Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

lestur

Lesfimi, að lesa hratt eða lesa vel? Viðtal við dr. Jan Hasbrouck.

í Viðtöl

Auður Soffíu Björgvinsdóttir ræðir við dr. Jan Hasbrouck

Dr. Jan Hasbrouck er fræðikona og ráðgjafi í menntamálum og sérfræðingur í læsisfræðum. Dr. Hasbrouck starfaði sem læsissérfræðingur og ráðgjafi í 15 ár en hóf svo kennslu við Háskólann í Oregon (University of Oregon) og gegndi síðar stöðu prófessors við Texas A&M University. Síðustu ár hefur Jan starfað sem ráðgjafi og sérfræðingur bæði fyrir opinbera aðila og sjálfstætt gegnum fyrirtæki sitt JH Educational Services sem hún starfrækir frá Seattle þar sem hún býr. Sérþekking Jan á sviði læsis snertir einkum lesfimi, mat á lestri og lestrarkennslu.

Jan Hasbrouck hefur skrifað fjölda fræðigreina og bækur um læsi. Þeirra á meðal er Conquering Dyslexia (2020) sem kennd hefur verið við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Í janúar á þessu ári kom út bókin Climbing the Ladder of Reading and Writing: Meeting the Needs of ALL Learners sem hún skrifar og ritstýrir með Nancy Young. Sú bók verður án efa góð viðbót við kennsluefni á Menntavísindasviði en í henni er fjallað um hvernig mæta megi þörfum og efla lestrarfærni fjölbreytts nemendahóps, hvort sem nemendur glíma við áskoranir eða veitist lestrarnámið auðvelt og þurfa frekari áskoranir. Grunnurinn að bókinni liggur í Lestrar og ritunarstiganum eftir Nancy Young, sem þýddur hefur verið á íslensku með leyfi höfundar. Lesa meira…

SKÓLASLIT – einstök lestrarupplifun

í Greinar

Kolfinna Njálsdóttir, Heiða Ingólfsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir

Á þessu skólaári höfum við unnið að þróunarverkefninu Skólaslitum sem lýkur formlega nú í vor. Okkur langar að deila með ykkur sögu verkefnisins þar á meðal kveikjunni og hvað við höfum lært af verkefninu hingað til. Að verkefninu standa grunnskólar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt kennsluráðgjöfum, félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar. Á vefsíðu verkefnisins www.skolaslit.is var sett inn allt efni sem tengdist verkefninu og var vefurinn öllum opinn. Að auki var netfangið skolaslit(hja)gmail.com nýtt til að koma upplýsingum til annarra skóla og taka við spurningum nemenda, kennara og annarra sem sýndu verkefninu áhuga. Í gegnum netfang verkefnisins tengdust grunnskólar um allt land og töldum við rúmlega hundrað skóla sem tóku þátt í verkefninu að hluta til eða öllu leyti. Hluti þessarar greinar hefur áður birst í Víkurfréttum, bæjarfjölmiðli á Suðurnesjum.

Markmið Skólaslita voru að búa til nýstárlega lestrarupplifun í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson rithöfund, læra af drengjum, hlusta á þá og fá innsýn í hugarheim þeirra og hugmyndir varðandi nálgun á lestri og öflun og úrvinnslu upplýsinga. Einnig var markmiðið að auka áhuga þeirra á lestri með fjölbreyttri nálgun og með áherslu á áhugahvetjandi og merkingabær verkefni. Auk þess vildum við vinna með viðhorf kennara til drengja og lesturs og opna huga þeirra gagnvart ólíkum leiðum til öflunar upplýsinga og þekkingarsköpunar. Enn fremur vildum við gefa feðrum tækifæri til aukinnar þátttöku í lestrarnámi drengja og kanna viðhorf þeirra til lesturs. Lesa meira…

Lestrarlíkanið DRIVE: Aðgengileg sýn á margslungið eðli lestrar

í Greinar

Auður Björgvinsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir

 

Sumarið 2019 birtust tvær greinar í The Reading Teacher þar sem fjallað er um svokallað DRIVE líkan. Höfundar greinanna eru Kelly B. Cartwright og Nell K. Duke en þær hafa báðar verið mjög virkar á sviði lestrarrannsókna og eru meðal virtustu fræðimanna í Bandaríkjunum á sviði læsis. Í fyrri greininni fjalla höfundar líkansins um líkanið sjálft en með því er gerð tilraun til að draga upp einfalda mynd af þeim fjöldamörgu margslungnu og samofnu þáttum sem leiða til árangursríks lestrar. Í seinni greininni fjalla þeir um kennslufræðilegt gildi og áhrif sem líkanið kann að hafa á stefnumörkun varðandi lestrarkennslu. Guðbjörg R. Þórisdóttir og Auður Björgvinsdóttir, læsisráðgjafar hjá Menntamálastofnun, fengu leyfi hjá höfundum og Alþjóðlegu læsissamtökunum (International Literacy Association) til að nýta efni beggja greinanna þar sem þær töldu að efni þeirra geti varpað ljósi á hið flókna ferli og aðgerðir sem lestur felur í sér. Jafnframt fékkst leyfi til að útbúa nýja skýringarmynd byggða á líkaninu sem getur nýst við að útskýra lestrarferlið fyrir fagfólki, foreldrum og nemendum. Lesa meira…

Hið ljúfa læsi á viðsjárverðum tímum

í Ritdómar

Baldur Sigurðsson

 

Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Akureyri: Höfundur.

Síðastliðið haust (2019) sendi Rósa Eggertsdóttir frá sér bókina Hið ljúfa læsi, Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa er mörgum kennurum að góðu kunn því hún er höfundur Byrjendalæsis, leiðbeininga um læsiskennslu í 1. og 2. bekk, sem um það bil helmingur grunnskóla á Íslandi hefur tekið upp. Byrjendalæsi (BL) má kalla hugmyndafræði um læsiskennslu, eða kennsluhætti, fremur en kennsluaðferð, þar sem BL snýst um að beita mörgum og fjölbreyttum kennsluaðferðum í læsiskennslu byrjenda, en á samvirkan hátt og innan ákveðins ramma eða skipulags, þannig að bæði nemendur og kennarar séu meðvitaðir um hvað þeir eru að gera hverju sinni.

Með hugtakinu læsi er ekki átt við að vera læs í þeim skilningi að geta tæknilega stautað sig gegnum texta. Hugtakið læsi í bók Rósu snýst fyrst og fremst um lesskilning, sem margir fræðimenn og alþjóðleg samtök líkt og UNESCO hafa stuðst við (Baldur Sigurðsson, [2013]): Í stuttu máli má segja að læsi snúist um að geta skilið og notað ritað mál (lesið og skrifað) sjálfum sér til gagns og gleði, skilnings og sköpunar. Lesa meira…

Hvað er hvað og hvað þarf til?

í Greinar


Guðbjörg R. Þórisdóttir

 

Nú eru liðin um tvö og hálft ár frá því að sveitarfélög og ríki gerðu með sér Þjóðarsáttmála um læsi en á þessum tíma hafa ýmsar aðgerðir og verkefni litið dagsins ljós. Sveitarfélög hafa mörg hver sett sér læsisstefnu, skólar hafa hrundið af stað metnaðarfullum áætlunum til að bæta læsi nemenda sinna og bókasöfn hafa hugað enn betur að ungum viðskiptavinum sínum svo dæmi séu tekin. Læsisverkefni Menntamálastofnunar hefur átt farsælt samstarf við fjölda stofnana og félagasamtaka og er það einkar ánægjulegt hve margir hafa lýst sig reiðubúna að leggja hönd á plóg við að bæta læsi íslenskra barna. Að öðrum ólöstuðum hefur samstarfið við Ríkisútvarpið verið einkar gjöfult en verkefnið Sögur hefur teygt anga sína víða og er nú svo komið að mynduð hafa verið regnhlífarsamtökin Sögur-barnamenning á Íslandi. Aðilar að þeim eru Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, Borgarleikhúsið, Borgarbókasafnið, Barnamenningarhátíð, IBBY, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Reykjavíkurborg, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Miðja máls og læsis, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Útvarpsleikhúsið. Læsisverkefnið hefur einnig átt samstarf við fræðimenn innan háskólasamfélagsins, Kennarasamband Íslands, Samtök fagfólks á almenningsbókasöfnum, Félag fagfólks á skólasöfnum og Heimili og skóla en þessi listi er ekki tæmandi. Gunnar Helgason, rithöfundur og formaður SÍUNG, hefur nýlokið ferð sinni til grunnskóla á Austurlandi á vegum verkefnisins þar sem hann kynnti m.a. gildi læsis og mikilvægi þess að vera duglegur að lesa. Fleiri slík verkefni munu líta dagsins ljós á komandi hausti. Lesa meira…

Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð

í Ýmsar fréttir

Nýlega kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð. Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknar á Byrjendalæsi sem staðið hefur undanfarin ár. Að rannsókninni stóð hópur rannsakenda af hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ásamt sjálfstætt starfandi fræðimönnum. Verkefnisstjóri rannsóknarinnar var Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild HA og ráðgjafi rannsóknarhópsins var dr. Sue Ellis, prófessor við University of Strathclyde í Glasgow. Ritstjórar bókarinnar eru Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson. Lesa meira…

Hversu hratt er nógu hratt? – Tengsl lestrarhraða, lesfimi og lesskilnings

í Greinar

Rannveig Oddsdóttir

 

Hraðapróf og hraðaviðmið hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarin misseri eftir að Menntamálastofnun gaf út ný lesfimipróf fyrir grunnskólanemendur og viðmið um raddlestrarhraða fyrir alla árganga grunnskóla. Helstu rökin fyrir því að prófa lestrarhraða barna reglulega allt frá upphafi formlegs lestrarnáms og til loka grunnskólagöngu, eins og lagt er til í leiðbeiningum með nýútkomnum lesfimiprófum, eru þau að rannsóknir hafa sýnt að lestrarhraði tengist mörgum öðrum mælingum á læsi svo sem lesskilningi. En hvað mæla hraðlestrarpróf í raun og hversu gott tæki eru þau til að fylgjast með framvindu læsis grunnskólabarna? Í þessari grein er reynt að svara þeirri spurningu. Fjallað er um það hvað lesfimi felur í sér, hvernig lestrarhraði og lesfimi tengist lesskilningi, hvernig meta má lesfimi og hvernig mat gagnast annars vegar til að fá upplýsingar um stöðu ákveðinna hópa og hins vegar til að styðja við nám nemenda. Lesa meira…

Að ljá textum merkingu

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Í þættinum Blaðað í sálmabókinni  hinn 5. október síðastliðinn segir umsjónarmaðurinn, Una Margrét Jónsdóttir, frá því hvernig hún sem barn skildi eða öllu heldur misskildi aðra ljóðlínuna í öðru erindi sálmsins Ó, Jesú bróðir besti:

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái‘ að spilla.

Þegar Una Margrét var barn voru blandaðir ávextir í dós, stundum nefndir „kokteil ávextir“, afar vinsælir enda nýmæli þá hér á landi. Þegar hún söng „og góðan ávöxt bera“ sá hún sjálfa sig bera fram þessa ávexti í fallegri skál. Þannig túlkaði hún ljóðlínuna. Lesa meira…

Læsi á 21. öld

í Greinar

Ragnar Þór Pétursson

„Lestrarefling og lestrarátök verða aldrei neitt af viti ef látið er nægja að líta á lestur sem hindrunarhlaup þar sem höltu þátttakendurnir eru sendir til sjúkraþjálfara við fyrstu hrösun og æðsta takmarkið er að hlaupa eins hratt og maður getur.“ segir Ragnar Þór Pétursson meðal annars í þessum pistli þar sem hann ræðir um læsi á 21. öld frá ýmsum hliðum. Greinin byggir á erindi sem hann hélt fyrir kennara í Borgarbyggð á endurmenntunardögum þeirra nú í ágúst.


 

Lesa meira…

Fara í Topp