Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Þrjú áhugaverð verkefni í Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar

í Greinar

helgaHelga J. Svavarsdóttir, deildarstjóri Hvanneyrardeildar G.B.


Fyrir skömmu heimsótti einn af ritstjórnarmönnum Skólaþráða Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar (hét áður Andakílsskóli). Skemmst er frá því að segja að í þessum litla skóla er öflugt starf á mörgum sviðum og var því falast eftir grein um einhverja þætti í starfinu. Svo vildi til að Helga J. Svavarsdóttir, deildarstjóri, hafði nýlega skrifað slíka grein í Borgfirðingabók, sem er ársrit Sögufélags Borgarfjarðar. Í greininni segir hún frá þremur áhugaverðum verkefnum. Því var óskað eftir leyfi til að birta greinina hér í Skólaþráðum með smávægilegum breytingum og var það góðfúslega veitt.

Hvanneyrardeild er ein af þremur deildum Grunnskóla Borgarfjarðar (hinar eru að Kleppjárnsreykjum og Varmalandi). Þar stunda nú, veturinn 2016‒2017, nemendur 1.5. bekkjar nám sitt og er kennslan þematengd með áherslu á samþættingu námsgreina, útinám, skapandi vinnu og einstaklingsmiðun. Unnið er í aldursblönduðum hópum og lögð áhersla á að hver og einn geti notið sín og unnið með styrkleika sína. Löng hefð er fyrir þróunarstarfi í skólanum og er hann í góðu samstarfi við leikskólann Andabæ og Landbúnaðarháskóla Íslands í gegnum samstarfssamninginn Lengi býr að fyrstu gerð. Deildin er þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar, Heilsueflandi grunnskóla, auk verkefnis sem ber heitið Leiðtoginn í mér.

Hér verður sagt frá þremur verkefnum nemenda. Tvö þeirra eru góðgerðarverkefni sem hafa fest sig í sessi í Hvanneyrardeild en þriðja verkefnið er hluti af innleiðingu verkefnisins Leiðtoginn í mér sem hefur verið innleitt í alla leikskóla í Borgarbyggð og Grunnskóla Borgarfjarðar.

Flóamarkaðurinn

floamarkadur
Hér eru nemendur 1.‒4. bekkjar haustið 2015 tilbúnir að taka á móti viðskiptavinum.

Síðustu fjögur ár hafa nemendur á Hvanneyri haldið flóamarkað í nóvember. Verkefnið er í anda þeirrar stefnu sem skólinn hefur sett sér með Grænfánaviðkenningunni um sjálfsbærni, þar sem nýtni og virðing fyrir verðmætum eru í hávegum höfð. Markmiðið er einnig að tengja skólann við nærsamfélag sitt og fjölskyldur nemenda auk þess að efla samkennd og vitneskju um hvernig hægt er að láta gott af sér leiða. Þegar flóamarkaður er haldinn stíga nemendur einnig á stokk og lesa frumsamdar sögur og ljóð, syngja eða spila á hljóðfæri.  Á markaðnum er  ýmislegt til sölu, föt, skór, bækur, leikföng og jafnvel húsgögn svo eitthvað sé nefnt. Gestum gefst gullið tækifæri til að gera góð kaup og styðja gott málefni.

boksalar
Undirbúningur felst meðal annars í að nemendur þurfa að flokka vörurnar, verðmerkja og útbúa verðskrár. Hér sjást bóka- og blaðasalar.

Það er stór stund þegar fyrstu viðskiptavinirnir ganga inn því mikil spenna hefur verið hjá nemendum við undirbúninginn. Vörurnar hafa verið að berast síðustu daga að heiman og nemendur hafa flokkað þær og merkt. Að mörgu þarf að hyggja, útbúa auglýsingar, verðlista og undirbúa sögur og ljóð sem á að flytja fyrir gesti. Það er alltaf stanslaus straumur gesta í þá tvo tíma sem markaðurinn er opinn og mikil gleði í skólanum. Margir gera góð kaup allt frá bangsa upp í hægindastól og hillur. Falleg augnablik verða til eins og þegar einn drengur snýr við á leið út úr skólanum, fer aftur inn og notar síðasta hundrað krónu peninginn sinn til að kaupa bangsa handa skólasystur sinni sem hafði séð dálítið eftir því að hafa gefið bangsann sinn á markaðinn. Það er bros á hverju andliti, nemendur fara á milli hlutverka eftir því sem þeir hafa valið sér; flytja tónlistaratriði, lesa frumsamdar sögur, verða sölumenn, baka vöfflur, selja kaffi og allir njóta stundarinnar. Á síðasta markaði í nóvember 2015 söfnuðust um 37 þúsund krónur sem voru gefnar til Unicef til styrktar börnum á flótta í Sýrlandi. Það gefur nemendum mikið að finna að þau geta hjálpað til og lagt sitt af mörkum til að gera heiminn betri. Til marks um það höfðu nemendur í framhaldi af þessu verkefni frumkvæði að því að safna meiri pening fyrir flóttabörnin í Sýrlandi með því að selja inn á leiksýningu sem þau héldu að loknu námskeiði í íþrótta- og tómstundaskólanum.

Jólakortagerð

Annað góðgerðarverkefni hjá nemendum Hvanneyrardeildar er jólakortaverkefnið en það hófst fyrir um það bil tuttugu árum. Verkefnið hefur þróast með tímanum og verður hér sagt frá ferlinu eins og það er í dag.  Í byrjun verkefnisins þarf að velja þema sem öll kortin fylgja. Þannig teikna til dæmis allir jólatré eitt árið en kirkju það næsta. Hver og einn nemandi setur síðan sinn stíl á teikninguna og engin verður eins. Þegar teikningin er tilbúin er hún lituð og síðan mála nemendur yfir með bleki. Þegar búið er að þurrka myndina og pressa hana er hún skönnuð inn og jólakortið búið til í tölvu sem síðan er prentað út. Nemendur vinna þessa vinnu sjálfir frá upphafi til enda með aðstoð starfsmanna en nemendur 3.‒4. bekkjar aðstoða einnig yngri samnemendur sína. Jólakortin eru síðan send í prentun eftir pöntunum og ágóðinn af sölunni gefinn í góðgerðarstarf í nærumhverfi nemenda eða innanlands.

kortagerd
Hér má sjá nemendur leggja lokahönd á kortin sín og setja upp sýningu á ferlinu sem gestir flóamarkaðarins gátu skoðað.

Veggmynd með venjunum sjö

Veturinn 2014-15 unnu nemendur Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar skemmtilegt verkefni um venjurnar sjö. Venjurnar eru grunnstoðir í verkefninu Leiðtoginn í mér sem er hugmyndafræði fyrir skóla sem byggir á bók Steven R. Covey The 7 Habits of Highly Effective People.  Leiðtoginn í mér vinnur að því að byggja upp sterka einstaklinga til að takast á við áskoranir í lífi og starfi og hjálpa hverjum einstaklingi til að blómstra og vinna út frá sínum eigin styrkleikum. Læra að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og móta þannig líf sitt til hins betra ásamt því að þroska samskiptahæfni nemenda og starfsfólks. Um þessa hugmyndafræði og starf á grunni hennar má fræðast hér.

Veggmyndin er margþætt verkefni en auk þess að vera leiðtogaverkefni tengist það grænfánaverkefni skólans þar sem aðeins er unnið með endurnýtt efni. Afraksturinn er stórt veggspjald; listaverk sem tengir venjurnar sjö við leiðirnar sem krakkarnir fara í skólann.  Í upphafi var verkefnið aðeins óljós hugmynd, skissa á blaði, sem nemendur tóku þátt í að móta. Myndin af skólanum sem er á miðju veggspjaldinu er útsaumuð og lá á miðsvæði skólans þann tíma sem verkefnið var í vinnslu. Nemendur, kennarar og foreldrar gripu í að sauma þegar þeir áttu leið um eða lausa stund. Nemendur völdu sér venju til að vinna með og röðuðust í hópa eftir því. Hóparnir komu sér saman um hvaða efni þeir vildu nýta í sína leið, eina skilyrðið var að efnið væri endurnýtt. Eins og sjá má á myndunum vantaði ekki hugmyndaflugið í efnisnotkun. Á vinadegi með leikskólanum fengu fjögurra og fimm ára börnin að vinna leiðina sem þau koma frá leikskólanum í skólann. Þannig urðu þau þátttakendur í listaverkinu sem kemur til með að prýða matsal skólans í framtíðinni og eiga  sinn hluta í því þegar þau koma í skólann.

myndgerd
Nemendur setja sína leið á myndina. Gömul spil og frímerki.

myndin

Svona leit myndin út fullbúin. Venjurnar sjö og leiðirnar sem krakkarnir koma í skólann sinn á morgnana. Venja 1: Taktu af skarið.  Venja 2: Í upphafi skal endinn skoða. Venja 3: Forgangsraðaðu.  Venja 4: Sigrum saman. Venja 5: Skilningsrík hlustun.  Venja 6: Samvinna til árangurs. Venja 7: Ræktaðu sjálfan þig.


 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp