um lestur og verður það gert í vor. Við viljum halda áfram að hlusta og læra, æfa okkur og gera þær breytingar sem gera þarf til að auka lestraráhuga og lestrarfærni drengja. Upplýsingar úr þeim könnunum sem þegar hafa verið lagðar fyrir hafa sannfært okkur um að verkefnið var áhugaverð og spennandi lestrarupplifun og hefur skilað þeim árangri sem við lögðum upp með.

Vefsíða Skólaslita, www.skolaslit.is, var virk allan tímann og var opin öllum. Í gegnum hana gátum við aflað gagna sem við teljum skipta máli. Á Íslandi tóku rúmlega hundrað grunnskólar um allt land þátt og fengu kennarar og nemendur tækifæri til að setja efni tengt sögunni á hugmyndavegg vefsíðunnar. Hann var einnig opinn og aðgengilegur. Á vefsíðuna kom kafli úr sögu Ævars Þórs inn daglega og myndskreyting Ara Yates ásamt hljóðskrá með upplestri höfundar. Alls komu inn á vefsíðuna þrjátíu og tveir kaflar á tímabilinu 1. október til 1. nóvember. Auk þátttakenda frá Íslandi var umferð um síðuna frá um þrjátíu öðrum löndum. Þau fimm lönd sem voru með flestar komur á síðuna voru Danmörk, Spánn, Bretland, Svíþjóð og Bandaríkin. Næst á eftir þeim komu Noregur, Holland, Þýskaland, Ítalía, Írland og Pólland. Það er því óhætt að segja að Skólaslit hafi komið víða við, ferðast um allan heim og heimsótt fjölmörg og ólík heimili. Engin leið er að taka saman þann fjölda barna og ungmenna sem hlustuðu á söguna en gera má ráð fyrir að hann hafi verið gríðarlega mikill.

Skólar sem tóku þátt.

Við erum fyrst og fremst stolt af þessu verkefni og þakklát öllum þeim sem fylgdust með þeim Halldóri, Ásu, Arndísi, Pavel, Joönnu, Pétri, Grímu og Meistaranum ásamt Unnari skólastjóra og öllum hinum sögupersónunum í Skólaslitum. Við erum þakklát öllum þeim hundrað grunnskólum sem þátt tóku um allt land og þeim áhugasömu kennurum sem leiddu verkefnið áfram. Kærar þakkir til ykkar allra með von um að Skólaslit hafi verið ykkur ánægjuleg vegferð. Þetta var einstakt þróunarverkefni þar sem nemendur, kennarar og foreldrar voru þátttakendur allan tímann. Þarna fengum við tækifæri til að fylgjast með sögu skrifaðri í rauntíma því Ævar Þór og Ari voru að allan októbermánuð og gáfu okkur nýja upplifun á hverjum degi. Auk þess bætti Ævar Þór við upplestri sem varð til þess að allir gátu tekið þátt óháð lestrarfærni því að stundum er gott að fá að hlusta og njóta. Þetta verkefni var sannkallað ævintýri og samstarfið í kringum Skólaslit var okkur ómetanlegt. Allir lögðu sitt af mörkum til að þessi lestrarupplifun yrði að veruleika og í dag erum við reynslunni ríkari þar sem verkefnið hefur fært okkur ótal áskoranir og tækifæri. Við sitjum eftir með mikið af upplýsingum og mögulegum tækifærum til áframhaldandi vinnu, með upplýsingar frá drengjum í farteskinu, þar sem áhugahvöt, þekkingarleit og sköpun eru í fyrirrúmi.

Þróunarskólar í verkefninu voru; Akurskóli, Gerðaskóli, Háaleitisskóli, Heiðarskóli, Holtaskóli, Myllubakkaskóli, Njarðvíkurskóli, Sandgerðisskóli, Stapaskóli og Stóru-Vogaskóli.


Umsagnir um verkefnið

Ævar Þór Benediktsson.

Frá höfundi Skólaslita

Skólaslit var bæði skemmtilegt og krefjandi verkefni. Að sjálfsögðu er hægt að vinna sögu marga mánuði fram í tímann, en það er voða lítið stuð sem fylgir svoleiðis vinnubrögðum. Allir í sögunni eru í lífshættu frá fyrsta orði; hvers vegna ættu höfundurinn og teiknarinn ekki að vera í sömu stemmingu? Að finna frábæru viðbrögðin við Skólaslitum litaði klárlega hvert sagan fór og persónur sem áttu að vera étnar í fyrstu köflunum fengu að lifa mun lengur en höfundurinn hafði upphaflega ákveðið, bara vegna þess að lesendur voru að fíla þær.

En þetta var ekki bara gaman; ég lærði líka helling af þessu. Eins og til dæmis að það hefði verið sniðugt að taka pásur á sögunni um helgar. Og að krökkum finnst fyndið að einhver staðar liggi hálfur íþróttakennari. Og örugglega eitthvað fleira líka.

Allavega; þetta var gríðarlega gaman og ég vil nota tækifærið og þakka öllum krökkunum sem lásu og hlustuðu og öllu fullorðna fólkinu sem tóku þátt í verkefninu.

Áfram lestur – líka á hrollvekjum!

Kær kveðja

Ævar


Frá Fjörheimum

Mikil stemning skapaðist í kringum verkefnið í félagsmiðstöðinni Fjörheimum og tóku ungmennin virkan þátt í vinnunni. Ákveðið var að halda risa draugahús í félagsmiðstöðinni á hrekkjavökunni þar sem þemað var Skólaslit. Draugahúsið var opnað sama dag og lokakaflinn í sögunni kom út og því var spennustigið hátt. Öll ungmenni í 8.–10. bekk sem höfðu áhuga var boðið að taka þátt í draugahúsinu. Alls voru um 50 ungmenni sem að hjálpuðu til við uppsetningu og skipulagningu, sem tók heila þrjá daga. Hápunkturinn fyrir ungmennin var að sjálfsögðu að fá að vera í ógeðslegum hlutverkum við að hræða og bregða gestum draugahússins.

Ungmenni úr listasmiðjuhópi félagsmiðstöðvarinnar sáu um að farða og mála þannig að allir væru eins hræðilegir og hægt var. Til þess að auglýsa draugahúsið var svo unglingastiginu í Myllubakkaskóla boðið að leika uppvakninga í kynningarmyndbandi fyrir viðburðinn, sem vakti mikla lukku. Draugahúsið var opið öllum á hrekkjavökunni, þar sem mættu tæplega 1200 manns og daginn eftir var svo sérstök opnun fyrir miðstig allra grunnskóla á Suðurnesjum. Það voru því í kringum 2000 manns sem fóru í gegnum draugahúsið í heildina og greinilegt að það býr mikið hugrekki í íbúum Reykjanesbæjar.

Davíð Már Gunnarsson


Frá Akurskóla

Akurskóli tók virkan þátt í Skólaslitum. Nemendur hlustuðu á eða lásu söguna í tímum og okkar tilfinning er sú að áhugi á verkefninu hafi farið vaxandi eftir sem leið á og að almennt hafi áhugi nemenda á lestri aukist og sérstaklega hjá drengjum. Nemendur sem hafa ekki áður tekið virkan þátt í umræðum um lesefni sýndu Skólaslitum áhuga og voru sumir fullir tilhlökkunar fyrir næsta kafla.

Á tímum þar sem línuleg dagskrá virðist vera að fjara út tókst einkar vel að taka þátt í verkefni þar sem við fengum einn kafla á dag. Við tókum verkefnið alla leið með þemadögum um miðjan október tileinkuðum hrollvekjum og draugasögum. Nemendur bjuggu til hálfétinn kennara, draugahús, stuttmynd, vampírur og afturgöngur. Hópar voru þvert á árganga, þar sem elstu nemendurnir, sem jafnvel eru orðnir aðeins of fullorðnir fyrir Skólaslit að eigin mati, fengu meiri áhuga í gegnum þá yngri.

Við hlökkum til að takast á við sambærilegt verkefni aftur. Og við trúum því að með reynsluna af Skólaslitum, séum við enn betur í stakk búin að takast á við það.

Þormóður Logi Björnsson


Frá Njarðvíkurskóla

Upplifun okkar í Njarðvíkurskóla af verkefninu Skólaslit eftir Ævar Þór var almennt mjög góð. Verkefnið nýttist í raun fleirum en lagt var upp með í upphafi þar sem nemendur alveg niður í 1. bekk voru þátttakendur en á sínum forsendum.

Frá fyrsta degi biðu nemendur með eftirvæntingu eftir næsta kafla og töluðu bæði foreldrar og nemendur um að þetta væri orðinn fastur liður við morgunverðarborðið áður en lagt var af stað í skólann og þarf af leiðandi tengdist verkefnið hjá mörgum nemendum inn á heimilin.

Í skólanum hlustuðu nemendur á upplestur frá Ævari. Það var vel heppnað að fá hann til að lesa söguna sjálfan. Það skiptir miklu máli að geta valið að lesa eða hlusta á textann.

Októbermánuður í Njarðvíkurskóla var helgaður þessu verkefni og gekk það fyrir öðru starfi. Við fundum að það voru allir að ganga í takt og stefna að sama markmiði sem var frábært að finna. Það fór algjörlega eftir hverjum árgangi fyrir sig hvernig verkefnið var útfært. Sumir vörpuðu textanum upp á skjá þannig að nemendur gátu bæði lesið og hlustað. Einhverjir gerðu flott myndræn verkefni eftir hverja viku. Verkefnið var líka nýtt til að efla lesskilning, til dæmis með forspá og umræðum. Orðaþrenna vikunnar er verkefni sem er í gangi allt skólaárið í Njarðvíkurskóla þar sem kennarar taka fyrir þrjú orð á viku og voru þau tengd Skólaslitum þennan mánuð. Þessi verkefni, ásamt mörgum öðrum, voru framkvæmd þennan mánuð.

Við viljum hrósa þeim sem héldu utan um verkefnið og komu því á laggirnar.

Takk fyrir gott samstarf og skemmtilegt verkefni

f.h. Njarðvíkurskóla

Helena og Jóhann Gunnar


Kolfinna Njálsdóttir starfar sem deildarstjóri skólaþjónustu á fræðslusviði Reykjanesbæjar og er verkefnastjóri Skólaslita. Hún lauk B.Ed í leikskólakennarafræðum frá KHÍ 1998, diplómu í sérkennslufræðum árið 2007 og meistaraprófi í sérkennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2011. Kolfinna hefur starfað sem leikskólakennari, grunnskólakennari og sérkennari ásamt því að starfa við kennsluráðgjöf hjá Reykjanesbæ frá árinu 2013. Hún hefur þekkingu og reynslu af því að leiða þróunarverkefni og góða innsýn í málefni sem lúta að fjölbreyttri nálgun við læsi og nemendur með sértækar stuðningsþarfir.

Heiða Ingólfsdóttir starfar sem kennsluráðgjafi við leik- og grunnskóla í sveitarfélögunum Suðurnesjabæ og Vogum og situr í stýrihópi Skólaslita. Hún lauk B.Ed í leikskólafræðum árið 2005, diplómu í sérkennslufræðum árið 2010 og meistaraprófi frá Háskóla Íslands í sérkennslufræðum og skóla margbreytileikans árið 2019. Heiða hefur starfað sem leikskólakennari, grunnskólakennari og sérkennari ásamt því að starfa við kennsluráðgjöf. Hún hefur þekkingu og reynslu af fjölbreyttum þróunarverkefnum, þar á meðal var hún einn af þremur verkefnastjórum í stóru Erasmus+ verkefni sem hlaut fjölda viðurkenninga á alþjóðavísu en viðfangsefni þess verkefnis voru lýðræði og læsi.

Anna Hulda Einarsdóttir starfar sem kennsluráðgjafi á fræðslusviði Reykjanesbæjar og situr í stýrihópi Skólaslita. Hún lauk námi frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 sem grunnskólakennari með áherslu á íslenskukennslu. Árið 2019 lauk hún meistaraprófi frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum: Deild menntunar og margbreytileika. Anna Hulda hefur stýrt fjölda verkefna og var meðal annars verkefnastjóri um gerð menntastefnu Reykjanesbæjar árið 2016 og sat í ritnefnd og stýrihópi nýútkominnar menntastefnu Reykjanesbæjar: Með opnum hug og gleði í hjarta. Anna Hulda býr yfir rúmlega 15 ára reynslu sem grunnskólakennari og starfaði meðal annars sem íslenskukennari á mið- og unglingastigi.


Grein birt 18.3. 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp