Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Stapaskóli – hjarta samfélagsins og menningarmiðstöð í Reykjanesbæ

í Greinar

Gróa Axelsdóttir

 

Stapaskóli hóf sitt þriðja skólaár í haust en annað ár í nýrri skólabyggingu með tvö skólastig, leik – og grunnskóla. Í Stapaskóla er öflugt starfsfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í því að skapa framsækið og fjölbreytt skólastarf fyrir börn og ungmenni í hverfinu. Starfsfólkið leggur sig fram við að skapa nemendum áhugahvetjandi verkefni sem eru samþætt í gegnum allar námsgreinar með skapandi verkefnaskilum. Mjög vel hefur verið staðið að skólabyggingunni og öllum aðbúnaði sem gefur okkur tækifæri til að horfa til framtíðar og skilja við baksýnisspegilinn sem við höfum oft tilhneigingu til að líta í.

Mynd 1 – Skólagangarnir eru mjög rúmir. Á myndinni má sjá lifandi fíkus og bak við hann er heimilisfræðistofa sem síðar verður gerð að félagsaðstöðu nemenda. Takið eftir skotunum inn í vegginn – þetta eru lesbásar og eru af mörgum ólíkum gerðum og þá má vitaskuld nota með margvíslegum hætti!

Upphafið

Hönnun Stapaskóla var unnin eftir hugmyndum starfshóps sem allir hagsmunaaðilar að skólasamfélaginu komu að. Ákveðið var að bjóða fimm arkitektastofum tækifæri til að vinna sínar hugmyndir að skólahúsnæði út frá skýrslu starfshópsins sem að lokum endaði í samkeppni sem Arkís – arkítektar unnu. Úr varð skólabygging sem er björt, opin og aðlaðandi og býður upp á fjölbreytt og skapandi skólastarf.

Ég fékk tækifæri til að vera í starfshópnum sem fulltrúi skólastjórnenda í Reykjanesbæ en þá var ég aðstoðarskólastjóri Akurskóla. Í gegnum þá vinnu gat ég komið hugmyndum mínum og sýn á framfæri og saman stillti hópurinn upp fjölbreyttum hugmyndum að skóla sem átti að þjóna nemendum og skólasamfélaginu í heild. Grunnhugmyndin er að skólinn sé hjarta samfélagsins og menningarmiðstöð.

Skólabyggingin

Mynd 2 – Hér má sjá inn í hring og þar á bak við inn í eina tvenndina. Takið eftir skjánum í hringnum.

Stapaskóli er byggður upp í svokölluðum tvenndum og eru tveir árgangar í hverri tvennd. Tvenndirnar sem eru um 450 fermetrar hver eru mjög bjartar, rúmgóðar og þar er hátt til lofts. Í hverri tvennd er hringur í miðjunni sem stúkar hana aðeins af. Í hringnum er stór skjár sem kennarar geta notað til beinnar kennslu, fræðslu, kynningar eða til afþreyingar.

Mynd 3 – Séð inn í hópherbergi.

Í hverri tvennd eru sex minni rými þar sem hægt er að vera með hópastarf eða ef nemendur kjósa að fara aðeins afsíðis til að vinna verkefni sín. Allt umhverfið er með gleri þannig að kennarinn hefur ávallt góða yfirsýn yfir rýmið og getur fylgst með nemendum.

Auk tvenndanna fyrir árganga er smiðjutvennd, námsver, rými fyrir skólahjúkrunarfræðing, fjölnotasalur, tónmenntarými, tónlistarstofur, bókasafn, starfsmannatvennd og matsalur.

Nú er að fara af stað bygging annars áfanga sem inniheldur íþróttahús og sundlaug. Áætluð verklok eru um jólin 2022. Að lokum stendur til að reisa þriðja áfanga, en í honum verður heimilisfræðistofa, rými fyrir frístundaheimilið og leikskólastigið. Ekki er enn komin dagsetning á verkáætlun fyrir þennan síðasta áfanga.

Kennslufræðin

Í Stapaskóla er lögð áhersla á að horfa til framtíðar og við höfum valið okkur aðferðir og stefnur til að gefa nemendum sem bestan undirbúning fyrir þau verkefni og starfsumhverfi sem þeir kjósa í framtíðinni.

Helstu áherslur í starfi Stapaskóla eru:

  • Teymiskennsla
  • Könnunaraðferðin
  • Byrjendalæsi og Læsi fyrir lífið
  • Uppeldi til ábyrgðar
  • Samþætting námsgreina (sem í skólanum er kölluð Stapamix)
  • Áhugasviðsverkefni
  • Upplýsingatækni
  • Fjölbreytt vinnuumhverfi

Allt skólastarf er hugsað út frá teymiskennslu og teymissamstarfi þar sem starfsfólk tilheyrir stórum sem litlum teymum, allt eftir starfi hvers og eins. Teymiskennsla felst í því að kennarar og starfsmenn sameina krafta sína og þekkingu í þágu nemenda. Tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir hópnum, undirbúa sig og kenna saman að mestu leyti. Mikilvægt er að teymin séu sett saman af einstaklingum með fjölbreytta fagþekkingu til að ná sem bestum árangri í því að koma til móts við þarfir nemenda. Samvinna er lykilþáttur í öllu ferlinu og mikilvægt að huga vel að því hvernig fólki er raðað saman í teymi.

Mynd 4 – Séð yfir smiðjutvenndina.

Í Stapaskóla eru mörg teymi og það stærsta er heildin sjálf. Mikilvægt er að þeir sem koma til starfa hafi sömu sýn á nám og kennslu og stefni að sama markmiði hvað varðar kennslufræði og nám barnanna. Saman gerum við betur og öðruvísi en þegar við erum ein.

Mynd 5 – Nemendur læra forritun í gegnum leikinn.

Að reka skóla með tvö skólastig gefur okkur enn frekar tækifæri á að hafa flæði á milli þeirra. Við byrjum strax með rannsóknarvinnu nemenda í gegnum könnunaraðferðina sem er samþætt í gegnum námssvið leikskólans. Við höldum svo áfram á grunnskólastigi með samskonar vinnu í gegnum byrjendalæsi og svo þemaverkefnin okkar, Stapamixið. Unnið er með heildstæð verkefni sem gefur nemendum færi á að vinna saman, finna út hvaða leið er best og skila afrakstri á skapandi hátt.

Sem dæmi um Stapamixverkefni á unglingastiginu nú í haust má nefna að í tengslum við alþingiskosningar kynntu nemendur sér stefnu flokkanna í umhverfismálum og útbjuggu kynningarefni til þess að fræða skólafélaga sína. Eftir að nemendur höfðu kynnt sér stefnu ólíkra flokka fóru fram kosningar, með öllu tilheyrandi – kjörklefum og kosningarvöku. Annað verkefni hét Ég og allir hinir og fólst meðal annars í því að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda í kynjaskiptum umræðuhópum, ásamt því að ítreka fyrir þeim hversu mikilvægt það er að bera virðingu fyrir öðrum og setja mörk. Unnið var með viðfangsefni eins og karlmennsku og líkamsímynd og krakkarnir glímdu við fjölda verkefna um okkur sjálf, samskipti og sambönd. Næsta verkefni sem fer í gang ber yfirskriftina Britney og mun fjalla um ólíka þætti sem hægt er að tengja við poppsöngkonuna Britney Spears. Í þeirri lotu munu nemendur meðal annars fást við viðfangsefni tengd andlegri heilsu og poppkúltúr.

Í gegnum áhugasviðsverkefni náum við að tengja námið betur við nemendur og getum um leið gefið nemendum meira vægi og frelsi í náminu. Stapamix er byggt á samþættingu námsgreina þar sem nemendur vinna ýmist einir, í hópum eða tveir saman.

Þá leggjum við í skólanum mikla áherslu á náttúrufræði og útikennslu. Náttúrufræðin er kennd eftir þemum þar sem reynt er að tengja viðfangsefni við nútímann. Með því er reynt að ná athygli nemenda og sýna gildi náttúrugreinanna við samtímann. Unnið er með verkleg viðfangsefni, skapandi miðlun og skil þar sem nemandinn er í forgrunni og kennarinn styður við þekkingarsköpun. Við reynum líka að tengja náttúrufræðina við aðrar námsgreinar eins og smíði og hönnun, textíl, myndmennt, samfélagsfræði og íslensku. Þetta kemur líka fram í áhugasviðsverkefnum þar sem nemendur hanna afurð og semja texta. Hópvinna er mikilvægur hluti af náminu og hugmyndir nemenda hafðar til hliðsjónar þegar verkefni eru ákveðin. Varla þarf að taka fram að sérstök áhersla er á að tengja verkefnnin við tæknina við þar sem hægt er. Nemendur á miðstigi sækja svokallaða vísindasmiðju þar sem þeir læra forritun og hún er einnig á dagskrá á unglingastiginu.

Í öllum árgöngum er lögð áhersla á útikennslu. Náttúran og umhverfið í kringum Stapaskóla býður upp á fjölbreytt verkefni og viðfangsefni.

Teymiskennslan, samþættingin og áhugasviðsverkefnin eru í brennidepli í skólanum þessi fyrstu starfsár og vakað er yfir því hvernig þetta starf gengur, bæði með innra og ytra mati. Ákveðið hefur verið að halda á hverju vori innanhússþing þar sem kennarar og annað starfsfólk miðlar reynslu sinni. Auk þessa verkefnis hefur skólinn fengið styrki til annarra þróunarverkefna. Þau tengjast meðal annars námssamtölum, læsi, íþróttakennslu, menntabúðum starfsmanna, undirbúningi fyrir nýsköpunarkeppni og áhrifum forritunarnáms á rökhugsun, skilning á stærðfræði og samskiptahæfni nemenda.

Mörg þróunarverkefnanna eru að frumkvæði kennaranna sem undirstrikar faglegan áhuga þeirra og metnað. Skemmtilegt er að segja frá því að kennarar á unglingastigi hafa haft frumkvæði að því að á hverjum föstudegi er efnt til samveru þegar kennslu er lokið. Þá hittast kennararnir til að ræða málin, hlæja og eiga góða stund saman. Hugmyndin er að hver og einn fari inn í helgina á góðum nótum eftir samveru með samstarfsfólki. Starfsfólkið skiptist á að koma með veitingar, stundum er tónlist eða að tíminn er nýttur til fræðslu. Stundin er dýrmæt og ýtir undir samheldni og styrkir liðsheildina. Við Stapaskóla starfar ungur og kröftugur kennarahópur, 39 manns. Þar ef eru 19 með réttindi en 14 eru í kennaranámi, meirihlutinn á lokametrunum. Hópurinn hefur líka á að skipa tómstundafræðinema, tveimur þroskaþjálfum og iðjuþjálfa.

Tæknin, leikurinn og umhverfið

Mynd 6 – Fjölbreytt og litríkt námsumhverfi í tvenndum.

Strax í leikskóla er unnið með tækni í gegnum leikinn. Lagt er upp með að bjóða upp á fjölbreytt verkefni og vinnu með tækni sem gerir skólastarfið skemmtilegt, skapandi og er umfram allt, einstaklingsmiðaðri nálgun. Leikurinn er einnig mikilvægur og helsta námsleið ungra barna. Með það að leiðarljósi höfum við sett frjálsan leik inn í stundatöflu 1. og 2. bekkjar. Við viljum líka að það sé gaman í skólanum og að leikurinn haldi áfram.

Mynd 7 – Nemendur velja sér vinnuumhverfi við hæfi.

Allt umhverfi nemenda er hugsað með vellíðan þeirra að leiðarljósi. Þeir fá að velja sér námsaðstæður, þeir fá að velja sér tæki og tól sem henta við hvert viðfangsefni. Fjölbreyttar vinnuaðstæður felast í því að nemendur geta valið að sitja við mismunandi stærðir af borðum og stólum, valið að standa, vera á grjónapúða eða á teppi, setið í glugganum, tyllt sér á setkolla eða farið í hringinn í miðjunni þar sem teppi er á gólfi og bólstraðir bekkir við endann. Allt með hag og vellíðan þeirra að leiðarljósi.

Húsbúnaður og tæki eru að mestu á hjólum sem gerir kennaranum kleift að fara með hópinn sinn hvert sem er í tvenndinni. Við viljum að innlagnir séu í litlum hópum svo leiðsögn kennara nýtist sem allra best. Kennarar hafa aðgang að tveimur skjáum fyrir hvern árgang, annar er 85 tommu og hinn 69 tommu og er hann gagnvirkur Prowise skjár á hjólum. Þeir eru þægilegir og auðvelt að færa þá til. Þessir skjáir eru í raun verkfæri kennarans; tússtafla, skjávarpi og snjalltæki – allt í sama tækinu. Kennarar eru með púlt, sem er á hjólum, sem þeir nota við kennslu og geyma sín tæki og bækur í. Engin kennaraborð eru til staðar í tvenndunum. Með því að vera með fjölbreytt húsgögn og tæki á hjólum gerum við umhverfið skemmtilegra og sveigjanlegra sem skapar fjölbreytta möguleika til að koma til móts við ólíka nemendur. Nemendur hafa einnig val um tæki til að vinna verkefni sín. Fyrir 1.–4. bekk eru bekkjarsett af spjaldtölvum og fjórar fartölvur. Nemendur nota tækin í hringekjum og smiðjum til að vinna að fjölbreyttum verkefnum. Í 1.–6. bekk vinna nemendur og kennarar mikið í kennsluforritunum Seesaw, Osmo, Book Creator, en einnig fleiri forritum.

Allir nemendur í 5.–10. bekk hafa aðgang að spjaldtölvu og fjórar fartölvur eru til reiðu fyrir hvern árgang. Við leggjum áherslu á að kennslan sé fjölbreytt og að skapa nemendum margvísleg tækifæri til að finna sér vettvang sem hentar hverjum og einum. Nemendur í 7.–10. bekk vinna verkefni sín að miklu leyti í gegnum Office pakkann, þá sérstaklega One Note og Teams.

Mynd 8 – Á gangi á neðri hæð skólans er klifurveggur sem nýtur mikilla vinsælda.

Þegar lagt er af stað með nýjan skóla og nýjan starfsmannahóp er mikilvægt að fá til liðs við skólann sérfræðinga á hverju sviði sem og að gæta þess að svigrúm sé fyrir símenntun og fræðslu. Sem dæmi má nefna að við innleiðingu teymiskennslunnar höfum við notið ráðgjafar dr. Ingvars Sigurgeirssonar, fv. prófessors í kennslufræði við Háskóla Íslands sem hefur fylgjst með starfinu og átt fundi með starfsfólkinu.

Við viljum að Stapaskóli sé öðruvísi og að það sé áhersla á framsýni. Megináhersla okkar er á sameiginlega sýn um framúrskarandi skólastarf þar sem nemendur fást við heildstæð viðfangsefni og verkefni sem tengjast áhugasviði þeirra. Nemendur eiga að hafa kost á að hreyfa sig, fara í klifurvegginn, sitja í lesbásum á göngunum og í tröllastiganum. Allt umhverfið er stillt inn á að við getum sem allra best komið til móts við alla nemendur.

Við viljum vera hugrökk og stíga skrefinu lengra til að veita nemendum okkar það sem þeir þurfa. Við viljum hlusta á raddir þeirra og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á það sem við kennum og hvernig.

Mynd 9 – Notaleg lestrarstund í lesbás.

Gróa Axelsdóttir er skólastjóri Stapaskóla. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóli Íslands 2005, M.A. prófi í menningarstjórnun árið 2014 frá Háskólanum á Bifröst og viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2018. Gróa hefur starfað í fjölmörg ár í grunnskólum sem umsjónarkennari, deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og nú sem skólastjóri Stapaskóla frá árinu 2019.


 

Grein birt 21. október 2021

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp