Greinar - Page 5

Suðurnesja-Sprettur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

22. janúar, 2023

Þjóðbjörg Gunnarsdóttir

Þegar hugmyndin að verkefninu Suðurnesja-Spretti vaknaði voru um 850 nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tæplega hundrað þeirra voru nemendur með annað móðurmál en íslensku. Haustið 2019 réði skólinn Þjóðbjörgu Gunnarsdóttur sem verkefnastjóra nemenda með annað móðurmál en íslensku. Helstu verkefni verkefnastjórans eru að kynna skólakerfið, skólareglur, námsbrautir, og stuðningskerfi skólans fyrir nemendum. Hann fylgist með námsframvindu nemenda, aðstoðar þá við námsval og er kennurum innan handar varðandi ýmis mál tengdum þessum nemendum. Verkefnastjóri er með um sjötíu nemendur í umsjón og er tengiliður þeirra við námsráðgjafa og kennara. Þörfin fyrir aðstoð og stuðning við nemendur af erlendum uppruna var fyrir hendi en varð enn greinilegri eftir ráðningu verkefnastjórans.

Þegar Háskóli Íslands fór af stað með tilraunaverkefnið Sprett, var óskað eftir aðstoð við að finna mögulega þátttakendur í verkefnið innan skólans. Fyrirstaða var í nemendahópnum með þátttöku í verkefninu þar sem nemendur þurftu að sækja það til Reykjavíkur. Þá kom upp sú hugmynd að fara af stað með sambærilegt verkefni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í samstarfi við Háskóla Íslands. Þátttakendur væru nemendur FS með annað móðurmál en íslensku. Þar með væri stuðningurinn að koma frá nærsamfélaginu og væri innan nærþjónustu nemenda. Með samstarfi við Sprett innan Háskóla Íslands væri aukið við faglegan stuðning við nemendahópinn og aðstoðin gerð markvissari. Háskóli Íslands tók vel í þessa hugmynd og því var ákveðið að sækja um styrk hjá Þróunarsjóði innflytjendamála. Verkefnið fékk nafnið Suðurnesja-Sprettur. (meira…)

Að 17 kennaranemar séu þegar komnir með raddveilueinkenni er óviðunandi

25. nóvember, 2022

Kristín M. Jóhannsdóttir og Valdís Ingibjörg Jónsdóttir

Af öllum þeim starfstéttum sem „leigja“ rödd sína út sem atvinnutæki hafa raddir kennara verið álitnar í hvað mestri hættu (Verdolini og Ramig, 2001) enda hafa rannsóknir víða um heim sýnt að töluverður fjöldi starfandi kennara þjáist af raddveilum og þar með raddvandamálum (Vilkman 1996; Roy o.fl. 2004; Nybacka o.fl. 2012; Cantor Cutiva, Vogel og Burdorf, 2013). Sérstaklega hafa raddvandamál verið algeng meðal leikskólakennara (Sala o.fl., 2002; Kankare o.fl., 2012;).

Í íslenskri rannsókn á hávaða í leikskólum kom fram að um 20-25% kennaranna taldi sig vera með viðvarandi hæsi, kökktilfinningu í hálsi, raddbresti, rödd sem hvorki dugði í hávaða né í kennslu og um tíundi hluti hafði misst röddina, að minnsta kosti tímabundið (Jónsdóttir o.fl., 2015). Það er í samræmi við þær rannsóknir sem vísað hefur verið í hér að framan. Raddveilur eru ekki bara bagalegar fyrir kennarann sjálfan heldur hafa þær áhrif á hlustunargetu nemenda og þær geta kostað samfélagið mikið. Í bandarískri rannsókn frá 2001 kom t.d. í ljós að þjóðfélagslegur kostnaður Bandaríkjanna vegna raddvandamála kennara nam 2,5 milljarða dollara á ári (Verdolini og Ramig, 2001). Það er því mikilvægt að kennarar hafi góða raddheilsu. (meira…)

Hörðu málin í framhaldsskólunum

25. nóvember, 2022

Grein (ávarp) birt til heiðurs dr. Jóni Torfa Jónassyni prófessor emeritus 75 ára

Súsanna Margrét Gestsdóttir

Þegar ég var beðin að tala hér í nokkrar mínútur um framhaldsskólann fann ég strax að mig langaði til að tala um hörðu málin í framhaldsskólanum. En hvað á ég við með því?

Við höfum alls konar  stefnumótunarskjöl sem hægt er að skoða og ræða í þaula – ég ætla ekki að gera það hér. Og svo hafa þessir rúmlega 30 framhaldsskólar sem  starfa hér á landi ýmiss konar námskrár og nálganir – ég ræði það ekki heldur.

Það sem mig langar að nota þetta tækifæri til að ræða og kalla hörðu málin í framhaldsskólanum eru þau sem skipta jafnvel meira máli en hvaða greinar eru kenndar og hversu miklum tíma er varið í hverja þeirra.

Ég tel að þetta rúmist undir grundvallarspurningunni: Hvernig fólk viljum við útskrifa úr íslenskum framhaldsskólum?

Lítum upp úr opinberum skjölum og ræðum þetta mál. Við viljum trúlega flest að nemendur sem ljúka framhaldsskólanámi

  • hafi öðlast gagnrýna hugsun og beiti henni, láti t.d. ekki auðveldlega blekkjast á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu.
  • séu meðvituð um mikilvægi samkenndar, sjái samhengi orða og gjörða í samskiptum fólks af öllu tagi, og átti sig á að lífsins gæði verða ekki minni þegar fleiri fá notið þeirra.
  • geri sér grein fyrir samhengi fyrirbæra og atburða, að allt á sér orsök og allt hefur afleiðingar. Hvernig það ætti t.d. ekki að koma neinum á óvart að opinber stuðningur við hernað í fjarlægum heimshluta leiði til þess að milljónir – já milljónir – missa heimili sín og þurfa að leita um langan veg að öryggi til okkar sem látum þá eins og við getum náðarsamlegast hlaupið undir bagga með fáeinum þeirra. Eins og þeirra vandi sé ekki okkar mál!

Þetta þrennt sem ég hef nefnt gerir allt kröfu um yfir-hugsun, að hugsa um það að hugsa.

Og þá komum við að kennurunum. Er ekki sjálfsagt að gera þá kröfu til framhaldsskólakennara að þau séu meira en faggreinakennarar, að þau hugi líka að stóru línunum í menntun nemenda sinna? (meira…)

Leikskólinn ‒ þar sem framtíðin fæðist

22. nóvember, 2022

Grein birt til heiðurs dr. Jóni Torfa Jónassyni prófessor emeritus 75 ára

Kristín Dýrfjörð

Steinn Steinar orti í 1942, „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“, en í draumum  sérhverjar manneskju er líka framtíð hennar falin.

Og ég á mér draum – um betra líf, um góða leikskóla og framtíð.

Ég á mér draum, um að leikur barna einkennist af leikgleði og hugmyndaríki í skapandi og styðjandi umhverfi.

Ég á mér draum um að í leikskólum starfi fagfólk sem treystir leik barna sem námsleið.

Ég á mér draum að leikskólinn sé vagga lýðræðis, sé vagga gagnrýninnar hugsunar.

Ég á mér draum um framtíð. 

Nýlega hlustaði ég fyrirlestur um menntun á meðal frumbyggja í Rómönsku Ameríku. Meðal þess sem þar kom fram var umræða um tímann, hvernig við skynjum tímann og upplifum hann. Í samfélaginu sem þarna var til umfjöllunar var talað um að framtíðin væri fyrir aftan okkur, en fortíðin fyrir framan okkur. Þetta hljómar svolítið eins og öfugmæli en því meira sem ég hugsaði um þetta viðhorf til tímans, fannst mér það merkilegra og líka rétt. Því sannarlega mótast framtíð okkar í fortíðinni og fortíðinni mætum við á hverjum degi.

Í því sem við höfum gert eða ekki gert. Þeim tækifærum sem við fengum og nýttum eða vannýttum. Því má segja að framtíð leikskólans búi í fortíðinni. Þær ákvarðanir og þau viðhorf sem við mótum í dag verða hluti af því sem verður. (meira…)

Bókagleypir, slysaskot og fiðrildi: Ljóðaval lesara á lokahátíðum Stóru upplestrarkeppninnar 2022

21. nóvember, 2022

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

Stóra upplestrarkeppnin hóf göngu sína sem þróunarverkefni árið 1996 og festi sig fljótt í sessi í sjöundu bekkjum í grunnskólum um allt land. Ræktunarstarfið í skólunum hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Hitann og þungann af því bera kennarar í sjöunda bekk. Haldnar eru bekkjarkeppnir, skólahátíðir og svo lokahátíðir að vori í héraði þar sem sigurvegarar úr hverjum skóla koma fram.

Það er félagsskapurinn Raddir – Samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem kom keppninni á laggirnar og hefur séð um skipulag hennar undanfarinn aldarfjórðung. Á síðasta ári, 2021, var komið að þeim tímamótum að afhenda sveitarfélögum landsins keppnina en  Raddir veittu ráðgjöf fyrsta árið. Af þessu tilefni var efnt til málþings þann 26. september 2022 með yfirskriftinni Stóra upplestrarkeppnin – Á tímamótum. Þar voru flutt ávörp og erindi sem varða þessi umskipti. Upptöku af málþinginu má finna á heimasíðu Radda (http://upplestur.hafnarfjordur.is/). (meira…)

Læsiskennsla í Byrjendalæsisskólum og öðrum skólum

17. nóvember, 2022

Rannveig Oddsdóttir, Rúnar Sigþórsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Kjartan Ólafsson

Á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að málþroska og læsi barna sem áfram byggist upp á fyrstu árum grunnskólagöngu. Á þessum árum ná flest börn tökum á umskráningu ritmáls sem gerir þeim fært að lesa og rita texta. Jafnframt verða miklar framfarir í hæfni þeirra til að skilja talað og ritað mál og miðla hugsun sinni og hugmyndum í töluðu og rituðu máli. Í aðalnámskrá grunnskóla er læsi einn af sex grunnþáttum menntunar sem eiga að fléttast inn í allt skólastarfið. Læsi er einnig ríkur þáttur í lykilhæfni nemenda sem snýst um tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýna hugsun og nýtingu miðla og upplýsinga. Læsi tengist líka námsgreininni íslensku og undir henni eru sett fram markmið fyrir helstu undirþætti læsis það er: a) talað mál, hlustun og áhorf, b) lestur og bókmenntir og c) ritun. (meira…)

Óreiðukennd fyrsta aðgerðaáætlun í menntamálum

4. nóvember, 2022

Hermína Gunnþórsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Út kom í september á síðasta ári skjal sem nefnist Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021). Áætlunin er samin til að fylgja eftir Þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 nr 16. Þetta er líklega þýðingarmesta stefnumótunarskjal um menntamál síðan aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla kom út á árunum 2011 og 2013 (greinasvið grunnskóla síðara árið). Það er því ástæða til að gefa skjalinu rækilegan gaum. Hér á eftir rekjum við annars vegar aðdraganda að þessari aðgerðaáætlun en hins vegar rýnum við gaumgæfilega í inntak og form þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar í nýrri menntastefnu.

Í hnotskurn er þessi áætlun safn aðgerða og verkþátta sem er lítið sem ekkert forgangsraðað eða sett í samhengi við önnur gildandi stefnuskjöl. Þegar áform um tvenn ný lög voru birt 17. október 2022 í samráðsgátt stjórnvalda birtist hins vegar sú forgangsröðun að ein til tvær fyrstu aðgerðirnar væru mikilvægastar, annars vegar Áform um lagasetningu – skólaþjónusta og hins vegar Áform um lagasetningu – ný stofnun (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022a, 2022b). (meira…)

Hvernig tengist nýsköpunarkennsla baráttunni gegn loftslagsbreytingum?

20. október, 2022

Katrín Hulda Gunnarsdóttir, Justine Vanhalst, Viktoría Gilsdóttir, Sigurlaug K. Konráðsdóttir, Gestur Sigurjónsson og Hildur Ágústsdóttir

Fréttir um loftslagsbreytingar dynja á okkur á hverjum degi og því ljóst að það er kominn tími á aðgerðir. En hvernig er best að kenna börnum og ungmennum um svo erfið mál þannig að þau séu hvött til aðgerða? Það verða þau og þeirra afkomendur sem munu koma til með að verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og því mikilvægt að þau fái fræðslu og aukna þekkingu á því sem gæti verið í vændum. Þörfin fyrir vandaða fræðslu um málefnið, sem jafnframt ýtir ekki undir loftslagskvíða, verður sífellt óumflýjanlegri. Svarið gæti legið í nýsköpun. Þessir nemendur munu taka við stjórninni einn daginn og því mikilvægt að nemendur fái vandaða fræðslu um nýsköpun og frumkvöðlafræði frá unga aldri. Markmið Grænna Frumkvöðla Framtíðar (GFF) var að takast á við þessa áskorun með því að gefa nemendum á landsbyggðinni tækifæri til nýsköpunarmenntar og vekja áhuga þeirra á loftslags- og umhverfismálum. Matís stendur að verkefninu og fór það fram í þremur grunnskólum á landsbygðinni. Fjöldi þáttenda kom að verkefninu, m.a. FabLab smiðjur og sjávarútvegsfyrirtæki í heimabyggð, N4 sjónvarpsstöð og fleiri. Verkefnið var fjármagnað af Loftslagssjóði og var upphaflega skipulagt til eins árs. (meira…)

Flipp flopp dagar – það er „flippað“að læra í Kvíslarskóla

6. október, 2022

Sævaldur Bjarnason og Björk Einisdóttir

Kvíslarskóli er nýr skóli í Mosfellsbæ sem áður var eldri deild Varmárskóla. Í skólanum eru tæplega 400 nemendur í 7.‒10. bekk. Byggt er á  faggreinakennslu sem þýðir að fagkennarar eru ábyrgir fyrir kennslu í hverri námsgrein. Hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara.

Haustið 2021 var Varmárskóla skipt upp í tvo skóla. Yngri deildin hélt nafni Varmárskóla, en eldri deildin fékk nafnið Kvíslarskóli eftir nafnasamkeppni í bænum. Stjórnendur Kvíslarskóla sáu tækifæri í þessum breytingum og ákváðu að láta á það reyna hvort grundvöllur væri fyrir því að prófa nýja kennsluhætti og sjá hversu langt við kæmumst með að þróa þá, t.d. að byggja meira á verkefnavinnu og fjölbreyttum kennsluháttum. Í kjölfarið var farið af stað í margskonar endurbóta- og stefnumótunarvinnu. (meira…)

Raddir af vettvangi

31. ágúst, 2022

Anna María Gunnarsdóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Jón Torfi Jónasson

Í þessari grein segir af tilraunaverkefni sem Kennarasamband Íslands réðist í með fulltingi Jóns Torfa Jónassonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur vorið 2021. Að hálfu KÍ vann Anna María Gunnarsdóttir að verkefninu í samráði við Framkvæmdarstjórn skólamálaráðs KÍ og skólamálanefndir og fagráð aðildarfélaga.

Hlutverk Kennarasambands Íslands er margþætt. Það gætir ekki einungis hagsmuna og réttinda félaga sinna heldur hefur aukinheldur þau hlutverk að auka samstarf kennara, efla fagvitund, efla skólastarf og stuðla að framförum í skólamálum (Kennarasamband Íslands, 2022). Til að sinna þessum hlutverkum eru sjálfsagt margar leiðir en mjög mikilvægt er fyrir forystufólk í Kennarasambandinu að vera í sterkum tengslum við sitt félagsfólk og byggja umræður og stefnumótun á því sem sprettur úr dagsins önn í skólastarfinu sjálfu.

Megintilgangur verkefnisins var að þróa aðferð fyrir samtök kennara til að tengjast vettvangi og rækta umræðu um fagleg málefni við kennara og skólastjórnendur og virkja þannig raddir skólafólks af vettvangi innan raða KÍ , meðal annars til að það heyri hvert í öðru og að sjónarmið fagfólks sem í skólunum vinnur berist víðar. Slíkt samtal getur hvort tveggja nýst Kennarasambandinu við stefnumótun og vinnu að faglegum málefnum og tengt starfandi kennara við samtök sín, vettvang og faglega umræðu. (meira…)

1 3 4 5 6 7 22

Færslusafn

Fara íTopp