Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

læsi

Læsiskennsla í Byrjendalæsisskólum og öðrum skólum

í Greinar

Rannveig Oddsdóttir, Rúnar Sigþórsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Kjartan Ólafsson

Á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að málþroska og læsi barna sem áfram byggist upp á fyrstu árum grunnskólagöngu. Á þessum árum ná flest börn tökum á umskráningu ritmáls sem gerir þeim fært að lesa og rita texta. Jafnframt verða miklar framfarir í hæfni þeirra til að skilja talað og ritað mál og miðla hugsun sinni og hugmyndum í töluðu og rituðu máli. Í aðalnámskrá grunnskóla er læsi einn af sex grunnþáttum menntunar sem eiga að fléttast inn í allt skólastarfið. Læsi er einnig ríkur þáttur í lykilhæfni nemenda sem snýst um tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýna hugsun og nýtingu miðla og upplýsinga. Læsi tengist líka námsgreininni íslensku og undir henni eru sett fram markmið fyrir helstu undirþætti læsis það er: a) talað mál, hlustun og áhorf, b) lestur og bókmenntir og c) ritun. Lesa meira…

SKÓLASLIT – einstök lestrarupplifun

í Greinar

Kolfinna Njálsdóttir, Heiða Ingólfsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir

Á þessu skólaári höfum við unnið að þróunarverkefninu Skólaslitum sem lýkur formlega nú í vor. Okkur langar að deila með ykkur sögu verkefnisins þar á meðal kveikjunni og hvað við höfum lært af verkefninu hingað til. Að verkefninu standa grunnskólar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt kennsluráðgjöfum, félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar. Á vefsíðu verkefnisins www.skolaslit.is var sett inn allt efni sem tengdist verkefninu og var vefurinn öllum opinn. Að auki var netfangið skolaslit(hja)gmail.com nýtt til að koma upplýsingum til annarra skóla og taka við spurningum nemenda, kennara og annarra sem sýndu verkefninu áhuga. Í gegnum netfang verkefnisins tengdust grunnskólar um allt land og töldum við rúmlega hundrað skóla sem tóku þátt í verkefninu að hluta til eða öllu leyti. Hluti þessarar greinar hefur áður birst í Víkurfréttum, bæjarfjölmiðli á Suðurnesjum.

Markmið Skólaslita voru að búa til nýstárlega lestrarupplifun í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson rithöfund, læra af drengjum, hlusta á þá og fá innsýn í hugarheim þeirra og hugmyndir varðandi nálgun á lestri og öflun og úrvinnslu upplýsinga. Einnig var markmiðið að auka áhuga þeirra á lestri með fjölbreyttri nálgun og með áherslu á áhugahvetjandi og merkingabær verkefni. Auk þess vildum við vinna með viðhorf kennara til drengja og lesturs og opna huga þeirra gagnvart ólíkum leiðum til öflunar upplýsinga og þekkingarsköpunar. Enn fremur vildum við gefa feðrum tækifæri til aukinnar þátttöku í lestrarnámi drengja og kanna viðhorf þeirra til lesturs. Lesa meira…

Leikandi málörvun í leikskóla – lengi býr að fyrstu gerð

í Greinar

Ingibjörg Sif Stefánsdóttir og Árdís H. Jónsdóttir

 

Í þessari grein verður stiklað á stóru um mál og læsisnám yngstu barnanna í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ. Fjallað verður um mikilvægi orðaforðanáms og hvernig markviss málörvun fer fram frá upphafi leikskólagöngunnar með stigbundnum hætti. Rætt verður um málörvun fyrir börn með seinkaðan málþroska og ört stækkandi hóp fjöltyngdra barna á Íslandi.

Í Tjarnarseli tvinnast leikur barnanna saman við allt skólastarfið. Litið er á leikinn sem rauðan þráð í þétt ofinni fléttu margra námsþátta. Enginn vafi leikur á mikilvægi hans fyrir þroska barna, þau gleyma sér í skemmtilegum og sjálfsprottnum leik sem einkennist af krafti, gleði og áhuga. Leikurinn byggir undir nám og hæfni til að takast á við áframhaldandi skólagöngu. Ef börnum leiðist læra þau lítið sem ekkert. Þess vegna er brýnt að námsumhverfi barna veki forvitni og áhuga (Shalberg og Doyle, 2019). Í Tjarnarseli er meðal annarra horft til hugmynda John Dewey, sem benti á að börn lærðu mest með því að byggja ofan á fyrri reynslu sína og öðluðust þannig óbeina menntun. Einnig er litið til hugmynda Ingrid Pramling um að börn séu leikandi námsmenn (Ingrid Pramling, 2006) og Lev Vygotsky sem jók skilning manna á mikilvægi leiksins með skrifum sínum um leikinn sem leiðandi afl í uppeldi og þroska barna (Dale, 1997).

Kenningar þessara fræðimanna birtast til að mynda í að sjálfsprottnum leik er gefinn langur samfelldur tími bæði úti og inni. Leitast er við að skapa umgjörð um leikinn þar sem börnin geta fylgt eftir eigin áhugahvöt hverju sinni. Fjölbreytt leikefni er í boði með áherslu á opinn og skapandi efnivið eins og kubba af margvíslegum stærðum og gerðum, efni til listsköpunar, leir, stærðfræðileg viðfangsefni, bækur og spil. Verðlaus efniviður sem til fellur í leikskólanum og á heimilum kennara og barna er notaður til listsköpunar sem og leikja innandyra og í garði skólans. Lesa meira…

Um meint ólæsi drengja við lok skyldunáms

í Greinar

Þorlákur Axel Jónsson

 

Oft er rætt um slaka frammistöðu drengja á PISA prófunum. Stór hluti þeirra er sagður illa læs við lok skyldunáms og er jafnvel ályktað sem svo að skólakerfið bregðist drengjum við undirbúning fyrir líf og starf í nútímasamfélagi. Spurning um hvort grunnskólar mismuni piltum og stúlkum hangir í loftinu. Henta grunnskólar stúlkum vel en strákum ekki?

Almennt standa stúlkur sig betur en piltar á lesskilningshluta PISA rannsóknarinnar sem lögð hefur verið fyrir á þriggja ára fresti frá aldamótum. Í skýrslu Menntamálastofnunar um síðasta PISA-prófið segir: „Stúlkur stóðu sig töluvert betur en drengir í lesskilningshluta PISA 2018 á Íslandi. Þetta er óbreytt staða frá fyrri könnunum því kynjamunur í lesskilningi á Íslandi (og að meðaltali í löndum OECD) hefur verið stúlkum í hag síðan í fyrstu könnun PISA“ (bls. 29). Munurinn var 40 stig á mælikvarðanum fyrir lesskilning sem er meira en þær framfarir sem gert er ráð fyrir að verði á einu skólaári. Samtals voru 19% stúlkna og 34% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 „og teljast því ekki búa yfir grunnfærni í lesskilningi“ (bls. 30). Við bætist að frammistaða bæði pilta og stúlkna hefur versnað jafnt og þétt frá aldamótum.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ættu að hvetja okkur til þess að álykta varlegar um slæma stöðu drengja en tíðkast hefur. Lesa meira…

Hið ljúfa læsi á viðsjárverðum tímum

í Ritdómar

Baldur Sigurðsson

 

Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Akureyri: Höfundur.

Síðastliðið haust (2019) sendi Rósa Eggertsdóttir frá sér bókina Hið ljúfa læsi, Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa er mörgum kennurum að góðu kunn því hún er höfundur Byrjendalæsis, leiðbeininga um læsiskennslu í 1. og 2. bekk, sem um það bil helmingur grunnskóla á Íslandi hefur tekið upp. Byrjendalæsi (BL) má kalla hugmyndafræði um læsiskennslu, eða kennsluhætti, fremur en kennsluaðferð, þar sem BL snýst um að beita mörgum og fjölbreyttum kennsluaðferðum í læsiskennslu byrjenda, en á samvirkan hátt og innan ákveðins ramma eða skipulags, þannig að bæði nemendur og kennarar séu meðvitaðir um hvað þeir eru að gera hverju sinni.

Með hugtakinu læsi er ekki átt við að vera læs í þeim skilningi að geta tæknilega stautað sig gegnum texta. Hugtakið læsi í bók Rósu snýst fyrst og fremst um lesskilning, sem margir fræðimenn og alþjóðleg samtök líkt og UNESCO hafa stuðst við (Baldur Sigurðsson, [2013]): Í stuttu máli má segja að læsi snúist um að geta skilið og notað ritað mál (lesið og skrifað) sjálfum sér til gagns og gleði, skilnings og sköpunar. Lesa meira…

Læsisfimman – námsskipulag til að þjálfa læsi í fjölbreyttum nemendahópi

í Greinar

Þorbjörg Halldórsdóttir

 

„Gerðu það sem þú getur, með það sem þú hefur, þar sem þú ert“ (Theodore Roosevelt)

Greinarhöfundur varð þess heiðurs aðnjótandi að fylgja tveimur kennarahópum til Denver í byrjun nóvember 2019. Við vorum ekki á leið í skíðaferð í Klettafjöllunum heldur lá leiðin á námskeið í kennslukerfinu Daily5 sem hefur fengið íslenska heitið Fimman eða Læsisfimman. Námskeiðið stóð í tvo daga og því stýrði Gail Boushey, frumkvöðull Daily5, reyndur kennari, kennsluráðgjafi og höfundur bóka sem fjalla um Fimmuna. Sjaldan hef ég setið námskeið stýrt af jafnmikilli fagmennsku og eldmóði. Þarna er á ferðinni afburðasnjall kennari sem hefur ástríðu fyrir starfi sínu og leggur ómælda vinnu í að miðla þekkingu sinni og reynslu til annarra. Öll hugmyndafræði og hagnýt ráð voru studd með vísunum í rannsóknir og fræðikenningar og öllum spurningum gat hún svarað af dýpt og nákvæmni, en um leið af næmi og skilningi á aðstæðum kennara. Hún notaði fjölbreyttar leiðir til að halda okkur við efnið, örva áhugann og kveikja hugmyndir, s.s. myndir, myndskeið og tónlist. Einnig benti hún á fjölmargar bækur og efni sem hún taldi geta gagnast okkur. Það er sex klukkutíma tímamunur milli Íslands og Denver en við fundum lítið fyrir því og það segir mikið um gæði námskeiðsins. Lesa meira…

„Það drap alveg minn yndislestur að vera í skóla“

í Greinar

‒ um lestur og læsi í grunn- og framhaldsskólum

Þann 1. apríl sl. var haldin í Hörpu ráðstefna um stöðu og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður umfangsmestu rannsóknar á stöðu íslenskukennslu sem gerð hefur verið hér á landi. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir því að fá að birta þau erindi sem flutt voru, enda eiga þau erindi við fleiri en sótt gátu ráðstefnuna. Einnig skal lesendum Skólaþráða bent á bókina Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum sem út er komin hjá Háskólaútgáfunni. Hér birtist fyrsta greinin sem byggð er á erindunum – þær verða vonandi fleiri. Lesa meira…

Afi, segðu mér sögu!

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Þannig varð til á bernskuárunum einhvers konar burðarvirki í sálinni eða hvað á að kalla þetta óáþreifanlega fyrirbæri, huga, tilfinningar, minni, … Burðarvirki sem heldur húsi persónuleikans saman, heldur því uppi, samt ósýnilegt eins og góð járnabinding í veggjum. – Þú sprettur eins og grasið. (Sigurður Pálsson, Bernskubók, bls. 138)

 

Fyrirsögn þessa pistils er tilvísun í eitt barnabarna minna. Hún er þriggja ára (bráðum fjögurra) og, líkt og flest börn á þessum aldri, sólgin í sögur. Býr í útlöndum en dvaldi um skeið hjá afa og ömmu í sumar. Fékk að venju hafragraut (afagraut) á morgnana. Þegar grauturinn var kominn á borðið, og hún tilbúin með skeiðina, sagði hún undantekningarlaust: „Afi, segðu mér sögu!“ Ég brást auðvitað vel við. Spurði kannski fyrst hvort ég ætti að segja söguna af stráknum sem fauk út í veður og vind (af því að hann borðaði ekki hafragrautinn sinn) eða mér þegar ég var lítill og fékk að fara á sjó með pabba og veiddi stóra fiskinn eða kannski hvalnum sem kom að landi þar sem við (sú litla, amma og ég) vorum að tína skeljar í fjörunni. Hún valdi og fór svo að borða grautinn og hlusta á afa í leiðinni. Gerði hún sig líklega til að hætta í miðju kafi hætti ég að segja frá og gaf merki með þremur fingrum en það þýðir „þrjár skeiðar af graut áður en ég held áfram“. Óbrigðult trix sem ég kem hér með á framfæri við aðra afa og ömmur (foreldrar mega ekki vera að því að segja börnum sögur með hafragraut). Lesa meira…

Læsi og hugsun: Tvær hliðar á sömu mynt?

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Oft er þeirri skoðun haldið á lofti að skólar ættu að leggja meiri áherslu á að kenna hugsun og þá sérstaklega gagnrýna hugsun. Nemendur væru þá ekki einasta að tileinka sér einhverja þekkingu heldur líka færni sem „ger[ir] nemendur hæfari að takast á við margvísleg viðfangsefni og leysa verk sín vel af hendi“ eins og Páll Skúlason heitinn orðar það í grein sem hann skrifaði árið 1987 og ber yfirskriftina Er hægt að kenna gagnrýna hugsun? Gagnrýnin er sú hugsun, skrifar Páll …

… sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Með öðrum orðum: gagnrýnin hugsun leitar að nýjum og betri rökum fyrir skoðunum sínum og hugmyndum og er þar af leiðandi sífellt að endurskoða þær. (Bls. 70). Lesa meira…

Hvað er hvað og hvað þarf til?

í Greinar


Guðbjörg R. Þórisdóttir

 

Nú eru liðin um tvö og hálft ár frá því að sveitarfélög og ríki gerðu með sér Þjóðarsáttmála um læsi en á þessum tíma hafa ýmsar aðgerðir og verkefni litið dagsins ljós. Sveitarfélög hafa mörg hver sett sér læsisstefnu, skólar hafa hrundið af stað metnaðarfullum áætlunum til að bæta læsi nemenda sinna og bókasöfn hafa hugað enn betur að ungum viðskiptavinum sínum svo dæmi séu tekin. Læsisverkefni Menntamálastofnunar hefur átt farsælt samstarf við fjölda stofnana og félagasamtaka og er það einkar ánægjulegt hve margir hafa lýst sig reiðubúna að leggja hönd á plóg við að bæta læsi íslenskra barna. Að öðrum ólöstuðum hefur samstarfið við Ríkisútvarpið verið einkar gjöfult en verkefnið Sögur hefur teygt anga sína víða og er nú svo komið að mynduð hafa verið regnhlífarsamtökin Sögur-barnamenning á Íslandi. Aðilar að þeim eru Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, Borgarleikhúsið, Borgarbókasafnið, Barnamenningarhátíð, IBBY, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Reykjavíkurborg, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Miðja máls og læsis, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Útvarpsleikhúsið. Læsisverkefnið hefur einnig átt samstarf við fræðimenn innan háskólasamfélagsins, Kennarasamband Íslands, Samtök fagfólks á almenningsbókasöfnum, Félag fagfólks á skólasöfnum og Heimili og skóla en þessi listi er ekki tæmandi. Gunnar Helgason, rithöfundur og formaður SÍUNG, hefur nýlokið ferð sinni til grunnskóla á Austurlandi á vegum verkefnisins þar sem hann kynnti m.a. gildi læsis og mikilvægi þess að vera duglegur að lesa. Fleiri slík verkefni munu líta dagsins ljós á komandi hausti. Lesa meira…

Fara í Topp