Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Haustþingin eru minnisstæð

í Greinar

Þórleif Drífa Jónsdóttir

 

Kæru málþingsgestir

Það er gaman að fá að vera hér í dag og rifja upp það sem gerðist fyrir löngu. Ég var svo heppin að taka þátt í þessu ævintýri og fá tækifæri til vinna með því frábæra fagfólki sem vann í Menntamálaráðuneytinu að skólaþróun, af hugsjón og lifði fyrir það sem það var að gera.

Þórir Sigurðsson, sem nú er látinnn, var námsstjóri í mynd- og handmennt, sem var samheiti yfir greinarnarnar smíði, handavinnu og myndmennt. Þórir bar hitann og þungann af því starfi sem unnið var undir merkjum mynd- og handmenntar og tengdi þessar greinar saman. Hann var frábær leiðtogi og yfirmaður.  Ég leit reyndar aldrei á hann sem yfirmann, því allt okkar samstarf byggðist á jafnréttisgrundvelli, sem þróaðist síðan í ómetanlega vináttu.

Júlíus Sigurbjörnsson, smíðakennari og ég höfðum starfsheitið kennsluráðgjafi og ég held að við þrjú höfum myndað gott  teymi sem vann mjög vel saman að ýmsum verkefnum sem tengdust mynd- og handmenntakennslu. Þórir var í fullu starfi sem námsstjóri en við Júlíus í tímavinnu.  Aðalstyrkur teymisins var að við vorum öll við kennslu í grunnskóla og þess vegna í góðum tengslum við kennara og skólastarf í landinu.

Samstarfsmenn Þórleifar Drífu á skólarannsóknardeildarárunum: Júlíus Sigurbjörnsson og Þórir Sigurðsson. Mynd: Guðni Olgeirsson.

Þegar við Júlíus hittumst til þess að rifja um þennan tíma, þegar ég var að undirbúa þetta erindi, kom auðvitað strax í ljós að 10 mínútur dygðu skammt til að gera þessu þau skil sem við hefðum viljað. Júlíus er því miður erlendis í dag en biður fyrir góðar kveðjur.

Það eru nokkur atriði sem standa upp úr frá þessum tíma. Ég ætla að byrja á að nefna haustþingin sem haldin voru á hverju hausti í flestum fræðsluumdæmum landsins. Þá var oftar en ekki sett upp námskeið fyrir mynd- og handmenntakennara og einnig námskeið þar sem lögð var áhersla á samþættingu við aðrar greinar s.s. við íslensku og tónmennt. Þá dugði ekkert minna en vikunámskeið en kvöldin voru einnig notuð til þess að vinna. Undirbúningur og kennsla á námskeiðunum var í okkar höndum. Mikil vinna fór í að semja kennsluefni því á þessum tíma var lítið eða ekkert um kennslubækur í mynd- og handmennt, ekki var hægt að fara á netið, það var hreinlega ekki til.  Námskeiðunum lauk yfirleitt á sýningu á því sem unnið hafði verið og þátttakendur gerðu sér glaðan dag í námskeiðslok.

Einu sinni sem ofar vorum við með viku námskeið á Eiðum. Síðasta daginn á námskeiðinu komu ungir menn sem voru þátttakendur á námskeiðinu og buðust til þess að skreppa á Seyðisfjörð í Kaupfélagið, ef einhverja vantaði eitthvað fyrir kvöldið. Umslag var látið ganga á milli þátttakenda og þeir beðnir um að setja pening og miða þar sem fram kæmi hvað á ætti að kaupa. Það kom svolítið á þá þegar þeir fóru að lesa á suma miðana þegar þeir komu í Kaupfélagið, þ.e.a.s. Vínbúðina, því þær voru ekki á hverju strái á þessum tíma. Þarna voru miðar þar sem beðið var um að kaupa sokkabuxur, naglalakk o.fl. Nokkrar konurnar á námskeiðinu voru yfir sig hrifnar af þessari góðu þjónustu.

Við gerðum úttekt á húsnæði, aðstöðu og búnaði til mynd- og handmenntakennslu í öllum skólum landsins. Gerðar voru skýrslur fyrir hvert fræðsluumdæmi þar sem fram kom hver staðan var á þessum tíma og einnig voru settar fram tillögur til úrbóta. Það var síðan í höndum hvers fræðsluumdæmis að nýta þessar upplýsingar.  Eflaust eru þessar skýrslur til í ráðuneytinu en þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt verkefni sem gaman væri að skoða og bera saman við stöðuna í dag.

Námskárgerð var stór hluti af vinnu okkar, þar var lögð áhersla á hugmyndafræði mynd- og handmenntar, markmið, vinnuaðferðir, samvinnu og samþættingu mynd- og handmennar innbyrðis og við aðrar greinar. Þegar námskrá fyrir mynd- og handmennt kom út sem ein held var ekki sagt að gera ætti einhver sérstök „stykki“ s.s. svuntu, koddaver eða  handavinnupoka  þannig að skyldustykki í handavinnu og smíði voru afnumin. Ekki voru allir sáttir við það.

Á þessum tíma eins og alltaf voru tíð ráðherraskipti. Eitt sinn þegar Hrólfur Kjartansson heitinn var að kynna drög að nýrri Aðalnámskrá grunnskóla á Norðurlandi, kom símtal að sunnan og hann beðinn um að hætta kynningunni þar sem það var kominn nýr menntamálaráðherra.

Mikill tími fór í ráðgjöf við kennara í formi skólaheimsókna til að skoða húsnæði og setja fram tillögur að útbótum. Haldnir voru fræðslufundir á fræðsluskrifstofum og í skólum á starfsdögum kennara. Við Júlíus höfðum sérstaka símatíma þar sem kennarar gátu hringt og fengið hina ýmsu aðstoð, því ekki var hægt að senda tölvupóst. Mikið var um að leiðbeinendur væru að kenna þessar greinar og þá sérstaklega úti á landi. Mikið af okkar tíma fór í aðstoða þetta fólk og senda því hugmyndir að verkefnum og leiðbeina þeim um hvaða áhöld og tæki þyrftu að vera til staðar og hvernig ætti að nota þau.

Það má segja að við höfum verið með vísi að fjarnámi, því sumir leiðbeinendurnir voru í reglulegu sambandi allt skólaárið. Stundum var sagt: Ég er búin með þetta verkefni, hvað á ég að gera næst og hvernig geri ég það?

Arkitektar leituðu þó nokkuð eftir ráðgjöf við hönnun á nýju skólahúsnæði og endurskipulagningu á eldra húsnæði. Huga þurfti að ýmsum sérhæfðum þáttum, s.s. lýsingu, loftræstingu, tækjum, verkfærum og húsgögnum. Á þessum tíma voru t.d. innleidd há kennsluborð í handavinnustofur og hæðastillanlegir hefilbekkir, sem var til mikilla bóta bæði fyrir nemendur og kennara.

Ég útskrifaðist sem handavinnukennari árið 1972 og fór  þá að fylgjast með þessum málaflokki. Ég hef síðan þá oft heyrt yfirmenn menntamála á Íslandi tala við ýmis hátíðleg tækifæri um nauðsyn þess að styrkja list- og verkgreinar í skólum landsins.

En hefur það verið gert? Hvar erum við stödd í dag? Ég skil þessar spurningar eftir hjá ykkur til að íhuga.

 


Þórleif Drífa Jónsdóttir er fræðslustjóri hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hún var kennsluráðgjafi í handmennt hjá menntamálaráðuneytinu , Skólarannsóknardeild, Skólaþróunardeild, 1981–1990.  Hún var kennsluráðgjafi við Fræðsluskrifstofu Reykjaness og Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.


Aftur á aðalsíðu


image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp