Inga Mjöll Harðardóttir, Ómar Örn Magnússon og Stein Olav Romslo
Þar sem lestur er lykill að öllu námi þarf lesskilningsþjálfun að vera markviss og hvetjandi. Til þess að ná árangri er mikilvægt að nemendur geti fylgst með skilningi sínum og ályktað um tengsl, orsakir og afleiðingar innan texta sem þeir lesa. Nauðsynlegt er að koma til móts við stöðu hvers og eins þannig að allir geti bætt sig á sínum forsendum. Á alþjóðlegum degi læsis, 8. september síðastliðinn, hleyptum við í Hagaskóla af stokkunum nýju lesskilningsverkefni sem hefur verið í þróun frá síðasta skólaári.
Forsaga málsins er sú að á síðasta skólaári vaknaði sú hugmynd hjá hópi kennara í Hagaskóla að útbúa gagnvirkt lesskilningsverkfæri sem hlaut nafnið Lesskilningur. Eftir að hafa sótt um styrki og kynnt hugmyndina ákvað hópurinn að prófa sig áfram með að útbúa verkfærið í stað þess að lýsa því bara á prenti. Hugmyndin að verkefninu er að til verði gagnvirkur lesskilningsvefur sem er í senn matstæki fyrir kennara og skólayfirvöld og æfingatæki fyrir nemendur. Grunnhugmyndin að verkefninu er að nemendur séu alltaf að lesa texta við hæfi og geti með virkni unnið sig upp í þrepum. Við byrjuðum síðasta vor á því að útbúa alla texta í lesskilningsprófinu Orðarún sem gagnvirkar æfingar í Google Forms þannig að við gætum lagt þær fyrir í Google Classroom. Orðarún er staðlað lesskilningspróf ætlað nemendum í þriðja og upp í áttunda bekk grunnskólans. Höfundar þess eru Dagný Elfa Birnisdóttir, Rósa Eggertsdóttir og Amalía Björnsdóttir og er það aðgengilegt kennurum á vef Menntamálastofnunar. Þó svo að textarnir í Orðarún séu flokkaðir sem textar fyrir nemendur frá þriðja upp í áttunda bekk tölum við um að textarnir séu frá þriðja og upp í áttunda þrep. Eftir prufukeyrsluna síðasta vor sannfærðumst við um gagnsemi verkfærisins. Í prufukeyrslunni lögðum við verkefni fyrir nemendur í tveimur bekkjum. Verkefnin voru öll gagnvirkar æfingar en það var töluverð handavinna að leggja réttar æfingar fyrir hvern og einn nemanda út frá gengi þeirra og einnig var nokkur handavinna að taka saman gagnlegar upplýsingar út úr niðurstöðunum og birta kennurum og nemendum. Því leituðum við eftir liðsinni samkennara okkar með að vinna gagnagrunninn sem verður til og forrita viðbætur inn í Google umhverfið sem sér um að leggja æfingar fyrir sjálfvirkt.
Nú á haustmánuðum höfum við keyrt endurbætta útgáfu af Lesskilningi sem er algerlega sjálfvirk í öllum 23 bekkjum Hagaskóla. Verkefnið er allt sett upp í Google skólaumhverfinu og notast við fjölmörg tól úr því umhverfi eða allt frá Google Forms og yfir í Google Data Studio. Auk þess er ákveðin virkni forrituð með litlum skriftum. Í grunninn virkar verkefnið þannig að nemendum eru úthlutaðar lestraræfingar sem þeir vinna með því að lesa texta og svara spurningum. Hægt er að vinna verkefnin heima og í skólanum og auðvelt er fyrir kennara að fylgjast með vinnu og framförum nemenda sinna. Allir nemendur byrja á æfingu á fimmta þrepi en fá svo næstu æfingu á hærra eða lægra þrepi eftir gengi. Í haust prófuðum við verkefnið með öllum 600 nemendum í Hagaskóla í 8., 9. og 10. bekk. Allir nemendur fengu fimm æfingar. Til útskýringar má sjá hér að neðan í mynd 1 fyrstu niðurstöður fyrir allan skólann.
Eins og sjá má á mynd 1 lásu nemendur í Hagaskóla 2.387 æfingar samtals á tímabilinu sem verkefnið var í gangi. Rúmlega 40% nemenda endaði á 8. þrepi en það er ekki hægt að komast ofar en það. Um 14% nemenda eru enn á 5. þrepi eftir þessar fimm æfingar en um 13% nemenda hefur fallið niður um þrep og þar af 3,5% eða 21 nemandi sem endar á 2. þrepi sem er þrep sem við bjuggum til fyrir þá nemendur sem ekki gátu lesið texta á 3. þrepi Orðarúnar. Á næstu mynd má sjá að gengi nemenda var nokkuð misjafnt eftir bekkjum.
Staka súlan, sem er sú fjórða frá hægri, sýnir hlutfall nemenda á hverju þrepi í skólanum öllum. Hægra megin við hana eru þrjár súlur sem sýna sömu upplýsingar skipt niður á árganga en vinstra megin eru upplýsingarnar eftir bekkjum. Almennt gekk nemendum í 10. bekk betur en nemendum í 9. bekk og nemendur í 9. bekk stóðu sig betur en nemendur í 8. bekk. Tæplega helmingur nemenda í 10. bekk endaði á 8. þrepi meðan rétt um þriðjungur nemenda í 8. bekk gerði það. Einnig sjáum við að af þeim 21 nemanda sem endaði á 2. þrepi eru 12 í 8. bekk. Þegar kennarar skoðuðu saman þessar niðurstöður sögðu margir að þær rímuðu mjög vel við tilfinningu þeirra fyrir því hversu mikinn stuðning þeir þyrftu í ákveðnum bekkjum. Augljóst er að þessar upplýsingar eru mjög góðar til að ákveða hvert stuðningi er beint. Þá er ekki aðeins átt við sérstakan lestrarstuðning við nemendur sem þurfa hann heldur einnig almennan stuðning inn í bekki þar sem t.d. stór hluti nemenda kemst ekki upp fyrir 5. þrep. Auk þess að halda utan um heildartölfræði fyrir skólann allan og einstaka bekki höfum við jafnframt aðgang að einstaklingsskýrslum sem sýna vel stöðu og þróun hjá hverjum nemanda fyrir sig. Myndirnar hér að neðan sýna stöðu fjögurra nemenda eftir fimm æfingar.
Á viðtalsdegi í október fengu allir nemendur útprentaða skýrslu eins og þær sem sjást hér að ofan. Á bakhlið skýrslublaðsins voru upplýsingar um það hvernig ætti að lesa í skýrsluna og bent á lestraræfingar og efni sem hægt er að nota til að byggja t.d. upp ályktunarfærni. Eins og sést á myndunum hér að ofan er það einmitt sá þáttur sem flestir nemendur þurfa að fá þjálfun í. Því er það meginatriði í læsiskennslu allra kennara í öllum bekkjum í Hagaskóla eftir að þessar niðurstöður lágu fyrir. Síðan munum við nota Lesskilning aftur eftir áramót og sjá hvort það inngrip hafi skilað árangri.
Myndirnar sýna niðurstöður fjögurra nemenda. Þær eru valdar af handahófi og við gefum nemendunum hin frumlegu gervinöfn: Anna, Guðrún, Jón og Sigurður. Rauðu línurnar á myndunum gefa upplýsingar um þrep í hverri viku en bláu súlurnar gefa upplýsingar um hlutfall réttra svara. Nemendur sem svara 80% eða meira rétt fara upp um þrep, nemendur sem svara 60-80% rétt haldast á sama þrepi og nemendur sem svara minna en 60% rétt fara niður um þrep. Tegundir spurninga í Orðarún eru flokkaðar í fimm flokka sem eru staðreyndaspurningar, ályktunarspurningar, orðaforðaspurningar, meginmálsspurningar og fyrirsagnarspurningar. Skífurnar á neðri hluta hverrar myndar gefa upplýsingar um hlutfall réttra svara í hverjum tegundaflokki spurninga. Á þeim sést til dæmis hversu vel nemendur skilja meginefni texta og átta sig á staðreyndum. Lesskilningur kannar einnig hversu vel nemendur geta lesið á milli línanna og þannig dregið ályktanir um þætti sem standa ekki beinlínis í textanum. Að auki gera nemendur grein fyrir þekkingu sinni á erfiðum orðum og orðasamböndum.
Eins og sjá má á einstaklingsskýrslunum hér að ofan þá enduðu Jón og Guðrún á sama þrepi og þau byrjuðu á eða 5. þrepi. Anna og Sigurður unnu sig hins vegar upp um þrep, Anna upp í 7. þrep og Sigurður beint upp í 8. þrep þar sem hann endaði. Við sjáum jafnframt að Sigurður er á mörkum þess að haldast á 8. þrepi því hann nær að svara öllum spurningum rétt á 5. og 6. þrepi en 90% rétt á 7. þrepi og 80% á 8. þrepi. Því virðist vera sem textar á 8. þrepi henti honum vel til að þjálfa lesskilning sinn, þ.e. hann virðist ekki vera strax kominn upp fyrir 8. þrep en vissulega hefðum við viljað vera með enn erfiðari texta en á 8. þrepi og erum að skoða leiðir til að útbúa slíka texta.
Æfingarnar í Lesskilningi henta öllum nemendum. Auk þess að útbúa texta sem ná upp fyrir 8. þrep erum við að vinna að því núna að útbúa mjög einfalda texta sem nýst gætu nemendum með annað móðurmál en íslensku. Reynt er að hafa nægjanlegan fjölda æfinga á hverju getustigi og stöðugt bætast við nýjar þannig að nemendur geta lesið eins marga texta og þeir þurfa á viðkomandi þrepi. Lesskilningur þjálfar og mælir lesskilning og gæti verið góð fyrirmynd að framsæknu lesskilningstæki sem allir nemendur á landinu hefðu aðgang að.
Inga Mjöll Harðardóttir hefur starfað sem íslensku- og sérkennari í Hagaskóla í rúmlega 30 ár. Hún er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og BA gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands. Inga Mjöll er með diplómagráðu í sérkennslu frá Danmarks Pædagogiske Universitet og meistaragráðu í fjölmenningu og tvítyngi frá sama skóla.
Ómar Örn Magnússon er doktorsnemi og verkefnastjóri á Menntavísindasviði og verkefnastjóri í Hagaskóla í Reykjavík. Hann hefur starfað sem kennari, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri í Hagaskóla í meira en 20 ár. Ómar er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands, kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í forystufræðum og stjórnun menntastofnana frá University of Warwick.
Stein Olav Romslo er stærðfræðikennari í Hagaskóla. Hann lauk kennaranámi frá Tækniháskólanum í Þrándheimi (NTNU) og lærði íslensku sem annað mál í Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem kennari í 3 ár og vann áður við að útbúa kennsluefni í forritun hjá Lær Kidsa Koding í Noregi.
Grein birt 3.desember 2021