Greinar - Page 8

„ÉG FANN LEGHÁLSINN!“ – Sagt frá kynfræðsluverkefninu Við í Grunnskóla Borgarfjarðar

10. desember, 2021

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

Mikið veltur á hverjum og einum kennara.

Kynfræðsla meira og minna tilviljanakennd.

Kynfræðslu þarf að undirbúa.

Eftirfarandi eru millifyrirsagnir úr grein Morgunblaðsins um stöðu kynfræðslu í landinu. Þetta hljómar allt saman kunnuglega, en greinin birtist 9. nóvember árið 1986. Við skulum því spóla áfram um þrjátíu og fimm ár.

Í kennslustofunni er dauðaþögn. Hópur nemenda á miðstigi grúfir sig yfir keppnisblað dagsins, orðasúpu á tíma þar sem þátttakendur keppast um að vera fyrst til að finna orðin. Skyndilega sprettur ungur drengur frá borðinu og öskrar; „ÉG FANN LEGHÁLSINN!!“. Nokkru áður hafði kennslustundin leysts upp í hlátur og vandræðalegheit þegar kennarinn gerði heiðarlega tilraun til þess að kynna nemendur fyrir helstu líffærum æxlunarkerfanna, en eftir þónokkrar æfingar hefur hópurinn náð að vinna sig í gegnum kjánahrollinn og orðin pungur, brjóst og snípur orðin þeim jafn töm og eyra, bak og litlatá. (meira…)

Lesskilningsverkfæri þróað í Hagaskóla

2. desember, 2021

Inga Mjöll Harðardóttir, Ómar Örn Magnússon og Stein Olav Romslo

Þar sem lestur er lykill að öllu námi þarf lesskilningsþjálfun að vera markviss og hvetjandi. Til þess að ná árangri er mikilvægt að nemendur geti fylgst með skilningi sínum og ályktað um tengsl, orsakir og afleiðingar innan texta sem þeir lesa. Nauðsynlegt er að koma til móts við stöðu hvers og eins þannig að allir geti bætt sig á sínum forsendum. Á alþjóðlegum degi læsis, 8. september síðastliðinn, hleyptum við í Hagaskóla af stokkunum nýju lesskilningsverkefni sem hefur verið í þróun frá síðasta skólaári. (meira…)

Stapaskóli – hjarta samfélagsins og menningarmiðstöð í Reykjanesbæ

20. október, 2021

Gróa Axelsdóttir

Stapaskóli hóf sitt þriðja skólaár í haust en annað ár í nýrri skólabyggingu með tvö skólastig, leik – og grunnskóla. Í Stapaskóla er öflugt starfsfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í því að skapa framsækið og fjölbreytt skólastarf fyrir börn og ungmenni í hverfinu. Starfsfólkið leggur sig fram við að skapa nemendum áhugahvetjandi verkefni sem eru samþætt í gegnum allar námsgreinar með skapandi verkefnaskilum. Mjög vel hefur verið staðið að skólabyggingunni og öllum aðbúnaði sem gefur okkur tækifæri til að horfa til framtíðar og skilja við baksýnisspegilinn sem við höfum oft tilhneigingu til að líta í. (meira…)

Virkjum sköpunarkraft, forvitni, ímyndunarafl og nýsköpun

13. október, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein III  

Soffía Vagnsdóttir

Þetta er þriðja og síðasta greinin sem ég birti til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni. Heiti fyrri greina voru: Lífsagan og lærdómurinn og Ástríðan – hvað viltu læra?

Það hefur verið gaman að gefa sér tíma til að setja nokkur orð á blað um nám, menntun og þróun skólastarfs. Ég hef ekki gert mikið af því að tjá mig á opinberum vettvangi um skólamál. Ætti kannski að gera meira af því, enda er þessi vettvangur ástríða mín!

Það er svo merkilegt að framtíðin hefur alltaf verið mér hugleikin. Ég hef til dæmis mest gaman af fantasíukvikmyndum sem fjalla um framtíðina get varið ótrúlegum tíma í að „gúggla” og skoða myndbönd, hlusta á viðtöl og lesa greinar og bækur þar sem fólk er að velta fyrir sér framtíðinni. Þegar  ég var í meistaranámi, annars vegar í Menningarstjórnun og hinsvegar í Evrópufræðum, naut ég þess í botn að gefa mér tíma til þess. Í þessari grein langar mig að líta til framtíðar.

Ákall um breytingar á innihaldi náms og breyttum kennsluháttum birtist í skrifum fræðimanna um þessar mundir. Rætt er um menntun sem byggir á dýpri þekkingu (e. deep learning) þar sem samvinna (e. collaboration), samskipti (e. communication) sköpun (e. creativity), gagnrýnin hugsun (e. critical thinking), samfélagsleg þátttaka (e. social citizenship) og manngerð (e. character) þurfa að vera megin áhersluþættir. Kyrrstaða er ekki lengur í boði. Litið er svo á að hreyfiafl breytinga á menntakerfinu þegar kemur að eðli náms sé eins og umbylting sem birtist í samspili úthugsaðrar stefnumótunar og stefnubreytinga og ófyrirséðum, stjórnlausum öflum þar sem tæknibyltingar eru fyrirferðarmestar (Fullan o.fl., 2018). (meira…)

Menntakerfið sem stórveldi: Nokkur orð um bókina The schooled society eftir David P. Baker

25. september, 2021

Atli Harðarson

David P. Baker er prófessor í menntavísindum og félagsfræði við ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Bók hans The schooled society: The educational transformation of global culture kom út hjá Stanford University Press árið 2014. Á íslensku gæti hún ef til vill heitið Skólaða samfélagið: Menntadrifin umbreyting á menningu heimsins.

Í bókinni fjallar Baker um samspil skólakerfisins við atvinnulíf, stjórnmál, trúarbrögð og menningu öðru vísi en flestir félagsvísindamenn hafa gert. Hann lýsir skólakerfinu sem einni af sterkustu stofnunum samfélagsins og ætlar því mátt sem er annars vegar sambærilegur við veldi auðmagns og stórfyrirtækja á markaði og hins vegar við ríkisvald og stjórnmál í þjóðríkjum nútímans. Jafnframt andmælir hann þeim sem lýsa menntakerfinu sem veikri stofnun og segja að það sé sett undir hagkerfið eða gegni einkum þjónustuhlutverki. Í seinni skrifum hefur Baker ítrekað meginefni bókarinnar og nokkrar af helstu kenningum hennar eru reifaðar í nýlegri grein sem hann skrifaði með Renata Horvatek (Horvatek og Baker, 2019). (meira…)

Ræður fagleg sýn leikskólakennara för varðandi nám ungra barna í leikskólum á Íslandi?

12. september, 2021

Hólmfríður K. Sigmarsdóttir

Er leikskólakennarinn sérfræðingur um nám leikskólabarna er spurning sem ég hef velt fyrir mér í mörg ár og gerist sífellt áleitnari. Fram til þessa hefur þessi spurning mikið byggt á minni faglegu tilfinningu og mótast af því umhverfi sem ég hef starfað í. Ég hóf störf í leikskóla haustið 1974 og hef ætíð litið svo á að leikurinn sé sú leið sem nám barnanna byggir á. Mín sýn er að það skipti ekki máli hvar leikurinn fer fram; það er eðli leiksins sem skipti máli. Þetta hefur ríka tengingu við það sem margir fræðimenn líta á sem grunnþátt í námi ungra barna. Í faglegum samræðum sem ég hef tekið þátt í með leikskólakennurum, bæði á Íslandi og erlendis, hafa þessi sjónarmið einnig komið fram. Þá má ráða af skrifum margra fræðimanna um leikskólamál á síðustu árum að þeir líti einnig svo á að leikurinn sé mikilvægasta leið barna til náms. (meira…)

„Við skoðum allt sem beðið er um …“ – Gróska í framboði á valnámskeiðum í grunnskólum

31. maí, 2021

Ingvar Sigurgeirsson

Í vor heimsótti ég skóla nokkurn þar sem margt gladdi augað, svo sem öflug teymiskennsla, samvinna nemenda, skapandi skil í mörgum greinum og skemmtileg nýting á upplýsingatækninni, að ekki sé minnst á mjög jákvæð viðhorf nemenda á unglingastigi til kennara sinna („frábærir kennarar“, „geggjaðir kennarar“). En einn óvæntan skugga bar á. Nemendur, jafnt sem kennarar voru óánægðir með valgreinarnar. Þetta kom mér á óvart því mín reynsla er sú að yfirleitt séu valgreinar í hópi þeirra námsgreina sem eru í hvað mestum metum, að minnsta kosti hjá nemendum.

