Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Aðlaðandi starfsumhverfi fyrir leikskólakennara

í Greinar

Sigrún Sigurðardóttir og Ragnhildur Gunnlaugsdóttir

 

Í Garðabæ stendur leikskólum til boða að sækja um styrk í þróunarverkefni úr þróunarsjóði leikskóla. Markmið með sjóðnum er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi leikskólanna í bænum. Einstaka leikskólakennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við leikskóla í Garðabæ, einn leikskóli eða fleiri skólar í sameiningu geta sótt um styrk í sjóðinn. Umsóknir eru metnar af leikskólanefnd Garðabæjar með hliðsjón af tengingu verkefnis við skólastefnu Garðabæjar og skólanámskrá viðkomandi leikskóla. Auk þess er tekið mið af markmiðum verkefnisins, framkvæmdaáætlun, matsáætlun, kostnaðarmati og væntanlegum ávinningi þess fyrir skólastarf í bænum. Á síðastliðnum árum hefur átta milljónum verið úthlutað árlega úr sjóðnum til leikskóla innan sveitarfélagsins, sjá hér.

Vorið 2017 sóttum við, Sigrún leikskólastjóri og Ragnhildur aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Ökrum, um styrk til að þróa starfsumhverfi leikskólans með það fyrir augum  að gera það meira aðlaðandi fyrir leikskólakennara.

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 skulu að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Samkvæmt því ættu heildarstöðugildi leikskólakennara á Ökrum að vera 9,2 en voru 4,9 miðað við stöðuna í lok árs 2016 og í lok árs 2018 voru stöðugildin 5,5 og því vantar leikskólakennara í 3,7 stöðugildi.

Markmið verkefnisins

Markmið þróunarverkefnisins, sem bar heitið „Horft til framtíðar“, var að fjölga leikskólakennurum á Ökrum og til að ná því markmiði var ákveðið að breyta undirbúningstímum leikskólakennara og þá um leið dagsskipulagi leikskólans. Ákveðið var að alla daga vikunnar færu deildarstjórar út af deildinni klukkan 14:00 og þrjá daga vikunnar færu leikskólakennarar út af deildinni klukkan 14:00. Skipulagið yrði þannig að fyrir hádegi væru allir starfsmenn inn á deildum í starfi með börnunum. Eftir klukkan 14:00 væru deildarstjórar og kennarar að vinna undirbúningsvinnu ásamt því að deildarstjórafundir, aðrir fundir og foreldraviðtöl færu fram á þeim tíma. Með þessu töldum við að minna álag yrði inn á deildum fyrir hádegi, meiri samvinna milli kennara eftir hádegi og þá um leið yrði starfið faglegra og áhugaverðara fyrir leikskólakennara.

Ferlið

Við fengum Svölu Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, til að vera verkefnastjóri yfir verkefninu. Hún fundaði með fjórum rýnihópum, einum með starfsfólki leikskólans, einum með foreldrafélagi og ráði leikskólans, einum með nemendum úr leikskólakennarafræðum og einn rýnihópur innihélt leikskólastjóra af höfuðborgarsvæðinu, kennara af menntavísindasviði, sérfræðing frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og formenn FL og FSL. Á rýnihópafundunum fór Svala yfir kosti og galla hugmyndar okkar um að deildarstjórar færu út af deildinni alla daga vikunnar klukkan 14:00 og leikskólakennararar þrjá daga vikunnar eftir klukkan 14:00.

Niðurstöður allra rýnihópafundanna sýndu að það var mikill áhugi á þessu verkefni og töldu flestir að með þessu skipulagi yrði starfsumhverfið í leikskóla meira aðlaðandi fyrir leikskólakennara en einnig faglegra inn á deildum. Mestu áhyggjurnar voru af mönnun og ábyrgð inn á deildum eftir klukkan 14:00. Með þessar niðurstöður að leiðarljósi ákváðum við að hafa ábyrgðamenn inni á hverri deild eftir klukkan 14:00 og fengu þeir greitt aukalega fyrir það. Einnig reyndum við að ráða inn afleysingu sem myndi henta nýja skipulaginu.

Undirbúningstími verkefnisins stóð yfir í eitt ár og í september 2018 var farið í að vinna eftir skipulaginu. Í nóvember var gerð könnun þar sem starfsfólkið var spurt um hvernig gengi að vinna eftir nýja skipulaginu. Meirihluti starfsmanna var ánægður með breytinguna; það var minna álag inni á deildum fyrir hádegi þar sem allir starfsmenn eru alltaf til staðar. Deildarstjórarnir voru mjög ánægðir, þeir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki í undirbúning eða geyma verkefni sem þeir voru að vinna að. Þeir bentu á að gott væri að vera allir saman í undirbúningstímanum, með því að skiptast á skoðunum og rökræða fengju þeir hugmyndir og meiri innsýn í starfið hjá hver öðrum og gætu þá um leið samnýtt verkefni. Flestir starfsmenn sem eru inn á deildum eftir klukkan 14:00 voru ánægðir með það starf sem fram fór á deildinni á þeim tíma. Á yngri deildunum eru stöðugildin 4,5 yfir allan daginn. Fram til klukkan 14:00 eru fimm starfsmenn og eftir klukkan 14:00, þegar deildarstjóri fer í undirbúning, þá eru fjórir starfsmenn eftir inn á deild. Á annarri eldri deildinni eru tveir leikskólakennarar og þrjá daga vikunnar fara þeir báðir í undirbúning út af deildinni klukkan 14:00. Við náðum að ráða inn starfsfólk eftir klukkan 14:00 en það var ekki sami starfsmaðurinn alla daga vikunnar sem gerði þetta aðeins flóknara. En þar sem þetta er nýtt höfum við þurft að aðlaga skipulagið að breyttum aðstæðum og er ekkert óeðlilegt að það taki tíma að finna rétta taktinn.

Ávinningur

Leikskólinn Akrar lagði til myndirnar

Við teljum að áviningur leikskólans af þessu fyrirkomulagi sé mikill, leikskólakennarar geta unnið saman eftir kl. 14:00 að hinum ýmsum verkefnum sem koma að leikskólastarfinu, haldið  samráðsfundi milli deilda, deildarstjórafundi, tekið foreldraviðtöl, unnið að innra mati leikskólans og öðrum verkefnum sem koma inn á þeirra borð. Einnig teljum við að þetta verkefni sé gott fyrir leikskólasamfélagið í Garðabæ. Ef allir leikskólar í Garðabæ ynnu eftir þessu myndi það auðvelda samræmingu faglegs starfs, t.d. fundi, handleiðslu deildarstjóra  og almenna fræðslu.

Um höfunda

Sigrún Sigurðardóttir er leikskólastjóri í leikskólanum Ökrum í Garðabæ. Hún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1981 og lauk eins árs námi við framhaldsdeild FÍ í stjórnun árið 1996.  Árið 2007 lauk hún 30 eininga Dipl.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði. Hún hefur starfað sem leikskólastjóri í rúm 27 ár. Sigrún hefur setið í leikskólaráði/menntaráði Reykjavíkur, stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun og einnig í stjórn FSL.

Ragnhildur Gunnlaugsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Ökrum. Hún er leikskólakennari í grunninn og lauk meistaragráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf frá Háskóla Íslands í febrúar 2018. Einnig lauk hún 11 vikna námi frá Háskólanum á Bifröst 2013 sem bar heitið Sterkari stjórnsýsla. Ragnhildur hefur unnið í leikaskóla í rúm 25 ár.

 

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp