kennslufræði

Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð

Nýlega kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð. Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknar á Byrjendalæsi sem staðið hefur undanfarin ár. Að rannsókninni stóð hópur rannsakenda af hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ásamt sjálfstætt starfandi fræðimönnum. Verkefnisstjóri rannsóknarinnar var Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild HA og ráðgjafi rannsóknarhópsins var dr. Sue Ellis, prófessor við University of Strathclyde í Glasgow. Ritstjórar bókarinnar eru Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson. (meira…)

Að móta öðruvísi enskukennslu – Reynsla af vendinámi við enskukennslu í framhaldsskóla

Geir Finnsson

Undanfarið ár hef ég notið þeirra forréttinda að fá að kenna ensku í framhaldsskóla. Rétt eins og mér var sagt þegar ég hóf störf fyrir um einu og hálfu ári síðan hefur starfið reynst afskaplega gefandi og skemmtilegt.

Þess ber hins vegar að geta að skólinn sem ég kenni við, Menntaskólinn á Ásbrú (MÁ) við Keili, er frábrugðinn öðrum framhaldsskólum. Þessi nýjasti framhaldsskóli landsins, stofnaður árið 2019, er ekki aðeins óvenjulegur að því leyti að bjóða upp á tölvuleikjagerðarbraut, heldur fer kennslan þar einvörðungu fram með vendinámi. (meira…)

Fjórar meginstoðir teymiskennslu

    Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

 

Viðfangsefni þessarar greinar er um leiðir til að innleiða teymiskennslu í skipulag grunnskólastarfs. Kveikja greinarinnar er meistararitgerðin, Það er óttalegur línudans, og fjallar greinin um niðurstöður þeirrar rannsóknar en fléttað er inn í dæmum um hvernig hægt er að styðja við þá undirstöðuþætti sem þurfa að vera til staðar svo að teymiskennsla gangi sem best. Í dæmunum er starfsfólk nafngreint eftir persónum úr uppáhaldsskáldsögu höfundar þessarar greinar og því geta lesendur haft gaman að því að finna út hvaða saga það er um leið og þeir lesa greinina.

Í teymiskennslu felst að kennarar sameina krafta sína og þekkingu við að leysa sameiginleg verkefni og ná fram ákveðnum markmiðum. Tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir einum árgangi eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna einnig að einhverju marki saman. Faglegt teymi hefur yfir að ráða kennsluúrræðum sem henta öllum nemendum. (meira…)

Alþýðukennslufræði og forhugmyndir

Hafþór Guðjónsson

… þegar við búumst til að rannsaka það sem á sér stað í kennslustofu … er eins gott að við tökum mið af þeim alþýðukenningum sem þar eru við lýði (Bruner, 1996, bls. 46).

Drjúgan hluta starfsferils míns fékkst ég við að kenna fólki að kenna og þá sérstaklega verðandi framhaldsskólakennurum á sviði náttúrufræðigreina. Ég kom á laggirnar sérstöku námskeiði fyrir þessa kennaranema en fylgdist líka með þeim á vettvangi þegar þeir voru að taka sín fyrstu skref í kennslu. Í námskeiðinu kynnti ég þeim „fræðin“ eins og vera ber og þá sérstaklega svokallaða hugsmíðahyggju sem hefur átt vinsældum að fagna meðal fræðimanna á sviði náttúrufræðimenntunar undanfarna áratugi. Eins og nafnið gefur til kynna lítur hún á nemandann (og fólk yfirleitt) sem þekkingarsmið. Frá blautu barnsbeini, segir hún, er einstaklingurinn stöðugt að leitast við að koma reglu á það sem hann sér, heyrir og finnur og smíðar þá úr reynslu sinni og af samskiptum sínum við annað fólk hugmyndir um fyrirbæri eins og ljós, hita, rafmagn, erfðir, loft, krafta og hreyfingu hluta. Slíkar forhugmyndir eins og þær eru oft kallaðar (preconceptions) virðast oft lífsseigar, halda velli jafnvel þó þær gangi í berhögg við vísindalegar hugmyndir. Í bók sem kom út á vegum Bandaríska vísindaráðsins (National Research Council) árið 1999 og ber heitið How People Learn er bent á þetta og því beint til kennara að þeir taki forhugmyndir barna alvarlega:

Nemendur koma í skólastofuna með forhugmyndir um það hvernig heimurinn virkar. Ef þessi skilningur þeirra er látinn óhreyfður er hætta á að þeir skilji ekki ný hugtök og upplýsingar eða að þeir læri þessi hugtök og upplýsingar eingöngu til að nota á prófi en að forhugmyndirnar ráði utan kennslustofunnar (bls. 10). (meira…)

Að kenna gervigreind í framhaldsskóla

9. júní, 2025

Geir Finnsson

Á vorönn 2025 bauð Menntaskólinn við Sund upp á nýjan áfanga um gervigreind og ábyrga notkun á henni. Áfanginn, sem ber heitið Gervigreind & samfélag, var settur á laggirnar í kjölfar ört vaxandi áhrifa gervigreindar, nánar tiltekið spunagreindar (e. generative AI) á skólastarfið auk umræðu innan skólans um mikilvægi þess að fræða nemendur um áhrif, tækifæri og áskoranir sem fylgja þessari nýju tækni. Með spunagreind er átt við skapandi gervigreind sem getur útbúið alls kyns texta, mynd- og hljóðefni út frá sérstökum skipunum. Markmið áfangans var að undirbúa nemendur undir nýjan veruleika þar sem gervigreind gegnir sífellt stærra hlutverki, jafnt í námi sem og starfi. Hér verður fjallað um reynslu mína af kennslu þessa áfanga, innihaldi hans og þær kennsluaðferðir sem stuðst var við. (meira…)

Reynsla kennara að byggja upp hugsandi skólastofu í framhaldsskóla

8. október, 2024

Eyþór Eiríksson

Þessi grein fjallar um reynslu stærðfræðikennara í framhaldsskóla af kennslunálgun sem ber heitið hugsandi skólastofa (e. thinking classroom). Í greininni er gert ráð fyrir að lesandi þekki til grunnatriða hugsandi skólastofu. Bent er á bókina Building Thinking Classrooms in Mathematics: Grades K-12  eftir Peter Liljedahl. Von er á íslenskri útgáfu bókarinnar í þýðingu Bjarnheiðar Kristinsdóttur. Aftan við greinina er birtur listi yfir greinar og ritgerðir á íslensku um hugsandi skólastofu.

(meira…)

Hugsa þarf hefðbundið hlutverk skólans upp á nýtt: Rætt um sjálfbærnimenntun við Allyson Macdonald og Ólaf Pál Jónsson

9. júní, 2022

Súsanna Margrét Gestsdóttir ræðir við Allyson Macdonald og Ólaf Pál Jónsson

Í bókinni Tsjernóbylbæninni vitnar höfundur, Svetlana Aleksejevna, í aðalforstöðumann rannsóknarstofu Kjarnorkustofnunar Hvíta-Rúss sem lýsir ást sinni á eðlisfræði og þeirri ofurtrú sem hann eitt sinn hafði á framtíð mannkyns: „Lífið er stórmerkilegt fyrirbæri! Ég tilbað eðlisfræðina og hugsaði: Ég vil ekkert gera annað en að þjóna eðlisfræðinni en í dag langar mig til að skrifa. Til dæmis um það að maðurinn stendur í vegi fyrir vísindunum – heitt blóðið í æðum hans hindrar framgang þeirra. Litlar manneskjur með sín litlu vandamál“ (bls. 297). Leiðarstef bókarinnar er hvernig mannleg mistök (að ekki séu notuð sterkari orð) trompa vísindalega þekkingu sem liggur ljós fyrir en er ekki nýtt öllum til hagsbóta.

Allyson Macdonald og Ólafur Páll Jónsson eru á svipuðum slóðum í nýrri grein um sjálfbærnimenntun, „Pack for Sustainability: Navigating through Uncharted Educational Landscapes“, sem birtist nýlega (sjá hér). Fulltrúi Skólaþráða, Súsanna Margrét Gestsdóttir, hitti þau að máli til að ræða efni greinarinnar. (meira…)

„Spotta, lyfta, gera sýnilegt – það er áskorunin akkúrat núna.“ Um þróun háskólakennslufræði við Háskóla Íslands

5. mars, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Guðrún Geirsdóttir

Eins og félagi minn góður, heiðursmaðurinn og stórafmælisbarnið Ingvar Sigurgeirsson, hef ég um langt skeið brunnið fyrir kennslufræðum og kennaramenntun og borið gæfa til að fá að sinna þeirri ástríðu minni á starfsvettvangi mínum innan Háskóla Íslands. Fyrir hartnær tuttugu árum var Kennslumiðstöð Háskóla Íslanda stofnuð, miðstöð sem ég hef stýrt sem stjórnarformaður frá stofnun og sem deildarstjóri síðasta áratug. Á þessum tuttugu árum hefur starfsþróun háskólakennara á sviði kennslu verið kjarni míns starfs og því langar mig að nota tækifærið hér til að fjalla um þróun kennslufræða fyrir háskólakennara við Háskóla Íslands. Mig langar að deila vegferðinni frá fyrstu tilraunum til að koma á laggirnar formlegu námi í kennslufræði fyrir háskólakennara til dagsins í dag þar sem kennsluþróun hefur öðlast formlegan sess í störfum kennsluþróunarstjóra sem sjá hlutverk sitt að „spotta, lyfta og gera sýnilegt“ (Elva Björg Einarsdóttir, 2020). (meira…)

FOSS: Fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf

19. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Lilja M. Jónsdóttir

Grein þessi á rætur að rekja til ritgerðar sem ég skrifaði í meistaranámi mínu við The Ontario Institute for Studies in Education sem nú er hluti af háskólanum í Toronto. Námsbrautin sem ég var á kallast Holistic Education eða heildstætt skólastarf og eitt verkefnið var að gera grein fyrir áherslum í minni kennslu sem gætu fallið undir þessa hugmyndafræði. Þar sem lokaritgerð mín til B.Ed. prófs frá Kennaraháskóla Íslands 1978 fjallaði um sveigjanlegt skólastarf í opinni skólastofu hafði ég alla tíð leitast við að skipuleggja kennslu mína í þeim anda. Eftir heimkomu frá Toronto hélt ég áfram að þróa þessar aðferðir og sýn mína á kennslu; þ.e. hugmyndir um hvernig skipuleggja má fjölbreytt, sveigjanlegt og skapandi skólastarf í anda opinnar skólastofu og heildstæðrar menntunar og byggir greinin einnig á því þróunarstarfi. (meira…)

Fjórar myndir: Kennslukona leitar fótfestu

20. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Súsanna Margrét Gestsdóttir

September 1985

„Reyðarfjörður, Eskifjörður, Fráskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður!“ kallar rútubílstjórinn yfir flugvöllinn á Egilsstöðum með skrolli sem slær allt út sem áður hefur heyrst. „FRÁskrúðsfjörður? Heitir hann það?“ spyrja tveir táningar sem eru að troða farangri sínum inn í rútuna þetta blauta haustkvöld. Þau vita ekkert um það og reyndar ekkert um staðinn yfir höfuð, hafa aldrei komið þangað. Engu að síður hafa þau ráðið sig til kennslu við grunnskólann á staðnum þennan vetur og þó að skólinn hafi reyndar verið settur án þeirra nokkrum vikum fyrr þótti fagnaðarefni að fá þau til starfa því að þau eru nefnilega með glóðvolgt stúdentspróf. Þau gátu ekki mætt fyrr því að þau þurftu auðvitað að fara á Interrail með félögum sínum að sumarvinnu lokinni og í farangrinum er gott safn af vínilplötum, beint frá London – má þar nefna Cure, Stranglers og Talking Heads. Steinsnar er frá kjallaraíbúðinni í Skólabrekku yfir í grunnskólann og næsta dag má sjá þau skottast þangað. Stúlkan er rúmlega einn og hálfur metri á hæð, með leifar af unglingabólum í kinnum þó að hún sé orðin 19 ára og hefur vissulega áhyggjur af því að eiga að kenna 11 ára gömlum börnum að reikna. En hún er ekki fyrr komin inn í skólastofuna en hún fyllist vellíðan og gleði: Nemendur reynast gríðarlega skemmtilegir, námsefnið er allt viðráðanlegt og hún skrifar foreldrum sínum sendibréf í fyrstu viku þar sem segir í algerri einlægni: „Ég er fædd til að kenna.“ Þessi ummæli slá svo í gegn í Seljahverfinu að systir hennar nýtir sér aðstöðuna hjá Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins og býr til barmmerki með sömu orðum sem enn er til. (meira…)

Samfaglegt nám og framhaldsskólastarf á 21. öld

3. desember, 2020
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Viðfangsefni þessarar greinar er námskrárfræðilegar hugmyndir um samfaglegt nám. Horft er á viðfangsefnið af sjónarhóli námskrár fremur en sjónarhóli nemenda og á inntak áfanga fremur en kennsluaðferðir – að því leyti sem hægt er að aðgreina inntak og kennsluaðferðir í samfaglegu námi. Í fyrri hluta greinarinnar er sagt frá ákvæðum um samfaglegt nám í aðalnámskrá framhaldsskóla 1999 og 2011. Í síðari hluta greinarinnar er sett fram róf (e. spectrum.) Á rófinu eru þemanám sem er óháð námsgreinum, samþætting tveggja eða fleiri námsgreina, námskrárpúslur, óbein samþætting og námsfléttun með auðgun efnis tiltekinnar námsgreinar. Þótt efnið sé hér sett í tengsl við framhaldsskólastarf getur rófið einnig átt við um grunnskólastarf og háskólakennslu. (meira…)

„Skólinn er ekki undirbúningur fyrir lífið. Skólinn er lífið“

19. nóvember, 2020

Pétur Þorsteinsson og opni skólinn á Kópaskeri

Ingvar Sigurgeirsson


Í febrúar árið 1988 dvaldi ég í hálfan mánuð á Kópaskeri og fylgdist með kennslu í grunnskólanum. Ég var að afla gagna fyrir doktorsverkefni mitt sem beindist að því að rannsaka hvernig kennarar notuðu námsefni, ekki síst hvernig það tengdist ólíkum kennsluaðferðum á miðstigi grunnskólans. Skólaárin 1986‒1987 og 1987‒1988 fylgdist ég með kennslu í hálfan mánuð í tuttugu bekkjardeildum á miðstigi í tólf skólum og hafði valið skólana annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á Norðurlandi. Skólarnir voru ólíkir að stærð; fjölmennir og fámennir og í ólíku umhverfi; í borginni og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, í kauptúnum og kaupstöðum og svo voru sveitaskólar, bæði heimanaksturs- og heimavistarskólar. Ég reyndi líka markvisst að velja skóla þar sem kennsluhættir voru ólíkir – ég valdi meðal annars að fara í nokkra opna skóla sem svo voru kallaðir á þessum tíma. Grunnskólinn á Kópaskeri var opinn skóli en skólastjóri var á þessum tíma Pétur Þorsteinsson, sem er líklega kunnastur fyrir brautryðjendastarf sitt í tengslum við innleiðingu upplýsingatækni í íslenska grunnskóla.

Áhugi minn á opna skólanum leiddi til þess að ég fór markvisst að leita uppi skóla hér á landi þar sem unnið var á þessum grunni og heimsótti þá marga – og þeir voru á þessum tíma allmargir  ‒ en aldrei komst ég í Grunnskólann  á Kópaskeri fyrr en árið 1988. Heimsóknin í skólann er mér sérstaklega minnisstæð fyrir margra hluta sakir, einkum vegna þess að þessi litli skóli var um svo margt langt á undan sinni samtíð. Um alllangt skeið hefur það verið ásetningur minn að skrifa um þessa heimsókn mína, enda á það sem þar bar fyrir augu fullt erindi við okkur rúmum þrjátíu árum síðar. (meira…)

Nemandinn sem merkingarsmiður

15. september, 2019

Hafþór Guðjónsson          

Í síðasta pistli mínum í Skólaþráðum,  Af tossum og táknfræði, sagði ég frá glímu Bubba Mortens við íslenska skólakerfið. Hann var skrifblindur og átti þess vegna erfitt uppdráttar í skólakerfi sem lagði áherslu á skrifleg próf. Svo fór hann í skóla í Danmörku og þar þurfti hann ekki að taka nein skrifleg próf og þá fór allt að ganga betur. Þótti flottur ungur maður.

Í pistlinum skoðaði ég þessa skólasögu Bubba í táknfræðilegu ljósi, nánar tiltekið í ljósi félagslegrar táknfræði og komst þá að þeirri niðurstöðu að hann hefði, líkt og margir aðrir nemendur, verið fórnarlamb gamalgróinnar hugmyndafræði sem einblínir á tungumálið og telur skrifleg próf bestu leiðina til að meta þekkingu og færni nemenda. Félagsleg táknfræði lítur hins vegar svo á að skrifleg próf takmarki möguleika nemenda til að koma þekkingu sinn á framfæri og sýna færni sína.

Félagsleg táknfræði (social semiotics) er í mínum huga öflugt „ljós“, ekki bara til að skoða skrifleg próf heldur skólastarf almennt. Þegar við skoðum skólastarf í þessu ljósi birtist það okkur með nýjum hætti og við skynjum ný sóknarfæri, nýjar og öflugari leiðir til að þjóna nemendum okkar. Um þetta fjallar þessi pistill. (meira…)

Kennslufræði vettvangsferða

14. mars, 2019

Odd Ragnar Hunnes

Þann 25. maí 2018 var haldin ráðstefna á Menntavísindasviði Háskóla Íslands til heiðurs Eggerti Lárussyni sjötugum en hann var um þær mundir að láta af störfum sem lektor í landfræði. Ráðstefnan fjallaði um leiðir til að efla landfræðikennslu í skólum. Odd Ragnar Hunnes, dósent við Høgskulen í Volda í Noregi, hélt athyglisvert erindi um kennslufræði vettvangsferða sem hann tengdi sjö ferðum til Íslands þar sem hann hefur farið um Suðvesturland með nemendum sínum – og notið leiðsagnar Eggerts. Ritstjórn Skólaþráða óskaði eftir leyfi til að birta erindið og var það góðfúslega veitt og birtist hér í þýðingu Eggerts. (meira…)

Færslusafn

Fara íTopp