Í þessari grein segir Helgi Skúli Kjartansson frá aðdraganda að stofnun skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins. Greinin byggir á erindi sem hann flutti á ráðstefnunni Skólaumbætur í deiglu sem haldin var í Húsi Vigdísar þann 12. maí 2018. Ráðstefnunni var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966-1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Erindin sem flutt voru á ráðstefnunni má flest finna á þessari slóð: https://skolathraedir.is/2019/02/27/skolaumbaetur-i-deiglu/

Helgi Skúli Kjartansson
Fyrirferðarlítið ráðuneyti[1]
Orðin menntamálaráðherra og kennslumálaráðherra notuðu íslensku blöðin lengi vel einkum um erlenda ráðamenn. Um Íslendinga sjást þau örsjaldan fyrr en í ráðherratíð Jónasar Jónssonar frá Hriflu (1927–31), en hann var sá sem fyrstur beitti ráðherravaldinu til að framfylgja ákveðnum sjónarmiðum í menntamálum. Jafnvel Jónas er þó sjaldan titlaður þannig, miklu oftar dómsmálaráðherra eða dóms- og kirkjumálaráðherra, enda var það hans formlegi ráðherratitill, og Dómsmálaráðherrann heitir það bindi í ævisögu Jónasar sem fjallar um ráðherratíð hans.[2]
Stjórnarráðið skiptist, allt frá 1904, í þrjár skrifstofur, síðar nefndar deildir en frá 1921 ráðuneyti: fjármálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti (eða atvinnu- og samgöngumála-) og dómsmálaráðuneyti (eða dóms- og kirkjumála-). Ráðherrar höfðu frá 1917 jafnan verið þrír, hver yfir sínu ráðuneyti. Einn þeirra var jafnframt forsætisráðherra og tilheyrði honum frá 1927 sérstök skrifstofa í stjórnarráðinu. Frá 1939 voru ríkisstjórnir fjölmennari og þá óhjákvæmilegt að skipting málefna milli ráðherra viki frá verkaskiptingu ráðuneytanna, en slíkt hafði raunar tíðkast allt frá 1932. Þá bar við að „kennslumál“ kæmu í hlut atvinnumálaráðherra (Haralds Guðmundssonar 1934–38, Magnúsar Jónssonar 1942). Við stjórnarmyndun 1942 hurfu þau aftur til dómsmálaráðherra (Einars Arnórssonar) en þá var hann nefndur „dómsmála- og kennslumálaráðherra“ eða „dóms- og menntamálaráðherra“[3] Voru menntamálin þó afgreidd í dómsmálaráðuneytinu eins og verið hafði án þess að heyra þar undir neina sérstaka skrifstofu eða starfsfólk. Í næstu stjórn, „nýsköpunarstjórninni“ 1946–47, var í fyrsta sinn sérstakur menntamálaráðherra, Brynjólfur Bjarnason, og fór hann ekki með önnur mál. Þar sem Brynjólfur hafði ekkert starfslið í stjórnarráðinu varð að ráði að Birgir Thorlacius, fulltrúi í forsætisráðuneytinu (eins og þá var farið að kalla skrifstofu forsætisráðherra), skyldi annast afgreiðslu á málum Brynjólfs, þótt þau féllu eftir sem áður undir dómsmálaráðuneytið. Var bætt við fólki hjá forsætisráðuneytinu, bæði fulltrúa og ritara, gagngert til að vinna með Birgi að þeim málum.[4] Var þar með orðinn til óformlegur vísir að menntamálaráðuneyti innan forsætisráðuneytisins.
Sumarið 1947, þegar Eysteinn Jónsson hafði tekið við starfi menntamálaráðherra, var afgreiðsla menntamálanna flutt alveg yfir í forsætisráðuneytið og var eftir það talað um sérstakt menntamálaráðuneyti. Þó var skrifstofa þess og starfslið sameiginlegt með forsætisráðuneytinu, Birgir Thorlacius yfirmaður þeirra beggja (sem „skrifstofustjóri“, þ.e. ráðuneytisstjóri eins og það hét síðar).
Fræðslumálastjóri[5]
Undir dómsmálaráðuneytið höfðu frá upphafi heyrt kirkjumál, heilbrigðismál og menntamál. En stjórnsýsla í þeim málaflokkum var einnig á höndum sérstakra stofnana eða embætta: biskups, landlæknis og fræðslumálastjóra.[6] Þessir embættismenn voru í senn oddvitar sinna fagstétta: presta, lækna, barnakennara – og sérfræðingar landstjórnarinnar, jafnframt því að annast, með starfsliði sínu, eftirlit og daglega stjórnsýslu hver á sínu sviði. Þegar til stóð að fjölga ráðherrum úr einum í þrjá hafði einmitt komið fram það sjónarmið að fagráðherrar væru óþarfir við hlið þessara embættismanna:
Menntamálaráðherra er til í raun réttri – fræðslumála-Jón okkar Þórarinsson. Hann starfar það sem kennslumálaráðherra mundi sjá um, ásamt biskupi.[7]
Jón hafði verið fyrsti fræðslumálastjórinn, síðan Ásgeir Ásgeirsson (alþingismaður, ráðherra og síðast forseti) 1926–38, frá 1939 til 1944 Jakob Kristinsson (áður prestur og skólastjóri), en upp frá því Helgi Elíasson. Hann var áður skrifstofustjóri hjá þeim Ásgeir og Jakobi, og staðgengill þeirra, m.a. þau þrjú ár sem Ásgeir var ráðherra.
Lög voru sett 1930, að frumkvæði Jónasar menntamálaráðherra, „um fræðslumálastjórn“. Tilgangur þeirra var einkum að koma á samræmdu eftirliti með barnaskólum landsins, en um leið að lögfesta skipulag fræðslumála, sérstaklega „að aukið sé valdsvið fræðslumálastjóra,“ eins og Jónas sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu. Í lögunum er heitið fræðslumálastjórn notað um yfirstjórn fræðslumálanna, jafnt ráðherra og ráðuneyti sem fræðslumálastjóra.[8] Á næsta þingi voru hins vegar samþykkt fjárlög þar sem heitið fræðslumálastjórn er notað um embætti fræðslumálastjóra eitt og sér.[9] Ekki birtist það þar sem umfangsmikil stofnun, heildarútgjöld tæp 15 þúsund krónur, meirihluti þeirra laun fræðslumálastjórans. Þúsund krónur eru ætlaðar „til eftirlitsferða“, þ.e. kostnaðar við heimsóknir reyndra kennara til barnaskóla landsins, lítilræði til útgáfukostnaðar, og skrifstofukostnaður má nema allt að 5000 krónum – borið saman við 2000 krónur hjá hvorum, landlækni og biskupi, en 8000 hjá vegamálastjóra. Í fjárlögum fyrir 1938 er skrifstofukostnaður fræðslumálastjórnar ætlaður tvöföld laun fræðslumálastjóra; þá hefur Ásgeir sem sagt átt að hafa ráð á meira starfsliði en Helga Elíassyni einum.
Töluverð ábyrgð var þeim einnig falin, kannski þeim mun fremur sem staða menntamálanna var óljósari í stjórnarráðinu sjálfu og „fræðslumálastjórnin“ lítið annað en skrifstofa fræðslumálastjóra. Til dæmis má nefna íþróttalögin frá 1939, sett að frumkvæði forsætisráðherra, Hermanns Jónassonar, sem einnig var dómsmálaráðherra og hafði tekið við menntamálunum þegar Haraldur Guðmundsson lét af ráðherradómi. Í frumvarpi til laganna segir: „Kennslumálaráðherra hefir yfirumsjón allra íþróttamála að því leyti er ríkið lætur þau til sín taka.“ Meirihluti menntamálanefndar neðri deildar (þar á meðal Ásgeir Ásgeirsson, til skamms tíma fræðslumálastjóri) lagði til breytingu sem Alþingi samþykkti: í stað „kennslumálaráðherra“ kæmi „fræðslumálastjórnin“ og samsvarandi breytingar víða í frumvarpinu. Vissulega gat ráðherra sagt fræðslumálastjóra fyrir verkum. En fræðslumálastjóri þurfti ekki að leita til ráðherra um það sem hann treysti sér til að taka ábyrgð á sjálfur.
Fræðslumálastjórn allt í öllu
Fimmti áratugurinn var tími uppstokkunar í íslenskum skólamálum. Nýtt skólakerfi var lögfest 1946, ásamt lagabreytingum um einstök skólastig og skólagerðir, og tók upp undir áratug að hrinda breytingunum að mestu leyti í framvæmd. Auk þess var lögum um Kennaraskólann breytt tvívegis, fyrst 1943, einkum til þess að lengja kennaranámið. Fræðslumálastjóri hafði frumkvæði að lagabreytingunni, fól skólastjóra Kennaraskólans að semja frumvarp til nýrra laga um skólann, samdi með því greinargerð og fékk menntamálanefnd neðri deildar til að flytja frumvarpið svo búið. Þar segir m.a.: „Fræðslumálastjórnin hefur á hendi yfirumsjón skólans og setur honum reglugerð.“ Þetta var eitt þeirra ákvæða frumvarpsins sem, samkvæmt greinargerðinni, „þurfa engra skýringa við,“ enda var það samþykkt óbreytt. Víðtækari lög um kennaramenntun voru sett 1947. Þar er „fræðslumálastjórn“ nefnd 30 sinnum, ýmist falið að meta hluti, taka ákvarðanir eða setja reglur. Ráðherra bregður fyrir á einum stað í lögunum (falið að skipa formann nefndar) og ráðuneytinu aldrei.
Þetta víðtæka vald fræðslumálastjórnar er mjög í stíl við fræðslulögin frá árinu áður. Þar birtist hún sem hið raunverulega yfirvald á sínu sviði, með vald í stóru og smáu. Í lögunum um húsmæðrafræðslu er henni t.d. falin „yfirstjórn húsmæðrafræðslunnar“ með heimild til að ráða sérstakan námstjóra til umsjónar með henni. Fræðslumálastjórn skal staðfesta reglugerð hvers húsmæðraskóla; hún þarf að samþykkja staðarval nýrra skóla og uppdrátt að skólahúsi og skal meta hvort skólinn hafi nægilegt land til umráða. Hún setur skólastjóra og skólanefnd erindisbréf og skipar formann skólanefndar. Hún ákveður húsaleigu nemenda og sker úr ef sveitarfélög koma sér ekki saman um skiptingu kostnaðar. Hún þarf að samþykkja ef húsmæðraskóli vill bjóða tveggja ára nám, reka skólabú, fjölga eða fækka námsgreinum eða fastráða kennara sem uppfyllir ekki hæfisskilyrði, og svo mætti áfram telja.
„Fræðslumálastjórn,“ það getur, eins og fyrr segir, táknað bæði ráðherra og ráðuneyti. En þó fyrst og fremst embætti fræðslumálastjóra. Þar voru málin a.m.k. unnin og undirbúin, líka þau sem endanlega voru afgreidd í stjórnarráðinu. Það er glöggur vitnisburður um verkaskiptinguna að stjórnarráðsfulltrúinn, sem ráðinn var til að sinna menntamálum með Birgi Thorlacius, var tveim árum síðar kominn á skrifstofu fræðslumálastjóra.[10]
Löggjöfina nýju undirbjó milliþinganefnd í skólamálum, skipuð 1943 „til þess að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera tillögur um skipun þeirra.“ Kemur ekki á óvart að formaður hennar var Jakob fræðslumálastjóri. Þegar hann lét af störfum skömmu síðar kom eftirmaður hans, Helgi Elíasson, inn í nefndina, að vísu ekki sem formaður, en þó mótaðist sú venja að Helgi ritaði undir bréf frá nefndinni ásamt formanni.
Nýjum verkefnum og ríkari ábyrgð þurfti embætti fræðslumálastjóra að mæta með auknum umsvifum og mannahaldi. Í fjárlögum 1951 eru því t.d. ætlaðar 360 þúsund krónur, borið saman við 230 þúsund samanlagt til landlæknis- og biskupsembættanna og aðeins 205 þúsund hjá sjálfu forsætis- og menntamálaráðuneytinu.
Gylfi, Andri og OECD[11]
Á eftir þeim Brynjólfi og Eysteini höfðu Sjálfstæðismenn farið með menntamálin í þremur skammlífum ríkisstjórnum, nánast sem aukagetu með dóms- og utanríkismálum (Bjarni Benediktsson) eða viðskiptamálum (Björn Ólafsson). Þá kom aftur að menntamálaráðherra sem jafna má við Jónas frá Hriflu um áhuga og frumkvæði í málaflokknum en gegndi starfinu fjórum sinnum lengur: Gylfi Þ. Gíslason 1956–71. Fyrstu árin var hann „mennta- og iðnaðarmálaráðherra“ og þá ekki húsbóndi í einu ráðuneyti öðru fremur, því að iðnaðarmál heyrðu undir samgöngumálaráðuneytið. Lengst af var hann þó, ásamt menntamálunum, ráðherra viðskiptamála, en þeim fylgdi sérstakt ráðuneyti og voru líka sérsvið Gylfa, prófessors í viðskiptafræði. En svo vildi til að það voru einmitt viðskiptamálin sem gáfu honum tilefni til að taka frumkvæði á sviði skólamála.
Undir viðskiptaráðherra heyrði þátttaka Íslands í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, ekki síst á vettvangi OEEC, Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, sem 1961 breyttist í OECD, Efnahags- og framfarastofnunina. Stofnun sem við þekkjum ekki síst af PISA-prófunum sem hún stendur fyrir, en allt frá 1961 hafði hún staðið fyrir ráðstefnum og skýrslugerð um skólamál aðildarlandanna. Var þá litið á menntakerfið sem hluta af innviðum hagkerfisins, skólagöngu sem fjárfestingu til að auka verðmæti vinnuaflsins – nálgun sem nú er þekkt undir heitinu mannauðsfræði.
Árið 1966 var komið að því, sem þætti í samstarfinu við OECD, að gera „hagræna rannsókn íslenskra menntamála með tilliti til áætlanagerðar.“[12] Þá vildi Gylfi nota tilefnið til að gera ekki aðeins hagfræðilega úttekt á skólamálum landsins – sem hefði helst verið á verksviði Efnahagsstofnunar eins og skipulagi stjórnarráðsins var þá háttað – heldur efna til miklu víðtækara nýbreytnistarfs. Til þess réð hann sérfræðing, ekki til fræðslumálastjóra heldur að menntamálaráðuneytinu sjálfu.
Menntamálaráðuneytinu, sem þó var ekki nema óljós hluti af sameiginlegu forsætis- og menntamálaráðuneyti. Óljósastur hafði hlutur þess verið um 1950, eftir að fulltrúinn og ritarinn, sem unnu að menntamálum fyrir Birgi Thorlacius, hurfu frá ráðuneytinu. Síðan hafði menntamálahluti ráðuneytisins aftur farið að skýrast. Í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar hafði hann haft sérstakan aðgang að einum starfsmanni ráðuneytisins, Ásgeir Péturssyni, sem þá er farið að titla sem „deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu“. Sama titil fékk Knútur Hallsson nokkru síðar, og 1966 var í lögum um skólakostnað kveðið á um sérstaka „byggingadeild“ í menntamálaráðuneytinu.
Sérfræðingurinn í skólamálum, sem Gylfi Þ. réð 1966, var ungur sálfræðingur, Andri Ísaksson, sem ári áður hafði komið heim frá námi í Frakklandi. Tveir reyndari menn – á fertugs- og fimmtugsaldri, ekki þrítugsaldri eins og Andri – áttu að vera ráðgjafar hans. Var annar Wolfgang Edelstein, sem hafði gengið í menntaskóla á Íslandi en háskóla í Frakklandi og síðar Þýskalandi þar sem hann var sérfræðingur hjá menntavísindastofnun. Hinn var Jóhann S. Hannesson, skólameistari á Laugarvatni, sem hafði numið og starfað í Bandaríkjunum. Wolfgang hafði áður unnið ráðgjafarstörf um íslensk menntamál og átti eftir að verða áhrifaríkur ráðunautur í því starfi sem nú var að hefjast. Jóhann átti m.a. eftir að verða einn áhrifamesti mótandi fjölbrautakerfisins á framhaldsskólastigi.
Þótt verkefni Andra Ísakssonar héti „fræðileg rannsókn á skólakerfinu“ byrjaði hann á því að kynna sér viðhorf og vandamál, átti óformleg viðtöl við fólk með ábyrgð og reynslu á ólíkum sviðum fræðslumála og myndaði sér skoðun á nauðsynlegustu breytingum. Minna lá á að skipuleggja þaulkönnun á stöðunni eins og hún var; þar var svo margt sem augljóslega stóðst ekki kröfur tímans. Andri naut trúnaðar ráðherra og ráðuneytisstjóra, sat í ýmsum mikilvægustu nefndum á sviði ráðuneytisins, oft sem formaður, og varð smám saman, með ráðgjöfum sínum tveimur og aðstoðarfólki ráðnu til vissra verkefna, að raunverulegri stofnun innan ráðuneytisins, skólarannsóknadeild eins og farið var að kalla hana – meira að segja í ályktun kennarasamtaka áður en hún tók til starfa [13] – löngu áður en hún fékk það sem formlegt heiti. Vann hún þó að stefnumótun miklu fremur en rannsóknum og fljótlega um leið að sjálfri framkvæmd stefnunnar. Hafði hún þá á stundum samstarf við fræðslumálaskrifstofu Helga Elíassonar, en ekki síður við fræðsluskrifstofu Reykjavíkur undir stjórn Jónasar B. Jónssonar sem fræðslustjóra. Á hennar vegum voru þegar hafnar tilraunir með nýja kennsluhætti í tengslum við nýtt námsefni, einmitt þess háttar nýbreytnistarf sem átti eftir að verða rauður þráður í starfi skólarannsóknadeildar. Má segja að nú hafi þeir Helgi, Jónas og Andri skipt með sér því forustuhlutverki sem áður tilheyrði umfram allt fræðslumálastjóra.
Allt undir ráðuneytið
Árið 1968 var ekki aðeins ár námsmannauppreisna og nýrrar róttækni heldur kreppuár á Íslandi: síldin hrunin og verðfall á botnfiskafurðum. Ríkissjóður varð að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum. Á móti þurfti að spara og hagræða. Alþingi samþykkti lög „um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda“. Þar var ekki aðeins kveðið á um lækkun ýmissa fjárveitinga, m.a. til fræðslumálaskrifstofunnar vegna námsstjóra,[14] heldur var veitt heimild til skipulagsbreytinga til að „koma á hagkvæmari vinnubrögðum í yfirstjórn menntamála“.[15] Í þeim fólst að „fræðslumálaskrifstofan“ (án þess að nefna fræðslumálastjóra) yrði deild í menntamálaráðuneytinu, sömuleiðis Fjármálaeftirlit skóla (sjálfstæð skrifstofa samkvæmt lögum frá 1955) og Fræðslumyndasafn ríkisins (upphaflega undir fræðslumálastjóra en um skeið sjálfstæð stofnun), auk þess sem íþróttafulltrúi og bókafulltrúi yrðu starfsmenn ráðuneytisins, en þeir höfðu starfað í tengslum við fræðslumálaskrifstofuna.
Þessar breytingar voru raunar ekki líklegar til að skila miklum sparnaði á næsta fjárhagsári, enda tækju þær ekki gildi strax heldur „þegar menntamálaráðherra ákveður“, sem meðal annars ylti á húsnæðismálum ráðuneytisins. Hér er því fjármálaastandið fremur notað sem tilefni til að ákveða breytingar sem „lágu í loftinu“ og skólamenn höfðu talað fyrir um hríð.[16]
Framkvæmdin beið þar til ný lög um stjórnarráðið gengu í gildi í ársbyrjun 1970. Með þeim var menntamálaráðuneytið skilið frá forsætisráðuneytinu með sitt eigið starfslið – þar á meðal ráðuneytisstjórann, Birgi Thorlacius, og að sjálfsögðu Andra Ísaksson. Frá sama tíma taldist fræðslumálastjóri til ráðuneytisins ásamt þeim stofnunum og starfsmönnum sem lögin frá 1968 tilgreindu. Samkvæmt skipulagi ráðuneytisins, sem gilti frá og með 1971, stýrði Andri Ísaksson skólarannsóknadeild en Helgi Elíasson fræðslumáladeild, með svipaðri verkaskiptingu og þegar hafði mótast.[17] Helgi, sem var kominn undir sjötugt, hélt titli fræðslumálastjóra til starfsloka, en að hann væri oddviti skólamála í landinu, líkt og biskup eða landlæknir á sínum sviðum, það var liðin tíð. Við því hlutverki tóku þeir, hver á sinn hátt, Andri Ísaksson, Birgir ráðuneytisstjóri og ráðherra sjálfur.
Til marks um þetta má benda á tvö dæmi. Fyrst lög um skólakostnað frá 1966, en þau segja meira um starfshætti menntakerfisins og stjórnun en ætla mætti af heiti þeirra. Þar er það hvergi minnst á „fræðslumálastjórn“ heldur ævinlega menntamálaráðuneytið sem á að ákveða, samþykkja, skera úr eða setja reglur. Stöku sinnum að fenginni tillögu eða umsögn fræðslumálastjóra. Drög að lögunum voru samin af nefnd sem Helgi fræðslumálastjóri átti sæti í, en ráðherra ákvað síðan að fela þrengri hópi, undir stjórn Birgis ráðuneytisstjóra en án Helga, að fullsemja frumvarpið.
Síðan voru það grunnskólalögin, raunar ekki sett fyrr en 1974 en frumvarpið samið í ráðherratíð Gylfa Þ. Gíslasonar. Það gerði nefnd undir forustu Birgis Thorlacius. Fræðslumálastjóri átti frá upphafi sæti í nefndinni, sömuleiðis Andri Ísaksson, og þeir bættust svo við Jónas B. Jónsson og Jóhann S. Hannesson. Eftir kosningar og stjórnarskipti 1971 fól nýr menntamálaráðherra fámennari nefnd að fara yfir frumvarpið. Birgir ráðuneytisstjóri var áfram formaður og af fyrrnefndum nefndarmönnum var Andri valinn aftur, fræðslumálastjóri ekki.[18] Sem sýnir að í hinu nýja skipulagi ráðuneytisins var það skólarannsóknadeild sem bar ábyrgð á framtíðinni, fræðslumáladeildin aðeins á hinni daglegu framkvæmd.
Í þessu ágripi hef ég rakið forsögu og mótunarsögu skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins. Sjálfa starfssögu hennar (1971–84) læt ég þeim eftir sem þekkja til af eigin raun.
Heimildir
Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964, I–II. Reykjavík (Sögufélag) 1969.
Alþingistíðindi (prentuð og á vef Alþingis: https://www.althingi.is/thingstorf/leit-ad-thingmalum/thingmal/).
Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra. Reykjavík (AB) 1994.
„Fulltrúaþing F.Í.B.“. Menntamál 1966 (39. árg., 2. tbl.), bls. 159–170.
Guðmundur Friðjónsson. (1917, 27. janúar). Samsteypuráðaneyti! Norðurland, 1917 (17. árg.), 27. jan., bls. 9.
Helgi Skúli Kjartansson, „Bókvitið í askana“, í Loftur Guttormsson (ritstj.), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007 (Reykjavík, Háskólaútgáfan 2008), síðara bindi, bls. 85–98.
Hlynur Ómar Björnsson, „Tímamótin 1946: alhliða átak“, í Loftur Guttormsson (ritstj.), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007 (Reykjavík, Háskólaútgáfan 2008), síðara bindi, bls. 24–40.
Loftur Guttormsson o.fl., Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007 (Reykjavík, Háskólaútgáfan 2008), fyrra bindi.
Námsskrá fyrir nemendur á fræðsluskyldualdri. (1960). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
„Skólarannsóknir á Íslandi“ (viðtal við Andra Ísaksson). Menntamál 1966 (39. árg., 3. tbl.), 1. desember, bls. 226–230.
Skýrsla menntamálaráðherra til Alþingis 1978 um framkvæmd grunnskólalaga [o.fl.]. Reykjavík [Menntamálaráðuneytið], apríl 1978.
Stefán Júlíusson, „Hent á lofti“, Alþýðublaðið 29. október 1965, bls. 7.
Sumarliði R. Ísleifsson, „Menntamálaráðuneyti“, í Sumarliði R. Ísleifsson (ritstj.), Stjórnarráð Íslands 1964–2004, fyrra bindi, bls. 264–273.
Tímarit.is (blöð og tímarit): http://timarit.is/.
[1] Yfirlit eftir ýmsum heimildum, m.a. blaðaefni á Tímarit.is. Sjá sérstaklega: Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964. bls. 339–344 (I. bindi); Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra, bls. 46–51, 87–89.
[2] Guðjón Friðriksson, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, 2. bindi, Reykjavík (Iðunn) 1992.
[3] Orðalag úr blaðafréttum 17. desember 1942.
[4] Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964. bls. 1008 (II. bindi).
[5] Loftur Guttormsson, Almenningsfræðsla …, fyrra bindi, bls. 86–87, 112–117. Auk þess stuðst við blaðaefni og þingskjöl á vef Alþingis.
[6] Þjóðkirkjan var að vísu ekki hrein ríkisstofnun heldur starfaði hún í og með sem almannasamtök. Að því leyti má bera biskup saman við búnaðarmálastjóra eða fiskimálastjóra sem voru oddvitar félagasamtaka (Búnaðarfélagsins, Fiskifélagsins) en þó í stórum dráttum embættismenn með stjórnsýsluhlutverk, mjög breytilegt eftir tímabilum.
[7] Guðmundur Friðjónsson, “Samsteypuráðaneyti!”, Norðurland 1917 (3. tbl. 27. janúar), bls. 9.
[8] Kemur skýrast fram í greinargerð Jónasar með frumvarpinu (Alþingistíðindi 1930, A, bls. 149): „Fræðslumálastjórninni er rétt [í lagatextanum: „kennslumálaráðuneytið getur“] að fela fræðslumálastjóra fullnaðarafgreiðslu ýmsra mála.“
[9] Sú hugtakanotkun hélst þar til í fjárlögum fyrir 1944 að fjárveitingin er stíluð á „fræðslumálastjóraembættið“.
[10] Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964. bls. 1008 (II. bindi). Ritarinn, sem fyrr er nefndur, hvarf einnig frá störfum án þess að annar væri ráðinn sérstaklega vegna menntamálanna.
[11] Þessa sögu hef ég áður sagt í kaflanum „Bókvitið í askana“. Af heimildum hans má sérstaklega nefna viðtal við Andra Ísaksson, „Skólarannsóknir á Íslandi“, í Menntamálum 1946.
[12] Orðalag Andra í fyrrnefndu viðtali.
[13] „Fulltrúaþing F.Í.B.“, bls. 164.
[14] Jafnframt voru, með 5. gr. laganna, felld úr gildi ákvæði fræðslulaga um sérstaka námsstjórn fyrir einstök skólastig, skólagerðir og landshluta. Þess í stað skyldi skipuleggja námsstjórn fyrir landið í heild og einstakar námsgreinar. Þar með var mörkuð stefna sem fylgt var löngu eftir að kreppunni lauk.
[15] Orðalag úr greinargerð með lagafrumvarpinu. Um heimildina sjálfa sjá 7. gr. laganna.
[16] Sjá Stefán Júlíusson, „Hent á lofti“, og ályktun kennarasamtaka 1966 („Fulltrúaþing F.Í.B.“, bls. 164) um nákvæmlega það sem lögfest var tveim árum síðar: „að endurskipuleggja þurfi yfirstjórn fræðslumálanna með það fyrir augum að efla menntamálaráðuneytið, og verði hinar ýmsu stofnanir fræðslumálanna, eins og t. d. fræðslumálaskrifstofan og fjármálaeftirlit skóla, deildir innan þess.“
[17] Um skipulagsbreytinguna sjá Sumarliða R. Ísleifsson, „Menntamálaráðuneyti“, bls. 264–266.
[18] Skýrsla menntamálaráðherra …, bls. 7.
Helgi Skúli Kjartansson (f. 1949) er sagnfræðingur og námsefnishöfundur í sögu, prófessor emiritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, áður við Kennaraháskóla Íslands.