Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Áratugur í ráðuneyti – upprifjun námstjóra í náttúrufræði

í Greinar

Þorvaldur Örn Árnason

 

Ég starfaði í rúman áratug sem námstjóri í skólarannsókna- og skólaþróunardeild menntamálaráðuneytisins, fyrst í Ingólfsstræti 5, síðan í Skipholti 49 og síðustu árin í hvíta húsinu við Sölvhólsgötu 4, sem upphaflega var aðsetur Sambands íslenskra samvinnufélaga og hét þá deildin grunnskóladeild.

Ég er líffræðingur að mennt. Lærði við Háskóla Íslands og Háskólann í Þrándheimi. Útskrifaðist sem Cand. real frá Þrándheimi 1977 og hafði að auki tekið eins misseris diplómnám í umhverfisfræði, fyrsta árið sem það var kennt. Ég sérhæfði mig í gróðurrannsóknum, einkum uppgræðslu, og vann við það á Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) á Keldnaholti á námsárunum og tæp tvö ár eftir útskrift, auk stundakennslu við Háskóla Íslands, Kennaraháskólann, Víghólaskóla og MH. Flutti svo til Ísafjarðar og kenndi þar við Menntaskólann 1979–1982. Á þeim árum tók ég kennsluréttindanám við Háskóla Íslands þar sem meðal kennara voru Ólafur Proppé og  Hrólfur Kjartansson, sem báðir urðu samstarfsmenn eftir að ég hóf störf sem námstjóri haustið 1982. Þegar ég var að flytja frá Ísafirði sendi ég nokkrum bréf, þar á meðal Hrólfi Kjartanssyni, og spurðist fyrir um kennarastarf í Reykjavík. Hann réð mig sem námstjóra í ráðuneytið!

Hrólfur Kjartansson og greinarhöfundur á góðri stund á skólaþróunardeildarárunum. Mynd: Guðni Olgeirsson.

Það hófst nýr kafli í lífi mínu í skólarannsóknadeildinni haustið 1982. Þar reyndi m.a. á félagsvísindi sem ég hafði lítið af að segja nema í kennsluréttindanáminu, utan hvað ég hef alltaf haft mikinn áhuga á félagsmálum. Ég tók við námstjórastarfinu af Hrólfi Kjartanssyni sem þá gerðist aðstoðardeildarstjóri við hlið Harðar Lárussonar. Ég tók við búi Hrólfs Kjartanssonar, en hann hafði nokkru áður tekið við tveimur störfum; námstjóra í eðlis- og efnafræði sem Örn Helgason hóf upp úr 1970 og Ólafur Guðmundsson gegndi síðan hátt í áratug; og námstjóra í líffræði sem Reynir Bjarnason hóf til vegs og virðingar á 8. áratugnum uns hann lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram.

Eitt af verkefnunum fyrstu mánuðina var að fara í gegnum yfirfullar bókahillur á skrifstofunni og lesa, flokka og grisja. Annars fólst starfið í að fylgjast með náttúrufræðikennslu í skólum landsins, semja og endurskoða námsefni og leiðbeiningar fyrir kennara, ritstýra námsefnisgerð, leiðbeina við útvegun sérðhæfðra kennslutækja og við skipulag sérstakra náttúrufræðistofa í skólum og halda kynningar, erindi og jafnvel námskeið fyrir kennara. Einnig að kynna námsgreinina út á við, m.a. í fjölmiðlum. Fjölbreytt starf og krefjandi!

Hinn nýi og lítt reyndi námstjóri réð því aðeins við þetta allt vegna þess að námstjórarnir unnu þétt og vel saman þó þeir væru hver á sínu sviði, hver með sína námsgrein. Haldnir voru vikulegir námstjórafundir þar sem æði mörg mál voru krufin, þvert á námsgreinar – en eðlilega fannst hverjum námstjóra sinn fugl fagur og gætti þess að ekki hallaði á. Starfsandinn var góður, mikið formlegt og óformlegt samstarf, góð starfsmannateiti spilltu ekki. Þegar eitt slíkt teiti var að hefjast eftir vinnu í Skipholti kom deildarstjórinn, Hrólfur Kjartansson, með þennan texta til að syngja við lagið „Vestast í Vesturbænum“:

 Nú hækkar sól á lofti og lengja tekur dag,
nú langar mig að syngja og yrkja um það brag
hve gaman er að eta og drekk´og skemmta sér.
Syngjum og skálum
svælum í oss ljúfmeti.
Kvalræði kálum,
kæstu nú með mér.

Skólarannsóknadeildin var frá upphafi mjög sjálfstæð ráðuneytisdeild og ég hafði sem námstjóri lítið af ráðherrum að segja. Ragnhildur Helgadóttir sýndi starfi námstjóra í náttúrufræði þó áhuga. Hún vildi fá öflugri mann til að sinna því og ákvað að endurnýja ekki ráðningasamning við mig þegar hann rann út 1984, en námstjórar voru ráðnir til eins eða tveggja ára í senn. Þegar sá sem hún vildi fá í starfið afþakkaði, bauð hún mér starfið aftur – samdægurs. Alls voru fimm menntamálaráðherrar þann áratug sem ég gegndi starfi námstjóra, Vilhjámur á Brekku, Ragnhildur Helgadóttir, Sverrir Hermannson, Birgir Ísleifur Gunnarsson og Svavar Gestsson. Eftir að Svavar tók við ráðherradómi fór að rigna yfir mig erindum og hann leiðrétti málfar og stafsetningu í svörum sem ég skrifaði – enda reyndur ritstjóri – og ofvirkur í samanburði við þá ráðherra sem á undan honum voru.

Starf námstjórans breyttist talsvert á þessum áratug. Fyrstu þrjú árin vóg námsefnisgerð þungt en hún var síðan flutt yfir til Námsgagnastofnunar. Um tíma gaf ég Námsgagnastofnun ráð, einkum við útvegun og flokkun sérhæfðra kennslutækja og tók þátt í uppbyggingu kennslumiðstöðvar sem Ingvar Sigurgeirsson dreif af stað af miklum krafti. Námstjórinn stýrði ýmsum vinnuhópum; um námsefnisgerð, um ólík svið náttúrufræðikennslu (heilbrigði, kynfræðslu, náttúruvernd, umhverfi …) og um gerð námskrár, einkum kaflans um náttúrufræði (eðlis-, efna- og líffræði), umhverfismennt og fleira. Aðalnámskráin sem kom út 1989 var nokkur ár í vinnslu og báru námstjórar hita og þunga þess verks. Þar tókst að smala grunnskólanámskránni saman í eina bók, en hún hafði verið í ólíkum heftum í nærri tvo áratugi. Má það teljast afrek.

Nafn skólarannsóknadeildar breyttist í skólaþróunardeild um það leyti sem hún var flutt úr Ingólfsstræti í Skipholtið 1985. Í því fólst lítil breyting, enda hafði skólarannsóknadeild frá upphafi fengist meira við skólaþróun en skólarannsóknir. Veruleg breyting varð á starfseminni um 1990 þegar allt menntamálaráðuneytið flutti undir eitt þak í Sambandshúsið við Sölvhólsgötu og skólaþróunardeild var sameinuð grunnskóladeild. Við það jókst áherslan á eftirlit og dró úr ráðgjöf við skólana, enda skyldi þeim þætti sinnt í fræðsluskrifstofum hvers landshluta og í Kennaraháskólanum.

Það háði nokkuð námstjóra sem aðallega skyldi sinna grunnskólastiginu að vera með meiri kennslureynslu í framhaldsskóla og háskóla heldur en í grunnskóla. Til að bæta þar úr og til að fjarlægjast ekki um of grasrótina í skólunum kenndi ég í fjögur ár stundakennslu, sex stundir í viku, fyrst á miðstigi í Vesturbæjarskóla, síðar á unglingastigi í Ölduselsskóla, og kom það sér á margan hátt vel.

Tvö síðustu árin, 1990–1992 var ég námstjóri í umhverfismennt. Í því fólst áherslubreyting. Umhverfismennt var allan tímann gildur þáttur í náttúrufræði en var skilgreind þvert á námsgreinar í aðalnámskránni 1989 og skyldi nú vera aðalviðfangsefni mitt, en ég sinnti þó náttúrufræði áfram sem aukabúgrein. Stærsta einstaka verkefnið var að halda norrænu kennararáðstefnuna Miljö-91, sem fór fram í Háskólabíói, Hagaskóla og Melaskóla þrjá daga í júní 1991 með tæplega 1000 þátttakendum frá öllum Norðurlöndunum. Ég var formaður undirbúningsnefndar en Sigurlín Sveinbjarnadóttir, áður námstjóri í dönsku, var að auki ráðin sem framkvæmdastjóri í nokkra mánuði.

Þegar ráðningarsamingur námstjóra í umhverfismennt rann út sumarið 1992 var starfið lagt niður, ásamt fleiri námstjórastöðum. Ég var í lausamennsku næsta ár á eftir (þar til ég fór að kenna við Fjölbrautaskóla Suðurnesja haustið 1993) og fékkst m.a. við að skrifa leiðbeinandi rit um umhverfismennt. Þar vann ég úr gögnum og nýtti reynslu mína úr námstjórastarfinu og naut nokkurs styrks til þess frá mennntamálaráðuneytinu. Ritið Umhverfismennt kom svo út 1998 og er nú vistað hér á þessari slóð: https://issuu.com/umhverfismal/docs/umhverfismennt_jan_2012


Höfundur er líffræðingur og kennari í grunn- og framhaldsskóla, kominn á eftirlaun. Kenndi síðustu 16 árin við Stóru-Vogaskóla. Gegndi starfi námstjóra í náttúrufræði og umhverfismennt 1982-1992.


Aftur á aðalsíðu


image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp