Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

Hafþór Guðjónsson

Einstaklingsmiðað nám?

í Pistlar

Þórhildur Daðadóttir

Ég er alin upp í sveit. Átti góða æsku. Og þó að efnin væru ekki mikil, skorti mig ekkert. Nema eitt, bekkjarfélaga. Í sveitinni var lítill sveitaskóli. Við byrjuðum þrjú en svo fluttu bekkjarsystkini mín í burtu. Þannig að frá 4. bekk skorti mig bekkjarfélaga. Það var samt samkennsla í skólanum svo ég sat ekki ein í stórri skólastofu, en í sumum fögum voru árgangar ekki saman. Ég fékk t.d. einkakennslu í dönsku og ensku fyrstu árin. Einstaklingsmiðað nám? Nei, varla. Það var farið eftir námskránni og námsefnið var það sama og hafði alltaf verið; það sem bekkurinn á undan mér lærði, lærði ég, og það sem ég lærði, lærði bekkurinn á eftir mér. En er það þannig sem einstaklingsmiðað nám virkar? Einkakennsla? Að hver og einn læri á sinn hátt? Lesa meira…

Sjá smiðsaugu

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Þegar ungu fólki finnst það sem kennt er í skólanum hvorki áhugavert né eftirsóknarvert fyrir líf þeirra hér og nú eða fyrir framtíðina verður lærdómurinn í besta falli yfirborðskenndur. Þegar ég segi „yfirborðskenndur“ á ég við að þekkingin – hver sem hún er –  verður ekki hluti af hugarheimi nemandans, hefur ekki áhrif á það hvernig hann skynjar heiminn. Andstæðan er þá þekking sem verður hluti af vitsmunalífi nemandans og hefur áhrif á hugsun hans, tilfinningar og gerðir, innan skóla sem utan. Mér finnst gagnlegt að greina þetta tvennt að með hugtökunum skólaþekking og athafnaþekking (Barnes, 2008, bls. 14).

Ég er „gamall Eyjapeyi“. Verð víst að setja þetta í gæsalappir því samkvæmt Íslenskri orðabók er peyi annaðhvort „drengur eða ungur karlmaður í Vestmannaeyjum“ eða „lítill gemlingur“. Ég er kominn vel á áttræðisaldurinn og bý í Reykjavík. En djúpt inni í mér finn ég fyrir þessum Eyjapeyja, þessum gemlingi sem vissi ekki hvort hann ætti að verða prestur eða sjómaður. Sé mig tíu ára nýkominn úr baði, sitjandi upp í hjónarúmi, mömmu megin, greiddur og guðræknislegur á svip, með opna Biblíu í höndunum og mamma stendur í dyragættinni og einhverjar konur sem gægjast yfir axlir hennar, horfa á mig aðdáunaraugum. „Hann ætlar að verða prestur“, segir mamma; og ég rýndi í Biblíuna sem aldrei fyrr. Lesa meira…

Að þróa sína eigin innri orðræðu

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Tilvera mannsins (bæði hið innra og hið ytra) er djúp samræða. Að vera þýðir að eiga samskipti við aðra. (Bakthín, 1984, bls. 12)[i]

Undanfarnir fjórir pistlar mínir í Skólaþráðum hafa beinst að samræðunni. Bendir það til þess að ég sé mjög upptekinn af þessu fyrirbæri. Það er ég vissulega og hef verið lengi, alveg síðan ég kynntist hugsmíðahyggju rétt um 1990. Þá fór ég að líta á nemandann sem þekkingarsmið og að hlutverk mitt sem kennara væri fyrst og fremst fólgið í því að hjálpa nemendum mínum að byggja upp þekkingu sína á námsefninu. Þetta kallar auðvitað á samræður enda varð ég „samræðukennari“ upp úr þessu. Ekki svo að skilja að ég hafi gefið fyrirlestra og aðrar kennsluaðferðir upp á bátinn. Síður en svo. En afstaða mín til náms og til nemenda breyttist og markaði gjörðir mínar. Jafnvel fyrirlestrar mínir urðu „samræðufyrirlestrar“ og verklegu tímarnir í efnafræði urðu í ríkara mæli en áður samræðutímar þar sem ég gekk á milli nemendahópa, forvitinn að heyra hvernig þeir túlkuðu það sem fyrir augu þeirra bar, kynnast hugarheimi þeirra. Lesa meira…

Samræðukennsla

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Á undanförnum tveimur áratugum hefur athygli fræðimanna á sviði skólastarfs og menntunar í vaxandi mæli beinst að samræðunni, m.a. fyrir tilstilli Douglas Barnes sem ég nefndi til sögunnar í pistilinum Rýnital og kynningartal og Neil Mercer sem ég sagði frá í pistlinum Að hugsa saman. Óhætt er að fullyrða að þessir tveir fræðimenn hafa átt drjúgan þátt í að sýna fram á gildi samræðunnar fyrir skólastarf, Barnes með því að benda á hve mikilvægt það er að gefa nemendum rými til að tala saman og skapa nýjan skilning á grundvelli sameiginlegrar reynslu, Mercer með því að leiða okkur fyrir sjónir að vel skipulagðar samræður geta stuðlað að því að nemendur verði færari í að hugsa saman og þar með vinna saman, til dæmis í hópavinnu. En fleiri fræðimenn koma hér við sögu og þá ekki síst Robin Alexander. Hann hefur verið í forystuhlutverki í alþjóðlegri hreyfingu fræðimanna sem hefur unnið að því að þróa nýja kennslufræði sem setur samræðuna í öndvegi: dialogic teaching eða samræðukennslu. Lesa meira…

Að hugsa saman

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Í síðasta pistli mínum hér í Skólaþráðum sagði ég frá Douglas Barnes sem rannsakaði bekkjartal í grunnskólum á Englandi á síðasta þriðjungi 20. aldar og þá sérstaklega samræður nemenda í hópavinnu. Með hugsmíðahyggju að leiðarljósi auðnaðist Barnes að skilja hve samræður nemenda geta skipt miklu máli í skólastarfi; að þær séu, þegar best lætur, lykill að góðum skilningi á námsefninu.

Barnes ýtti við rannsakendum. Áhugi þeirra beindist nú í vaxandi mæli að tengslum náms og tungumáls. Hvernig er þessum tengslum háttað? – spurðu þeir. Fram að þessu (fyrir 1970) hafði tungumálinu ekki verið gefinn mikill gaumur í rannsóknum á skólastarfi. Almennt gerðu menn ráð fyrir því að orðlæg samskipti ættu sér stað með eftirfarandi hætti: sendandi hugsar eitthvað, setur hugsanir sínar í orð, sendir þau móttakanda sem tekur við þeim og „les“ úr þeim hugsun sendandans. Þessi leiðslulíking (e. conduit metaphor)[i] hefur búið með okkur um aldir og sett mark á skólastarf: Að kenna merkir að miðla hugsunum, að læra merkir að taka við því sem aðrir hafa hugsað og gildir þá einu hvort við köllum slíkar hugsanir þekkingu, upplýsingar, þekkingaratriði, staðreyndir, lögmál eða reglur. Í öllum tilvikum erum við að tala um eitthvað „frágengið“, eitthvað sem þarf ekki að ræða. Lesa meira…

Rýnital og kynningartal

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Í pistlum mínum í Skólaþráðum hef ég ósjaldan komið inn á samræðuna, síðast í pistlinum Fyrirlesturinn sem ekki varð. Þar sagði ég frá því þegar mér var boðið að halda fyrirlestur um starfendarannsóknir í námskeiði fyrir iðngreinafólk á Menntavísindasviði Háskóla Íslands en datt inn í svo fjári góðar samræður við nemendur að ég gleymdi tímanum. Það varð sum sé lítið úr fyrirhuguðum fyrirlestri. Engu að síður virtust nemendur sáttir í lokin. Sumir kvöddu mig með handabandi. Lesa meira…

Fyrirlesturinn sem ekki varð

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Fyrir stuttu var mér boðið að halda fyrirlestur um starfendarannsóknir í námskeiði fyrir iðngreinafólk á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þetta væri ekki í frásögur færandi ef hlutirnir hefðu gengið eðlilega fyrir sig. Það gerðu þeir nefnilega ekki. Það varð ekkert úr fyrirlestrinum, eða öllu heldur ekkert að ráði. Þetta átti að vera svona Power Point fyrirlestur. Ég hafði útbúið 25 glærur og sett þær á minniskubb. Kominn á staðinn spurði umsjónarkona námskeiðsins, hún Elsa, hvort ég væri með glærur. Ég játti því, lét hana hafa minniskubbinn sem hún stakk í samband við borðtölvuna og tók svo afrit af glærunum yfir á skjáborðið. Allt klárt og ekki laust við að ég hlakkaði til að sýna nemendum, iðgreinafólkinu, þessar frábæru glærur mínar. Ég er nefnilega ansi góður í Power Point! Lesa meira…

Að rýna í eigin rann. Mikilvægi sjálfsrýni í kennaranámi og starfsþróun kennara

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Starfendarannsóknir hafa fest rætur á Íslandi, bæði í skólum og í kennaranámi, ekki síst á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem vel á annað hundrað kennaranemar hafa lokið meistaraprófsverkefni með sniði starfendarannsóknar. Slíkar rannsóknir beinast ekki bara út á við eins og venja er heldur líka inn á við. Rannsakandinn tekur sjálfan sig til skoðunar í því skyni að átta sig betur á eigin viðhorfum, hvernig hann sjálfur hugsar. Slíka iðju kalla ég sjálfsrýni og hef orðið þess var að hún hreyfir oft við þeim sem í hlut eiga. Einar Sigurdór Sigurðsson sem lauk meistaraprófi með starfendarannsóknarsniði vorið 2019, skrifar í lokaorðum sínum:

Að hafa farið í gegnum svona starfendarannsókn hefur gefið mér mikið. Ég tel að allir hafi gagn af því að horfa inn á við í sínu starfi og þá gildir einu hver starfsaldurinn er. Rannsóknarvinnubrögðin sem slík er lærdómsrík reynsla sem ég bý að hér eftir og vonandi get ég miðlað þeirri þekkingu til annarra. En það er þó ekki það mikilvægasta sem ég tek með mér. Að hafa horft inn á við eins og hér hefur verið gert er dýrmætasta reynslan. Með því hef ég lært heilmikið inn á sjálfan mig, fundið styrkleika og veikleika en einnig fundið styrkleika í veikleikunum. Ég er því sannfærður um að starfendarannsóknin hafi eflt mig og þroskað á mörgum sviðum. Hún hefur eflt mig sem persónu, kennara og samstarfsmann en einnig sem fagmann. Ég er reynslunni ríkari.  (Bls.75) Lesa meira…

Nemandinn sem merkingarsmiður

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson          

 

Í síðasta pistli mínum í Skólaþráðum,  Af tossum og táknfræði, sagði ég frá glímu Bubba Mortens við íslenska skólakerfið. Hann var skrifblindur og átti þess vegna erfitt uppdráttar í skólakerfi sem lagði áherslu á skrifleg próf. Svo fór hann í skóla í Danmörku og þar þurfti hann ekki að taka nein skrifleg próf og þá fór allt að ganga betur. Þótti flottur ungur maður.

Í pistlinum skoðaði ég þessa skólasögu Bubba í táknfræðilegu ljósi, nánar tiltekið í ljósi félagslegrar táknfræði og komst þá að þeirri niðurstöðu að hann hefði, líkt og margir aðrir nemendur, verið fórnarlamb gamalgróinnar hugmyndafræði sem einblínir á tungumálið og telur skrifleg próf bestu leiðina til að meta þekkingu og færni nemenda. Félagsleg táknfræði lítur hins vegar svo á að skrifleg próf takmarki möguleika nemenda til að koma þekkingu sinn á framfæri og sýna færni sína.

Félagsleg táknfræði (social semiotics) er í mínum huga öflugt „ljós“, ekki bara til að skoða skrifleg próf heldur skólastarf almennt. Þegar við skoðum skólastarf í þessu ljósi birtist það okkur með nýjum hætti og við skynjum ný sóknarfæri, nýjar og öflugari leiðir til að þjóna nemendum okkar. Um þetta fjallar þessi pistill. Lesa meira…

Af tossum og táknfræði

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

 En svo kom að skrift og stafsetningu og þá hrundi veröldin.
(Bubbi Mortens)

Hinn 12. janúar síðasliðinn birtist viðtal við Bubba Mortens í Fréttablaðinu. Í upphafi viðtalsins er vikið að skólagöngu Bubba. Hann segir:

Ég er skrifblindur. Ég var undrastrákur á bækur. Bráðger og varð snemma læs. Ég var búinn að lesa Tolstoj og Gorkí fyrir 10 ára aldur. Ég stóð mig líka vel í lestri í skóla. En svo kom skrift og stafsetning og þá hrundi veröldin. Ég var settur í geymslu í grunnskóla, tossabekkinn í Vogaskóla. Þar brotnaði auðvitað eitthvað og ég fann fyrir ótta við orð og skrif.

Fjórtán ára gamall var Bubbi sendur í heimavistarskóla í Danmörku. „Þar losnaði hann að einhverju leyti undan óttanum við að setja hugsanir sínar í orð“, skrifar blaðakonan, Kristjana Björg Baldursdóttir og vitnar aftur í Bubba:

Þar var sagt við mig: Þú ert bara í toppstandi, þú þarft ekki að taka nein skrifleg próf í þessum skóla. Áherslurnar voru svo allt aðrar en ég hafði kynnst á Íslandi. Ég fékk að vera ég. Lesa meira…

Fara í Topp