Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Skólaumbætur í deiglu – efni frá ráðstefnu um áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar 1966-1996

í Greinar

Þann 12. maí 2018 var haldið í Veröld – húsi Vigdísar málþing sem var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966-1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum og má fræðast um þetta í bókinni Sögukennsluskammdegið – Rimman um sögukennslu og samfélagsfræði 1983–1984 sem gefin var út af Háskólaútgáfunni í ritstjórn Lofts Guttormssonar, sjá hér).

Þrír fræðimenn, sem þekkja vel þetta tímabil í íslenskri skólasögu, tóku að sér að varpa ljósi á starf, stefnur, strauma og áhrif deildarinnar, auk þess sem efnt var til pallborðsumræðna með þátttöku fræðimanna og fyrrverandi starfsmanna deildanna. Erindin fluttu Helgi Skúli Kjartansson (sjá hér) sagnfræðingur og menntunarfræðingarnir Gerður G. Óskarsdóttir (sjá hér) og Jón Torfi Jónasson.

Þá fluttu stutt erindi fimm fyrrverandi starfsmenn deildanna, en eitt af markmiðum málþingsis var að fá fram viðhorf þeirra til þessa starfs: Aðalheiður Auðunsdóttir (heimilisfræði), Anna Kristjánsdóttir (stærðfræði), Sigþór Magnússon (samfélagsfræði), Þorvaldur Örn Árnason (náttúrufræði) og Þórleif Drífa Jónsdóttir (mynd- og handmennt). Hægt er að nálgast fjögur erindanna með því að smella á nöfn flytjendanna.

Að málþinginu stóð hópur fyrrverandi starfsmanna í samstarfi við Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti þingið. Ráðstefnustjóri var Ólafur Helgi Jóhannsson.

Guðný Helga Gunnarsdóttir, lektor við Kennaradeild Háskóla Íslands, setti málþingið og greindi frá undirbúningi þess, en hugmyndina átti Sigurlín Sveinbjarnardóttir fv. námstjóri í dönsku. Hún vék síðan að því skólasamfélagi sem tók við henni þegar hún hóf kennslu hér á landi 1975 eftir að hafa verið um skeið við nám og störf í Danmörku. Inngangsorðin má lesa hér.

Að loknum erindum var efnt til pallborðsumræðna. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor stýrði umræðum um hvaða lærdóma mætti draga af starfi ráðuneytisdeildanna. Þátttakendur voru Anna Kristín Sigurðardóttir dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Guðmundur B. Kristmundsson fv. námstjóri í íslensku, Guðný Helgadóttir fv. deildarstjóri í menntamálaráðuneyti og Ólafur Proppé fv. rektor Kennaraháskóla Íslands og fyrrverandi formaður prófanefndar menntamálaráðuneytis.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp