Nanna K. Christiansen
Ný bók Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? er væntanleg eftir miðjan apríl. Höfundur er sú sem þetta ritar.
Eins og nafnið ber með sér er umfjöllunarefnið leiðsagnarnám. Fjölmargar erlendar bækur hafa verið skrifaðar um leiðsagnarnám og efni sem því tengist. Í bók Ernu Ingibjargar Pálsdóttur Fjölbreyttar leiðir í námsmati, að meta það sem við viljum að nemendur læri, er greinargóður kafli um leiðsagnarmat. Í nýju bókinni er fléttað saman fræðilegri umræðu, reynslu þekkingarskóla í leiðsagnarnámi, ráðgjöf og hagnýtum verkefnum með það að markmiði að styðja við einstaka kennara og skóla sem vilja stuðla að auknum framförum nemenda.
Síðustu árin hefur áhugi kennara á leiðsagnarnámi aukist verulega. Sem dæmi má nefna að námskeið og fræðslufundir um leiðsagnarnám sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur (SFS) stendur fyrir eru jafnan afar vel sótt og margir skólar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi hafa markvisst lagt sig fram um að tileinka sér áherslur þess. Í gildandi aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lögð rík áhersla á leiðsagnarmat, sem er í rauninni sama orðið og leiðsagnarnám, hugmyndir um áherslur hafa hins vegar breyst. Í námskránum segir: Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, 3.1; Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, 3.1.). Þessi orð endurspegla merkingu hugtaksins leiðsagnarmat/-nám en megintilgangur þess er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli. Þetta gæti virst einfalt er raunin er önnur. Horfa þarf til námsmenningar skólans í heild sinni, allt frá viðhorfum og væntingum kennara til skipulags náms og kennslu.
Orðið leiðsagnarmat er þýðing á enska orðin „formative assessment“ en framan af beindist athygli rannsakenda og kennara öðru fremur að því hvernig best væri að meta námsárangur nemenda. Síðari árin hefur þó komið æ betur í ljós að það er ekki námsmatið sjálft og framkvæmd þess sem skiptir mestu máli, heldur hvernig við nýtum niðurstöðurnar til að stuðla að framförum nemenda. Nálgunin verður þannig framvirk í stað þess að vera afturvirk. Samfara þessum viðhorfsbreytingum var í auknum mæli farið að tala um „assessment for learning“ í enskumælandi heimi, skammstafað AFL og í samræmi við það þótti mörgum orðið leiðsagnarnám vera meira lýsandi.
Reynslan hefur kennt mér að þeir fagmenn sem kynna sér hugmyndafræði og framkvæmd leiðsagnarnáms átta sig fljótlega á því hvað hún er rökrétt og valdeflandi, fyrst og fremst fyrir nemendur, en líka fyrir kennara og fagmennsku þeirra. Enn fremur eflir það traust þeirra að niðurstöður fjölmargra ólíkra rannsókna renna stoðum undir leiðsagnarnámið og leggja grunninn að þeirri heildrænu námsmenningu sem einkennir það og getur skilað góðum árangri fyrir alla nemendur. Hér má nefna rannsóknir Paul Black og Dylan Wilam (1998) sem þeir gerðu fyrst heildstæða grein fyrir í greininni Inside the Black Box: Rasing Standards through Classroom Assessment. Með niðurstöðunum sýndu þeir fram á mikil áhrif endurgjafar á framfarir nemenda. Þá má nefna bók Carol Dweck (2006), Mindset The New Psychology of Success, en rannsóknir hennar hafa meðal annars leitt í ljós hvað hugarfar kennara og nemenda getur haft mikil áhrif á námsárangur og bók John Hattie (2009), Visible Learning. A Synthesis of Over 800 Meta-Analyses Relating to Achievement, en með rannsóknum sínum hefur Hattie greint hvað það er í skólastofunni sem hefur áhrif á námsárangur nemenda og hvað ekki. Enski menntunarfræðingurinn Shirley Clarke, hefur ásamt starfandi grunnskólakennurum þróað hagnýtar kennsluaðferðir á grunni þessara og fleiri rannsóknarniðurstaðna. Clarke hefur skrifað fjölda bóka um leiðsagnarnám, bæði ein og í félagi við aðra, ég nefni sérstaklega Outstanding Formative Assessment: Culture and Practice, sem var endurútgefin 2018.
Þekkingarskólar í leiðsagnarnámi
Skólaárið 2019–2020 stóð skóla og frísundasvið Reykjavíkur fyrir verkefninu Þekkingarskólar í leiðsagnarnámi en megintilgangur þess var að styðja sérstaklega við þróun leiðsagnarnáms í fjórum skólum, sem gætu í framhaldinu veitt öðrum kennurum og skólum stuðning við að innleiða og þróa leiðsagnarnám. Þekkingarskólarnir voru Kelduskóli, Dalskóli, Hamraskóli og Hlíðaskóli. Í skólunum voru kennarar og stjórnendur sem störfuðu af fagmennsku og ástríðu að eflingu leiðsagnarnáms. Árangurinn má m.a. greina í eftirfarandi tilvitnunum:
Við gerum okkur enn betur ljóst hvað samband okkar við nemendur skiptir miklu máli fyrir námið. Það þarf að ávinna sér traust nemenda og þeir þurfa að finna að við hlustum á þá og bregðumst við því sem þeir segja til að hjálpa þeim. Við fundum mikinn mun á nemendunum, skilningur þeirra á náminu varð meiri, vinnubrögðin betri og þeir urðu miklu ábyrgari. Þegar nemendur höfðu markmið og viðmið urðu þeir öruggari og meira skapandi í vinnunni sinni (kennari í Kelduskóla).
Samræðurnar um námið gefa kennaranum miklu betri innsýn í hvar nemendur eru staddir og það auðveldar manni að aðlaga námið að þörfum þeirra (kennari í Hlíðaskóla).
Nemendur nýta vinnulotur mjög vel þar sem þeir hafa fengið tíma til að ræða um viðfangsefni lotunnar eftir að kennarar hafa varpað fram markvissum spurningum. Innlögnin verður líka markvissari þar sem kennarar vita meira um námslega stöðu hvers og eins eftir að hafa hlustað á nemendur tjá sig um viðfangsefnið (kennari í Hamraskóla).
Ein breyting sem við sjáum er að nemendur eru orðnir miklu virkari í samræðum um námið og taka mikinn þátt í ákvörðunum um það (kennarar og stjórnendur í Dalskóla).
Þrátt fyrir góðan árangur þekkingarskólanna er þar enn margt óunnið, enda má ætla að það taki ekki skemmri tíma en þrjú ár að innleiða leiðsagnarnám þannig að það einkenni námsmenningu skólans og skili auknum framförum allra nemenda. Áhuginn er enn til staðar og sannfæringin á mikilvægi leiðsagnarnáms hefur síður en svo dvínað.
Markmið bókarinnar
Markmiðið með bókinni Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað? er að lesendur hafi aðgang að hagnýtum verkefnum sem gerir þeim kleift að prófa sig áfram og ná tökum á aðferðum sem stuðla að áhuga og ábyrgð nemenda á náminu, aukinni þátttöku þeirra í ákvörðunum um námið og færni til að meta stöðu sína. Enn fremur er bent á leiðir sem ætlaðar eru til að efla seiglu nemenda og trú þeirra á eigin getu, kenna þeim að læra af mistökum, að hugsa um námið og taka þátt í árangursríkri samvinnu og samræðum í getublönduðum hópum svo það helsta sé nefnt. Í bókinni er ekki aðeins gerð grein fyrir því hvernig best er að standa að verki heldur einnig hvers vegna það er mikilvægt og hver áhrifin geta verið. Ekki síður er það markmið bókarinnar að kennarar tileinki sér viðhorf og hugmyndir leiðsagnarnáms gagnvart námi, kennslu og námsmati, sem er forsenda þess að árangur náist.
Höfundur myndskreytinga og bókarkápu er Ásdís Jónsdóttir.
Nánari upplýsingar um bókina er að finna á https://leidsagnarnam.is/.
Heimildaskrá:
Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti. (2011). Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Aðalnámskrá framhaldsskóla -Almennur hluti. (2011). Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Black, P. og Wilam, D. (1998). Inside the Black Box: Rasing Standards through Classroom Assessment. King´s College London School of Education.
Clarke, S. (2018). Outstanding Formative Assessment: Culture and Practice. 10. útgáfa. Hodder Education.
Dweck, C. S. (2006). Mindset The New Psychology of Success. Random House.
Hattie, J. (2009). Visible Learning. A Synthesis of Over 800 Meta-Analyses Relating to Achievement. Routledge.
Nanna Kristín Christiansen er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað á sviði menntamála í áratugi. Lengst af var hún grunnskólakennari en síðar verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Jafnframt hefur hún verið gestakennari við Menntavísindasvið HÍ og sjálfstætt starfandi fyrirlesari og ráðgjafi. Nanna er höfundur bókarinnar Skóli og skólaforeldrar, Ný sýn á samstarfið um nemandann (2010) og handbókarinnar Ofbeldi gegn börnum, hlutverk skóla (2014) ásamt Guðrúnu Kristinsdóttur. Nanna og Edda G. Kjartansdóttir, eru ritstjórar veftímaritsins Krítarinnar sem fjallar um uppeldis- og menntamál.