Í samræðum við stjórnendur fæddist sú hugmynd að setja fyrirspurn um framboð á valnámskeiðum á Skólaumbótaspjallið á Facebook, en það er hópur sem ég hef haldið utan um undarfarin ár. Þann 22. maí setti ég þar svohljóðandi færslu:

Mynd 1 – Málið reifað á Facebook.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögð fóru fram úr björtustu vonum. Upplýsingar bárust frá tugum skóla, bæði á Facebook, í einkaskilaboðum og tölvupósti. Og fjölbreytnin reyndist mikil, ég vil segja bæði gríðarleg og gleðileg.

Einn vandinn við Facebook er hversu skammlíf umræða um hvern þráð verður gjarnan – og það sem verra er, fljótlega eru færslurnar og þær upplýsingar sem þær geyma, komnar niður listann og verða fljótt vandfundnar. Í ljósi þess hversu gagnlegar þær upplýsingar sem mér áskotnuðust voru, ákvað ég að halda þeim til haga. Ég lagði drög að grein til birtingar í Skólaþráðum um leið og ég fór betur í gegnum gögnin, auk þess sem ég leyfði mér í nokkrum tilvikum að grennslast fyrir um eitt og annað. Fékk ég jafnan greið svör, sem ég vil þakka sérstaklega fyrir. (meira…)

Ástríðan – hvað viltu læra elskan mín?

27. apríl, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein II

Soffía Vagnsdóttir

Í fyrstu grein minni (sjá hér) fjallaði ég um þá vegferð sem skólinn hefur verið á allt frá því að foreldrar mínir voru börn og byggðu undir sína framtíð og fram til þess sem börn í skólum nútímans þurfa og ættu að læra. Hér er sjónum einkum beint að þörfinni fyrir breytingar á inntaki náms miðað við viðhorf nemenda til skólans og þess sem þeir eru að fást við þar.

Framtíðin er ekki fyrirsjáanleg

Eða hvað? Er hún fyrirsjáanleg? Miðað við síðustu fréttir af umhverfismálunum – já! Og þess vegna er mikilvægt að ræða hana, ekki síst við nemendur. Framtíðarhugsun er mikilvæg vegna þess að með góðum áætlunum getum við haft áhrif á ótrúlega margt, rétt eins og í okkar persónulega lífi. Og þar hefur skólinn mikilvægu hlutverki að gegna. En hvernig í ósköpunum á skólinn að takast á við þetta? Þegar vísbendingar eru um að alltof margir vilja ekki vera þar? Þegar enginn veit hvað þetta fólk er að fara að gera í framtíðinni? Þegar allir geta sótt alla vitneskju, jafnvel þekkingu á netið? Svo eru það Thunberg áhrifin – þegar öll börn eru komin á torgið að tjá sig um menn og málefni og jafnvel um stóru málin, eins og hlýnun jarðar eða flóttamannavandann og skólinn veit ekki hvort hann á að skrifa skróp eða hrópa húrra fyrir áræðinu. (meira…)

„Ég leysi stundum vandamálið með svona hringjum“ Hugsun barna um margföldun

21. apríl, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ólöf Björg Steinþórsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir

Kristinn Ingvarsson tók myndirnar af Guðbjörgu og Jónínu Völu.

Rannsóknir á námi barna, ekki síst hvernig þau takast á við námið, efla þekkingu okkar á mikilvægum þáttum til að byggja á við kennslu. Ingvar Sigurgeirsson hefur verið ötull við að fylgjast með lífinu í skólastofunni, hlusta á og ræða við nemendur. Hann er talsmaður þess að vinna með börnum á forsendum þeirra og skapa þeim fjölbreytt tækifæri. Í þessari grein er gefin innsýn í hluta af rannsókn á talna- og aðgerðaskilningi íslenskra barna. Rannsóknin er samstarfsverkefni stærðfræðideildar Háskóla Norður Iowa og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Í greininni er fjallað um niðurstöður úr rannsókn okkar og greint frá hvernig nokkur sex til átta ára börn glíma við margföldun. Skoðað er hvernig nota má niðurstöðurnar sem leiðarhnoða í að styðja börnin við að efla skilning sinn og leikni í reikningi. Unnið er út frá hugmyndum um Cognitively Guided Instruction sem á íslensku kallast Stærðfræðikennsla byggð á skilningi barna, sem hafa verið að þróast síðan um 1990. Í greininni verður íslenska heitið notað.

Erlendar rannsóknir gefa mikilvægar upplýsingar um talna- og aðgerðaskilning barna sem nýtast í íslensku skólastarfi, en lítið er til af rannsóknum um íslensk börn. Tilgangur rannsóknarinnar er tvíþættur. Annars vegar að skoða talna- og aðgerðaskilning íslenskra barna og hins vegar að búa til efni sem hægt er að nýta með kennaranemum og í þróunarvinnu með kennurum í leik- og grunnskóla. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig fimm til tíu ára gömul börn hugsa þegar þau glíma við reikniþrautir sem tengjast samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu, hvaða lausnaleiðir þau nota og hvernig þau segja frá hugsun sinni og lausnum. Hluti af rannsóknarverkefninu er þróunarvinna með kennurum úr þremur skólum þar sem þeir kynnast hugmyndum um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (SKSB). Þar skoða kennarar og greina hvernig þeir geta brugðist við hugmyndum nemenda sinna til að styðja þá við að þróa stærðfræðihugsun sína.

Í þessari grein munum við ræða um hugsun barna og lausnaleiðir þeirra við einfalda margföldunarþraut til að gefa lesendum innsýn í nokkur lykilatriði í þróun skilnings barna á tölum og reikningi. Við greiningu lausnaleiða barnanna nýtum við þau greiningarviðmið sem sett voru fram í niðurstöðum rannsókna- og þróunarverkefnisins SKSB (Carpenter, Fennema, Franke, Levi og Empson, 2015). Að lokum fjöllum við um nokkur atriði sem vakið hafa okkur til umhugsunar um stærðfræðinám ungra barna í tengslum við rannsóknina.

(meira…)

Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað?

20. apríl, 2021

Nanna K. Christiansen

Ný bók Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? er væntanleg eftir miðjan apríl. Höfundur er sú sem þetta ritar.

Eins og nafnið ber með sér er umfjöllunarefnið leiðsagnarnám. Fjölmargar erlendar bækur hafa verið skrifaðar um leiðsagnarnám og efni sem því tengist. Í bók Ernu Ingibjargar Pálsdóttur Fjölbreyttar leiðir í námsmati, að meta það sem við viljum að nemendur læri, er greinargóður kafli um leiðsagnarmat. Í nýju bókinni er fléttað saman fræðilegri umræðu, reynslu þekkingarskóla í leiðsagnarnámi, ráðgjöf og hagnýtum verkefnum með það að markmiði að styðja við einstaka kennara og skóla sem vilja stuðla að auknum framförum nemenda.

Síðustu árin hefur áhugi kennara á leiðsagnarnámi aukist verulega. Sem dæmi má nefna að námskeið og fræðslufundir um leiðsagnarnám sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur (SFS) stendur fyrir eru jafnan afar vel sótt og margir skólar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi hafa markvisst lagt sig fram um að tileinka sér áherslur þess. Í gildandi aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lögð rík áhersla á leiðsagnarmat, sem er í rauninni sama orðið og leiðsagnarnám, hugmyndir um áherslur hafa hins vegar breyst. Í námskránum segir: Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, 3.1; Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, 3.1.). Þessi orð endurspegla merkingu hugtaksins leiðsagnarmat/-nám en megintilgangur þess er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir  stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli. Þetta gæti virst einfalt er raunin er önnur. Horfa þarf til námsmenningar skólans í heild sinni, allt frá viðhorfum og væntingum kennara til skipulags náms og kennslu. (meira…)

1 6 7 8 9 10 23

Færslusafn

Fara íTopp