Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Author

tac

tac has 2 articles published.

Sjá smiðsaugu

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Þegar ungu fólki finnst það sem kennt er í skólanum hvorki áhugavert né eftirsóknarvert fyrir líf þeirra hér og nú eða fyrir framtíðina verður lærdómurinn í besta falli yfirborðskenndur. Þegar ég segi „yfirborðskenndur“ á ég við að þekkingin – hver sem hún er –  verður ekki hluti af hugarheimi nemandans, hefur ekki áhrif á það hvernig hann skynjar heiminn. Andstæðan er þá þekking sem verður hluti af vitsmunalífi nemandans og hefur áhrif á hugsun hans, tilfinningar og gerðir, innan skóla sem utan. Mér finnst gagnlegt að greina þetta tvennt að með hugtökunum skólaþekking og athafnaþekking (Barnes, 2008, bls. 14).

Ég er „gamall Eyjapeyi“. Verð víst að setja þetta í gæsalappir því samkvæmt Íslenskri orðabók er peyi annaðhvort „drengur eða ungur karlmaður í Vestmannaeyjum“ eða „lítill gemlingur“. Ég er kominn vel á áttræðisaldurinn og bý í Reykjavík. En djúpt inni í mér finn ég fyrir þessum Eyjapeyja, þessum gemlingi sem vissi ekki hvort hann ætti að verða prestur eða sjómaður. Sé mig tíu ára nýkominn úr baði, sitjandi upp í hjónarúmi, mömmu megin, greiddur og guðræknislegur á svip, með opna Biblíu í höndunum og mamma stendur í dyragættinni og einhverjar konur sem gægjast yfir axlir hennar, horfa á mig aðdáunaraugum. „Hann ætlar að verða prestur“, segir mamma; og ég rýndi í Biblíuna sem aldrei fyrr. Lesa meira…

Lykilhæfni – leiðir og leiðsögn

í Fréttir úr starfi samtakanna

Þann 14. ágúst næstkomandi efna Samtök áhugafólks um skólaþróun til ráðstefnu þar sem leitast verður við að svara spurningunni:

Hvernig náum við best þeim markmiðum sem sett eru með skilgreiningu á lykilhæfni í námskrá (hæfni í tjáningu, samræðu, skapandi og gagnrýninni hugsun, samvinnu, sjálfstæðum vinnubrögðum, að nýta ólíka miðla og taka ábyrgð á eigin námi) og hvernig er best að haga mati á þessari hæfni?

Ráðstefnan verður í Rimaskóla í Reykjavík.

Árdegis verða stuttir fyrirlestrar en síðdegis fjölbreytt dagskrá með kynningum á skólaverkefnum, sýningum og vinnustofum.

Aðalerindi flytja:

Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar

Sjáðu hvað ég get! 

Hvað er  mikilvægast að börn læri í leikskóla og hvaða nám erum  við að meta? Hvernig stuðla leikskólakennarar að því að börn öðlist hæfni, þekkingu og leikni í grunnþáttum menntunar?

Hulda Dögg Proppé. Íslenskukennari á unglingastigi í Sæmundarskóla, Grafarholti

Hvernig á ég að meta þetta? Að finna leið að settu marki

Það er hægara sagt en gert að breyta meginhugsuninni að baki námsmati. Fjallað verður um þá hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað þegar nemendur eru metnir eftir nýjum matsviðmiðum aðalnámskrár og það ferðalag sem slík vinna felur í sér fyrir kennarahópinn.

Ívar Rafn Jónsson framhaldsskólakennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

LeiðsagnarNÁM – Samtal milli kennara og nemenda

Mikilvægi samtalsins í námi með hliðsjón af ólíkri námsmatsmenningu, þar sem um leiðsagnarnám er í forgrunni. Hvað finnst nemendum og kennurum um námsmat og endurgjöf í framhaldsskóla. Leitast verður við að reifa svörin með von um að finna leiðarljós við að taka næstu skref í þróun námsmats sem er í þágu nemandans og hæfni hans í námi.

Kristín Ingólfsdóttir prófessor og f.v. háskólarektor

Stenst menntakerfið tæknibyltinguna?

Kristín ætlar að fjalla um veldisvöxt tækniþróunar og áhrif hraðans á atvinnulíf, menntastofnanir, verðmætasköpun og samfélög. Hún ætlar að velta upp með hvaða hætti menntakerfið geti sem best undirbúið nemendur á öllum skólastigum til þátttöku í breyttu samfélagi þar sem flestar, ef ekki allar, atvinnugreinar munu kalla eftir nýrri tegund þekkingar og færni.

Meyvant Þórólfsson dósent við Kennaradeild Háskóla Íslands

Lykilhæfni: Alhliða hæfni sem snertir alla þætti uppeldis og menntunar

Byltingar liðinna alda eins og upplýsingin, iðnbyltingin og nýlendustefnan teljast líklega minni háttar breytingaskeið í sögu mannkyns í samanburði við þau umbrot sem við horfumst í augu við nú á tímum undir merkjum hnattvæðingar og nútímavæðingar. Í erindinu er þessi þróun sett í samhengi við hugtakið hæfni eins og það birtist í námskrárþróun undir heitinu lykilhæfni.

Stefanía Malen Stefánsdóttir skólastjóri Brúarásskóla

Með lykilhæfni að leiðarljósi!
Um Brúna – þróunarverkefni í Brúaráskóla

Hvað viljum við að börnin okkar læri? Kynntar verða þær breytingar sem hafa orðið og verið er að þróa, á kennsluháttum í Brúarásskóla. Brúin er þróunarverkefni þar sem markmiðið er að efla ábyrgð, sjálfstæði og val nemenda ásamt því að brjótast úr viðjum faggreinakennslu og einbeita sér að viðfangsefnum.

Sjá nánari upplýsingar og skráningu á www.skolathroun.is

 

Fara í Topp