Hafþór Guðjónsson
Þegar ungu fólki finnst það sem kennt er í skólanum hvorki áhugavert né eftirsóknarvert fyrir líf þeirra hér og nú eða fyrir framtíðina verður lærdómurinn í besta falli yfirborðskenndur. Þegar ég segi „yfirborðskenndur“ á ég við að þekkingin – hver sem hún er – verður ekki hluti af hugarheimi nemandans, hefur ekki áhrif á það hvernig hann skynjar heiminn. Andstæðan er þá þekking sem verður hluti af vitsmunalífi nemandans og hefur áhrif á hugsun hans, tilfinningar og gerðir, innan skóla sem utan. Mér finnst gagnlegt að greina þetta tvennt að með hugtökunum skólaþekking og athafnaþekking (Barnes, 2008, bls. 14).
Ég er „gamall Eyjapeyi“. Verð víst að setja þetta í gæsalappir því samkvæmt Íslenskri orðabók er peyi annaðhvort „drengur eða ungur karlmaður í Vestmannaeyjum“ eða „lítill gemlingur“. Ég er kominn vel á áttræðisaldurinn og bý í Reykjavík. En djúpt inni í mér finn ég fyrir þessum Eyjapeyja, þessum gemlingi sem vissi ekki hvort hann ætti að verða prestur eða sjómaður. Sé mig tíu ára nýkominn úr baði, sitjandi upp í hjónarúmi, mömmu megin, greiddur og guðræknislegur á svip, með opna Biblíu í höndunum og mamma stendur í dyragættinni og einhverjar konur sem gægjast yfir axlir hennar, horfa á mig aðdáunaraugum. „Hann ætlar að verða prestur“, segir mamma; og ég rýndi í Biblíuna sem aldrei fyrr.
En svo kom nýr dagur og ég kominn í skólann, í smíði hjá honum Lýði sem mér fannst svo óskaplega góður maður. Ég var að smíða bát, nokkuð stóran skal ég segja þér, líklega einir 50 sentimetrar á lengd og kannski svona 15 á breidd og álíka á dýptina. Sagaði og þjalaði og pússaði. Og viti menn, einn góðan dag var hann þarna, báturinn MINN. Með lest og lestarlúgu og þilfari og stýrishúsi og möstrum og bómu og lunningu; öllu heila klabbinu!
Svo kom rigning, alveg hellirigning og svakalega stór pollur á Mangatúni, leiksvæðinu okkar. Og þarna komum við strákarnir með bátana okkar, settum þá „í spring“ eins og sjómenn segja (festum í þá línu rétt aftan við stefni þannig að þeir tóku stefnu frá landi þegar togað var í línuna) og gengum svo hring eftir hring í kringum pollinn og töluðum í talstöðina, spurðum „ert´ að fá ´ann?“ en svarið einatt á sömu lund: „ekki bein úr sjó“ jafnvel þó allir vissu að það var í „mokfiskirí“ út um allan sjó! Ef ekki rigndi og ekki var pollur á Mangatúni bjuggum við okkur til netatrossur úr afskurðum af loðnunótum, bundum við þær baujur eins og vera ber og settum allt heila klabbið í bátana. Héldum svo út á Eiði þar sem við lögðum netin okkar í sandinn og settum skeljar ofan á þau. Fórum svo á „miðin“ næsta dag að vitja um trossurnar og fiskuðum yfirleitt vel, en blótuðum samt í sand og ösku í talstöðina yfir því hvað „hann væri tregur“.
Þessi minning frá Vestmannaeyjum kom í huga mér þegar ég las orð Douglas Barnes sem ég vitnaði til í upphafi þessa pistils. Hann hefur áhyggjur af því að hefðundin skólaþekking höfði ekki til nemenda og verði því ekki hluti af vitsmunalífi þeirra.
Þessi orð og greining Barnes hreyfðu við mér. Og vöktu upp minninguna um smíðina hjá Lýði og athafnir tengdar henni, sjómennskuna við pollinn á Mangatúni og úti á Eiði, mokfiskerí, fullfermi.
Hvað þetta var spennandi! Sé mig í anda smíða bátinn minn. Saga, þjala, pússa. Iðandi í skinninu að komast á sjóinn, demba mér í útgerð, leggja netin, vitja neta, mokfiska. Herma eftir köllunum, skipstjórunum, sérstaklega honum Bjarnhéðni sem blótaði mest allra yfir fiskileysinu, jafnvel þó hann væri að „fá ´ann“, „þann gula“.
Mamma vonaði að ég yrði prestur. En Biblían varð að víkja fyrir bátunum. Stóðum þarna á bryggjunni við Verkamannaskýlið, strákarnir, og fylgdumst með bátunum koma að bryggju. Mest gaman um páskana. Þá var oft „mokfiskerí“, „páskahrota“. Bátarnir komu drekkhlaðnir að landi, mis-drekkhlaðnir að vísu og við strákarnir veðjuðum hver væri með mestan afla. Svo horfðum við á þá landa, kallana í gulum sjóstökkum; gogga fiskinn niðrí lest, henda honum upp í löndunarmál sem síðan var híft upp á bíl þar sem kall í gulum stakk opnaði málið og þorskarnir streymdu út á bílpallinn. Stóðum þarna strákarnir og dreymdi stóra drauma: að verða eins og þeir, kallarnir í sjóstökkunum; stórir, sterkir, skítugir uppfyrir haus.
Smíði hjá Lýði. Ég var að smíða bát. Þegar ég hugsa um þetta koma í hugann stutt myndskeið sem heilinn virðist hafa búið til af þessari athöfn, smíðinni: Báturinn, hálfkláraður á smíðabekknum, skorðaður með þvingum. Ég með þjöl að þjala bátinn að framanverðu, báða kinnungana svo þeir verði eins. Maður verður að vanda sig! Lýður kemur til mín, fylgist með, kinkar kolli. Blessar verkið.
Smíði hjá Lýði. Uppáhaldstímarnir mínir. Þurfti ekki að „læra fyrir tímann“ eins og í hinum greinunum. Fór bara í tímann, setti á mig sloppinn og byrjaði að saga, þjala og pússa. Og smám saman varð hann til, báturinn. Kubbur, viðarbútur breyttist í bát. Fyrir minn verknað, í gegnum mína vinnu. Ég bjó hann til. Skapaði hann. Með aðstoð Lýðs og með verkfærum sem hann útvegaði mér, alls konar verkfærum í ýmsum tilbrigðum, til dæmis sögum og sporjárnum af ýmsum stærðum og gerðum og sandpappírum með mismunandi grófleika. Þannig varð báturinn til, óx út úr viðarkubbnum eins og fyrir töfra. Og ég óx líka.
Ég óx líka. Varð svolítill smiður. Lærði á verkfæri. Lærði að saga, þjala og pússa. Og þessi kunnátta, þessi athafnaþekking, varð hluti af mér, bjó um sig í líkama mínum, höndunum, heilanum, jafnvel augunum. Já, ekki síst augunum. Sá sem lærir að smíða öðlast smiðsaugu segir Guðmundur Finnbogason í Lýðmenntun:
Aldrei má gleyma því að öll þekking á að auka færni vora og leikni, og að eini áreiðanlegi mælikvarðinn fyrir því hvað vér vitum er það hvað vér getum. Sú þekking sem ekki gerir oss í neinu færari en vér áður vorum, er lítils virði. Þess vegna ber að haga öllu námi svo að nemandinn fái sem mest tilefni til að hagnýta sér hverja nýja þekkingu, nota hana sem undirstöðu nýrrar þekkingar eða sem leiðarljós ytri athafna. Þegar þekkingin er notuð, skýrist hún, vex og festist í minni og verður æ handhægara og betra verkfæri. „Sjá smiðsaugu,“ segir máltækið, en að smiðurinn ber gleggra skyn á smíðisgripinn en aðrir, kemur til af því að hann hefur fengið hugmyndina um hann svo að segja inn í hverja taug. Hugmyndin stýrir smiðshöndinni, og því leiknari sem höndin verður, því fullkomnari verður þekkingin. Þar styður hvað annað (Guðmundur Finnbogason, 1903/1994, bls. 66).
Betri lýsingu á athafnaþekkingu er varla hægt að hugsa sér!
Ég var í smíði hjá Lýði. Smíðaði bát og öðlaðist af smíðinni svolítil smiðsaugu. Ekki nóg með það. Smíðisgripurinn gerði mér fært að láta drauma mína rætast; fara í útgerð, fara á sjóinn, leggja net, mokfiska en bölva samt í talstöðina yfir því hvað „hann væri tregur“ – með fullan bát af skeljum (þorski) á leiðinni í land.
Ég byrjaði þennan pistil með tilvísun í Douglas Barnes þar sem hann kvartar yfir áhugaleysi nemenda í enskum skólum og ýjar að því að yfirborðslegri skólaþekkingu sé um að kenna, þekkingu sem „verður ekki hluti af hugarheimi nemandans“ eins og hann orðar það. Andstæðan, bætir hann við, er athafnaþekking, þ.e. „þekking sem verður hluti af vitsmunalífi nemandans og hefur áhrif á hugsun hans, tilfinningar og gerðir, innan skóla sem utan.“ (Barnes, 2008, bls. 14)
Þegar ég las þessar pælingar Barnesar varð mér hugsað til Eyja, til bátasmíðinnar hjá Lýði og útgerðarinnar sem fylgdi í kjölfarið. Sú þekking sem ég öðlaðist af þeirri reynslu varð ekki einasta hluti af hugarheimi mínum. Hún smaug líka inn í augun og út í hendurnar. Líkamaðist. „Sannmenntandi reynsla“, hefði Guðmundur Finnbogason líklega sagt.
Heimildir
Barnes, D. (2008). Exploratory talk for learning. Í S. Hodgkinson og N. Mercer, Exploring talk in schools. Inspired by the work of Douglas Barnes. Los Angles: Sage.
Guðmundur Finnbogason. (1903/1994). Lýðmenntun. Hugleiðingar og tillögur. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.
Pistill birtur: 25/9/2021